Topp 5: Bestu plötur Arcade Fire

Arcade Fire kemur fram á tónleikum í nýju Laugardalshöllinni 21. ágúst næstkomandi og því er við hæfi að byrja aðeins að hita upp fyrir komu þeirra. Frá árinu 2004 hefur Arcade Fire gefið út fimm misgóðar plötur og ætla ég að fara stuttlega yfir þær og ræða þeim upp frá þeirri sístu til þeirrar bestu.

# 5 Everything Now (2017)


Síðasta plata Arcade Fire og tilurð þessa túrs sem sveitin er á núna er þeirra langsísta verk til þessa. Þrátt fyrir það byrjar hún ágætlega og Win Butler og félagar sýna fram á að þau eru enn fullfær um að semja góð lög en á þessari plötu hefðu þau þurft að vera miklu fleiri.

Bestu lög: Everything Now, Put Your Money on Me, Signs of Life.

# 4 Reflektor (2013)

Á fjórðu plötu Arcade Fire kvað við nýjan tón og meðlimir færðu sig úr indí rokkinu sem hafði skilað þeim heimsfrægð yfir í dansvænara rokk undir styrkri leiðsögn James Murphy (LCD Soundsystem). Þessi tilraun heppnaðist ágætlega og má líklega færa rök fyrir því að þetta hafi verið nauðsynlegt skref fyrir sveitina þrátt fyrir að gæði hennar nái ekki sömu hæðum og fyrri plötur.

Bestu lög: Afterlife, Here Comes the Night Time, Reflektor, Supersymmetry, We Exist.

# 3 Funeral (2004)

Frumburður Arcade Fire var ógnarsterkur og velgengnin sem fylgdi í kjölfarið átti algjörlega rétt á sér. Hér var á ferðinni ferskur og nýr hljómur sem fólk átti auðvelt með að laðast að. Hljóðheimurinn var stór og það sá það hver maður að hér var allt lagt í sölurnar og metnaðurinn nánast áþreifanlegur.

Bestu lög: Haiti, Neighborhood #1 (Tunnels), Rebellion (Lies), Wake Up.

# 2 Neon Bible (2007)

Arcade-fire

Neon Bible fékk það erfiða hlutskipti að fylgja á eftir frumburðinum en þrátt fyrir það tókst sveitinni að bæta um betur. Nokkuð svipuð forvera sínum en þemað einhvern veginn orðið dekkra, hljóðheimurinn enn stærri og nánast öll lögin frábær. Sennilega mest spilaðasta platan í safninu mínu.

Bestu lög: Intervention, My Body Is a Cage, No Cars Go, The Well and the Lighthouse.

# 1 The Suburbs (2010)

arcadefiresuburbs1000px

Það er eiginlega hálf galið að Arcade Fire hafi tekist að toppa fyrstu tvær plötur sínar og það með 16 laga plötu. Á The Suburbs skiptir hljómsveitin aðeins um gír, fyrri plöturnar voru ögn þyngri en hér órar fyrir meiri jákvæðni. Lagasmíðar Win Butler og félaga eru enn þroskaðri og sveitin endanlega búin að festa sig í sessi sem ein besta hljómsveit samtímans.

Bestu lög:  City with No Children, Ready to Start, Rococo, Sprawl II (Mountains Beyond Mountains), The Suburbs, We Used to Wait.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Topp 5: Kvikmyndir um fótbolta

Nú þegar Ísland hefur lokið keppni á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu er ekki úr vegi að renna yfir bestu kvikmyndirnar sem fjalla um fótbolta til að fylla enn betur upp í tómarúmið sem Ísland skilur eftir sig. Það skal hafa í huga að hér er aðeins átt við leiknar myndir en ekki heimildamyndir þó að þrjár af þessum fimm séu byggðar á sannsögulegum atburðum. Þar sem ekki er leikið á mótinu á morgun er kjörið tækifæri að renna í gegnum einhverjar af þessum fimm eðalmyndum.

# 5 Goal! 

Goal! er kannski ekki besta mynd sem þú munt sjá á ævinni en þeir sem hafa dálæti af knattspyrnu ættu að hafa gaman að fyrstu myndinni um Santiago Munez. Myndin fjallar um skáldaða knattspyrnumanninn Santiago Munez sem kemst á samning hjá Newcastle United. Það sem gerir myndina áhugaverða er að alvöru leikmenn Newcastle leika gestahlutverk í henni og notaðar eru svipmyndir úr alvöru leikjum sem gerir hana eins raunhæfa og hún getur orðið. Það er ekki laust við kjánahroll hér og þar en Goal! er afbragðs afþreying fyrir þá sem hafa yfir höfuð gaman af íþróttinni. Mynd nr. 2 er einnig ágætis skemmtun en í guðanna bænum haldið ykkur frá þeirri þriðju!

# 4 Mean Machine 

Kvikmynd sem skartar hinum grjótharða Vinnie Jones sem var einmitt atvinnumaður í fótbolta áður en hann færði sig yfir í kvikmyndaleik. Í myndinni leikur hann knattspyrnumann sem dæmdur er í fangelsi. Þrátt fyrir að sitja á bakvið lás og slá nær hann að  fá útrás í knattsparki með því að koma á leik milli fanga og fangavarða, eitthvað sem er t.d. þekkt hér á landi á Litla-Hrauni. Það er urmull af eftirminnilegum karakterum í myndinni og til að mynda sjáum við Jason Statham í miklum ham sem markmanninn Monk. Mynd sem óhætt er að mæla með.

# 3 Pelé: Birth of a Legend

Það var löngu orðið tímabært að gera kvikmynd um einn besta knattspyrnumann sögunnar, Pelé. Ég viðurkenni að væntingar mínar voru stilltar í hóf áður en ég fór á myndina en hún var býsna fljót að ná mér á sitt band og í lokin var ég farinn að fagna líkt og ég væri að horfa á alvöru fótboltaleik. Myndin spannar uppvaxtarár Pelé fram að fyrsta Heimsmeistaramóti hans þar sem hann skóp sér nafn sem einn besti knattspyrnumaður heims aðeins 17 ára gamall! Þrælskemmtileg mynd sem ætti að eldast vel.

