Category Archives: Óskarinn

American Hustle og Gravity með flestar tilnefningar til Óskarsins

american-hustle

Tilnefningar til Óskarsverðlaunanna voru kynntar í dag og voru það kvikmyndirnar American Hustle og Gravity sem hlutu flestar tilnefningar eða um 10 talsins. 12 Years a Slave var ekki langt undan en hún fékk 9 tilnefningar. Captain PhillipsDallas Buyers Club og Nebraska fengu allar 6 tilnefningar á meðan The Wolf of Wall Street og Her fengu 5. Nú hafa Óskarsnördar einn og hálfan mánuð til að fara í gegnum myndirnar sem þeir hafa ekki séð en von er á nokkrum í bíó og á dvd áður en stóra stundin rennur upp 2. mars!

Hérna eru helstu tilnefningarnar:

Besta mynd
12 Years a Slave
American Hustle
Captain Phillips
Dallas Buyers Club
Gravity
Her
Nebraska
Philomena
The Wolf of Wall Street

Besti leikari í aðalhlutverki
Christian Bale – American Hustle
Bruce Dern – Nebraska
Leonardo DiCaprio – The Wolf of Wall Street
Chiwetel Ejiofor – 12 Years a Slave
Matthew McConaughey – Dallas Bueyrs Club

Besta leikkona í aðalhlutverki
Amy Adams – American Hustle
Cate Blanchett – Blue Jasmine
Sandra Bullock – Gravity
Judi Dench – Philomena
Meryl Street – August: Osage County

Besti leikari í aukahlutverki
Barkhad Abdi – Captain Phillips
Bradley Cooper – American Hustle
Michael Fassbander – 12 Years a Slave
Jonah Hill – The Wolf of Wall Street
Jared Leto – Dallas Buyers Club

Besta leikkona í aukahlutverki
Sally Hawkins – Blue Jasmine
Jennifer Lawrence – American Hustle
Lupita Nyong’o – 12 Years a Slave
Julia Roberts – August: Osage County
June Squibb – Nebraska

Besti leikstjóri
David O. Russell – American Hustle
Alfonso Cuarón – Gravity
Alexander Payne – Nebraska
Steve McQueen – 12 Years a Slave
Martin Scorserse – The Wolf of Wall Street

Besta teiknimynd
The Croods
Despicable Me 2
Ernest & Celestine
Frozen
The Wind Rises

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Óskarinn 2013

Þá er 85. Óskarsverðlaunahátíðinni lokið en hún fór fram í nótt með pompi og prakt. Grínistinn Seth MacFarlane sá um að kæta og hneyksla gesti til skiptis og þandi einnig raddböndin en hann á jafnvel framtíðina fyrir sér í söngi af frammistöðu hans í nótt að dæma!

Það sem kom kannski mest á óvart á þessari hátíð var það að engin kvikmynd var að sópa til sín öllum helstu verðlaununum heldur var þeim bróðurlega deilt ef svo má segja. Þó mætti segja að Argo hafi verið sigurvegari kvöldsins enda fékk hún verðlaun fyrir bestu mynd og besta handrit byggt á áður útgefnu efni. Argo var þar með fyrsta kvikmyndin sem vinnur án þess að leikstjóri myndarinnar hafi verið tilnefndur, sjálfur Ben Affleck.

Ang Lee fékk hins vegar styttuna fyrir bestu leikstjórn og fær styttan félagsskap heima hjá kauða þar sem hann hreppti sömu styttu fyrir sjö árum síðan fyrir kvikmyndina Brokeback Mountain. Hann leikstýrði að sjálfsögðu hinni mjög svo áhrifaríku og fallegu mynd Life of Pi en hún hlaut flest verðlaunin á hátíðinni en hún vann einnig verðlaun fyrir myndatöku, brellur og tónlist.

Það kom fáum á óvart að Daniel Day-Lewis hafi fengið styttuna fyrir túlkun sína á Abraham Lincoln og var það vel við hæfi að hann tæki við styttunni úr höndum Meryl Streep. Þar með skráði hann sig á spjöld sögunnar því að hann er fyrsti leikarinn sem unnið hefur styttuna þrisvar sinnum en hinar fékk hann fyrir myndirnar My Left Foot: The Story of Christy Brown og There Will Be Blood. Það var svo enginn sem hrökk í kút við það þegar nafn Christoph Waltz var lesið upp úr skjalinu fyrir besta leikara í aukahlutverki, maðurinn var vel að titlinum kominn og það greinilega margborgar sig fyrir kauða að leika í myndum Tarantino enda hefur hann skapað eina eftirminnilegustu karaktera kvikmyndasögunnar í þeim King Schultz og Hans Landa.

Jennifer Lawrence átti frábært kvöld en hún þótti skarta fallegasta kjólnum og hlaut svo verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í Silver Linings Playbooks. Þetta var kannski of mikið í einu á einu kvöldi en henni tókst að hrasa á leið upp á sviðið og það er alltaf vandræðanlegt þegar fólk fellur á stórri stundu, Unnur Birna ætti t.d. að þekkja það. En hún tók þessu nokkuð vel og sagði áhorfendum að það væri óþarfi að standa upp fyrir henni vegna fallsins. Anne Hathaway hlaut svo verðlaun fyrir hlutverk sitt í Les Misérables en hún fór hreinlega á kostum þann hálftíma sem hún birtist í myndinni og virðist hár hennar vaxa og dafna bara ansi vel.

Besta erlenda myndin var Amour en þeir hefðu allt eins getað gefið aðstandendum myndarinnar Eldfjall styttuna og heiðurinn enda Amour aðeins frönsk útgáfa af íslensku myndinni. Það er engum blöðum um það að fletta á Íslandi að líkindin séu einum of mikil á milli þessara tveggja mynda og tek ég það kannski á mig að skrifa svoleiðis grein hér á Pottinum í nánustu framtíð.

Searching for Sugar Man hlaut verðlaun fyrir bestu heimildarmynd sem eru frábær tíðindi en Rodriguez sjálfur var ekki viðstaddur enda vildi hann ekki draga athyglina frá myndinni. Brave þótti vera besta teiknimyndin en sjálfur hafði ég reiknað með að Wreck-It Ralph myndi hljóta þau verðlaun.

Ekki má svo gleyma meistara Quentin Tarantino en hann hlaut verðlaunin fyrir besta frumsamda handrit á kvikmyndinni Django Unchained og hlaut hún þar með tvær styttur sem verður að teljast ásættanlegur árangur fyrir mynd af slíkum toga. Ræðan hans Quentin var svo lífleg og hressandi tilbreyting miðað við aðrar þetta kvöldið.

Þetta var svona brot af því helsta á Óskarnum í ár en ég verð þó að lýsa yfir áhyggjum mínum yfir henni Kristen Stewart en hún mætti á hátíðina á hækjum og engu líkara en að hún hafi orðið fyrir árás af varúlfi eða einhverju óargardýri. Hún verður að fara að gera eitthvað í sínum málum ef hún ætlar ekki að vera aðhlátursefni Hollywood um ókomna tíð!

Oscar 2013 Winners

Sigurvegarar kvöldsins í flokki leikara virða fyrir sér stytturnar.

Torfi