Category Archives: YouTube

Syngur Smash Mouth slagara yfir fræg lög

smash-mouth

Jon Sudano er mikill snillingur. Undanfarinn mánuð eða svo hefur hann verið að pósta myndböndum á YouTube þar sem hann syngur Smash Mouth slagarann „All Star“ yfir fræg lög. Það er magnað hvað laglínan úr laginu passar vel við önnur lög en þegar þetta er skrifað eru lögin komin upp í 15 og samtals hafa myndböndin verið skoðuð 15 milljón sinnum! Jon póstaði síðasta lagi fyrir tveimur dögum svo drengurinn er enn að.

„All Star“ kom út 4. maí árið 1999 og festist fljótlega í heilabúi fólks, hvort sem því líkaði betur eða verr. Lagið var svo notað í teiknimyndinni Shrek árið 2001 svo fólk myndi örugglega ekki gleyma tilvist þess og enn yngri kynslóð tók ástfóstri við lagið. Fleiri kvikmyndir hafa nýtt sér lagið og má þar nefna Mystery Men en aðalleikararnir úr þeirri mynd koma einmitt fram í myndbandi lagsins.

En hver er galdurinn á bakvið lagið og af hverju skildi það passa svona vel inn í önnur fræg lög? Það sem er merkilegt er hversu vel fyrsta mínúta laglínunar smellpassar við fyrstu mínútur hinna laganna. Ef við skoðum lögin eiga þau það öll sameiginlegt að vera mjög vinsæl eftir heimsþekkta listamenn. Í sumum tilvikum er um að ræða þeirra allra þekktustu lög. Það hlýtur því að vera til einhver formúla að vinsælum lögum sem trekkir fólk að.

Vinsæl lög eru oft í kringum þrjár til fjórar mínútur en það á einmitt við öll þessi lög, en þau eru frá 2:53 mínútum upp í 4:55 en athugið að mörg þessara laga eru til í styttri útvarpsútgáfum. Formúlan í lögunum er því í mjög svipuðum strúktur. Þegar lög eru í þessari lengd gefa menn sér sirka 30 sekúndur fram að viðlagi. 36 sekúndur líða að viðlaginu í „All Star“.

Þetta eru engin geimvísindi, ef tónlistarmenn vilja ná til fólks þurfa þeir að vera fljótir að koma sér að efninu. Til að halda athygli þeirra út virðast þrjár til fjórar mínútur vera gullna lengdin. Þetta er ágætt að vita fyrir framtíðar tónlistarmenn.

Ég hvet fólk til að fletta Jon Sudano upp á YouTube og fletta í gegnum þessi lög, þetta er í raun stórmerkilegt og ljóst að Smash Mouth hitti með lagi sínu á hárrétta formúlu sem er hægt að spegla við mörg vinsælustu lög heims.

Lögin sem um ræðir:

Adele – „Hello“
Bastille – „Pompeii“
Blink 182 – „Feeling This“
Coldplay – „Fix You“
Evanescence – „Bring Me to Life“
Foster the People – „Pumped Up Kicks“
John Lennon – „Imagine“
Johnny Cash – „Hurt“
Linkin Park – „In the End“
Oasis – „Wonderwall“
Papa Roach – „Last Resort“
Radiohead – „Creep“
Red Hot Chili Peppers – „Under the Bridge“
Taylor Swift – „22“
Village People – „Y.M.C.A.“

Auglýsingar

GusGus gefur út nýtt lag

Já það virðist allt vera að gerast í heimi danstónlistarinnar hér á landi en eins og flestir ættu að vita hefur DJ MuscleBoy gert allt vitlaust með hinu Scooter-skotna „LOUDER“ sem er að nálgast 200,000 hlustanir á YouTube. Nú hafa hins vegar drottnarar danstónlistarinnar á Íslandi, GusGus, gefið út sóðalega flott lag sem aðdáendur hafa jafnvel heyrt á tónleikum þeirra undanfarna mánuði.