# 2 Fever Pitch (1997)

Ég er kannski ekki hlutlaus þegar kemur að þessari mynd enda fjallar hún um mitt ástsæla félag, Arsenal. Hér er ungur Colin Firth á ferðinni ásamt Mark Strong en þeir eru eldheitir stuðningsmenn Arsenal sem á möguleika á að vinna ensku úrvalsdeildina í síðasta leik gegn Liverpool á útivelli árið 1989. Myndin er eftir samnefndri bók Nick Hornby og nær að fanga andann í kringum ensku knattspyrnuna á eftirminnilegan hátt.

# 1 The Damned United

Breska kvikmyndin The Damned United fjallar um hinn magnaða knattspyrnustjóra Brian Clough sem er einn sigursælasti stjóri í sögu enskrar knattspyrnu. Það sem gerir myndina áhugaverða er að hún fjallar ekki um sætu sigrana með Nottingham Forest heldur ósigrana með Leeds United. Clough var áhugaverður karakter og er túlkun Michael Sheen á stjóranum óaðfinnanleg. Bráðskemmtileg og áhugaverð mynd sem rígheldur manni allan tímann.

Aðrar góðar myndir um fótbolta:

Escape to Victory
Goal ll: Living the Dream
Green Street Hooligans
Íslenski draumurinn
Purely Belter

Torfi Guðbrandsson

Tónleikadómur: Írafár 20 ára

Síðastliðið laugardagskvöld hélt Írafár tvenna tónleika í Eldborgarsal í Hörpu til að fagna 20 ára starfsafmæli sínu. Undirritaður var staddur á þeim seinni. Síðustu jól ákvað ég að lauma tveimur miðum á tónleikana í jólapakkann hjá kærustunni en hún var eldheitur aðdáandi Írafárs á sínum yngri árum. Blessunarlega ákvað hún svo að bjóða mér hinn miðann.

Þegar í Hörpu var komið tóku á móti okkur gestir fyrri tónleikanna og þar á meðal voru kunnugleg andlit vinafólks. Það var ákveðinn spillir (e. spoiler) í því enda fékk maður að heyra hvernig tónleikarnir hefðu verið, hvaða lag hefði verið tekið eftir uppklapp, að tónleikarnir hafi verið betri eftir hlé og þar fram eftir götunum. Við ákváðum þó að reyna að leiða þessa dóma hjá okkur og fara inn í sal með opinn hug.

Stærðarinnar tjald hékk úr loftinu fyrir framan sviðið þegar inn var komið og var gömlum myndum af meðlimum sveitarinnar varpað á tjaldið á meðan gestir biðu. Tónleikarnir hófust svo á smá sögustund um hljómsveitina og myndirnar breyttust í myndefni frá ferli sveitarinnar. Salurinn orðinn vel heitur og á bakvið tjaldið gengu meðlimir á svið og töldu í opnunarlag tónleikanna „Ég missi alla stjórn“ sem er einmitt upphafslag þriðju breiðskífu sveitarinnar. Það þurfti svo ekki að bíða lengi eftir hittara en hið ódauðlega lag „Fingur“ kom strax í kjölfarið.

Hljómsveitin var greinilega vel æfð og það var enginn sveitaballsbragur á Írafári þetta kvöldið, hvorki í spilamennsku né umgjörð á sviði. Heiða Ólafs og Margrét Eir sáu um bakraddir, fjórir strengjaleikarar kíktu við og við á sviðið ásamt tveimur brassleikurum. Búningablæti Páls Óskars á stórtónleikum sínum í fyrra hafði svo líklega áhrif á Birgittu sem skartaði að mig minnir fjórum ólíkum en glæsilegum dressum.

Vendipunktur tónleikanna var án efa innkoma leynigests kvöldsins. Vignir og Birgitta töluðu sín á milli að þau hefðu sennilega átt einhvern þátt í því að koma ónefndum leynigesti á kortið er þau fengu hann til að leika í myndbandinu við lagið „Lífið“. Die-hard aðdáendur Írafárs vissu auðvitað um hvern var að ræða en við hin þurftum smá upprifjun. Þau töldu svo í lagið og myndbandið birtist á sviðinu og skartaði engum öðrum en Jóni Jónssyni, 17 ára nýkomnum frá tannréttingalækni sínum með strípur í hárinu. Það var ekki mikið liðið á lagið þegar að hljómsveitin stoppaði skyndilega og Birgitta sagði að það væri eiginlega ekki hægt að gera þetta nema með manninum sem „mæmaði“ lagið í myndbandinu. Sá ágæti maður var staddur í salnum og var kallaður upp á svið við mikil fagnaðarlæti tónleikagesta. Í þetta skiptið fékk hann að syngja lagið ásamt Birgittu og gerði það vel. Jón Jónsson smitaði salinn af orkunni og sinnti svo hlutverki pepparans það sem eftir lifði tónleikanna og var uppspretta stuðningslaga í garð sveitarinnar trekk í trekk.

Fljótlega var gert hlé á tónleikunum og mál manna að hingað til væri þetta feykilega vel heppnað hjá Birgittu og félögum og hljómsveitin í fantaformi.

Í seinni hálfleik var áfram haldið þétt á spöðunum og hver smellurinn á fætum öðrum fékk að hljóma. Stíflan brast svo að lokum og gestir risu úr sætum og sungu hástöfum með þegar Írafár henti í líklega sitt besta lag, „Eldur í mér“. Gestir voru svo ekki á þeim buxunum að setjast aftur í bráð þar sem að Írafár hentu í hvern smellinn á fætur öðrum, má þar nefna „Stórir hringir“, „Ég sjálf“ og „Allt sem ég sé“. Hljómsveitin var svo að sjálfsögðu klöppuð upp og lauk stórgóðum tónleikum sínum á „Fáum aldrei nóg“.

Frábæru dagsverki lokið og meðlimir geta svo sannarlega gengið sáttir frá borði. Vignir kom mér óvart og fær sennilega ekki það lof sem hann á skilið sem frábær gítarleikari og lagahöfundur. Hann stal ófáum sinnum sviðsljósinu af Birgittu þegar hann tók gítarsóló þar sem þau áttu heima og skilaði þeim af sér með miklum glæsibrag. Sömuleiðis er dýrmætt fyrir sveitina að hafa í sínum röðum eins öflugan trommara og Arnar Þór Gíslason er sem keyrði upp stemninguna hvað eftir annað ásamt Vigni. Sigurður Rúnar Samúelsson bassaleikari og Andri Guðmundsson hljómborðsleikari stóðu svo sína plikt en voru töluvert rólegri í tíðinni þegar kom að sviðsframkomu. Strengir og brass stækkuðu svo hljóðheiminn enn meira og bættu miklu við í þeim lögum sem þeir liðsinntu í.

