Category Archives: Tónlist

Kaleo hitar upp fyrir Kings of Leon

maxresdefault
Kaleo kemur til með að hita upp fyrir Kings of Leon sem kemur fram á stórtónleikum í Laugardalshöllinni þann 13. ágúst næstkomandi en þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu á heimasíðu þeirra. Valið kemur ekki á óvart enda Kaleo búin að ryðja sér til rúms sem ein fremsta rokkhljómsveit landsins og svipar tónlistinni hennar oft til suðurríkjarokksins í landi tækifæranna. Hljómsveitin er einmitt að túra um Bandaríkin þessa dagana og reynir að heilla Kanann með tónlist sinni og miðað við það sem að Kaleo hefur uppá að bjóða ætti það að takast vel.

Tónleikar þeirra í Laugardalshöllinni 13. ágúst hljóta að verða þeir stærstu í sögu sveitarinnar enda von á 10.000 gestum. Þá er aldrei að vita nema að Caleb Followill og félagar taki ástfóstri við Kaleo og bjóði þeim að hita upp fyrir sig á fleiri tónleikum víðsvegar um heiminn. Kaleo er svo væntanleg til landsins seinna í sumar og mun halda tónleika í Gamla bíói þann 11. júlí næstkomandi.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

GusGus gefur út nýtt lag

Já það virðist allt vera að gerast í heimi danstónlistarinnar hér á landi en eins og flestir ættu að vita hefur DJ MuscleBoy gert allt vitlaust með hinu Scooter-skotna „LOUDER“ sem er að nálgast 200,000 hlustanir á YouTube. Nú hafa hins vegar drottnarar danstónlistarinnar á Íslandi, GusGus, gefið út sóðalega flott lag sem aðdáendur hafa jafnvel heyrt á tónleikum þeirra undanfarna mánuði.

Þá er það bara spurningin, tekst þeim að toppa Arabíska hestinn með næstu plötu? Af þessu lagi að dæma segi ég já!

– Torfi 

Sönghópurinn Olga í útrás

OLGAA

Alþjóðlegi sönghópurinn Olga ætlar sér stóra hluti í sumar og hyggst gefa út plötu og túra um Ísland. Í hópnum eru tveir Íslendingar, þeir Bjarni Guðmundsson (fyrsti tenór) og Pétur Oddbergur Heimisson (bass-barítón). Ásamt þeim eru Hollendingarnir Gulian van Nierop (barítón) og Jonathan Ploeg (annar tenór) og Rússinn Philip Barkhudarov (bassi). Hópurinn kynntist í Tónlistarskóla HKU í Utrecht í Hollandi en þar nema þeir söng undir handleiðslu Jóns Þorsteinssonar.

Olga varð til árið 2012 og komu drengirnir meðal annars hingað til Íslands í fyrra og héldu fimm tónleika víðsvegar um landið. Undirritaður skellti sér á síðustu tónleikana sem haldnir voru í Fríkirkjunni og komu þeir skemmtilega á óvart. „A capella“ tónleikar eiga það til að vera þurrir og svæfandi en það er ekki raunin hjá Olgu. Þeir hafa húmor fyrir sjálfum sér, taka fjölbreytt lög og koma gestum á óvart með ýmsum uppátækjum oft í miðjum flutningi. Gestirnir í Fríkirkjunni gengu allavega sáttir til dyra að tónleikum loknum eftir mikil hlátrasköll, lófaklöpp og uppklöpp.

Nú ætla þeir að leggja land undir fót að nýju og hafa með sér glænýja plötu í farteskinu. En það kostar peninga að ferðast og því ætla Olgumenn að treysta á almenning og nota Karolina Fund til þess að fjármagna ferðalagið. Fyrir utan Ísland eru fyrirhugaðir tónleikar víða um Evrópu og má þar nefna tónleika í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og að sjálfsögðu Hollandi.

Þó að meirihlutinn í hópnum sé af erlendu bergi brotinn eru menn ekkert að veigra sér við að taka íslensk lög. Íslendingarnir í hópnum hafa greinilega kennt félögum sínum vel því að það má varla heyra mun á flutningi íslensku piltana og þeirra erlendu. „Heyr, himna smiður“ er gott dæmi um það.

