Monthly Archives: nóvember 2015

Airwaves ’15: Laugardagur

Pink Street Boys var fyrsta atriðið sem ég kíkti á laugardaginn en þeir komu fram off venue á neðri hæð Bar 11. Staðurinn var pakkaður og naut ærslafullt rokk drengjanna sín vel. Eftir að hafa heyrt strákana flytja „Evel Knievel“ kvaddi ég Bar 11 og tók stefnuna á Lucky Records.

Í Lucky Records voru aðrir off venue tónleikar, í þetta sinn með hljómsveitinni Markús & the Diversion Sessions sem gaf nýlega út plötuna The Truth the Love the Life sem inniheldur m.a. hið frábæra „É bisst assökunar“. Það var létt yfir sveitinni í Lucky og renndi hún í nokkur lög af plötunni sem var hvert öðru skemmtilegra. Greinilega hörku fínt band hér á ferðinni og hvet ég fólk til að skoða hana vel.

Fyrsta on venue atriði kvöldsins hjá mér var bandaríska hljómsveitin Porches. sem var opnunaratriði Silfurbergs þetta kvöldið. Ég hef alveg séð hressari frontmenn en þessi ágæti maður var steinhissa á góðri mætingu og talaði um að ef tónleikarnir væru í New York væri enginn á svæðinu. Að mínu mati var styrkurinn í hljóðkerfi salsins full mikill sem kom niður á upplifuninni. Þó voru öll lögin frekar keimlík svona heyrandi þau flest öll í fyrsta skipti. „Headsgiving“ var hápunktur kvöldsins og þeirra sterkasta lag að mínu mati. Áður en ég sleppi Porches. alveg þá má kannski minnast á hræðilegan brandara sem einn meðlimur sveitarinnar sagði. Q: What do you call Adele when she’s on the bottom of the ocean? A: Adele rolling in the deep.

Ég færði mig yfir í Norðurljósasal til þess að sjá tónleika SOAK sem er hugarfóstur írska tónlistarmannsins Bridie Monds-Watson. SOAK spilar draumkennda indí popptónlist og spilar sjálf á gítar og syngur en er gjarnan studd af trommuleikara og öðrum gítarleikara. Bridie er fínasti lagahöfundur þó að lögin risti kannski misdjúpt. „B a noBody“ er án efa hennar sterkasta lag enda lagið fengið næstum 10 milljón spilanir á Spotify. Fínasta dagsverk hjá SOAK þó að engin undur og stórmerki hafi átt sér stað.

Þá var að færa sig aftur yfir í Silfurbergið þar sem að Beach House, eitt af stóru atriðum hátíðarinnar í ár var að stíga á svið. Beach House hefur getið sér góðan orðstír undanfarin ár með sínu draumkennda poppi og indí rokki og eru tónlistarmiðlar almennt afar ánægðir með það sem sveitin hefur verið að bjóða uppá á sínum ferli sem spannar sex breiðskífur. Það má því segja að væntingar fólks til tónleika sveitarinnar hafi verið miklar þó að ég sjálfur hafi stillt mínum í hóf. Fyrir utan smá basl við hljóðkerfið stóð sveitin sig þokkalega og nokkuð ljóst að þarna var reynslumikil sveit á ferð. En eins og einn félagi minn benti á er einn klukkutími af Beach House alveg feykinóg. Það er ekki beint brjáluð fjölbreytni í tónlist Beach House þó það sé vissulega afar notalegt að staldra við hjá henni stöku við. Eftir rúmlega 50 mínútur lét ég mig hverfa úr Silfurberginu.

Sem fyrr var röltið ekki langt og var ég enn og aftur mættur í Norðurljósasal til að sjá BC Camplight. Ákvörðunin um að yfirgefa Beach House reyndist vera rétt því að fyrsta lag hljómsveitarinnar var hið magnaða „You Should’ve Gone to School“ sem er eitt af bestu lögum ársins. Eini gallinn við þessa frábæru byrjun var að ég óttaðist að Brian Christinzio hefði tekið slagarann of snemma. Þær áhyggjur voru óþarfar enda Brian alltof skemmtilegur karakter og góður lagahöfundur til að láta einhverjum leiðast á tónleikum sínum. Brian var vopnaður rauðvínsflösku sem hann var duglegur að þamba á milli laga en þess á milli sýndi hann magnaða tilburði í söng og píanóleik og af þeim sökum hef ég ákveðið að gefa honum viðurnefnið „hinn hvíti Stevie Wonder“. Einir eftirminnilegustu tónleikar hátíðarinnar hingað til.

