Færslusafn

Bestu íslensku plöturnar 2015

Ég var nokkuð ánægður með íslenska plötuárið í ár. Af nógu var að taka þegar átti að velja bestu íslensku plötur ársins og þannig á það auðvitað að vera. Ég vil þó taka fram að þetta er aðeins áhugamál en ekki atvinna mín svo ekki taka þennan lista of hátíðlega.

# 10 Halleluwah – Halleluwah

halleluwah
Sölvi og Rakel sameina krafta sína hér á þessari fyrstu breiðskífu Halleluwah og útkoman er virkilega góð. Tvíeykinu hefur tekist að búa til flotta nútíma popptónlist sem gæti þó vel unað sér á frönsku kaffihúsi á sjötta áratug síðustu aldar.

Lykillög: Dior, Move Me, Spin.

# 9 Vaginaboys – Icelandick 

vagina
Vaginaboys tóku árið 2015 föstum tökum og gáfu út sína fyrstu þröngskífu í byrjun nóvember. Það er líklega engin tilviljun að skífan telji sex lög enda drengirnir þekktir fyrir að vera dálítið klúrir. Tónlistin þeirra er silkimjúk og fara þeir ansi vel með autotune’ið sem verður aldrei þreytandi.

Lykillög: Ekki nóg, Elskan af því bara, Þú ert svo ein.

# 8 Shades of Reykjavík – Shades of Reykjavík

sor666
Shades of Reykjavík lokuðu mögnuðu rappári með sinni fyrstu plötu sem er samnefnd sveitinni. Eins og ég hef áður sagt er fullkomið jafnvægi á rappsveitinni og vega rappararnir hvor annan upp með sínum ólíku persónueinkennum.

Lykillög: Drusla, Enginn þríkantur hér, Sólmyrkvi.

# 7 Sturla Atlas – Love Hurts 

love hurts
Sturla Atlas og hans menn voru rausnarlegir í fyrra og gáfu almenningi báðar plöturnar sínar á netinu. Love Hurts kom út á undan og innihélt fleiri lög en vangaveltur eru um hvort að líta eigi á plötuna sem mixteip eða alvöru breiðskífu. Ég er sáttur við seinni kostinn enda platan afskaplega vel heppnuð og hvergi veikan punkt að finna.

Lykillög: Good Good, Pills, Roll Up, San Francisco.

# 6 Máni Orrason – Repeating Patterns

mani
Máni er gríðarlega þroskaður lagahöfundur þrátt fyrir ungan aldur. Hans fyrsta plata er í raun lygilega góð og horfa líklega margir eldri tónlistarmenn á hann með öfundaraugum. Platan telur tólf lög og af þeim eru aðeins fjögur sem mér þykir ekkert sérstök en restin er gúrmei. Mæli með þessari á fóninn!

Lykillög: Fed All My Days, Miracle Due, I Paint a Picture, Repeating Patterns, Walls Keep Caving In.

# 5 The Vintage Caravan – Arrival

12inchJacket_offset
Ein allra besta og vanmetnasta rokksveit landsins sendir frá sér sína þriðju breiðskífu sem fylgir glæsilega á eftir Voyage. Aldurinn á meðlimum er orðinn hærri og þar af leiðandi er reynslan orðin meiri og það skín í gegn á þessari spikfeitu plötu.

Lykillög: Crazy Hourses, Eclipsed, Last Day of Light, Winter Queen.

# 4 Úlfur Úlfur – Tvær plánetur

ulfur
Úlfarnir vöktu mikla lukku á árinu 2015 og er íslenska þjóðin greinilega sólgin í íslenska rappara sem rappa á íslensku um íslenskan raunveruleika. Mörg laganna á plötunni eru stórgóð eins og lykillögin sem ég nefni hér fyrir neðan en að mínu mati hefði mátt stytta plötuna um fjögur lög. Að mínu mati of margir farþegar sem skemma fyrir heildinni.

