Færslusafn

Bestu íslensku plöturnar 2013

Þá er komið að máli málanna, hverjar voru bestu íslensku plöturnar árið 2013? Þær voru nokkuð margar sem litu dagsins ljós í ár en þetta eru þær tíu plötur sem mér fannst standa upp úr.

# 10 Planet Earth – Berndsen

Berndsen
Það var algjörlega kominn tími á aðra plötu frá Berndsen og hann svíkur engan með ögn myrkari plötu en Lover in the Dark var.

Hápunktar: Data Hunter, Gimmi Gimmi, Two Lovers Team.

# 9 Artificial Daylight – 1860

1860
Hér er á ferðinni frábær plata með piltunum úr 1860. Ef hún hefði verið aðeins sterkari um miðbikið hefði hún klárlega verið ofar á þessum lista.

Hápunktar: Father’s Farm, Go Forth, Íðilfagur.

# 8 Northern Comfort – Tilbury

Tilbury___Northe_5272377cb8447
Þorri og félagar hafa gefið út tvær plötur á tveimur árum, Northern Comfort er heilsteyptara verk heldur en Exorcise og má svo sem alveg lesa það úr titlunum á plötunum.

Hápunktar: Deliverance, Northern Comfort, Turbulance.

# 7 See You in the Afterglow – Leaves

Leaves
Maður var nú eiginlega farinn að afskrifa Leaves og bjóst ekki við að heyra meira frá þeim eftir hina frekar litlausu We Are Shadows. En með See You in the Afterglow eru þeir komnir aftur í sitt besta form.

Hápunktar: Ocean, Perfect Weather, The Sensualist.

# 6 Flowers – Sin Fang

Flowers
Einn afkastamesti tónlistarmaður þjóðarinnar síðustu tíu árin gaf tóninn fyrir frábært íslenskt tónlistarár með sinni þriðju stóru plötu, Flowers. Henni tekst að toppa forvera sína með stærri hljóm og þroskaðri lagasmíðum.

Hápunktar: Look at the Light, See Ribs, What’s Wrong With Your Eyes, Young Boys.

# 5 ALI – Grísalappalísa

Ali
Syrgjendur Jakobínurínu geta þerrað tárin því að í ár reis Gunnar upp frá dauðum, giftur og sprækari sem aldrei fyrr. Honum til aðstoðar eru mættir sterkir póstar héðan og þaðan úr tónlistarlífinu ásamt einum nýjum og ferskum (Baldri) og saman bjóða þeir til tónlistarveislu, bæði fyrir augu og eyru.

Hápunktar: Allt má (má út), Kraut í g, Lóan er komin, Skrítin birta.

# 4 Kveikur – Sigur Rós

Kveikur
Það leið ekki langur tími á milli platna hjá Sigur Rós að þessu sinni. Eftir rólegheitin í Valtara var kominn tími á smá læti og gaf lagið „Brennisteinn“ í Höllinni á Airwaves ’12 góð fyrirheit um það sem koma skyldi. Að þessu sinni voru þeir aðeins þrír eftir að Kjartan hafði yfirgefið sveitina en það bitnaði þó alls ekki á gæðum plötunnar.

Hápunktar: Bláþráður, Brennisteinn, Ísjaki, Kveikur, Rafstraumur.

# 3 Friður – Ojba Rasta

Ojba_Rasta___Fri_525eeee5c927c
Ojba Rasta hafa náð góðum tökum á því að kokka upp algjöran eðal úr hráefnunum reggí og döbbi ásamt nokkrum vel völdum orðum úr íslenskunni. Þeir halda hér vel á spöðunum og platan hljómar ekki eins og hún hafi verið unnin í einhverju flýti eins og við mætti búast þegar að frumburðurinn leit aðeins dagsins ljós í fyrra.

Hápunktar: Einhvern veginn svona, Ég veit ég vona, Þyngra en tárum taki.

# 2 Komdu til mín svarta systir – Mammút 

Mammút
Það mætti halda að einhver bölvun hafi hvílt á svörtu systurinni enda ætlaði það aldrei að takast að koma plötunni út. Til allrar hamingju tókst það þó á endanum og það er alveg ljóst að á þessum fimm árum sem liðu á milli Karkara og þessarar plötu hafa meðlimir þroskast mikið sem listamenn og náð að þróa tónlist sína enn frekar með þessum líka glæsilega árangri.

Hápunktar: Blóðberg, Salt, Ströndin, Tungan.

