Monthly Archives: janúar 2013

Topp 5: Verstu diska viðskiptin

Ég hef safnað geisladiskum frá því að ég var polli og spannar safnið nær 400 diska í dag. En tónlistarsmekkur minn var lengi í þróun enda fékk ég enga leiðsögn í þessum málum. Þannig að ég gerði um tíma ekki greinarmun á góðri og vondri tónlist, sem skilaði sér stundum í slæmum kaupum eða skiptum. Hér eru topp 5 slæm viðskipti!

# 5

Creed_My_Own_Prison Human_Clay_Cover Weathered_Cover
Diskarnir með Creed.

Ég fýlaði Creed um nokkurt skeið og fjárfesti í öllum diskunum þeirra (á sínum tíma). Þeim pening hefði getað verið varið betur eins og t.d. í 10 pulsutilboð í Bettís eða eitthvað álíka. Það er samt spurning hvort er verra, peningurinn sem maður eyddi í þetta eða tímanum sem maður eyddi í að hlusta á þetta.

# 4

Nirvana
Fyrsti Nirvana diskurinn minn, bara ekki Nirvana sem innihélt Kurt Cobain.

Ég fékk Nirvana delluna í 9. bekk þegar að Elfar (annar helmingur Pottsins) kynnti mig fyrir þeim. Stuttu síðar var ég staddur á Perlumarkaðnum í ‘N’ deildinni þegar ég sá þennan disk merktan Nirvana. Ég keypti gripinn en þegar ég setti diskinn í tækið heima kannaðist ég ekkert við lögin og hvað þá tónlistina. Þá komst ég að því að þetta var hin breska Nirvana sem var iðin við kolann á árunum 1965-1971. Fyrir áhugasama heitir þessi gripur IV (Lost in the Vault).

# 3

Alleyezonme March+2002-+Thierry+Henry,+Robert+Pires+and+Sol+Campbell+of+Arsenal+celebrate+winning+the+league+at+Highbury+against+Everton
All Eyez on Me með 2Pac skipt út fyrir nokkrar útprentaðar Arsenal myndir.

Á mínum yngri árum safnaði ég myndum með Arsenal og klippti þær út úr öllum þeim dagblöðum sem ég fann. Það var ekki tölva á heimili mínu og þar af leiðandi ekki hægt að skoða né prenta út myndir af Arsenal mönnum. Íris bekkjarsystir mín sem var einnig stuðningsmaður Arsenal kom eitt sinn með útprentaðar myndir í lit í skólann. Þetta var eitthvað sem mig langaði í og þar sem blekið var dýrt bauðst ég til þess að láta hana fá All Eyez on Me diskinn í skiptum fyrir 10 útprentaðar myndir en 2Pac var mjög heitur á þessum tíma. Íris tók þessu tilboði enda varla hægt að landa betri díl. 

# 2

Rid_of_Me Creed_Greatest_Hits
Rid of Me með PJ Harvey skipt út fyrir Greatest Hits með Creed.

Elskuleg frænka mín vissi að ég væri mikið gefinn fyrir tónlist og fór í Skífuna fyrir ein jólin í þeim tilgangi að finna eitthvern góðann disk handa mér. Eftir að hafa fengið ráð hjá starfsmanni verslunarinnar fékk hún í hendurnar diskinn Rid of Me með PJ Harvey sem hefur oft verið talað um sem hennar besta verk. Ég opnaði pakkann frá henni og þekkti listamanninn ekki. Í stað þess að sýna þakklæti og gefa PJ Harvey allavega séns skundaði ég með diskinn upp í Kringlu og fékk honum skipt út fyrir Greatest Hits með Creed!

# 1

Nickelback_-_Silver_Side_Up_-_CD_cover Curb-2002
Nickelback diskarnir sem ég keypti. 

Eitt sinn var ég ástfanginn af laginu „How You Remind Me“ og keypti þá diskinn Silver Side Up. „Never Forget“ var hitt lagið sem ég hlustaði á af disknum og eitthvern veginn sá ég ástæðu til að kaupa annan disk með þeim seinna. Þetta eru án efa verstu fjárfestingar á mínum ferli enda hefur hljómsveitin gefið út sama lagið ár eftir ár.

Torfi

Auglýsingar

Frank Ocean skilinn útundan í Django Unchained

Frank-Ocean-4Það er ekki á allra vitorði að einn af tónlistarmönnum síðasta árs hafi samið lag fyrir kvikmyndina Django Unchained. Quentin Tarantino er þekktur fyrir að vera smekkvís þegar kemur að tónlist í kvikmyndum sínum og er  DU þar engin undantekning. En því miður fann hann ekki pláss fyrir lagið „Wise Man“ sem Frank Ocean lagði til og vildi ekki troða því bara einhvers staðar inn af virðingu við Frank.