Lykillög: Akkeri (feat. Arnór Dan), Brennum allt (feat. Kött Grá Pjé), Tarantúlur (feat. Edda Borg), Tvær plánetur.

# 3 Agent Fresco – Destrier

destrier
Biðin eftir annarri breiðskífu Agent Fresco var eilítið of löng en á endanum alveg þess virði. „Dark Water“ sló aðeins á hungrið í hitt eð fyrra og gaf góð fyrirheit fyrir það sem koma skyldi 2015. Ef ég tala um Destrier eins og vínylplötu þá þykja mér A og B-hliðarnar töluvert sterkari en C og D. Því miður gefur hún svolítið eftir á seinni helmingnum og lögin eru ekki eins sterk og á þeim fyrri en mikið djöfull er hún öflug í fyrri hálfleiknum!

Lykillög: Dark Water, Destrier, See Hell, Wait for Me.

# 2 Markús & the Diversion Sessions – The Truth the Love the Life

markus
Ef ég hefði einhverja hæfileika til að semja og búa til tónlist myndi hún líklega hljóma svipað og það sem Markús og félagar eru að gera. Í fyrstu tók ég Markúsi bara sem grínara og fyndnum gaur og er það aðallega vegna lagsins „É bisst assökunar“ en af þessari plötu af dæma er eins gott að taka hann alvarlega. Tónlistin er afslöppuð og troðfull af lífsgleði sem skín svo sannarlega í gegn á plötunni og ber hún sannarlega nafn með rentu enda iðar hún af lífi, ást og sannleik!

Lykillög: 13th Floor, Blessed, Decent Times, É bisst assökunar, Mónóey.

# 1 Helgi Valur – Notes from the Underground

helgi
Um mitt sumar sá ég að Helgi Valur hafði gefið út nýja plötu en þá hafði ég ekki heyrt neitt af honum í nokkur ár. Það var reyndar ástæða fyrir því enda hafði Helgi glímt við mikla erfiðleika í sínu lífi og m.a. greinst með geðhvarfasýki. Mér fannst og finnst Helgi hafa tekið risastórt stökk frá forverum sínum á þessari plötu sem ég hef valið þá bestu í íslensku deildinni. Helgi opnar sig upp á gátt á plötunni og ræðir um allt milli himins og jarðar í sínu lífi eins og uppáhalds landið sitt, myspace-vinkonu sína, geðsjúkdóminn og kynþokkann. Í tveimur lögum syngur Helgi á íslensku og sýnir þar að hann er engu síðri að semja á sínu móðurmáli. Ég tók miklu ástfóstri við plötuna eftir að hafa heyrt hana fyrst í sumar og hún hefur átt hug minn allan síðan þá. Mín eina eftirsjá er að hafa ekki uppgvötvað hana fyrr og náð útgáfutónleikum hennar í enda maí. Vonandi verða þeir fleiri sem sjá gæði plötunnar og Helga sem listamanns en fyrir utan Straum finnst mér hún hafa siglt alltof hljóðlega undir strauminn.

Lykillög: Angels Lefou, Love Love Love Love, South Korea, Þó að aldrei stytti upp.

Plötur sem voru einnig góðar en komust ekki á lista:

a & e sounds – lp
Björk – Vulnicura
Ensími – Herðubreið
Fræbbblarnir – Í hnotskurn
Jón Ólafsson & Futuregrapher – Eitt
Lord Pusswhip – Lord Pusswhip Is Wack
My Brother Is Pale – Battery Low
Pink Street Boys – Hits #1

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Bestu íslensku lögin 2015

12463566_10154001374357176_1236037855_n

Það var í raun ekkert mál að finna til 20 góð íslensk lög sem stóðu upp úr á þessu ári. Vandamálið var hins vegar að velja bara 20 lög enda 30-40 feykifín lög sem mér datt í hug við vinnslu þessarar færslu. Ég tel að ég sé nokkuð samkvæmur sjálfum mér í eftirfarandi lista en þetta eru þau 20 lög sem ég hlustaði mest á árið 2015.