Birgitta Haukdal er svo sér kapituli útaf fyrir sig og líklega stærsta ástæðan fyrir því að þarna var kominn herskari af stúlkum að bera gömlu hetjuna sína augum. Ekkert skal tekið af herramönnunum sem standa á bakvið hana en hún færir hljómsveitinni i-ið undir punktinn. Ég get ímyndað mér að fólk hafi saknað Írafárs-Birgittu enda er hún glerharður töffari sem er einlæg í list sinni. Á sínum tíma var hún í guðatölu hjá ungum stúlkum og þakti marga veggina í herbergjum þeirra og geisladiskarnir seldust í bílförmum. Birgitta var (og er) frábær fyrirmynd sem sýndi að stelpur gátu líka spilað með strákunum og staðið jafnfætis þeim og gott betur. Hún var óumdeilanlega stjarna kvöldsins og ég hef sjaldan orðið vitni að annarri eins aðdáun líkt og hún fékk hjá kynsystrum sínum í Eldborg þetta kvöldið. Allar jólagjafir héðan í frá munu blikna í samanburði við þessa.

Lagalisti kvöldsins:

Ég missi alla stjórn
Fingur
Hvar er ég?
Alla tíð
Þú vilt mig aftur
Draumur
Lífið
Aldrei mun ég
Annan dag
Að eilífu

Hlé

Stel frá þér
Leyndarmál
Eldur í mér
Stjörnuryk
Ég sjálf
Stórir hringir
Allt sem ég sé 

Uppklapp

Fáum aldrei nóg

Torfi Guðbrandsson

Söngvakeppnin 2018: Spáð í spilin

Það er komið að þessu enn eitt árið, í kvöld fær þjóðin loksins svar við því hvert framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verður. Að þessu sinni stendur valið á milli sex laga en enginn svarti pétur (e. wildcard) verður í ár. Ég ætla að renna stuttlega yfir þessi sex lög og meta möguleika þeirra á laugardaginn.

Athugið: Tölfræðin virkar þannig að ég tek saman fjölda spilana á lögunum í hljóðversútgáfu á YouTube, bæði í íslensku og ensku útgáfunni (ef við á) og legg saman og sama gildir með Spotify spilanir.

# 1 FÓKUS – „BATTLELINE“
Like á facebook: 1.882 (#4)

Spilanir á YouTube: 56.846 (#4)

Spilanir á Spotify: 53.318 (#3)

Markhópur: Aðdáendur Voice, vinir og fjölskylda meðlima.

Þeir sem horfðu ekki á Voice hafa sennilega ekki hugmynd um hvaða fólk þetta er. Karitas (f. miðju) vann aðra þáttaröðina af Voice og hinir komust nokkuð langt. Einskonar „best of Voice“ bræðingur. Lagið er þó afskaplega óspennandi og lítið varið í atriðið. Ætti þó að ná í nokkur atkvæði í krafti fjöldans.

# 2 ÁTTAN – „HERE FOR YOU“

Like á facebook: 28.401 (#1)

Spilanir á YouTube: 159.429 (#1)

Spilanir á Spotify: 71.127 (#1)

Markhópur: 1.-7. bekkur í grunnskóla

Áttan er eiginlega ekki sambærileg öðrum atriðum hvað vinsældir varðar. Kossaflensmyndbandið þeirra er komið yfir 100.000 spilanir á YouTube og vinsældir þeirra á samfélagsmiðlum eru gífurlegar. Sú staðreynd að þau réðu engan veginn við lagið í undankeppninni og að lagið er ekki eins vinsælt á ensku ætti þó að gefa hinum smá von.

# 3 ARI ÓLAFSSON – „OUR CHOICE“
Like á facebook: 1.462 (#5)

Spilanir á YouTube: 39.307 (#6)

Spilanir á Spotify: 28.455 (#6)

Markhópur: Sökkerar fyrir fallegum boðskap

Hér er á ferðinni efnilegur söngvari en því miður fyrir hann er lagið það slakasta í úrslitunum. Hann verður ómissandi á skjánum enda líklega lífsglaðasti gæinn á svæðinu, hann og Sonja í Áttunni gætu t.d. myndað áhugaverðan dúett í eftirpartýinu. En það er ekki nóg að brosa, lagið er einfaldlega ekki nógu gott þó að flutningurinn sé gallalaus.

# 4 HEIMILISTÓNAR – „KÚST OG FÆJÓ“
Like á facebook: 3.575 (#2)

Spilanir á YouTube: 103.671 (#3)

Spilanir á Spotify: 44.619 (#4)

Markhópur: Konur á fimmtugsaldri og húmoristar

Stúlkurnar í Heimilistónum eru ekkert að flækja þetta. Þær leggja upp með einfalt en grípandi lag og hnyttinn texta um líf sem margar konur tengja við. Þetta er lagið sem miðaldra konan setur á í bústaðnum með vinkonunum og hækkar í botn. Heimilistónar teygja sig líka niður til yngstu kynslóðarinnar með viðlaginu. Bráðabani ansi líklegur.

# 5 ARON HANNES – „GOLD DIGGER“
Like á facebook: 2.850 (#3)

Spilanir á YouTube: 106.200 (#2)

Spilanir á Spotify: 70.996 (#3)

Markhópur: 8.-9. bekkur í grunnskóla

Aron Hannes á klárlega skemmtilegasta atriðið í keppninni í ár og teflir til að mynda tveimur bestu dönsurum landsins í sínum flokki í atriði sínu. Sjálfur er hann frábær performer og söngvari og sást það best á því þegar hann hélt laginu uppi einn síns liðs í undanúrslitunum. Eini gallinn er sá að lagið er ekki frumsamið og hætt við neikvæðri athygli ytra færi það út.

# 6 DAGUR SIGURÐSSON – „Í STORMI“
Like á facebook: 613 (#6)

Spilanir á YouTube: 45.870 (#5)

Spilanir á Spotify: 41.932 (#5)

Markhópur: Þeir sem kæra sig um góðan söng

Það er erfitt að ráða í Dag. Umræðan í samfélaginu er sú að drengurinn er klárlega besti söngvarinn en spurning hvort það sé ekki kominn tími á að senda út skemmtilegt atriði (Heimilistónar og Aron Hannes). Skemmtanagildið í atriðinu mælist við frostmörkog ég held því miður að hin atriðin muni plokka of mörg stig af Degi til að skila honum í bráðabanann.