Til gamans má geta komust Bjarni og Pétur í fréttirnar fyrir tveimur árum er þeir tóku óvænt þátt í karókí keppni undir berum himni í Berlín. Drengirnir voru á bakpokaferðalagi um Evrópu og áttu leið hjá Mauregarðinum þar í borg. Þeir gáfu sér samt tíma í að þenja raddböndin aðeins og fluttu Elvis slagarann „Can’t Help Falling In Love“ við mikinn fögnuð viðstaddra. Í kjölfarið unnu þeir sér inn hina frægu 15 mínútna frægð á Íslandi.

Ég hvet fólk eindregið til að fylgjast vel með Olgu á komandi mánuðum því að treystið mér, hér eru á ferðinni mikil gæðablóð sem finnst fátt skemmtilegra en að gleðja fólk með fögrum söng.

Tónleikarnir sem þeir ætla að halda á Íslandi:

Fimmtudagurinn 26. júní – Tjarnarborg, Ólafsfjörður
Sunnudagurinn 29. júní – Hvollinn, Hvolsvöllur
Þriðjudagurinn 1. júlí – Langholtskirkja, Reykjavík
Miðvikudagurinn 2. júlí – Bláa kirkjan, Seyðisfjörður
Föstudagurinn 4. júlí – Hafnarkirkja, Höfn í Hornafirði

Heimasíða Olgu: http://www.olgavocalensemble.com

Olga á Facebook: http://www.facebook.com/olgavocalensemble

Leggðu Olgu lið hér: http://www.karolinafund.com/project/view/309

Torfi Guðbrandsson

Easy Star All-Stars: Reggí sveit með pung

radiodread

Reggí menningin á Íslandi hefur farið stigvaxandi síðustu ár og þá aðallega með hljómsveitinni Hjálmar og nú nýlega Ojba Rasta sem hefur vakið mikla lukku. Reggí og döbb (dub) virðist einnig vera góð blanda sem síðarnefnda sveitin hefur tileinkað sér og það með miklum ágætum.

En það eru ekki margar reggí hljómsveitir sem leggja sig fram við það að covera plötur í heild sinni en þó er ein slík til og nefnist hún Easy Star All-Stars og er ættuð frá Jamaíku. Og það eru engar smá plötur sem sveitin hefur tekið fyrir og yfirfært í reggí stílinn og myndu þær líklegast allar flokkast undir bestu plötur sögunnar í popp/rokk geiranum. Plöturnar eru sem sagt þessar, Dark Side of the Moon með Pink Floyd, OK Computer með Radiohead, Sgt. Peppers Lonely Heart Club’s Band með Bítlunum og loks Thriller með Michael Jacksoneasy-star-all-stars-lonely-hearts-d. Eins og sjá má eru þetta engir aukvissar í tónlistarsögunni og í raun hálfgerð fífldirfska að henda í sínar eigin útgáfur af þessum plötum og það í reggí/döbb búning.

En þótt ótrúlegt sé þá hefur þetta tekist einstaklega vel upp og hafa þeir almennt verið að fá góða dóma fyrir þessar tilraunir sínar. Að mínu mati finnst mér Easy Star’s Lonely Heart Dubs Band koma best út í þessum reggí döbb stíl þó að Radiodread og Easy Star’s Thrilla koma skemmtilega á óvart og þá sérstaklega sú síðastnefnda en það í raun fáránlegt hvernig þeir ná að tækla lög eins og „Billie Jean“, „Beat It“ og „Thriller“ með jafn miklum sóma og í raun er. Ekki finnst mér Dark Side of the Moon koma vel út í reggí búning en sitt sýnist hverjum. 

Ofan á þetta allt saman hafa þeir gefið út eina plötu með frumsömdu efni en hún hefur vitaskuld fallið í skuggann af hinum fjórum enda sveitin skapað sér nafn sem coversveit.

Boðskapurinn með þessum pistli er þessi, ef þú fýlar reggí með döbb ívafi og þessar plötur og ert tilbúin/nn til að slá þessu saman er algjörlega málið fyrir þig að kíkja á þetta.

