Tónleikadómar

Hér eru nokkrir gamlir plötudómar.

Jeff Buckley tribute tónleikar 13. júní 2007 (skrifað þegar höfundur var á 18 aldursári)

Þann 13. júní 2007 fóru fram tónleikar í minningu Jeff Buckley, en 29 maí síðastliðinn voru liðin heil tíu ár frá dauða þessa merka tónlistarmanns. Reyndar áttu tónleikarnir að vera þann dag en þeim var frestað vegna veikinda. Sá sem stóð fyrir tónleikunum er mikill aðdáandi Jeff Buckley, en það er gítarleikarinn Franz Gunnarsson. Hann hafði fengið til liðs við sig marga af allra færustu tónlistarmönnum landsins og auðvitað var útkoman ekkert annað en tær snilld.

Tónleikarnir stóðust allar mínar væntingar og mun meira en það! Opnunin hefði varla getað verið betri, en upptaka var sýnd frá móður Jeff, Mary Guibert, en hún talaði opinskátt um Franz og þetta verkefni hans og sagði okkur að öskra, syngja með og heilla Jeff Buckley. Þannig byrjaði það og gæsahúðin sem ég fékk af þessu myndbandi entist út alla tónleikana.

Túlkun á Jeff Buckley var í höndum Sverris Bergmanns (Daysleeper) og Kristófers Jenssonar (Lights on the Highway). Mig grunaði allan tímann að Sverri myndi ná Buckley helvíti vel sem og hann gerði með stæl. Hann gerði það svo vel að mér leið eins og að Buckley hefði gert sér ferð niður til jarðar og sungið í gegnum Sverri, slík voru gæðin. Kristó kom mér skemmtilega á óvart einnig, fyrir tónleikana hélt ég að hann myndi ekki ráða við háu tónanna sem einkenna flest lög Buckley. En eftir allt saman stóðst hann prófið og vel það og skilaði sínu hlutverki afar vel þetta kvöld.

Hljómsvetiin var ekki af verri endanum en þeir náðu lögunum ansi vel og strax er byrjunarlagið („Mojo Pin“) hófst hélt ég að verið væri að spila upptökuna af Grace disknum vinsæla. Franz fór auvðitað fyrir sínum mönnum á gítar, aðalmaðurinn á bakvið þetta allt saman en samt fór lang minnst fyrir honum greyinu en hann er lágvaxinn og sköllóttur og stóð lengst til vinstri á sviðinu í skugga. Honum til hjálpar við gítarleik var mættur yngri bróðir Kristófers, Bjarni Þór Jensson, sem spilaði þó mest allan tímann á kassagítar. Hann er gríðarlega efnilegur gítarleikari að mínu mati og vert að fylgjast með honum í náinni framtíð. Á bassann var svo ekki minni maður en Birgir Kárason en hann var til að mynda bassaleikarinn í X-Factor þáttunum og einnig hefur hann verið í hljómsveitinni Ízafold. Húðir þandi minn uppáhalds íslenski trommari og að mínu mati einn sá allra skemmtilegasti á landinu en það er hann Jón Geir Jóhannsson en hann er einmitt trommarinn í Ampop og Hrauni. Það er alveg hreint yndislegt að fylgjast með honum á trommunum, spilagleðin, taktarnir og hæfileikarnir sem hann býr yfir eru ólýsanlegir. Önnur slagverk voru í umsjá Þjórdísar Claessen og hefði ég haldið að hennar væru ekki þörf en síður en svo, slættirnir sem hún hafði fram á að bjóða voru ómissandi og mætti segja að hún hafi verið einskonar þriðja hönd Jóns Geirs. Hljómborðsleikur var svo í hlutverki hins nýja hljómborðsleikara Jeff Who?, Valda Kristjánssonar, einstök frammistaða og hljómborðið var góð fylling í þessa stórgóðu hljómsveit sem spiluðu lög Jeff Buckley af mikilli innlifun.

Gestirnir voru ekki af verri kantinum en því miður forfallaðist Páll Rósinkranz ásamt Pétri gítarleikara. En fyrir þá hlupu góðir menn í skarðið. Einn af mínum uppáhalds söngvurum á Íslandi, Helgi Valur (ekki gaurinn sem var í Idol), kom í stað Palla og söng lagið „Hallelujah“ sem er án efa frægasta lag Jeff Buckley þó það sé ekki eftir hann (Leonard Cohen á það). Í stað Péturs kom svo Bjarni, gítarleikarinn í Mínus, hann spilaði undir hjá Helga og svo einnig hjá Andreu Gylfa sem söng „Satisfied Mind“ einkar vel en það er eitt af mínum uppáhalds lögum. Hann stal kannski svolítið senunni af Bjarna Þór eins og faðir minn orðaði það var það einstök upplifun að sjá hann spila lagið „Hallelujah“. Aðrir gestir voru Finni (Dr. Spock) og De La Rósa (Sometime). Er FInni gekk inn á sviðið hélt ég um stund að vitlausum manni hefði verið hleypt inn en hann er frekar þéttur, snoðaður, með tattú á hausnum og ansi ör. Hann söng lagið „KIck Out the Jams“ eftir MC5 en Jeff tók það oft á tónleikum sínum. Finna tókst að hrista ansi vel upp í salnum en lagið var afar þétt og kom hann inn á sviðið tautandi að nú væri ballið byrjað. De La Rósa kom svo heldur betur á óvart með flutning sínum á „Liliac Wine“, en hún hefur ansi spes rödd sem var ofur nálægt því að fara í taugarnar á mér en svo var hún ósköp sjarmerandi á endanum.