Spá Pottsins:

1. Dagur Sigurðsson – „Í stormi“

2. Áttan – „Here for You“

3. Heimilistónar – „Kúst og fæjó“

4. Aron Hannes – „Gold Digger“

5. Fókus – „Battleline“

6. Ari Ólafsson – „Our Choice“

Það er svakalega erfitt að spá fyrir um úrslitin en ég tel að lögin sem eru í topp 4 hjá mér endi í topp fjórum. Spurningin er bara í hvaða röð. Áttan er alltaf að fara í bráðabanann og svo munu Dagur, Heimilistónar og Aron berjast um að taka hitt sætið. Þá verður það baráttan á milli fullorðna fólksins og barnanna sem missa sennilega kosningaréttinn á heimilinu og Dagur tekur þetta. Sjáum hvað setur, góða skemmtun!

Torfi Guðbrandsson

Topp 5: Íslensku plöturnar 2017

Íslenska plötuárið 2017 var gjöfult og kom út ógrynni af efni. En þrátt fyrir margar útgáfur átti ég erfitt með að manna topp 5 lista yfir bestu plötur ársins. Það er þó ekki við listamennina að sakast heldur fyrst og fremst sjálfan mig þar sem erfitt er að komast yfir svona mikið af efni á stuttum tíma. En þær plötur sem skipa efstu 5 sætin hjá mér voru sennilega þær sem ég hlustaði mest á yfir árið og kannski ekki furða þar sem mér þótti þær bera af. Það getur vel verið að listinn myndi líta öðruvísi út eftir hálft ár en ég er nokkuð viss um að plöturnar í topp 4 myndu alltaf halda sér. En eins og staðan er á mér í dag eru þetta 5 bestu íslensku plötur ársins 2017.

# 5 Sturla Atlas – 101 Nights

101 Nights er fjórða plata Sturla Atlas en þeir hafa verið afar duglegir að semja og senda frá sér efni frá því að frumburðurinn Love Hurts kom út 2015. 101 Nights er þeirra besta verk til þessa og sýnir fram á að strákarnir eru búnir að þroskast heilmikið sem lagahöfundar. Gallinn við fyrri verk er sá að plöturnar voru ekki nægilega sterkar í heildina en áttu þó ágætis spretti og frábær lög inn á milli. Hér gætir aðeins meira jafnvægis, kannski engir dúndur slagarar en lögin eru öll yfir meðallagi góð og platan heldur dampi út í gegn. Nýtingin á „Svaraðu“ með king Herbert Guðmundsson í „Leap of Faith“ er svo dásamleg.

Lykillög: Mean 2 You, One Life, Time, Waiting.

# 4 Auður – Alone 

Auður er listamaður sem ég fæ hreinlega ekki nóg af, bæði í þeim skilningi að ég get hlustað endalaust á tónlistina hans og hann gefur ekki út nógu mikið efni. Frumraun hans Alone er vandað verk og rennur ljúflega í gegn. Öll lög eru tengd og platan er í raun eins og eitt langt lag. Titill plötunnar ber nafn með rentu en yrkisefnið er fjarveran frá kærustunni sem hélt utan til náms. Auður skefur ekki af hlutunum og lætur allt flakka og mæli ég hiklaust með plötunni fyrir rómantíska kvöldstund með makanum. Já og án makans líka.

Lykillög: 3D, Both Eyes on You, South America, When It’s Been a While.

# 3 Ásgeir – Afterglow 

Það var alltaf að fara að vera vandasamt verk að fylgja á eftir velgengni Dýrð í dauðaþögn sem kom Ásgeiri Trausta á kortið árið 2012 og gerði hann að einu heitasta nafni íslensku senunnar. En það tókst furðu vel og er Afterglow verðugur eftirfari frumburðarins. Hljóðheimurinn er orðinn stærri og meiri pælingar eru í gangi. Þó ég sé mikill aðdáandi gamla Ásgeirs Trausta og íslensku textana sem prýddu fyrstu plötuna þá sýnir hann hér að hann er enginn sveitapiltur lengur og hefur þroskast heilan helling sem tónlistarmaður.

Lykillög: Afterglow, Dreaming, Stardust, Unbound.

# 2 Aron Can – Ínótt

Aron Can. Hvað getur maður sagt um þetta undrabarn? Ínótt er í rauninni hans fyrsta stóra plata og fylgir á eftir hinni glæsilegu frumraun, Þekkir stráginn. Platan telur heil 13 lög og ekkert hálfkák í gangi. Platan kom út á vegum plötuútgáfunnar Sticky og er cd útgáfan hin glæsilegasta. Innihaldið er gott líka og það vefst ekkert fyrir Aroni og félögum að búa til slagara og góð lög. Meira svona!

Lykillög: Fremst þegar ég spila, Fullir vasar, Geri þetta allt, Ínótt, Sleikir á þér varirnar.

# 1 Joey Christ – Joey 

Jóhann Kristófer eða Joey Christ var afkastamikill á síðasta ári en ásamt því að standa í útgáfu með Sturlu Atlas-flokknum sendi hann frá sér tvær plötur með viku millibili í byrjun júlí. Sú fyrri, Anxiety City var á ensku en sú síðari, Joey var á íslensku og hitti beint í mark hjá mér. Fyrir utan fyrsta lagið á plötunni eru gestir í öllum lögunum og það eru þeir ásamt Joey sem gera plötuna að því sem hún er. Þessir gestir setja svip sinn á lögin og eru ekki valdir í verkefnið af ástæðulausu. Stíllinn hans Joey er skemmtilegur og stundum hálf kjánalegur eins og t.d. í laginu „Ísvélin“ þar sem hann fer í nokkrar augljósar staðreyndir í byrjun lagsins. Innkoma Sturlu Atlas er líka kómísk í meira lagi þar sem hann talar fallega til síns besta vinar. Jóhann fylgist greinilega vel með í músíkinni og ber nýting hans á hljómsveitinni Súkkat í laginu „Ísland“ vott um það. Sömuleiðis sækir hann í efnivið 12:00 og notar aðalstefið úr því í lagið „Gella Megamix“ sem stendur undir nafni. Þegar allt kemur til alls er platan stórskemmtileg og tekur sig mátulega alvarlega og sýnir svart á hvítu að Joey Christ getur vel staðið á eigin fótum.