Þegar að Frank opinberaði lagið fyrir aðdáendum sínum sagði hann: „Django was ill without it“ og hefur greinilega ekki verið sáttur við gang mála.

Þrátt fyrir allt er tónlistin í myndinni óaðfinnanleg en hún hefur að geyma fjögur lög sem voru sérstaklega samin fyrir hana og standa þar lögin eftir John Legend og Rick Ross upp úr að mínu mati. Einnig var gaman að heyra í ellismellum eins og Jim Croce og Johnny Cash enda ekki hægt að skilja sjálfan kántrí meistarann eftir í svona mynd. Opnunarlagið „Django“ er líka æðislegt í flutningi Rocky Roberts en tilburðir söngvarans minna mikið á kónginn Elvis Presley.

Svona gæti ég haldið endalaust áfram enda hvergi veikan blett að finna á sándtrakki Django Unchained. Þó hefði verið gaman að sjá Frank Ocean í þessum fríða hópi!

– Torfi

51 árs Jim Carrey væntanlegur á hvíta tjaldið í ár

Á mínum yngri árum var ég mikill aðdáandi Jim Carrey og er enn. Ég hef lagt það í vana minn að horfa á eina mynd með honum á afmælisdaginn hans, 17. janúar og gærdagurinn var þar engin undantekning. The Truman Show varð fyrir valinu að þessu sinni en hún er með betri myndum grínleikarans geðþekka.

Hann var hvergi sjáanlegur á hvíta tjaldinu í fyrra en í ár verður þar breyting á því að hann mun leika í kvikmyndunum The Incredible Burt Wonderstone og Kick-Ass 2. Í fyrrnefndu myndinni leikur hann töframanninn Steve Gray (sem minnir svolítið á Kid Rock) en þar leikur hann á móti Steve Carell en þeir léku einmitt saman í Bruce Almighty þar sem að Carell fór á kostum. Stiklan fyrir myndina lítur gríðarlega vel út en gaman verður að fylgjast með gömlu kempunum og sjá hvort að þeir geti ekki enn kitlað hláturtaugar fólks.

getImageByAdminMovieIdÍ Kick-Ass 2 leikur hann svo ofursta en það verður spennandi að sjá hvernig hann tekur sig út í henni en Nicolas Cage var til að mynda frábær í fyrri myndinni og sýndi á sér glænýja hlið. Á næsta ári má svo búast við framhaldi af kvikmyndinni sem breytti ferli Jim Carrey á sínum tíma eða Dumb and Dumber. Það eru blendnar tilfinningar í gangi hjá mér varðandi númer tvö en hún verður annað hvort stórkostleg eða hræðileg en samt aldrei verri en Dumb and Dumberer: When Harry Met Lloyd sem hlýtur að vera ein versta mynd allra tíma!

Sum sé, tvær áhugaverðar myndir framundan hjá einum besta grínleikara síðari ára.

– Torfi

Bíó: The Impossible

the-impossible-naomi-watts-1-e1353426328398

Það var óumflýjanlegt að fara með kærustunni á kvikmyndina The Impossible en maður hafði heyrt sögur af fólki sem kæmi ekki einungis útgrenjað af myndinni heldur einnig blautt í fæturna eftir herlegheitin.

Kvikmyndin segir frá fjölskyldu einni sem varð fyrir þeirri ömurlegu lífsreynslu að upplifa flóðbylgjuna miklu árið 2004. Það sem meira er að sagan er sönn en þó ákvað leikstjórinn að breyta þjóðerni fjölskyldunnar. Með hlutverk foreldranna fara þau Ewan McGregor og Naomi Watts og standa þau svo sannarlega fyrir sínu.

Myndin er afar vel gerð og er flóðið svo raunverulegt að það mætti halda að leikstjórinn hafi verið á staðnum með myndavélina þegar herlegheitin riðu yfir. En flóðið er ekki lengi í mynd og var maður hálf stressaður að manni myndi leiðast þegar því var lokið en svo var aldeilis ekki. Við tók hjartnæm saga þar sem að sorg og gleði skiptust á að græta mann og gleðja.

Eftir flóðið fær áhorfandinn að fylgjast með sjónarhornum föðursins og elsta sonarins. Meira er eiginlega ekki hægt að segja án þess að spilla fyrir fólki sem ekki hefur séð myndina en það er alveg hreint magnað að fylgjast með afdrifum þeirra eftir flóð.

The Impossible er kvikmynd sem tekur á en dregur upp fallega mynd af kærleikanum og sýnir úr hverju maðurinn er gerður.

Ps. Í guðanna bænum verið búin að byrgja ykkur upp af pappírsþurrkum áður en gengið er inn í sal!

Torfi