IMG_4120

Næst tók við stutt stopp á stærðfræðirokkurunum Battles sem voru eins og allir stærðfræðingar, stórfurðulegir. Hressandi innspýting samt í kvöldið og hefði verið gaman að staldra lengur við.

Flakkið á milli Silfurbergs og Norðurljósasals hélt áfram og nú voru sálardívurnar í Saun & Starr mættar í síðarnefnda salinn. Það var einkar hentugt að hafa rifjað upp kvikmyndina The Commitments nýlega sem virkaði eins og upphitun fyrir Saun & Starr. Stöllurnar voru í hörku stuði sem og hljómsveitin og matreiddu þau í sameiningu sálarbræðing af bestu sort. Enn og aftur skemmtileg tilbreyting frá öðrum atriðum hátíðarinnar.

Síðasta atriðið sem ég tók í Hörpu var GusGus flokkurinn í Silfurbergi en þeir eru fáliðaðir eins og er en eftir standa Biggi Veira, Högni og Daníel Ágúst, hin heilaga þrenning vil ég meina. Eftir að hafa hitað mig vel upp allt kvöldið var ég tilbúinn að gefa mig allan á vald GusGus. Til þess að gera það er það algjört grundvallaratriði að loka augunum og leyfa öðrum skilningarvitum að sjá um að vinna úr áreitinu. Það skilaði sér í stórum og miklum danshreyfingum og engu líkara en að maður væri mættur í þrek í ræktinni frekar en tónleika á Airwaves. Ég man ekki nákvæmlega hvaða lög voru leikin á tónleikunum en þarna voru þó nokkur lög af Mexico eins og „Obnoxiously Sexual“, „Crossfade“ og „Airwaves“. „Over“ af Arabian Horse var þarna líka sem og eitt glænýtt lag sem kom jafnvel út og „Crossfade“ þegar GusGus frumflutti það á Sónar árið 2013. Æðislegir tónleikar og skynvitund mín sjaldan haft það betra.

Áður en koddinn tók við kíkti ég inn í Gamla bíó en þar var AmabAdamA að spila. Reggísveitin hefur unnið sig í áliti hjá mér jafnt og þétt á árinu og fannst mér áhugavert að sjá hvernig hún myndi tækla hálf þrjú giggið sitt. Það má segja að sveitin hafi rúllað því upp enda var salurinn gjörsamlega á valdi reggítóna AmabAdamA. Ég lét mér nægja að njóta af svölunum enda útkeyrður eftir þrektímann hjá GusGus. Eftir tónleikana fór ég heim miklu meira en sáttur eftir vel lukkaðan dag!

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Airwaves ’15: Föstudagur

Á föstudeginum ákvað ég að byrja kvöldið í Iðnó og var mættur stundvíslega fyrir kl. 20 en þá átti Helgi Valur að koma fram. Helgi Valur gaf að mínu mati út eina bestu plötu ársins í sumar, Notes from the Underground og var ég spenntur að sjá hvað hvernig hann myndi útfæra lögin af þeirra plötu á tónleikum. Helgi var studdur af fjögurra manna hljómsveit sem spilaði á allt þetta helsta (trommur, gítar, bassa og hljómborð) og var vitaskuld sjálfur vopnaður gítar. Fyrsta lag kvöldsins var upphafslag nýju plötunnar, „Angels Lefou“ og allt var eins og það átti að vera. Næsta lag á eftir var hið fallega „Þó að aldrei stytti upp“, eitt af lögum ársins og aðeins annað lagið á ferli Helga sem hann syngur á íslensku. Helgi bætti við þremur lögum af Notes from the Underground og renndi svo í ábreiðu af „Pale Blue Eyes“ eftir Lou Reed sem passaði einstaklega vel í prógammið. Síðasta lag Helga í Iðnó var hið magnaða „Love Love Love Love“ en á plötunni telur það um 13 mínútur. Þar sýndi Helgi allar sínar bestu hliðar, hvort sem það var í söng, rappi eða gítarsólói. Glæsilegur endir á vel heppnuðum tónleikum.