# 20 „sunday driver“ – a & e sounds

Sennilega óþekktasta lagið á listanum og ég veit í raun frekar lítið um þessa hljómsveit annað en það að hún býr til góða tónlist.

# 19 „Aukalíf“ – Ensími

Að mínu mati aðeins sterkara lag en „Herðubreið“. Þetta lag sýnir að enn er heilmikið líf í hljómsveitinni góðu.

# 18 „Ekki nóg“ – Vaginaboys

Vaginaboys stóðu sig í stykkinu á árinu 2015 og gáfu út góð lög. Af þeim stóð „Ekki nóg“ upp úr.

# 17 „Last Day of Light“ – The Vintage Caravan

Heyrði þetta lag fyrst á tónleikum TVC í ársbyrjun á Gauknum og féll fyrir því samstundis.

# 16 „Stelpur“ – Jón Þór

Ofboðslega jákvæð orka í þessu lagi sem kemur mér alltaf í gott skap.

# 15 „San Francisco“ – Sturla Atlas

Einhver furðuleg blanda af alvöru og gríni hjá Sturlu Atlas-flokknum sem gengur líka svona vel upp.

# 14 „Dior“ – Halleluwah

Tvíeykið Sölvi og Rakel eru hér með geysigott lag sem hefur gamaldags blæ yfir sér.

# 13 „Empire“ – Of Monsters and Men 

Ég var nú ekki yfir mig hrifinn af annarri plötu OMAM en þetta lag náði mér strax.

# 12 „Drusla“ – Shades of Reykjavík

Elli Grill og Leoncie komust kannski oftast á forsíður blaðanna og þá aðallega útaf myndbandinu og samstarfinu við Leoncie. „Drusla“ er aftur á móti fyrsti hreinræktaði SoR-hittarinn af plötunni þeirra og er hann byggður á sterkum stoðum.

# 11 „Miracle Due“ – Máni Orrason

Hittari nr. 2 og hann er engu síðri en „Fed All My Days“ sem kom út í fyrra. Skulum ekki gleyma því að drengurinn er nýorðinn 18 ára!

# 10 „See Hell“ – Agent Fresco

Magnþrungið lag frá einni bestu hljómsveit landsins um þessar mundir. Textinn eftir Arnór er hrein snilld þar sem hann veltir fyrir sér ofbeldi, hefnd og afleiðingum hennar.

# 9 „Waterfall“ – Vök

Enn bíður maður eftir stórri plötu frá Vök og ef útgáfufyrirtækin bíta ekki á öngulinn núna þá er eitthvað mikið að!

# 8 „Í næsta lífi“ – xxx Rottweiler hundar

Ágúst Bent sá til þess að enginn gleymdi hverjir byrjuðu þetta allt saman og ruddu veginn fyrir aðra rappara á Íslandi fyrir allnokkrum árum síðan. Rottweiler hundarnir eru enn drottnarar íslensku rappsenunnar.

# 7 „Brennum allt (ft. Kött Grá Pjé)“ – Úlfur Úlfur

Úlfarnir halda hárrétt á spilunum í þriðja hittaranum af Tvær plánetur og fá til sín góðan gest í Kött Grá Pjé.

# 6 „MORGUNMATUR“ – GKR

Ég viðurkenni að ég var hrifnari af myndbandinu heldur en laginu er ég heyrði það fyrst. En með tímanum hefur það hægt og rólega komið sér vel fyrir í hausnum á mér og hefur ekki hætt að óma þar síðan.

# 5 „Gold Laces“ – Júníus Meyvant 

Ég segi það sama um Júníus og Vök, ég bíð óþreyjufullur eftir stærri plötu frá honum enda veit ég að drengurinn á laglegan lager af góðum lögum sem þurfa að komast út í kosmósinn.