Lykillög: G Blettur, Hanga með mér, Ísvélin, Joey Cypher, Túristi.

Torfi Guðbrandsson

Bestu íslensku lögin 2017 #10-1

# 10 JóiPé x KRÓLI – „B.O.B.A.“
Vinsælasta lag ársins án efa með yfir 2 milljónir spilanir á Spotify og YouTube samanlagt. Hér gengur allt upp og gömul mismæli frá Bubba Morthens öðlast nýtt líf. Jói og Króli eru eitrað tvíeyki og vega hvorn annan upp, Jói er þessi jarðbundna og dula týpa á meðan að Króli er einhvern veginn útum allt. Myndbandið var líka skemmtilegt og fullt af litagleði. Heilaormur sem verður erfitt að losna við!

# 9 Ásgeir – „Stardust“
Ásgeir snéri aftur með nýja plötu í byrjun maí eftir að hafa einokað árið 2012 með frumraun sinni Dýrð í dauðaþögn. „Stardust“ er sennilega útvarpsvænasta lagið á plötunni, glaðvært og grípandi. Ásgeir hefur gott vald á enskunni þó að ég hafi verið mun heillaðri af íslensku textunum hans hér um árið.

# 8 Moses Hightower – „Trúnó“
Þetta lag er á mörkunum að vera gjaldgengt inn á listann en það kom út seint í október 2016. En ég geri undantekningu enda má finna lagið á plötunni Fjallaloft sem kom út síðasta ár. Tempóið í laginu er gott og einkennist af nettum trega og liðast hægt og rólega áfram. Viðlagið er svo hreint afbragð, bæði í hljóðfæraleik og texta. „Trúnó, trúnó, kinn við kinn, þú og ég og einhver vinur þinn“.

# 7 Sturla Atlas – „Waiting“
Ég veit ekki hvað það er en Sturla Atlas flokkurinn hittir einhvern veginn alltaf í mark hjá mér eða alveg síðan þeir gáfu út fyrstu plötuna Love Hurts. „Waiting“ er rólegt og seiðandi lag sem hægt er að hlusta á aftur og aftur. Sigurbjartur er sannkallaður gullbarki sem má aldrei hætta að syngja.

# 6 Birnir – „Ekki switcha“
Birnir er eitt af nýju nöfnunum sem mætti til leiks árið 2017. „Ekki switcha“ fylgdi á eftir „Sama tíma“ og allt í einu var kauði kominn með tvö lög í þó nokkuð góða spilun. Persónulega er ég hrifnari af „Ekki switcha“ en þar er Birnir pollrólegur að því er virðist. Galdurinn liggur í þessari afslöppun og Birnir sýnir okkur að stundum getur minna verið meira. 

# 5 Auður – „I’d Love“
„I’d Love“ er nýjasta lag Auðar og það fyrsta eftir að hann gaf frá sér plötuna Alone. Myndbandið við lagið er epískt vægt til orða tekið og án efa flottasta myndband ársins. Lagið sjálft er ekkert slor heldur og lifandi sönnun þess að Auðunn Lúthersson er eitt mest spennandi nafnið í íslensku senunni í dag.

# 4 Vök – „Breaking Bones“
Hljómsveitin Vök hefur alltaf verið í smá uppáhaldi. Það var löngu kominn tími á stóra plötu frá þeim og það gerðist loksins í fyrra. Þau hefðu ekki getað samið betra upphafslag á plötuna en „Breaking Bones“. Lagið byrjar nokkuð sakleysislega þangað til á 43 sekúndu þegar lagið verður allt í einu frekar tryllt. Millikaflinn er svo frekar magnaður líka þar sem að engu líkara en að geimverur eða önnur kvikindi hafi tekið yfir stúdíóið í smá tíma (1:27) þangað til að sveitin rennir aftur í epíska hlutann (1:47). Vel að verki staðið Vök!

# 3 Joey Christ – „Joey Cypher“
Hvernig kem ég mér almennilega á framfæri ef ég er að fara að gefa út tvær plötur með stuttu millibili og nafnið mitt er ekki það stærsta í senunni? Jú heyrðu, ég sem bara geðveikt lag og fæ alla flottustu rapparana til að vera með sitt verse í laginu. Hvað segirðu, var Costco að opna? Heyrðu snilld, ég hóa bara í gengið og við verðum bara geðveikt nettir í Costco að fíflast í liðinu og tökum það upp á myndband og gefum út. Komið! Á svipstundu var Joey Christ búinn að skilja sig tímabundið frá Sturla Atlas flokknum og byggja upp ótrúlega spennu fyrir plötunum sínum. Magnað hvað gerist þegar Draumaliðið tekur höndum saman og hnoðar í eitt lag saman.

# 2 Daði Freyr – „Hvað með það?“ 
Það er skrýtið að þetta lag hafi ekki verið fulltrúi okkar í Eurovision keppninni í ár. Ef einhvern tímann hefur verið þörf fyrir smá tilbreytingu þá var það núna en Ísland hefur ekki komist í aðalkeppnina nokkur ár í röð. En markmiðið hjá Daða var að koma sér á framfæri og það hefur hann svo sannarlega gert enda þrælmagnaður tónlistarmaður. Skemmtilegasta lag ársins, punktur!

# 1 Aron Can – „Fullir vasar“
Hvernig í ósköpunum ætlaði Aron Can að fara að því að fylgja á eftir Þekkir stráginn var spurning sem margir veltu fyrir sér og þar á meðal ég. Um miðjan mars kom svo lagið „Fullir vasar“ út. Myndbandið við lagið var töff en á hreinu að um tvö lög væri að ræða. Eftir rólega en góða byrjun (hljómborðskaflinn 1:13-1:27 = slef) er skipt um gír og „Fullir vasar“ sett í gang. Þetta var stóri slagarinn sem var hárréttur leikur hjá Aroni að tefla fram fyrst og æsa fólk upp fyrir stóru plötuna sína sem kom út nokkrum vikum síðar. Þrátt fyrir að lagið hafi verið ofspilað á mínu heimili (margumbeðið óskalag hjá 2 ára dóttur minni) þá efast ég ekki í eina sekúndu um gæði þessa lags enda er mér minnisstætt hvernig mér leið þegar ég heyrði það fyrst keyrandi í Bakkahverfinu í Breiðholtinu á köldum vordegi, hvílík himnasæla!