IMG_4099
Ferðinni var heitið í Hörpu til að sjá Hjaltalín kl. 21 en þegar út var komið hellirigndi þannig hætt var samstundis við þau plön í staðinn kíkt inní Tjarnarbíó þar sem hin svissneska Verveine var að spila. Verveine er raftónlistamaður sem spilar einhverja blöndu af vélbúnaðarraftónlist og skringipoppi. Hún spilaði taktfasta tóna og samplaði söng á staðnum og hafði í nógu að snúast uppá sviði. Gestir Tjarnarbíós voru ánægðir og hreyfðu sig í takt við tónlist Verveine en mæting var nokkuð góð í bíóinu.

Því næst hélt ég á Nasa þar sem Serengetíið með President Bongo og félögum var að klárast. Þeir tóku gesti með sér í ferðalag til villtustu Afríku þar sem lögmál náttúrunnar gilda. Í lokin á tónleikunum kom Samúel Jón ásamt fleirum blástursleikurum og blésu síðustu tónanna í Serengetíinu. Þetta var frábrugðið öllu sem ég hafði séð hingað til og ánægjulegt að ná í skottið á þessari frumbyggjaveislu.

Kanadíska hljómsveitin BRAIDS var næst á svið en nýjasta platan frá þeim, Deep in the Iris þykir vera ein af bestu plötum ársins. Það var einhvern veginn svipuð upplifun hjá mér af BRAIDS eins og Father John Misty daginn áður. Þú getur hlustað á þessa listamenn í tölvunni heima hjá þér en það er svo allt annað að upplifa lögin þeirra á tónleikum. Þau matreiða tónlist sína á þann veg að lög sem þér fannst vera ágæt áður eru allt í einu stórkostleg á sviði í lifandi flutningi. BRAIDS er dæmi um frábært tónleikaband og var Nasa algjörlega sniðinn að hljómsveitinni. Það er einhver magnaður kraftur í þessu húsi sem lætur hljómsveitir líta betur út. Allir meðlimir BRAIDS stóðu sig vel og þá sérstaklega trommarinn og Raphaelle sem býr yfir magnaðri rödd. Einir bestu tónleikar hátíðarinnar.

IMG_4101
Kynnin við Iðnó voru endurnýjuð og var planið að ná í skottið á tónleikum French for Rabbits frá Nýja-Sjálandi. Hljómsveitin spilar rólegt draumskotið popp-rokk sem var eiginlega full rólegt fyrir mann sem var að koma af BRAIDS. Þó var gaman að heyra þau taka lagið „The Other Side“.

Lélegar ákvarðanir héldu áfram og í stað þess að fara í Hörpuna að sjá Grísalappalísu í Silfurbergi var ákveðið að staldra við í Iðnó og sjá Júníus Meyvant. Ekki misskilja mig, ég fýla Júníusinn drullu vel en hann var kannski ekki rétti maðurinn til að keyra upp stuðið hjá manni á þessu föstudagskvöldi. Auk þess hef ég séð hann margoft áður. Hann skilaði þó sínu fyrir framan pakkaðan Iðnósal.

Þá var loks haldið í Hörpuna til að sjá allavega Ariel Pink. Því miður var ég nýkominn úr deifingu frá Iðnó og var þess vegna ekki móttækilegur fyrir sýrunni og látunum sem hann bauð uppá ásamt hljómsveit sinni. Ég reyndi eins og ég gat og var á tónleikunum í svona 30-40 mínútur en gafst loks upp og gekk út. Ekki beint endirinn sem ég hafði séð fyrir mér á þessu annars efnilega föstudagskvöldi sem byrjaði mjög vel en endaði illa þökk sé slæmri ákvarðanatöku.