# 4 „Strákarnir“ – Emmsjé Gauti

Maður veltir fyrir sér hvort að innblásturinn að þessu lagi hafi komið eftir rimmuna við Reykjavíkurdætur en hvaðan sem hann kom þá stöndum við eftir með eitt besta lag ársins í höndunum.

# 3 „Snowin'“ – Sturla Atlas

Mögulega er þetta lag að skjóta óvenju hátt á þessum lista en lagið er í miklu uppáhaldi hjá mér í augnablikinu. Sturla verður að koma með eitthvað áþreifanlegt fyrir mig svo ég geti misst mig enn meira.

# 2 „Þó að aldrei stytti upp“ – Helgi Valur

Boðskapur lagsins skilar sér beint til hlustandans og þekki maður söguna á bakvið flytjandann gerir það upplifunina enn áhrifameiri.

# 1 „We Will Live for Ages“ – Hjaltalín

Hjaltalín var bæði góð og vond við aðdáendur sína í ár. Hún færði þeim þetta stórkostlega lag sem féll mjög vel í kramið en gerði þeim einnig þann grikk að láta þar við sitja. Ég vil heyra meira nýtt efni og ég er viss um að aðdáendur Hjaltalín eru sammála mér. Hjaltalín, 2016 er árið ykkar, go nuts!

Lög sem voru nálægt því að komast á topp 20:

„Af ávöxtunum skulið þið þekkja þá“ – Jónas Sig
„Blinking“ – Fufanu
„Draumalandið“ – Gísli Pálmi
„Herðubreið“ – Ensími
„Hvernig sem fer“ – Júlíus Guðmundsson
„Kalt“ – Kælan Mikla
„Lionsong“ – Björk
„Love Love Love Love“ – Helgi Valur
„Mónóey“ – Markús & the Diversion Sessions
„Silent Bite“ – Bang Gang
„Wait for Me“ – Agent Fresco
„Ævintýr“ – Sóley

Torfi Guðbrandsson

Kveðjutónleikar The Vintage Caravan

Síðastliðið fimmtudagskvöld hélt hljómsveitin The Vintage Caravan kveðjutónleika fyrir rokkþyrsta aðdáendur á Gauknum. Þriðja plata þeirra, Arrival, leit svo dagsins ljós daginn eftir en þeir halda út til Danmerkur í dag til þess að fylgja plötunni eftir með tónleikum víðsvegar um Evrópu.

Lucy in Blue sá um upphitun en þeir lentu í 2. sæti á Músíktilraunum í fyrra á eftir Vio. Hljómsveitina skipa fjórir drengir sem spila sýrurokk í anda Pink Floyd. Hljómsveitin sýndi lipra takta á sviðinu og bauð gestum með sér í óvænt ferðalag. Plata er væntanleg frá sveitinni á næstunni og verður þetta lag m.a. á henni.

En flestir voru nú mættir til að kveðja strákana í The Vintage Caravan og heyra þá taka einhver lög af nýju plötunni. Þeir héldu tvenna tónleika fyrr á árinu í febrúar en síðan þá hefur orðið mannabreyting. Trommarinn öflugi Guðjón Reynisson hefur sagt skilið við sveitina og í hans stað er mættur Stefán Ari Stefánsson sem lemur oftast húðir með Gone Postal. Guðjón var í miklu uppáhaldi hjá mér enda frábær trommari með magnaða tilburði á sviði og brotthvarfið kom mér í opna skjöldu. Án þess að vita það þurfti Stefán Ari því að sanna sig á þessum kveðjutónleikum og sýna að hann væri rétti maðurinn til að taka við kjuðunum.