– Torfi

Velvet Goldmine: Óður til glysrokksins

velvet-goldmine

Kvikmyndin Velvet Goldmine frá árinu 1998 er ágætis skemmtun og sérstaklega fyrir þá sem hafa gaman af tónlist. Leikstjóri myndarinnar er Todd Haynes en hann leikstýrði meðal annars I’m Not There. þar sem Bob Dylan var túlkaður á marga vegu.

Christian Bale leikur blaðamanninn Arthur Stuart sem fær það verðuga verkefni að komast að því hvað varð um poppstjörnuna Brian Slade (leikinn af Jonathan Rhys Meyers) sem gerði það gott á áttunda áratugnum en hvarf skyndilega af sjónarsviðinu með sviðsettum dauða að öllum líkindum. Arthur er reyndar vel kunnugur þessa tímabils enda var hann sjálfur mikill aðdáandi Brian Slades og glysrokksins.

Karakterinn Brian Slade er að miklu leyti byggður á David Bowie og karakternum hans Ziggy Stardust sem og Marc Bolan frontmanni T. Rex. Það skín alveg í gegn í myndinni en því miður var David Bowie sjálfur ekkert sérstaklega hrifinn af þessu uppátæki leikstjórans og bannaði honum meðal annars að nota tónlistina sína í henni auk þess sem endurskrifa þurfti handritið.

Ewan McGregor leikur söngvarann Curt Wild sem byggður er á Iggy Pop og Lou Reed en báðir voru þeir nánir Bowie á sínum tíma. Reyndar minnir karakterinn óneitanlega mikið á Kurt Cobain en það var aldrei ætlunin að sögn Ewan og Haynes en að þeirra sögn gætu líkindin stafað af því að Kurt hafi verið undir miklum áhrifum frá Iggy Pop.

Það sem heldur kvikmyndinni uppi er fyrst og fremst tónlistin en það voru engir aukvissar sem voru á bakvið hana. Settar voru saman tvær hljómsveitir, hin breska The Venus in Furs sem innihélt þá Thom Yorke og Johnny Greenwood (Radiohead), Bernard Butler (Suede), Andy Mackay (Roxy Music) og David Gray og var hún hljómsveitin á bakvið Brian Slade. Ameríska hljómsveitin sem studdi við bakið á Curt Wild kallaðist Wylde Ratttz og stóð saman af Ron Asheton (The Stooges), Thurston Moore og Steve Shelley (Sonic Youth) og þremur öðrum minna þekktum listamönnum. Þá gegna meðlimir Placebo örlitlu hlutverki í myndinni og spila meðal annars sína útgáfu af „20th Century Boy“.

christian-velvet-goldmine---miramax

Christian Bale í gervi sínu í myndinni.

Aðalleikararnir þrír standa sig allir vel en þó þykir mér Rhys Meyers vera sístur af þeim enda hef ég aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af kauða sem leikara. Christian Bale er ólíkur sjálfum sér enda er karakterinn hans talsvert kvenlegri en hann er þekktur fyrir í dag. Hann sýnir þó traustan leik eins og hans er von og vísa og heldur myndinni saman. Ewan McGregor stendur sig vel og þá sérstaklega í söngnum en hann söng lögin sín sjálfur og gef ég mönnum alltaf prik fyrir það.

Ég tel að þessi kvikmynd sé eilítið vanmetin og á fárra vitorði en ég mæli hiklaust með henni og sérstaklega fyrir þá sem hafa dálæti á tónlist með áherslu á glysrokkið.

– Torfi

Árslisti: Bestu íslensku plöturnar 2012

Eins og ég hef komið inn á áður þá var íslenska tónlistarárið afar safaríkt og man ég ekki eftir betra ári hvað plötur varðar. Hér eru 10 bestu plötur ársins að mati Pottsins.

Star Crossed# 10

Þórunn Antonía – Star Crossed

Hér sameinast fingur Davíðs Berndsen og silkimjúk rödd Þórunnar Antoníu. Platan er vel poppuð og gamaldags en það sem kannski háir henni er hversu ófjölbreytt hún er.

Helstu lög: Lovers in the Night, So High og Too Late.

