Monthly Archives: mars 2013

Velvet Goldmine: Óður til glysrokksins

velvet-goldmine

Kvikmyndin Velvet Goldmine frá árinu 1998 er ágætis skemmtun og sérstaklega fyrir þá sem hafa gaman af tónlist. Leikstjóri myndarinnar er Todd Haynes en hann leikstýrði meðal annars I’m Not There. þar sem Bob Dylan var túlkaður á marga vegu.

Christian Bale leikur blaðamanninn Arthur Stuart sem fær það verðuga verkefni að komast að því hvað varð um poppstjörnuna Brian Slade (leikinn af Jonathan Rhys Meyers) sem gerði það gott á áttunda áratugnum en hvarf skyndilega af sjónarsviðinu með sviðsettum dauða að öllum líkindum. Arthur er reyndar vel kunnugur þessa tímabils enda var hann sjálfur mikill aðdáandi Brian Slades og glysrokksins.

Karakterinn Brian Slade er að miklu leyti byggður á David Bowie og karakternum hans Ziggy Stardust sem og Marc Bolan frontmanni T. Rex. Það skín alveg í gegn í myndinni en því miður var David Bowie sjálfur ekkert sérstaklega hrifinn af þessu uppátæki leikstjórans og bannaði honum meðal annars að nota tónlistina sína í henni auk þess sem endurskrifa þurfti handritið.

Ewan McGregor leikur söngvarann Curt Wild sem byggður er á Iggy Pop og Lou Reed en báðir voru þeir nánir Bowie á sínum tíma. Reyndar minnir karakterinn óneitanlega mikið á Kurt Cobain en það var aldrei ætlunin að sögn Ewan og Haynes en að þeirra sögn gætu líkindin stafað af því að Kurt hafi verið undir miklum áhrifum frá Iggy Pop.

Það sem heldur kvikmyndinni uppi er fyrst og fremst tónlistin en það voru engir aukvissar sem voru á bakvið hana. Settar voru saman tvær hljómsveitir, hin breska The Venus in Furs sem innihélt þá Thom Yorke og Johnny Greenwood (Radiohead), Bernard Butler (Suede), Andy Mackay (Roxy Music) og David Gray og var hún hljómsveitin á bakvið Brian Slade. Ameríska hljómsveitin sem studdi við bakið á Curt Wild kallaðist Wylde Ratttz og stóð saman af Ron Asheton (The Stooges), Thurston Moore og Steve Shelley (Sonic Youth) og þremur öðrum minna þekktum listamönnum. Þá gegna meðlimir Placebo örlitlu hlutverki í myndinni og spila meðal annars sína útgáfu af „20th Century Boy“.

christian-velvet-goldmine---miramax

Christian Bale í gervi sínu í myndinni.

Aðalleikararnir þrír standa sig allir vel en þó þykir mér Rhys Meyers vera sístur af þeim enda hef ég aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af kauða sem leikara. Christian Bale er ólíkur sjálfum sér enda er karakterinn hans talsvert kvenlegri en hann er þekktur fyrir í dag. Hann sýnir þó traustan leik eins og hans er von og vísa og heldur myndinni saman. Ewan McGregor stendur sig vel og þá sérstaklega í söngnum en hann söng lögin sín sjálfur og gef ég mönnum alltaf prik fyrir það.

Ég tel að þessi kvikmynd sé eilítið vanmetin og á fárra vitorði en ég mæli hiklaust með henni og sérstaklega fyrir þá sem hafa dálæti á tónlist með áherslu á glysrokkið.

– Torfi

Auglýsingar

Plötudómur: John Grant – Pale Green Ghosts

Pale-Green-Ghosts-596x300

Þá er Pale Green Ghosts loksins komin í mínar hendur en ég hef beðið óþreyjufullur eftir henni alla daga síðan að John Grant tróð upp í Austurbæ síðasta sumar. Tónleikagestir nutu þess heiður að vera þeir fyrstu í veröldinni til að hlýða á nýjustu lög JG en blessunarlega enduðu þau öll fjögur á plötunni nýju.

Strax á fyrstu tveimur lögum plötunnar greinir maður áhrif Bigga Veiru (GusGus) og er það mikið stökk frá frumburðinum Queen of Denmark. John Grant fetar nýjar slóðir en það er merkilegt hvað hann passar vel inn í raftóna Bigga enda ætti sá maður að þekkja það best hverjir virka í þessum geira en Daníel Ágúst og Högni eru lifandi dæmi um það.

Eftir hið dansvæna „Black Belt“ róast leikurinn aðeins niður  með laginu „GMF“ sem er þessa stundina mitt uppáhalds lag á plötunni. Ástæðan er einfaldlega sú að textinn er bráðskemmtilegur og melódían og þá sérstaklega í viðlaginu er eftirminnileg. „GMF“ ásamt „It Doesn’t Matter to Him“ og „I Hate This Town“ eru lög sem eru í takt við gamla efnið hjá John Grant en restin af plötunni er smituð af Bigga Veiru.

„Why Don’t You Love Me“ er afar óeftirminnilegt lag og í raun eini veiki bletturinn á plötunni. „You Don’t Have To“ býr yfir yfirveguðum takti og seyðandi rödd JG dáleiða mann hreinlega, eftir lagið er maður hálf endurnærður. Næsta lag, „Sensitive New Guy“ krefst þess hins vegar að þú rísir á fætur og baðir höndunum út í loftið en í því lagi gefur Biggi í og einnig John Grant en söngur hans í laginu minnir svolítið á James Murphy (LCD Soundsystem) þegar sá maður er í essinu sínu. „Earnest Borgnine“ er í svipuðum fýling og „You Don’t Have To“ en Earnest Borgnine var leikari sem lést í fyrra og lifði víst tímana tvenna en samkvæmt textanum hitti JG þennan mann.

Platan endar svo á hinu stóra og fallega lagi „Glacier“ en jökull var víst of þjált í framburði að mati JG þannig að hann ákvað að nota enska orðið í staðinn. Jökullinn er myndlíking við sársaukann sem fylgir því að verða fyrir barðinu á þeim sem eru móti samkynhneigð en það mætti segja að lagið sé einhvers konar áróður til þeirra.

John Grant sýnir mikið hugrekki á þessari plötu því að hann fer í óvænta átt miðað við frumburð sinn Queen of Denmark. Gamli kærastinn heldur áfram að vera honum innblástur í textagerð og það er spurning hvort að hann endist í fleiri plötur eða John Grant finni upp á einhverju öðru til að semja um, eins og t.d. hvernig kaffið smakkast á Súfistanum.

John er mikill hvalreki fyrir íslensku tónlistarsenuna og það er ofar mínum skilningi hvernig Sónar-hátíðinni tókst að líta framhjá honum í febrúar! Að lokum vil ég minnast á huggulegu myndirnar sem prýða umslagið og bæklinginn sem skarta íslenskri náttúru og inniveru og uppáhalds namminu mínu, gúmmí hauskúpunum.

Niðurstaða: Pale Green Ghosts er frábrugðin fyrri verkum John Grant þó að innihald textana sé svipað. Samstarf hans og Bigga Veiru gengur vel upp og verður spennandi að sjá hvað John gerir næst.

Torfi