Torfi Guðbrandsson

Airwaves ’15: Fimmtudagur

Á fimmtudeginum var fyrst haldið í Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar þar sem Grísalappalísa var að gera sig klára fyrir utan dagskrár tónleika sína. Grísalappalísa er í miklu uppáhaldi hjá mér og er klárlega ein besta tónleikasveit landsins um þessar mundir. Stemningin var létt og skemmtileg og voru piltarnir í versluninni rausnarlegir og dreifðu ísköldum bjór fyrir þyrsta gesti. Grísalappalísa henti í frábæra tónleika eins og við var að búast og spiluðu í rúma klukkustund sem er óvanalegt fyrir off venue tónleika. Lísurnar voru þarna að hita sig upp fyrir tónleikana í Hörpu á föstudagskvöldið en skipuleggjendur hátíðarinnar hafa greinilega tröllatrú á hljómsveitinni.

Ferðinni var næst heitið á Gaukinn þar sem pönk hljómsveitin Elín Helena var að spila. Því miður náði ég aðeins helmingnum af tónleikunum en sá þó sveitina taka „Listamaður“ og nýja lagið „Ég bara spyr“. Pönksveitin var örugg í öllum sínum aðgerðum og spilaði lögin sín hátt og snjallt.

Næst var ferðinni heitið á Nasa en þangað hafði ég ekki stigið inn fætinum síðan 2010 og voru það mikil gleðitíðindi þegar ég sá að þessi magnaði tónleikastaður yrði nýttur í hátíðina í ár. Hljómsveitin Börn opnaði föstudagskvöldið á Nasa en ég er enn að klóra mér í höfðinu yfir því að hafa ekki fjárfest í plötunni þeirra í fyrra (ef einhver vill selja mér sitt eintak má hann hafa samband!). Börn er skipuð þremur stelpum og einum strák sem sér um trommuleikinn. Það var ógnarkraftur í hljómsveitinni á Nasa sem mataði gesti af harða dauðapönkinu sínu með glæsibrag.

Fríkirkjan var næsti áfangastaður en þar var Kristín Anna að klára sína tónleika. Kristín Anna var eitt sinn meðlimur í múm og spilar víst á hvaða hljóðfæri sem er. Að þessu sinni spilaði hún á flygil og söng og greinilega ljóst að þarna var atvinnumaður á ferð. Tónlistin var þó ekkert sérstaklega frumleg en CocoRosie og Joanna Newsom skutu upp kollinum er ég hlýddi á Kristínu. Þrátt fyrir ófrumleikann var notalegt að hlusta á Kristínu og alveg þess virði að hafa auga með henni á næstunni.

Næst á dagskrá var hin finnska Mirel Wagner og var hún jafnframt fyrsta erlenda atriðið hjá mér þetta árið. Því miður voru tónleikar hennar frekar litbrigðalausir en hún spilaði á fallegan kassagítar og söng. Lögin voru öll með sama strúktur og breyttist tónninn í röddinni hennar aldrei. Þetta var líkt og hún væri að segja margar sögur í formi afslappaðs söngs og gítarleiks. Mirel spilaði alveg slatta af lögum sem ég get ómögulega munað fyrir utan „Oak Tree“ sem er hennar lang sterkasta lag. Aðeins of einhæft fyrir minn smekk.

Auðvitað var ástæðan fyrir viðveru minni í Fríkirkjunni tónleikar Agent Fresco og náði ég góðu sæti á þriðja bekk. Tónleikar Agent Fresco voru með breyttu sniði en vanalega eða órafmagnaðir (e. acoustic) og hafði Arnór komið því á framfæri daginn áður að farið yrði betur í söguna á bakvið lögin og textana. Hugmyndin fæddist þegar þeir voru að vinna fyrir Reykjarvíkuborg og ákváðu að setja lögin sín í nýjan búning og fara útum allt og spila en það gefur auga leið að kraftmikið rokk Agent Fresco er ekki fyrir hvaða eyru sem er.