 

 

Tilbury - Exorcise# 9

Tilbury – Exorcise

Frumburður stjörnusveitarinnar Tilbury gerði ágætis lukku á árinu og eru nokkrar helvíti fínar lagasmíðar á Exorcise, þær hefðu bara mátt vera fleiri.

Helstu lög: Drama, Slow Motion Fighter, Sunblinds og Tenderloin.

 

 

Ojba Rasta# 8

Ojba Rasta – Obja Rasta

Það var kominn tími á að einhver önnur reggí sveit en Hjálmar stigi fram og það gerðu liðsmenn Ojba Rasta svo sannarlega með reggí-döbb frumburðinum sínum. Skemmtilegir textar í bland við glaðværa tónlist klikkar seint!

Helstu lög: Gjafir jarðar, Hreppstjórinn og Jolly Good.

 

 

valdimar---um-stund# 7

Valdimar – Um stund

Undraland var afar vel heppnuð plata og það má segja að það hafi verið smá pressa á Valdimar að fylgja henni eftir. Um stund er ögn rólegri og heilsteyptara verk en það vantar samt fleiri hittara.

Helstu lög: Beðið eftir skömminni, Sýn og Yfir borgina.

 

 

nora - himinbrim# 6

Nóra – Himinbrim

Hér er um að ræða metnaðarfulla plötu frá hljómsveitinni Nóru. Lögin eru stór og minna stundum á sveitir eins og Arcade Fire. Þú byrjar ekkert að hlusta á þessa nema að þú gerir það til enda.

Helstu lög: Himinbrim, Kolbítur og Sporvagnar.

 

 

 

sigur-ros-valtari-cd-packshot-lst097077# 5

Sigur Rós – Valtari

Enn einn osturinn frá okkar ástkæru Sigur Rós. Ekki besta platan þeirra en persónulega er ég meira fyrir Takk… og Ágætis byrjun plöturnar en þessi er meira í takt við (). Róleg og sveimandi sem hlýjar í kuldanum.

Helstu lög: Dauðalogn, Rembihnútur og Varúð.

 

 

Moses_Hightower__5020f334e3b5f# 4

Moses Hightower – Önnur Mósebók

Hressasta hljómsveit landsins, það er ekki spurning. Þeir halda hér vel á spöðunum en hér er um rökrétt framhald að ræða frá Búum til börn. Hnittnir textarnir passa svo vel við vandaðan og undurfagran hljóðfæraleikinn að það hálfa væri hellingur.

Helstu lög: Háa c, Sjáum hvað setur og Stutt skref.

 

 

Petur# 3

Pétur Ben – God’s Lonely Man

Ó hve lengi ég beið þín segi ég nú bara. Sex ár liðin frá síðustu plötu sem gerði góða lukku. Pési hefur þroskast mikið sem lagahöfundur og hljómar platan eftir því. Pétur Ben minnir mig svolítið á Lou Reed áður en hann missti það og er ég ekki fær um að hrósa meir en það.

Helstu lög: Cold War Baby, Tomorrows Rain og Yellow Flower.

 

Dyrd# 2

Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Ásgeir „Stormsveipur“ Trausti þarf enga kynningu en ég man ekki eftir öðrum eins sigurfara í íslenskri tónlistarsenu. Hugljúfar lagasmíðarnar og björt röddin með íslensku textunum er eitthvað sem virkar á alla Íslendinga.

Helstu lög: Dýrð í dauðaþögn, Hljóða nótt, Hærra og Nýfallið regn.

 

Enter 4# 1

Hjaltalín – Enter 4

Mögulega síðasta platan sem kom út á árinu og hvað það er nú gaman þegar að svona konfektmoli kemur óvænt úr kassanum. Besta plata Hjaltalín hingað til en samstarf Högna og GusGus hefur líklega gert honum gott og má heyra áhrif hér og þar á plötunni. Hjaltalín er mögulega ein best mannaðasta sveit á Íslandi í dag með sjálfan Jesú Krist (Högni) í fararbroddi. Svona mannskapur veitir einfaldlega bara á gott!