Torfi Guðbrandsson 

Bestu íslensku lögin 2017 #20-11

# 20 Fufanu – „White Pebbles“
Fufanu er sennilega ein svalasta hljómsveit landsins. Tónlist Fufanu er alþjóðleg og einskorðast ekki við íslenskan markað. Lagið „White Pebbles“ er hápunktur af annarri breiðskífu þeirra Sports og það er óhætt að mæla með myndbandi þeirra við lagið, sem er eins og hljómsveitin, eitursvalt.

# 19 Reykjavíkurdætur ásamt Röggu Hólm – „Reppa heiminn“
Það kom engin stór plata frá Reykjavíkurdætrum síðasta ár en það verður að teljast líklegt að þær sendi frá sér aðra breiðskífu sína í ár enda búnar að senda frá sér nokkur ný lög. „Reppa heiminn“ stóð upp úr og sýnir úr hverju stelpurnar eru gerðar og það er eins gott að passa sig!

# 18 Högni – „Moon Pitcher“ 
Högni sendi loksins frá sér sína fyrstu sólóbreiðskífu í ár. Platan er góð en þarfnast aðlögunar enda nokkuð óhefðbundin og fer í ýmsar áttir. Lagið „Moon Pitcher“ þarfnaðist þó engrar aðlögunar og sýnir allt það besta sem Högni hefur upp á að bjóða.

# 17 Hatari – „X“ 
Hatari var sennilega sú íslenska hljómsveit sem kom hvað best frá Iceland Airwaves hátíðinni í ár. EP platan þeirra Neysluvara kom út í tæka tíð fyrir hátíðina og í einni svipan var hún ein umtalaðasta sveit landsins. „X“ er tryllt lag með kýrskýrum skilaboðum. Ég myndi allavega ekki vilja mæta þessum piltum í dimmu húsastræti, sérstaklega ekki trommaranum.

# 16 Úlfur Úlfur – „Bróðir“
Ég verð að viðurkenna að ég var fyrir eilitlum vonbrigðum með nýju plötuna hjá Úlfi Úlfi. Hún náði ekki sömu hæðum og Tvær plánetur en inn á milli er að finna frábær lög eins og „Bróðir“.  

# 15 Júníus Meyvant – „Mr. Minister Great“
„Mr. Minister Great“ er í raun gamalt lag en kom ekki út fyrr en 2017 og var m.a. á sérstakri Record Store Day útgáfu af Floating Harmonies sem var til að mynda ein af plötum ársins 2016 á Pottinum. Lagið er á pari við það besta sem Júníus hefur verið að gera og það er ánægjulegt að geta loksins notið þess í stofunni heima.

# 14 Bubbi Morthens – „Sól bros þín“
Bubbi leitaði aftur í einfaldleikann með plötunni sinni Túngumál og „Sól bros þín“ gaf smjörþefinn af því sem koma skyldi af þeirri plötu. Það fer ekki á milli mála um hvern er að ræða þegar lagið fer af stað, það er ákveðinn Bubbabragur yfir laginu sem er í rólegri kantinum og ákaflega ljúft áhlustunar.

# 13 Alexander Jarl – „Láttu í friði“
Alexander Jarl gaf út sína fyrstu breiðskífu í október í fyrra. Ef minnið er ekki að svíkja mig var „Láttu í friði“ fyrsta lagið af plötunni sem kom út. Lagið er stórgott og byrjunin setur tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Maður heyrir á laginu að Alexander nýtir uppruna sinn í föðurlegg sem gerir lagið og reyndar mest alla plötuna frábrugðna annarri rapptónlist sem kemur út á Íslandi. Og það er x-faktorinn sem að Alexander Jarl hefur.

# 12 Floni – „Leika“
Annað lagið af þremur sem kom út með autotjúnaða neðanjarðasenumanninum Flona áður en hann náði að ropa frá sér 9 laga plötu í byrjun desember. Hann fær að eiga það að hann fer vel með autotjúnið og nýtir það sem nokkurs konar auka hljóðfæri sem smellpassar við tónlistina hans. Floni er flott viðbót í annars fjölbreytta rappsenu hér á landi.

# 11 Birnir ásamt Herra Hnetusmjör – „Já ég veit“
Ég viðurkenni að ég var ekki sannfærður um gæði þessa lags þegar ég heyrði það fyrst. Fram að því hafði ég fýlað allt sem hafði komið út með Birni en þetta lag var af allt öðrum toga. Fljótlega fór ég þó að fýla lagið betur og betur og ef ég vil reyna að vera svalur þá er þetta „go to“ lagið til þess að setja á fóninn. Kópavogur lengi lifi!

Torfi Guðbrandsson

Bestu kvikmyndir 2017

Kvikmyndaárið var að mínu mati ansi sterkt og nokkuð margar myndir sem ég var spenntur að sjá. Framhaldsmyndir voru áberandi í ár og í mörgum tilfellum áttu þær að fylgja á eftir vel heppnuðu upphafi. Svo voru aðrar myndir sem áttu að bjarga málunum eins og t.d. Wonder Woman og Justice League sem fengu það hlutverk að gera DC Comics-bálkinn að alvöru keppinaut fyrir Marvel-myndirnar en þó að þær hafi ekki náð inn á topp 10 hjá mér þá eru þær skref í rétta átt. Það var líka nóg um að vera hér á landi þar sem að Hjartasteinn, Undir trénu og Ég man þig standa upp úr en hrifnastur var ég af Undir trénu. Á þessum lista ætla ég samt að halda mig við erlendu myndirnar. Þetta eru 10 bestu myndirnar sem ég sá á árinu.

# 10 – It

Ég hef aldrei verið eins spenntur fyrir hryllingsmynd líkt og ég var fyrir It en eftir að hafa séð stikluna fyrir myndina í byrjun árs taldi ég nánast niður dagana í frumsýningu. Myndin minnir um margt á þættina Stranger Things þar sem að krakkagengi berst við yfirnáttúruleg öfl. Trúðurinn er vel heppnaður og frammistaða sænska leikarans Bill Skarsgård er ekkert annað en mögnuð. Ungu leikararnir eru hver öðrum flottari og stór ástæða þess að myndin drífur í 10. sætið á þessum lista.

# 9 – T2 Trainspotting

Það er ákveðin áhætta fólgin í því að ráðast í framhaldsmynd 20 árum eftir að fyrri myndin kom út. Þetta mistókst t.d. í tilfelli Dumb and Dumber To. En í tilfelli T2 Trainspotting eru engin mistök gerð. Persónurnar hafa vissulega elst um 20 ár en hér er haldið rétt á spöðunum. Karakterarnir eru ennþá jafn skemmtilegir og síðast og standa þar Spud og Begbie upp úr. Frábært framhald af einni bestu mynd síðasta áratugs 20. aldar.