Auk meðlima Agent Fresco var fjögurra manna strengjasveit. Hljóðmaður kvöldsins tók sér dágóðan tíma í sína vinnu og las maður það á augnaráði Arnórs söngvara að hann var ekki parsáttur með kauða. Loks hófust tónleikarnir og kunni ég strax að meta órafmagnaða Agent Fresco. Arnór Dan talaði mikið á milli laga og var bæði skemmtilegur og alvarlegur enda yrkisefnin á plötunum tveim ekkert léttmeti. Strengirnir gerðu mikið gagn hvar sem þeir komu inn í lögin og nutu sín vel í kirkjunni. Í sameiningu rúlluðu Agentarnir og strengirnir upp hverju laginu á fætur öðru og var maður næstum því farinn að óska þess að lögin væru svona á plötunum.

Áður en að „Eyes of a Cloud Catcher“, síðasta lag kvöldsins var leikið talaði Arnór um tilurð textans sem hann samdi um kveðjustundina við föður hans sem lést úr krabbameini. Arnór var gráti nær en tók það skýrt fram að hann gæti ekki sungið þetta lag ef hann myndi bresta í grát og það myndi skila sér í því að allir tónleikagestir yrðu grátandi vegna slæms flutnings. Arnór tileinkaði lagið föður sínum heitnum og söng lagið af mikilli innlifun en Tóti spilaði á flygilinn. Flutningurinn var í einu orði sagt magnaður og ég er hræddur um að hverjum einasta gesti hafi vöknað um augun. Kirkjan spilaði að sjálfsögðu risastóra rullu í þessari upplifun. Arnór átti ekki mikið eftir af laginu þegar hann brast í grát og stóðu þá gestir samstundis upp og þar á meðal ég og klöppuðu vel og lengi fyrir Arnóri og þessum mögnuðu tónleikum sem snertu held ég alla í hjartastað. Ég geri kröfu á að Agent Fresco gefi út þessar órafmögnuðu útgáfur af lögunum svo maður geti fengið að njóta laganna í ró og næði á sunnudagskvöldum. Engin pressa samt.

Eftir tónleika Agent Fresco var aðeins kíkt inn á Nasa þar sem að Operators var að spila. Dan Boeckner og félagar voru í miklum ham og litu afskaplega vel út. Algjör synd að hafa ekki séð meira af þeim en svona er Airwaves.

Næstur á dagskrá hjá mér var Father John Misty sem lokaði Silfurberginu í Hörpu þetta kvöldið. Ég gat engan veginn undirbúið mig fyrir þá tónleika enda J. Tillman bersýnilega maður sem maður þarf að sjá með berum augum. Það er mikill glæsileiki yfir kauða og ekki skemmir magnaða röddin sem maðurinn býr yfir. Tónleikarnir fóru nokkuð rólega af stað og eitt lagið var gjörónýtt vegna hátíðnihljóðs í hljóðkerfinu. En það var í seinni helmingnum af tónleikunum sem ég var gjörsamlega heillaður af J. Tillman. Gerðu það að verkum lög eins og „Hollywood Forever Cemetery Sings“ og „Bored in the U.S.A.“ en þar átti sér stað skondið atvik þegar J. Tillman tók síma af áhorfanda sem var með stillt á upptöku og tók upp lokapartinn af laginu. Þegar því var lokið setti hann símann í vasann sinn og sagði við eiganda símans „You will thank me for this later when you have some actual memories of this show“ og uppskar mikil hlátrasköll í salnum. Einnig átti hann sprenghlægilegt atvik er hann sagði það vera frábært að vera kominn til Íslands, heimili kántrýtónlistar sem er náttúrulega mesta þvæla.

Sem sagt ótrúlega skemmtilegur gaur hann J. Tillman og frábær laga- og textahöfundur. Eftir tónleikana fjárfesti ég nýju plötunni hans á vínyl og er kominn með manninn gjörsamlega á heilann. Ótrúlega vel heppnaður dagur og nokkuð ljóst að erfitt yrði að toppa hann.