Torfi

Árslisti: Bestu erlendu plöturnar 2012

Ég hef oft upplifað betri ár hvað erlendar plötur varðar. Oftast hef ég hent í lista sem spannar 20 plötur en í ár átti ég í mesta basli að fylla út lista yfir 10 plötur og þá er nú mikið sagt. Það er nú samt alltaf þannig að maður missir af einhverjum plötum og uppgvötvar þær ekki fyrr en í ársbyrjun 2013 og myndu þá listarnir gjörbreytast í kjölfarið. En þessar tíu plötur stóðu upp úr í ár að mínu mati.

FatherJohn_fearfun# 10

Father John Misty – Fear Fun

Fear Fun er fyrsta plata tónlistarmannsins Joshua Tillman undir nafninu Father John Misty en hann er fyrrum meðlimur hljómsveitarinnar Fleet Foxes. Hann spilar indí rokk af mikilli snilld og minnir á menn eins og Bonnie „Prince“ Billy og Devandra Banhart. Platan er tjilluð og rennur ljúft í gegn og gerir ekki endilega kröfur um 100% athygli. Góð í ísbíltúrinn!

Helstu lög: Hollywood Forever Cemetery Sings, I’m Writing a Novel og Well, You Can Do It Without Me.

plants# 9

Plants and Animals – The End of That

Þriðja breiðskífa Plants and Animals leit dagsins ljós í lok febrúar á þessu ári. Ég hef svo sem ekki verið var við mikla spilun á lögum af plötunni né séð plötuna ofarlega á neinum árslistum enn sem komið er. En platan er þrusu fín að mínu mati og þeirra besta til þessa.

Helstu lög: The End of That, Lightshow og No Idea.

 

django album# 8

Django Django – Django Django

Þó að ég sé enn sár út í Django Django fyrir að hafa beilað á Airwaves verður ekki litið framhjá plötunni sem þeir gáfu út í ár. Hér hræra þeir saman allskyns stefnum sem gengur vel upp. Afskaplega grípandi og þétt lög sem hefði svo sannarlega verið gaman að fá að upplifa í Silfurbergi í nóvember.

Helstu lög: Default, Hail Bop, Life’s a Beach og Wor.

 

Lana-Del-Rey-Born-To-Die1-608x608# 7

Lana Del Rey – Born to Die

Eftir að hafa slegið í gegn árið 2011 með lögunum „Video Games“ og „Blue Jeans“ var ég orðinn mjög spenntur fyrir plötunni Born to Die. Í fyrstu var ég ekki svo hrifinn en með tímanum varð hún alltaf betri og betri og var ég alltaf að eignast ný og ný uppáhalds lög.

Helstu lög: Blue Jeans, National Anthem, Summertime Sadness og Video Games.

 

Lonerism# 6

Tame Impala – Lonerism

Eftir að hafa heyrt lagið „Elephant“ á X-inu ákvað ég að fletta upp hljómsveitinni á alnetinu og ná í plötuna þeirra. Ég sé ekki eftir því enda um eina bestu plötu ársins að ræða. Hér tekst meðlimum að búa til melódíska sækadelíu með miklum sóma en Kevin Parker forsprakki sveitarinnar var undir miklum áhrifum af popptónlist við gerð plötunnar. Plata sem vinnur sífellt á og ef árið væri lengra gæti vel verið að hún hefði endað ofar á þessum lista.

Helstu lög: Elephant, Enders Toi, Feels Like We Only Go Backwards og Keep On Lying.

grimes-visions-608x608# 5

Grimes – Visions

Grimes eða Claire Boucher er einstakur listamaður sem er ólíkur öllum þeim sem ég hef heyrt í áður. Í fyrstu fannst mér tónlistin hennar frekar skrítin en ég lærði að meta hana eftir því sem ég heyrði lögin oftar. Boucher er með hárfína og í rauninni barnalega rödd sem er engri lík. Tónlistin er einhvers konar samsuða af draumkenndu elektrónísku poppi og sómar sér oft vel á dansgólfinu. En hún virkar líka bara heima í góðum hátölurum þegar þú ert að flakka um á netinu. Visions er dæmi um tímalausa plötu sem mun virka um ókomna tíð.

Helstu lög: Oblivion, Symphonia IX (My Wait Is U), Visiting Statue og Vowels = Space and Time.