Drengirnir hófu tónleikana á tveimur eldri lögum, „Midnight Meditation“ og „Craving“ og það var ekki annað að sjá en að sveitin væri vel æfð og samstillt. Tvö ný lög fylgdu í kjölfarið, „Babylon“ og „Shaking Beliefs“ sem eru á pari við eldra efni sveitarinnar. Hægt var örlítið á ferðinni en þó ekki nema í örfáar mínútur með „Winterland“ en TVC kunna þó betur við sig í hraðanum og hentu því í eitt sígilt og gott í „Let Me Be“. Þá var komið að hápunkti kvöldsins og það þurfti aðstoð við slíka epík því að einhver Magnús Jóhann var fenginn uppá svið til að aðstoða við flutning lagsins. „Last Day of Light“ heitir lagið og er upphafslag nýju plötunnar og þvílíkt og annað eins lag! Það má segja að á þessum tímapunkti hafi hljómsveitin rifið nýtt rassgat á gesti Gauksins þetta kvöldið og tónleikarnir fóru í ákveðna flughæð sem er ábyggilega ekki talin æskileg fyrir jarðarbúa. Eftir lagið lét Magnús sig hverfa á ný og hinir þrír tóku annað nýtt lag, „Crazy Horses“ sem féll þó eilítið í skuggann af hinni geðveikinni.

IMG_3544

Meðlimir voru duglegir að benda á básinn til hliðar þar sem seldur var varningur með hljómsveitinni og grínaðist Óskar með það að þar væri selt dóp sem var ansi fyndið í ljósi þess að móðir hans sá m.a. um söluna. Þetta grín átti þó rétt á sér þar sem að næsta lag í röðinni var „Cocaine Sally“ sem Óskar söng með tilþrifum. „The King’s Voyage“ og hittarinn „Expand Your Mind“ voru síðustu lög kvöldsins en það var ekki séns í helvíti að gestir myndu sætta sig við þau endalok. Hljómsveitin var því klöppuð upp að nýju og spurði Óskar gestina einfaldlega: „Hvað viljiði heyra?“. Það var fátt um svör enda eyru gestanna ekki lengur næm fyrir tali og ákvað sveitin því að taka tvö lög til viðbótar, eitt nýtt („Carousel“) og eitt gamalt („M.A.R.S.W.A.T.T.) og að þeim loknum gátu allir farið meira en sáttir heim.

The Vintage Caravan er gædd alveg bullandi hæfileikum og það er ekkert skrítið að hún sé að njóta velgengni á erlendri grundu. Þó að mikill missir sé í brotthvarfi Guðjóns er ekki hægt að segja annað en að Stefán Ari sé rétti arftakinn en hann sló ekki feiltakt alla tónleikana. Þeir sem eru á leiðinni á Hróaskeldu skulu endilega hafa það á bakvið eyrað að kíkja á þessa drengi og sýna þeim verðskuldaðan stuðning!

Lagalisti kvöldsins:

Midnight Meditation
Craving
Babylon
Shaking Beliefs
Winterland
Let Me Be
Last Day of Light
Crazy Horses
Cocaine Sally
The King’s Voyage
Expand Your Mind

Uppklapp

Carousel
M.A.R.S.W.A.T.T.

Topp 5: Plötuumslög ársins 2014

Plötuumslög geta skipt miklu máli. Plata sem er falleg að utan getur nefnilega verið ansi vond að innan en þá er einmitt mikilvægt að ná til hlustandans í skamma stund og enn betra ef hann kaupir plötuna út í búð þó hann verði fyrir vonbrigðum þegar heim er komið. Blessunarlega eru eftirfarandi listamenn á þessum lista lausir við það að gera vonda tónlist en eiga það allir sameiginlegt að pakka tónlistinni sinni inn í fallegar umbúðir.

# 5 Skálmöld – Með vættum

skalmold_med_vaettum_filnal_cover-2-600x600
Ég er í miklu víkingastuði þessa dagana þökk sé þáttunum Vikings. Umhverfið á þessu umslagi er því kunnuglegt.