# 8 – Thor: Ragnarok 

Það var kominn tími á almennilega mynd um þrumuguðinn Þór. Thor: Ragnarok slær fyrri tveimur ref fyrir rass og vel það. Hér eru allir upp á sitt besta og nýju karakterarnir bæta miklu við. Ásgarður nýtur sín vel og bardagasenurnar eru glæsilegar. Myndin er bráðskemmtileg enda húmorinn allsráðandi og þar fer Chris Hemsworth á kostum. „Immigrant Song“ með Led Zeppelin er svo notað á hárréttann hátt í lokin á myndinni.

# 7 – Guardians of the Galaxy Vol. 2 

Það er hreinn ógerningur að kunna ekki vel við verndara vetrarbrautarinnar. Fyrri myndin var kærkomin tilbreyting frá hefnendunum og fólk vildi sjá meira af þessum stuðboltum, þar á meðal ég. Framhaldið tekst vel til og útfærslan á illmenninu heppnast vel og kemur á óvart. Það sem einkenndi fyrri myndina var frábær tónlist og það á einnig við hér. Geimópera í hæsta gæðaflokki!

# 6 – Baby Driver 

Ég vildi óska þess að Baby Driver hefði komið út þegar ég var nýbúinn að fá bílpróf síðla árs 2006. Þá hafði ég brjálaðan áhuga á akstri og það skipti mig hjartans máli hvað ég var að hlusta á í bílnum á meðan ég rúntaði um bæinn. En allt í góðu. Myndin er frábær skemmtun þar sem að samspil tónlistar og kvikmyndar hefur sjaldan verið betra. Hvert smáatriði er úthugsað og virðist vera að leikstjórinn Edgar Wright láti myndina stjórnast af lögunum. Verst er að Kevin Spacey leikur nokkuð mikilvægt hlutverk í myndinni.

5 – Get Out 

Það er langt síðan að kvikmynd kom mér eins mikið á óvart og Get Out. Áferðafalleg kvikmynd sem byrjar nokkuð sakleysislega en verður svo æ óþæginlegri og skrítnari og að lokum allsvaðaleg. Ég var hálfgeru áfalli eftir áhorfið og þurfti smá tíma til að jafna mig. Óvæntasti smellur ársins klárlega!

# 4 – Logan 

Loksins fékk Hugh Jackman kvikmyndina sem hann átti skilið. Hér er hann þjakaðri en nokkru sinni fyrr en á sama tíma hokinn af reynslu. Ofan á það er flækjustigið í lífi hans orðið töluvert meira með komu Lauru. Nú þarf hann að láta klærnar standa fram úr ermum í síðasta sinn og það er unun að fylgjast með. Hugh Jackman getur gengið sáttur frá borði verði þetta hans síðasta skipti í Wolverine gervinu.

# 3 – Star Wars: The Last Jedi 

Forsýning Nexus á Star Wars: The Last Jedi var klárlega hápunkturinn í ár þó að myndin drífi ekki ofar en í þriðja sæti. Það á náttúrulega að vera bannað að láta mann bíða í 2 ár eftir framhaldi en biðin var algjörlega þess virði. Ég er í hópi þeirra Stjörnustríðsaðdáenda sem var ánægður með myndina og hef ekki fundið neinar ástæður til þess að rakka hana niður. Þróunin á Kylo og Rey er mér að skapi og það var notalegt að fá að eyða kvöldstund með Luke Skywalker í síðasta sinn. Nú er bara spurning hvernig þeim tekst að loka þessum þríleik.

# 2 – Dunkirk 

Ég var farinn að sakna þess að sjá eitthvað eftir meistara Nolan og eftir að Dunkirk rataði í kvikmyndahús hér á landi setti ég kröfu á að sjá hana í sal 1 í Egilshöll þar sem ég vildi láta taka mig í augun og eyrun. Og það var nákvæmlega það sem hún gerði. Í gegnum tíðina hef ég séð margar frábærar stríðsmyndir byggðar á sönnum atburðum en engin hefur tekið sömu nálgun og Dunkirk gerir þar sem áhorfandinn fær allt aðra upplifun en áður. Stórkostleg mynd sem rígheldur manni í sætinu allan tímann!

# 1 – Blade Runner 2049 

Ég var orðinn vel spenntur fyrir Blade Runner 2049 og eins og með SWTLJ dugði ekkert minna til en salur 1 í Egilshöll. Og þvílík kvikmynd. Nútíma listaverk sem heiðrar forvera sinn og þróar heiminn í rétta átt á sama tíma. Ryan Gosling smellpassar inn í þennan heim sem vélmennið K og heldur myndinni uppi lengst af. Þrátt fyrir að slaga upp í næstum þrjá tíma sóar kvikmyndin ekki einni sekúndu að mínu mati og það eru sannkölluð forréttindi að fá að upplifa mynd af þessu kalíberi í bestu mögulegu gæðum. 10 af 10!

Aðrar sem voru nálægt (í stafrófsröð):

Atomic Blonde 
Coco
John Wick 2 
La La Land
Manchester by the Sea 
War of the Planet of the Apes
Wonder Woman

Torfi Guðbrandsson

Topp 5: Plötuumslög ársins 2017

Það er komið að árlegu uppgjöri í tónlist og kvikmyndum. Ég hef ekki skrifað um flottustu plötumslögin síðan 2014 en mér finnst ástæða til að byrja árslistarununa á þeim núna. Vonandi verður ekki langt í næstu árslista en ég stefni á að fjalla um bestu kvikmyndir ársins sem og bestu íslensku plöturnar og lögin.

# 5 Auður – Alone 

Auður er í miklu uppáhaldi hjá mér og umslagið fyrir frumraun hans Alone er í takt við tónlistina hans, nútímaleg.

# 4 Moses Hightower – Fjallaloft

Eitt af einkennismerkjum Moses Hightower eru sniðug og falleg umslög á plötunum þeirra. Umslagið fyrir Fjallaloft er þar engin undantekning þar sem kaldhæðnin svífur yfir vötnum.