The-Walkmen-Heaven-608x536# 4

The Walkmen – Heaven

Það var lagið „Heartbreaker“ sem kom mér á bragðið varðandi þessa plötu. Ef ég hefði ekki heyrt það í þetta eina skipti í útvarpinu hefði ég líklega aldrei tékkað á þessari plötu. The Walkmen eru engir nýgræðingar á markaðnum en Heaven er þeirra sjöunda plata á ferlinum. Hér er um að ræða afskaplega grípandi indí rokk með póst-pönk áhrifum. Á plötunni er enginn farþegi og mætti halda að gripurinn hafi fallið af himnum ofan.

Helstu lög: Heartbreaker, Love Is Luck, Song for Leigh og The Witch.

an awesome wave# 3

Alt-J – An Awesome Wave

An Awesome Wave er með sterkari frumburðum sem ég hef heyrt lengi. Alt-J eru vísindamenn þegar kemur að tónlist og leika þeir sér að allskyns stefnum. Söngurinn minnir mann oft á tíðum á söngvarann í Clap Your Hands Say Yeah en þó talsvert betri. Platan rennur þægilega í gegn og er í senn áferðafalleg, vel samin og útpæld. Meðlimir hafa greinilega eitthvern bakgrunn í kór enda raddanir í mörgum lögunum alveg óaðfinnanlegar. Framtíðin liggur líklega einungis uppá við og spái ég því að þeir verði með stærri nöfnum á tónlistarhátíðum á næsta ári.

Helstu lög: Breezeblocks, Ms, Something Good og Tessellate.

Hot_Chip_-_In_Our_Heads_album_cover# 2

Hot Chip – In Our Heads

Það þarf ekkert að kynna Hot Chip enda hafa þeir séð um að fólk hafi gaman af lífinu í um átta ár. Hér eru þeir mættir með fimmtu breiðskífuna og þá bestu hingað til fullyrði ég. Það má ekki gleyma því að Hot Chip eru alveg jafn góðir í rólegu lögunum eins og þeim dansvænu og eru „Look at Where We Are“ og „Now There Is Nothing“ góð dæmi um það. En þeir sjá líka til þess að þú svitnir með lögum eins og „How Do You Do“ og „Flutes“. Það er spurning hvort að Hot Chip leggi árar í bát núna því að ég efast um að þeir eigi eitthvern tímann eftir að toppa þessa.

Helstu lög: Flutes, How Do You Do, Motion Sickness og Look at Where We Are.

Channel_ORANGE# 1

Frank Ocean – Channel Orange

Fyrsta hljóðvers plata Frank Ocean og enginn smá gripur! Ég er nú ekki þekktur fyrir að hlusta mikið á R&B en Frank Ocean náði mér á sitt band í fyrra og því fylgdist ég með kauða í ár. Tónlist Ocean er undurfögur og spilar þar söngur hans og tjáning stóra rullu. Er platan kom út gaf Frank það út að hann væri samkynhneigður og má segja að platan sé undir áhrifum frá því en hún fjallar oft á tíðum um óendurgoldna ást, kynhneigð og trú. Það má því segja að Frank Ocean sé með stóran böll enda samkynhneigð ekki beint þekkt í bransa dökka mannsins. En það hefur heldur betur ekki gert neitt annað en að styrkja hann á markaðnum. Ég tel að með Frank Ocean höfum við eignast Marvin Gaye okkar kynslóðar bara mínus e-ið.

Helstu lög: Bad Religion, Forrest Gump, Lost, Pink Matter og Thinkin Bout You.

Torfi

Árslisti: Bestu íslensku lögin 2012

Mig grunar að íslenskir tónlistarmenn hafi verið frekar smeykir við að heimurinn myndi enda 20. desember í ár og því hafi þeir haft hraðar hendur og gefið frá sér miklu betri lög í kjölfarið. Það var því úr nógu að velja úr góðum íslenskum lagasmíðum en þetta eru þau tíu lög sem stóður upp úr að mínu mati.