# 4 Prins Póló – Sorrí 

Sorrí
Einkennismerki prinsins er svo ótrúlega einfalt og skemmtilegt en oft er einfaldleikinn bestur. Hann skilar umslagi prinsins að þessu sinni í 4. sæti.

# 3 The Vintage Caravan – Voyage

the-vintage-caravan_voyage
Endurútgáfa Nuclear Blast Records af plötunni Voyage sem kom upphaflega út árið 2012 er litrík og má alveg ímynda sér að meðlimir séu staddir inn í þessum tryllta vagni á hraðferð út í ruglið.

# 2 Samaris – Silkidrangar 

silkidrangar
Þetta gulllitaða kattardýr náði mér strax rétt eins og tónlist Samaris. Ekkert meira um það að segja svo sem.

# 1 Elín Helena – Til þeirra er málið varðar 

Elín til
Hér eru körfuboltamenn í kröppum dansi en eins og við sjáum á hártísku og búningum eru allnokkur ár síðan að Bjarnleifur Bjarnleifsson smellti af. Afar lýsandi mynd fyrir innihaldið.

Þessi voru einnig heit:

Börn – s/t
Grísalappalísa – Rökrétt framhald
Mono Town – In the Eye of the Storm
Rökkurró – Innra
Teitur Magnússon – 27
Vio – Dive In

– Torfi

Airwaves upphitun: Future Islands – The Vintage Caravan – The War on Drugs

Besta tónlistarhátíð Íslands, Iceland Airwaves, fer fram dagana 5-9 nóvember næstkomandi. Ekki er enn búið að staðfesta öll atriðin en þó eru komin nokkur þungavigtaratriði og nægir þar að nefna The Flaming Lips, Caribou og The Knife í því samhengi. Ég ætla hins vegar að líta aðeins betur á þrjár aðrar hljómsveitir sem ég er afskaplega spenntur að sjá á hátíðinni í ár.

Future Islands

Future Islands er áhugaverð hljómsveit frá Bandaríkjunum. Söngvarinn Samuel T. Herring býr yfir gríðarlega öflugri sviðsframkomu eins og sést á meðfylgjandi myndbandi. Sveitin hefur starfað í u.þ.b. 8 ár og gaf út fjórðu breiðskífuna sína Singles núna í mars og hefur hún fengið glimrandi dóma á Pitchfork og Allmusic.com. Airwaves gestir mega búast við þrusu fínum tónleikum og þá sérstaklega ef Sammi gamli verður í sama stuði og hann var í hjá David Letterman.

The Vintage Caravan

Hér eru á ferðinni sóðalega þétt íslensk hljómsveit með virkilega flott lög. Söngvarinn Óskar býr yfir alveg hörku rödd og heldur sömuleiðis uppi gítarleiknum í hljómsveitinni. Þetta myndband við lagið „Expand Your Mind“ er með því skemmtilegra sem ég hef séð hjá íslenskri sveit en það er bæði vel sveppað og steikt og passar afar vel við tónlistina. Drengirnir eru annars búsettir í Danmörku þessa dagana og eiga þar lítið rúgbrauð sem þeir ferðast um á villt og galið útum alla Evrópu. Þeir ætla hins vegar að gera sér ferð hingað til Íslands í nóvember og útbúa einhvern djúsí kokteil handa rokkþyrstum aðdáendum.

The War on Drugs

The War on Drugs er eitt af stærri atriðum hátíðarinnar í ár. Þeir hafa gefið út þrjár plötur og sú síðasta sem kom út á þessu ári er í miklum metum hjá tónlistarspekúlöntum og rómuð sem ein besta plata ársins hingað til. Tónlistarmaðurinn Kurt Vile sem hefur átt góðu gengi að fagna síðustu ár er einn af stofnmeðlimum hljómsveitarinnar en hætti eftir útgáfu fyrstu plötunnar til að einbeita sér að sólóferlinum. The War on Drugs er þó heldur betur að minna á sig í ár með plötunni sinni Lost in the Dream.

– Torfi