# 1 Tookah – Emilíana Torrini

Emilíana_Torrini_-_Tookah (1)
Emilíana Torrini er líklega það besta sem hefur komið frá Kópavoginum og eru það engar ýkjur. Ferill hennar er glæsilegur og Tookah er enn ein rósin í hnappagatið hennar. Platan er falleg, einlæg, dularfull, djörf og á köflum dansvæn og er ekki ein sekúnda af þessum ca. 2400 illa nýtt. Tookah er enn eitt meistaraverkið og eyrnakonfektið úr smiðju Torrini og Dan Carey og megi það samstarf halda lengi áfram um ókomna tíð!

Hápunktar: Autumn Sun, Blood Red, Home, Speed of Dark, Tookah.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Bestu íslensku lögin 2013

Þau voru mörg góð lögin sem komu út í ár hér á landi og það er alveg ljóst að íslenskir tónlistarmenn eru ekkert á leiðinni að slaka á hvað tónlistarsköpun varðar. Hérna eru 20 bestu lögin að mati Pottsins.

# 20 „Up“ – Steinar

Svokallaði hittarinn sem kom Steinari á kortið hér á landi. Hann náði að syngja sig inn í hjörtu líklega allra stelpna á unglingsaldri og mun sennilega selja góðan slatta af plötunni sinni fyrir jólin.

# 19 „Vonarströnd“ – Íkorni

Huggulegir tónar frá Íkornanum sem lá undir feld mest allt árið.

# 18 „Mama Ganja“ – Johnny and the Rest

Sumarlag frá strákunum í Johnny and the Rest.

# 17 „Automobile“ – Kaleo 

Rosalega óíslenskt lag en engu að síður afskaplega skemmtilegt sem flytur mann beina leið yfir til Bandaríkjanna.

# 16 „Aheybaró“ – Kött Grá Pjé og Nolem 

Lag sem ég heyrði fyrst í Stúdíó A sem mér þykir miður enda hefði verið gaman að njóta þess í sólinni.

# 15 „Bál“ – Drangar

Það væri nú bara eitthvað að ef stjörnuband Íslands í ár ætti ekki lag á listanum.

# 14 „No Need to Hesitate“ – Jóhann Kristinsson

Jóhann var í góðu formi í ár og hér er hans besta lag til þessa.

# 13 „What’s Wrong With Your Eyes“ – Sin Fang

Sin Fang heldur áfram að bæta sig ár eftir ár og hér er eitt stórt og grípandi úr hans smiðju.

# 12 „Ísjaki“ – Sigur Rós

Sigur Rós voru langt frá því að vera kaldir hvað lagasmíðar varðaði 2013.

# 11 „Ég bíð þín“ – Vök 

Sigurvegarar Músíktilrauna 2013 sýna með þessu lagi að þau eru vel að titlinum komin.

# 10 „Salt“ – Mammút

Það var löngu kominn tími á nýtt efni frá Mammút og hér er eitt af mörgum frábærum lögum sem þau gáfu frá sér í ár.

# 9 „I Would If I Could“ – Lay Low 

Eitt eitursvalt lag frá Lovísu.

# 8 „Íðilfagur“ – 1860

Lag sem kemur mér alltaf í gott skap, frábær flutningur!

# 7 „Tookah“ – Emilíana Torrini

Emilíana Torrini heldur áfram að minna á sig, óaðfinnanlegur hljóðfæraleikur hér á ferð.

# 6 „Ég bisst assökunar“ – Markús and the Diversion Sessions

Skemmtilegt og kæruleysislegt lag sem minnir á meistara á borð við Megas og Súkkat.

# 5 „Two Lovers Team“ – Berndsen

Hér fara Berndsen og félagar gjörsamlega á kostum og get ég hreinlega ekki beðið eftir að dilla mér við þessa tóna á tónleikum hjá þeim.

# 4 „Skrítin birta“ – Grísalappalísa

Til allrar hamingju er einn besti sviðsmaður landsins kominn til baka og er hann umkringdur toppmönnum. Skemmtilegasta myndband ársins líka.

# 3 „Einhvern veginn svona“ – Ojba Rasta

Það er erfitt að hunsa lag eins og þetta, hryllilega skemmtilegt og grípandi.

# 2 „Ocean“ – Leaves

Það er nú bara þannig að ég er forfallinn Leaves aðdáandi og er ég heyrði þetta fyrst í útvarpinu var ég næstum búinn að sprengja hátalarana í bílnum.

# 1 „Bragðarefir“ – Prins Póló

Ein mestu vonbrigðin árið 2013 voru þau að Prins Póló kom ekki með plötu en miðað við þetta lag þá er von á góðu 2014 (vonandi).