Ásgeir Trausti – „Dýrð í dauðaþögn“

Þeir eru fáir sem hafa komið inn í íslenskt tónlistarlíf á jafn hvítum hesti og Ásgeir Trausti gerði í ár. „Dýrð í dauðaþögn“ er eitt af mörgum frábærum lögum á samnefndri plötu en með aðeins meiri vídd og tilþrifum en restin.

BlazRoca & Ásgeir Trausti – „Hvítir skór“

Þetta lag heillaði mig ekki við fyrstu hlustun en svo tók ég húmorinn á þetta og fór að meta lagið upp á nýtt. Þrátt fyrir að hafa komið seint út á árinu er þetta eitt af mest spiluðu lögunum á iPodinum mínum.

Hjaltalín – „We“

Frábært lag frá einni heitustu hljómsveit landans undanfarin ár. Lagið er stórt og mætti það alveg vera lengra fyrir mér.

Legend – „City“

Krummi sýnir á sér nýjar hliðar og tekst það einkar vel því að hann er greinilega sniðinn fyrir raftónlistina.

Moses Hightower – „Sjáum hvað setur“

Ein skemmtilegasta hljómsveit sem Ísland hefur alið af sér í langan tíma. Þeir sem hafa ekki farið á tónleika með þessum gleðigjöfum eru heppnir að heimurinn endaði ekki fyrir þremur dögum.

Ojba Rasta – „Hreppstjórinn“

Ég varð ekki var við hljómsveitina Ojba Rasta fyrr en á þessu ári og þvílíkur dýrðardagur sem það var þegar ég lagði hlustir á „Hreppstjórann“ og „Jolly Good“. Það er bara synd að þeir hafi ekki hent laginu á YouTube því lagið þeirra bitnar á fegurð þessarar færslu.

Pétur Ben – „Tomorrows Rain“

http://www.gogoyoko.com/song/799641

Ekki er Pétur Ben skárri en lagið hans er hvorki að fínna á Souncloud né YouTube. En lagið er engu að síður gott og kannski pínu svindl að það fái að fljóta með þar sem það er gamalt. En það vegur víst þyngra þegar lagið er formlega gefið út heldur en spilað á tónleikum.

Sin Fang – „Only Eyes“

Sindri Sin Fang er duglegur í tónlistarsköpun og gefur reglulega út lög undir ýmsum nöfnum, þó aðallega Sin Fang og Pojke um þessar mundir. „Only Eyes“ er ofboðslega hressandi og áferðafalleg lagasmíð og ekki sekúndubrot sem fer til spillis. Það má búast við því að Sindri verði atkvæðamikill á næsta ári.

Tilbury – „Tenderloin“

Fyrsti síngúllinn úr smiðju súpergrúppunar Tilbury. Það er einhver gamall andi yfir laginu sem er svo heimilislegur og þægilegur og hefur afslappaður söngur Þormóðs þar mikið að segja. Vonandi verður hann fyrirmynd fyrir aðra trommara sem dreymir um að stíga aðeins framar á sviðið en þora ekki að taka af skarið.

Þórunn Antonía – „Too Late“

Það er við hæfi að enda þetta á ísdrottningunni sjálfri Þórunni Antoníu. Lagið hefði gert það gott á níunda áratugnum get ég ímyndað mér og gallinn sem Tóta skartar í myndbandinu og dans tilþrifin hefðu einnig fengið góðar undirtektir. En það hefur einnig erindi nú árið 2012 enda frábært lag, frábært myndband og frábærir listamenn hér á ferð.

Torfi

Árslisti: Bestu erlendu lögin 2012

Þá er farið að styttast í annan endan á tónlistarárinu 2012 sem hefur verið býsna gott. Potturinn ætlar í tilefni af því að henda í nokkra árslista og hefjum við leikinn á bestu erlendu lögunum sem komu út í ár.

Dry the River – „New Ceremony“

Þetta lag fékk örlitla spilun á X-inu í sumar og skrítið að það hafi hreinlega ekki slegið í gegn. Grafalvarlegt lag í anda Fleet Foxes og söngurinn norskur og fínn.