IMG_4094

 

Torfi Guðbrandsson

Airwaves ’15: Miðvikudagur

IMG_4060

Stundin er loks runnin upp, Iceland Airwaves hátíðin er hafin í 17. sinn! Eins og venjan hefur verið undanfarin á er miðvikudagurinn alltaf helgaður íslensku hljómsveitunum. Miðvikudagurinn er helvíti góður gluggi fyrir íslensku sveitirnar til að heilla erlent bransafólk enda engin truflun af stærri hljómsveitum að utan. Að þessu sinni ákvað ég að kíkja á Iðnó eftir að hafa losnað úr vinnu kl. 22:30.

Ojba Rasta var að klára fyrsta lagið sitt þegar ég kom í hús og var salurinn smekkfullur. Reggísveitin spilaði aðallega ný lög og ljóst að ekki er langt í næstu plötu. Nýja stöffið hljómaði vel og verður sennilega enn betra þegar maður fær að heyra það aftur og getur lagt betur við hlustir. „Einhvern veginn svona“ af plötunni Friður var síðasta lag kvöldsins og mætti Gnúsi Yones í tæka tíð til að sinna sínum þætti í laginu en hann var nýkominn af tónleikum Amadabama í Hörpunni. Fínustu tónleikar hjá Ojba Rasta þó að vissulega hefði verið skemmtilegra að heyra meira gamalt efni.

Flestir meðlimir Ojba Rasta þurftu ekki að fara langt enda Teitur Magnússon, forsprakki Ojba Rasta, næsta atriði á dagskrá. Teitur gaf út frábæra plötu undir lok síðasta árs sem Pottinum fannst eiga skilið þriðja sæti á árslista yfir bestu íslensku plötur þess árs. Aðeins aðgengilegra og léttara efni en Ojba Rasta býður uppá þar sem gleðin, ástin og lífið er í aðalhlutverki. Teitur náði að taka öll lögin af plötunni nema eitt enda platan rétt undir hálftíma að lengd. Teitur og hljómsveit voru þétt og fékk hann aðstoð m.a. frá Samúel Jóni, Zakaríasi Hermani úr Caterpillarmen og kærustu sinni í lokalaginu „Allt líf“. Léttir og skemmtilegir tónleikar í boði Teits og félaga sem náðu að trompa Ojba Rasta í þetta skiptið.

Það var ekki auðveld ákvörðun að velja hvaða hljómsveit maður ætti að taka næst en það kitlaði mikið að fara í Gamla bíó og tékka á Pink Street Boys. Mig hefur hins vegar lengi langað til að sjá Shades of Reykjavík á tónleikum og ákvað því að vera um kyrrt. SoR eru búnir að vera duglegir að gefa út lög og myndbönd uppá síðkastið enda plata á leiðinni sem verður vonandi klár um næstu mánaðamót. Stendur þar klárlega hæst lagið með Ella Grill og Leoncie. Hljómsveitin mætti með fullt af propsi, t.d. stóran kross, tvo hægindastóla og meira að segja húðflúrara sem gerði sér lítið fyrir og flúraði einn gestinn uppá sviði meðan Shades of Reykjavík spilaði. Fremstir í SoR-flokkinum fara þeir Elli Grill, Prins Puffin og Emmi sem sjá að langmestu leyti um rappið á meðan HBridde sér um að skila töktunum í hljóðkerfið. Rapparnir þrír eru ólíkir en þó allir góðir og vega þannig hvorn annan upp. Þeir eiga fullt af flottum lögum og er það nýjasta „DRUSLA“ alveg frussu skemmtilegt lag. Því miður var orðið lítið um manninn í húsinu en það var bara þeirra missir þar sem SoR voru duglegir að gefa áhorfendum bjór og ég tala nú ekki um þá upplifun að sjá húðflúrunina uppá sviði. SoR voru svalir og í fantaformi og gefa tónleikarnir góð fyrirheit fyrir væntanlega plötu sem mun koma til með að loka rappárinu 2015 með stæl.

Ekki hægt að kvarta yfir neinu fyrsta kvöldið á Iceland Airwaves 2015 og ljóst að þrusu hátíð er í vændum!

Torfi Guðbrandsson