Airwaves ’13: Miðvikudagur

Þá er biðinni lokið, stærsta og skemmtilegasta tónlistarhátíð Íslands er gengin í garð og er hátíðin númer 15 í röðinni. Á miðvikudeginum eiga íslensku listamennirnir sviðið sem er þeim ansi mikilvægt myndi ég telja enda eignast þeir nýja aðdáendur og hljóta vonandi náð fyrir augum pressunnar. En nóg um það, ég skellti mér í Hörpuna rétt fyrir klukkan 20 og var stefnan tekin á Silfurbergið.

Fyrstir á svið voru strákarnir í Lockerbie. Ég hafði aldrei hlustað á þá af neinu ráði þó aðeins heyrt lög með þeim í útvarpinu. Áður en þeir gengu á svið var búið að bregða upp mynd af nafni sveitarinnar með silkimjúkum tónum undir en þeir voru duglegir að nýta sér myndvarpann í gegnum settið sitt. Lockerbie er svona poppaðari myndin af Sigur Rós og má segja að stór umgjörð eins og er að finna í Silfurbergi henti þeim vel. Fínustu tónleikar hjá drengjunum sem byrjuðu kvöldið mitt af miklum krafti.

Næstir á svið voru reynsluboltarnir í Leaves sem nýverið gáfu út sína fjórðu plötu. Þeir byrjuðu einmitt tónleika sína á lagi af henni, „The Sensualist“, kraftmikið og grípandi lag. Því miður fannst mér tónleikarnir detta niður eftir það og ég vildi fá að heyra meira rokk sem varð svo raunin þegar þeir töldu í hið stórgóða „Ocean“. Þessi tvö lög voru ljósu punktarnir að þessu sinni en lagaval hefði mátt vera þekktara að mínu mati.

Salurinn fór langt með að fyllast þegar að hún Sóley mætti á sviðið en þessir rúmlega 160.000 fylgjendur á facebook hjá henni eru greinilega engin tilviljun. Sóley er alltaf söm við sig, með sína yndislegu nærveru og fallegu tónlist. Lög af plötunni We Sink í bland við ný fengu að hljóma („Halloween“) og verður spennandi að heyra meira. Ætla má að Sóley hafi verið á tónleikum James Blake á Sónar í ár enda sýndi hún svipaða takta með því taka sjálfa sig upp og spila aftur sem kom rosalega vel út. Nú bíð ég bara eftir Sóley og Sinfó í Eldborg.

Samaris áttu næsta leik en hún hefur verið að gera það gott alla daga síðan að hún vann Músíktilraunir. Ég missti af þeim í fyrra en ég ætlaði ekki að gera sömu mistök aftur. Þau byrjuðu af miklum krafti og settu strax tóninn fyrir það sem koma skildi. Samaris búa yfir vel heppnaðri blöndu af raftónlist, klarinetti og seiðandi rödd Jófríðar. Stemningin var dularfull og drungaleg en bauð líka upp á danspor en kannski ekki á miðvikudagskvöldi. Fallegir textarnir á íslenskri tungu gerðu svo útslagið. Ég er allavega farinn beint út í næstu plötubúð að tryggja mér eintak af plötunni þeirra.

Þá var það Bloodgroup en ég verð bara að viðurkenna að ég hef aldrei fýlað þau neitt sérstaklega. Þau voru samt vel gíruð og þá sérstaklega Janus sem getur varla stillt sig í eitt augnablik. Það var mikill kraftur í Bloodgroup en kannski full mikil keyrsla fyrir minn smekk svona á kristilegum tíma á miðvikudegi og var ég farinn að lengja eftir Emilíönu Torrini.

Skiptingin á milli Bloodgroup og Emilíönu Torrini tók sinn tíma enda mikið magn af græjum sem fylgir báðum sveitum. Þannig að Torrini hóf ekki leik fyrr en 10 mínútum eftir áætlaðan tíma en það var ekki erfitt að fyrirgefa snót eins og henni enda einstök í allri sinni framkomu. Hún var mætt með sex manna hljómsveit sem kunni sitt fag og meir en það. Þau töldu í lög af nýju plötunni TookahMe and Armini og líka Fisherman’s Woman. Á milli þess ræddi hún við gesti á íslensku og er maður hálf ástfanginn af henni svona eftir á. Það er engin tilviljun að hún hafi náð eins langt og raun ber vitni enda afar hreinn og beinn listamaður sem er óhrædd við að tjá tilfinningar sínar í lögum sínum og á tónleikum. Hún syngur sig inn í hjörtu fólks sem er ekki á færi margra og tekur mann með sér í ferðalag tilfinninga. Það eru afar miklur líkur á því að bestu tónleikar Airwaves 2013 séu þegar afstaðnir!

IMG_0997

Emilíana Torrini í allri sinni dýrð í Silfurbergi.

– Torfi