Frank Ocean – „Bad Religion“

Ég er ekki viss um að margir hafi kannast við nafnið Frank Ocean í ársbyrjun 2012. En í dag er maðurinn á allra vörum og hefur fólk keppst um að lofa manninn. Lagið „Bad Religion“ er fimm stjörnu lag þar sem allt gengur upp, lagið, söngurinn og textinn. Frank talar svolítið undir rós í laginu en það má lesa út úr textanum að hann sé að tala um hinn almáttuga og hvaða áhrif kynhneigð hans hefur á trúnna. Fullorðins stöff.

Hot Chip – „These Chains“

Eitt af mörgum frábærum lögum af plötunni In Our Heads sem kom út í ár. Ég kemst í mikinn fýling við það eitt að heyra byrjunarstefið í laginu og melódían situr fast í höfðinu á mér eftir á.

Jessie Ware – „Wildest Moments“

Söngkonan Jessie Ware gerði það gott með SBTRKT í fyrra en í ár sendi hún frá sér sína fyrstu plötu undir sínu eigin nafni. Þó að platan í heild hafi ekki verið neitt sérstök þá leynast inn á milli fínustu lög eins og „Wildest Moments“. Sagan segir að lagið fjalli um samband Jessie og vinkonu hennar Söru en lagið er einmitt afrakstur rifrildis þeirra á milli.

Ko Ko – „Float“

Þetta lag heyrði ég í útvarpinu í Noregi og bjargaði það rigningardeginum í Sandnesi að fá eitt svona sumarlegt og seiðandi í eyrun. Ég hef samt ekki hundsvit á þessari hljómsveit en þeir geta greinilega búið til góða tónlist.

Lana Del Rey – „National Anthem“

Lana Del Rey tók við keflinu af Adele sem hafði einokað árið 2011 með plötunni sinni 21. Lana gaf út plötuna Born to Die og meira til. Lana er skemmtileg að því leyti að hún er fjölhæfur listamaður sem lætur sér ekki nægja að gefa út lög heldur hleður hún í metnaðarfull myndbönd sem eru lostafull og dramatísk. Kynþokkinn skín af henni og verður fróðlegt að fylgjast með framgangi hennar.

Perfume Genius – „Hood“

Perfume Genius eða Mike Hadreas fer ekki leynt með kynhneigð sína eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. Hér er hann með eitt lítið lag sem er samt svo stórt. Eitt af þessum lögum sem maður vildi óska að væru lengri.

Santigold – „Disparate Youth“

Enn eitt lagið sem ég heyrði fyrst í útvarpinu í Noregi. Santigold getur greinilega ekki ákveðið sig en hún blandar saman elektróník, hipp-hoppi, döbbi og ég veit ekki hvað og hvað. Lag sem kemur mér alltaf í gírinn.

Tame Impala – „Keep on Lying“

Draumkennd sækadelía í boði Tame Impala. Söngvari sveitarinnar var undir miklum áhrifum frá popptónlist og til að mynda var Britney Spears ofarlega í huga hans á meðan hann samdi lögin. Hér mætast grípandi popp melódía og sækadelía eins og hún gerist best.

The Walkmen – „Heartbreaker“

Þó að liðsmenn The Walkmen séu að eldast virðist það ekki há tónlistarsköpun þeirra. „Heartbreaker“ er grípandi lag frá byrjun til enda.

Torfi

Allt að gerast hjá John Grant

John Grant á góðum degi.

John Grant á góðum degi.

Þá er það komið á hreint, næsta plata John Grant sem hefur fengið nafnið Pale Green Ghosts kemur út í mars á næsta ári og var jafnframt titillag plötunnar opinberað í gær með myndbandi. Eins og kunnugt er hefur Grant dvalið hér á landi síðan í byrjun þessa árs og hefur hann verið iðinn við tónleikahald auk þess sem hann hefur verið að vinna að næstu plötu ásamt Bigga Veiru úr GusGus.

Af nýja laginu að dæma hefur Biggi haft rafræn áhrif á John sem eru góðar fréttir og hljómar lagið eftir því. Ég ætla samt að vona að einhver af lögunum sem að John flutti í Austurbæ í sumar fái að fylgja með en þar voru nokkrar afbragðs lagasmíðar í gangi. Mér sýnist á öllu að myndbandið hafi verið skotið á Íslandi en það má vel vera að ég hafi rangt fyrir mér.

Torfi