# 3 Aron Can – Ínótt

Sjaldan hefur umslag fangað tíðarandann eins vel og þetta hér. Ungur og hæfileikaríkur rappari sem er umvafinn rafrettureyk líkt og nánast hver einasti aðdáandi hans. Fjólublái tónninn gerir svo útslagið.

# 2 Pink Street Boys – Smells Like Boys 

Umslagið fyrir fyrstu plötu Pink Street Boys var sturlað og klárlega það flottasta árið 2015. Umslagið fyrir nýju plötuna er sömuleiðis sturlað og afar lýsandi fyrir tónlist Pink Street Boys.

# 1 Elli Grill – Þykk fitan vol. 5

Sigurvegari ársins kemur kannski úr óvæntri átt enda platan ekki fáanleg í föstu formi en sigurinn ætti ekki að koma á óvart þegar umslagið er skoðað. Það er teiknimyndasögufýlingur í þessu umslagi og augljóslega vandað til verka.

 

Torfi Guðbrandsson

Þáttarýni: Mindhunter

Stóra málið í þáttaheiminum í vetur var vitaskuld önnur þáttaröðin af Stranger Things sem datt inn á Netflix veituna þann 27. október síðastliðinn. Það varð hálfgert tómarúm í lífi margra eftir að hafa lokið við seríuna vitandi það að heilt ár væri í þá næstu. Hvað skyldi þá glápa á næst? Flestir virðast hafa snúið sér að Mindhunter og hafa þættirnir verið á milli tannanna á fólki síðustu misseri. Ég var þar engin undantekning enda vantaði mig að fylla upp í tómarúmið eftir ST.

Í stuttu máli fjallar Mindhunter um störf FBI-fulltrúana Holden Ford og Bill Tench og sálfræðiprófessorsins Wendy Carr. Saman vinna þau að því að taka viðtöl við dæmda raðmorðingja og greina þau í því skyni að skilja betur hvernig þeir hugsa og hvaða ástæður kunna að liggja að baki að menn fari þá leið að myrða fólk. Markmiðið er að nýta vitneskjuna sem hlýst af vinnunni í að leysa mál af svipuðum toga. Bókin Mindhunter: Inside the FBI’s Elite Serial Crime Unit er undirstaða þáttanna en Holden Ford er einmitt byggður á John E. Douglas, öðrum höfundi bókarinnar. Það gerir þættina mun skemmtilegri að vita að þeir séu byggðir á sönnum atburðum og skilur það þáttinn strax frá öðrum glæpaþáttum sem rista ekki eins djúpt vegna yfirvinnu skáldagyðjunnar.

Fyrsti þátturinn er engin flugeldasýning og það er mikilvægt að missa ekki trúna á framhaldinu. Við fáum að kynnast Holden Ford sem leikinn er af Jonathan Groff sem var fyrir þættina ekki stærsta nafnið í bransanum. „Average Joe“ myndi sennilega lýsa karakternum (og jafnvel leikaranum líka) best og í byrjun virkar hann frekar flatur en hann vinnur vel á og verður á endanum afar áhugaverður. Reynsluboltinn Bill Tench er ögn týpískari karakter, við höfum margoft séð svipaðar týpur á hvíta tjaldinu. Í starfi sínu er hann með allt á hreinu en einkalífið er í smá uppnámi. Í sjötta þætti fáum við fyrst að skyggnast inn í fjölskyldulíf Tench og þá sér maður hversu vanmáttugur hann er þar, bæði gagnvart ættleidda syni sínum og eiginkonunni.

Ástralska leikkonan Anna Torv sér um að leika sálfræðiprófessorinn Wendy Carr sem er ansi áhugaverður karakter og það er gaman að fylgjast með hversu heillaður Holden Ford virðist vera af henni í þáttunum. Á tímapunkti hélt maður jafnvel að hann væri orðinn heitur fyrir henni en Wendy Carr gefur aldrei færi á sér. Ég var ekki eins hrifinn af Debbie Mitford (Hannah Gross) kærustu Ford. Mér fannst hún beinlínis leiðinlegur karakter og senurnar á milli þeirra þær sístu í þáttunum þar sem Ford var yfirleitt af ræða við hana um vinnuna sína og fá hennar álit.

Það væri ekki eins mikið varið í þættina ef ekki væri fyrir magnaða frammistöðu þeirra sem túlka raðmorðingjana. Þeir sem fá mestan skjátíma af þeim eru Cameron Britton sem leikur Edmund Kemper og Happy Anderson sem fer með hlutverk Jerry Brudos. Maður er gjörsamlega límdur við skjáinn þegar þeir koma við sögu og það er sláandi hversu líkir þeir eru alvöru morðingjunum. Aðrir fá minni skjátíma en eru samt eftirminnilegir, þá sérstaklega Jack Erdie sem Richard Speck í næstsíðasta þættinum. Viðtölin við raðmorðingjana eru enginn skáldskapur og það eitt og sér er magnað, það kemur alltaf á daginn að sannleikurinn er sagna bestur þó ljótur sé í þessu tilfelli. 

Fyrir mér er aðal fúttið í þáttunum að sjá hvernig þríeykið eflist með hverjum þætti vitandi það að allt hafi þetta að miklu leyti átt sér stað í raunveruleikanum. Að fylgjast með þeim leysa litlu hliðarverkefnin hér og þar um Bandaríkin þar sem þeir átta sig smám saman betur og betur á hegðun morðingja eru svo ekkert síðri áhorfs heldur en viðtölin við dæmdu raðmorðingjana. 

Að lokum langar mig að koma inn á tónlistina í þáttunum sem mér finnst algjörlega frábær og bætir miklu við. Góð og smekklega valin tónlist gerir öll atriði og alla kreditlista betri. Sögusvið þáttanna á að gerast árið 1977 og tónlistin er valin eftir því, þetta færir áhorfandann nær tíðarandanum og gerir þættina ögn svalari.

Samkvæmt því sem maður les á netinu er þegar byrjað að undirbúa seríu tvö sem væntanleg er á næsta ári, frábærar fréttir það. Þá fáum við líklegast að sjá meira af hinum dularfulla ADT tæknimanni sem sést alltaf í byrjun þáttanna en kemur ekkert meira við sögu en það. Einnig er möguleiki á að Ted Bundy, Charles Manson eða John Wayne Gacy verði teknir fyrir. Verði af því og „castað“ verður rétt í þau hlutverk þá er ég vongóður um að önnur sería slái fyrstu seríunni við.

Einkunn: 8/10

Torfi Guðbrandsson