Þá er það bara spurningin, tekst þeim að toppa Arabíska hestinn með næstu plötu? Af þessu lagi að dæma segi ég já!

– Torfi 

James Franco & Seth Rogen – Bound 3

Leikararnir James Franco og Seth Rogen hafa tekið sig til og apað eftir nýjasta myndbandi Kanye West við lagið „Bound 2“, skot fyrir skot. Franco tekur að sér hlutverk Kanye en Rogen er fáklæddur rétt eins og Kim Kardashian. Já, það er alltaf stutt í grínið hjá þeim bræðrum!

– Torfi

Jonas Alaska syngur um október

Fyrir rúmlega ári síðan uppgvötvaði ég norskan tónlistarmann sem kallaði sig Jonas Alaska. Ég var að vinna í Noregi á þessum tíma og var hann með tvö lög í spilun í útvarpinu. Eitt þeirra snart mig mjög en það heitir einfaldlega „October“. Þar syngur hann um unga menn sem fórust á sjónum. Ég er ekki viss hvort að textinn sé byggður á raunverulegum atburðum en mér þykir það líklegt.

Svona talar Jonas um október.

Annars mæli ég með því að fólk tékki betur á honum Jónasi en hann gaf út ágætis plötu í fyrra. Þetta er líka þægilegt í kuldanum.

Torfi

Sundsprettur í nýju myndbandi The xx

Romy Madley Croft á bólakafi!

Hljómsveitin The xx sendi frá sér myndband í dag við lagið „Chained“ af plötunni Coexist sem kom út í síðasta mánuði. Mun þetta vera fyrsta lagið á plötunni sem gert er myndband við af einhverju viti. Leikstjórn var í höndum framleiðslufyrirtækisins Young Replicant en þeir gerðu meðal annars myndbandið við lagið „We Own the Sky“ með M83.

Í þessu myndbandi stinga allir þrír meðlimir The xx sér til sunds. Buslugangur og loftkúlur eru þannig í aðalhlutverki en einnig er mikið um fallega liti í myndbandinu eins og sjá má á skýjunum sem svipar mikið til umbúðanna á plötunni.

– Torfi

YouTube dagsins: The Charlies – Hello Luv

Það hafa allir skoðun á The Charlies (áður Nylon). Fólk annaðhvort hatar þær eða elskar, ég persónulega hata að elska þær. Í dag kom út myndbandið við lagið „Hello Luv“ og sver það sig í ætt við „Monster (Eat Me!)“. Greddan og töffaraskapurinn eru í fyrirrúmi og eru dömurnar aðstoðaðar af Barbie, Ken, dönsurum og saklausum hundi.

Það má segja að myndbandið sé betra en lagið. Maður fær það á tilfinninguna að lagið hafi verið samið undir áhrifum og látið þar við sitja. „Monster (Eat Me!)“ var miklu sterkara lag og féll maður svoleiðis fyrir melódíunni eins og þær sungu sjálfar um.

Úr Hagkaup tískunni yfir í Hollywood.

Ég eitthvern veginn efast um að þetta muni samt ganga hjá þeim þarna úti í Hollywood. Þess vegna er ég kominn með frábæra hugmynd. Ég vil sjá The Charlies í Evróvisjón keppninni á næsta ári! Sleppa þessari undankeppni og fela verkefnið í hendur þeirra. Þær uppfylla nefnilega skilyrðin til þess að ná langt í keppninni, sem eru hæfilega gott lag og laglegar (lag)línur. Ef þær myndu svo ná topp þremur sem er raunhæft markmið myndi það koma þeim rækilega á kortið og opna um leið helling af tækifærum í Evrópu.

Því segi ég við The Charlies: Hættið að eltast við ameríska drauminn og snúið ykkar að Evrópu, það er einfaldlega ekki pláss fyrir fleiri grúppur eins og ykkar þarna úti.


– Torfi