Færslusafn

Easy Star All-Stars: Reggí sveit með pung

radiodread

Reggí menningin á Íslandi hefur farið stigvaxandi síðustu ár og þá aðallega með hljómsveitinni Hjálmar og nú nýlega Ojba Rasta sem hefur vakið mikla lukku. Reggí og döbb (dub) virðist einnig vera góð blanda sem síðarnefnda sveitin hefur tileinkað sér og það með miklum ágætum.

En það eru ekki margar reggí hljómsveitir sem leggja sig fram við það að covera plötur í heild sinni en þó er ein slík til og nefnist hún Easy Star All-Stars og er ættuð frá Jamaíku. Og það eru engar smá plötur sem sveitin hefur tekið fyrir og yfirfært í reggí stílinn og myndu þær líklegast allar flokkast undir bestu plötur sögunnar í popp/rokk geiranum. Plöturnar eru sem sagt þessar, Dark Side of the Moon með Pink Floyd, OK Computer með Radiohead, Sgt. Peppers Lonely Heart Club’s Band með Bítlunum og loks Thriller með Michael Jacksoneasy-star-all-stars-lonely-hearts-d. Eins og sjá má eru þetta engir aukvissar í tónlistarsögunni og í raun hálfgerð fífldirfska að henda í sínar eigin útgáfur af þessum plötum og það í reggí/döbb búning.

En þótt ótrúlegt sé þá hefur þetta tekist einstaklega vel upp og hafa þeir almennt verið að fá góða dóma fyrir þessar tilraunir sínar. Að mínu mati finnst mér Easy Star’s Lonely Heart Dubs Band koma best út í þessum reggí döbb stíl þó að Radiodread og Easy Star’s Thrilla koma skemmtilega á óvart og þá sérstaklega sú síðastnefnda en það í raun fáránlegt hvernig þeir ná að tækla lög eins og „Billie Jean“, „Beat It“ og „Thriller“ með jafn miklum sóma og í raun er. Ekki finnst mér Dark Side of the Moon koma vel út í reggí búning en sitt sýnist hverjum. 

Ofan á þetta allt saman hafa þeir gefið út eina plötu með frumsömdu efni en hún hefur vitaskuld fallið í skuggann af hinum fjórum enda sveitin skapað sér nafn sem coversveit.

Boðskapurinn með þessum pistli er þessi, ef þú fýlar reggí með döbb ívafi og þessar plötur og ert tilbúin/nn til að slá þessu saman er algjörlega málið fyrir þig að kíkja á þetta.

– Torfi

Auglýsingar

Airwaves: Föstudagur

Ég hóf leikinn í Fríkirkjunni en þar áttu Lay Low og Patrick Wolf frá Bretlandi að spila. Fólk var að tínast inn og fékk ég mjög gott sæti, borgar sig að vera mættur tímanlega!

Lay Low var virkilega góð og vel studd af hljómsveit sinni. Hún tók lög af flestum plötum sínum og má segja að hún hafi valið vel. Lay Low var einnig dugleg að tjá sig á milli laga og kvartaði undan nöglinni á þumalfingrinum sem var við það að detta af! Í seinni hlutanum var ástandið það slæmt að hún gat málað sig í framan með blóðinu. En fyrir utan þetta vesen þá voru tónleikarnir sérstaklega flottir og eigum við Íslendingar virkilega góðan listamann í Lay Low.

Næstur á svið var Patrick Wolf. Kauði gaf nýverið út plötu í tilefni af 10 ára starfsafmæli sínu þar sem hann setti mörg sín bestu lög í akústískan búning. Hann var mættur ásamt þremur listamönnum sem skiptust á að styðja hann. Patrick spilaði á fjöldan allan af hljóðfærum, flygil, hörpu og smávaxinn gítar. Röddin hans er sterk og naut hún sín vel í Fríkirkjunni. Hann var einnig óhræddur við að segja sögur á bakvið lögin sín svo maður lifði sig þvílíkt inn í hans hugarheim. Einnig var skemmtilegt þegar t.d. míkrafónninn við flygilinn var eitthvað laus í sér og truflaði Patrick í flutningi sínum, það kom þó ekki að sök og hoppaði hann beint aftur inn í lagið án vandræða. Tónleikarnir stóðu yfir í eina klukkustund og voru gestir Fríkirkjunnar líklega saddir og sælir að þeim loknum.

Eftir smá matarpásu kíkti ég á lokin á tónleikum hinnar kanadísku Half Moon Run og var ég nokkuð spældur að vera ekki mættur fyrr. Þeir litu út fyrir að vera hörku band og var mitt fyrsta verk að kíkja hvort þeir ættu ekki eftir að koma fram á off-venue dagskránni. Blessunarlega áttu þeir eitt skipti eftir.

Það var ekkert annað í stöðunni að gera en að bíða eftir Hjálmari og Jimi Tenor. Ég vissi í rauninni ekkert út í hvað ég var að fara þar en ég vonaðist eftir því að sjá Hjálmar leika öll sín bestu lög. Það rættist hins vegar ekki. Ég þekkti ekki eitt lag en allt snérist greinilega um þennan Jimi Tenor því miður. Það má samt ekki taka af þeim að spilamennskan var góð og á köflum var þetta bara allt í lagi en ég bjóst við einhverju allt öðru.

Hjálmar hefðu verið betur settir án þessa manns.

Í restina var það svo FM Belfast en mér sýndist á öllu að prógrammið þeirra hefði lítið breyst frá því á árinu 2008 og svo var mér svo illt í maganum að ég gat ekki meir. Kvöldið byrjaði því mjög vel en endaði ekki eins sterkt á kvöldin áður.

– Torfi