Kynnir kvöldsis var tónlistarnördið Andrea Jónsdóttir en hún hefur greinilega meiri reynslu (þekkingu) af tónlist en það að vera kynnir. Hún horfði sjaldan fram í salinn enda sá hún aldrei neitt (að eigin sögn). Ruglaðist einu sinni skemmtilega og var titrandi og óörugg. Hún bætti þetta þó upp með miklum fróðleik og góðri kynningu á hljómsveit og lögum. Eitthvað sem mér finnst vanta oft á tónleikum alfarið.

Lagaval Franz var til algerrar fyrirmyndar en á þessum stórgóðu tónleikum fékk ég að heyra öll mín uppáhalds lög með uppáhalds tónlistarmanninum mínum Jeff Buckley. Reyndar vantaði eitt lag en það var lagið „Corpus Christi Carol“ en ég var meðvitaður af því að erfitt sé að reyna að fylgja flutningi Jeff þar á eftir, ef það væri eitthvað sem ég gæti trúað því að covera lagið væri það án efa Diddú. Annars voru öll lögin af Grace tekin, nokkur vel valin lög af Sketches for my Sweetheart the Drunk og fá ein lög út fyrir það.

Það má með sanni segja að allt hafi gjörsamlega smollið saman á þessum mjög svo skemmtilegu tónleikum. Franz tókst lygilega vel upp með tónleikana, mannskapurinn var til mikillar mikillar (á að vera tvisvar sinnum) fyrirmyndar og það má segja að Jeff hafi verið heiðraður með miklum stæl þetta kvöld.

John Grant í Edrúhöllinni 17. janúar 2012

Ég skellti mér á tónleika John Grant í Edrúhöllinni í gær fyrir skitnar 500 krónur. Þar með hófst seinni hluti tónleikaraðarinnar „Kaffi, kökur & rokk & ról“ sem er hugsmíð tónlistarmógúlsins Arnars Eggerts.

Árið 2010 kom út fyrsta breiðskífa John Grant undir hans nafni, Queen of Denmark og fékk hún mikið lof og var meðal annars valin plata ársins af tónlistartímaritinu Mojo. John Grant kom svo fram á síðustu Iceland Airwaves hátíð í Hörpunni og á Kex hostel. Ég bölvaði sjálfum mér fyrir að vera staddur erlendis en hélt þó í vonina um að hann myndi spila einn daginn aftur á Íslandi.

Sú var raunin enda maðurinn ástfanginn af landinu. Hann mætti aftur á klakann nú í janúar og er víst að vinna að efni með GusGus sem er í miklum metum hjá honum. Arnar Eggert greip tækifærið og fékk Grant til að spila í Edrúhöllinni sem var vel við hæfi enda Grant búinn að glíma við áfengis- og fíkniefnavandamál.

Myrra Rós sá um upphitun og græddi vel á því enda fullt hús af fólki. Hún stóð sig með prýði og vonandi var umbinn hennar frá Póllandi sáttur sem var þarna mættur til að taka hana út. Það var þó John Grant sem var stjarna kvöldsins og fólk var orðið spennt.

Hann steig á svið ekki löngu seinna og heilsaði fólki á íslensku. Ólíkt öðrum listamönnum sem koma hingað til lands og spreyta sig á íslensku átti John Grant fleiri setningar til og átti furðu auðvelt með að bera fram tungumálið okkar.

Eftir smá kynningu og hlátrasköll hóf hann leik á flygilinn sinn sem var jafnframt eina hljóðfærið sem hann studdist við. Grant spilaði ný lög í bland við lög frá plötunni Queen of Denmark sem og eitt lag með gömlu hljómsveitinni hans, The Czars.

Grant hefur einstaka nærveru og er afar hlýr náungi. Hann lék lögin sín af mikilli innlifun og var sérstaklega gaman af því er hann sagði frá umfjöllunarefni laganna. Ekki skemmdi fyrir að allir voru edrú í húsinu og mætt í þeim eina tilgangi að njóta tónlistar og því um afar gott hljóð að ræða.

Þvílíkur hvalreki sem  John Grant var fyrir Arnar Eggert og góð auglýsing fyrir tónleikaröðina hans sem ég hvet alla til að kíkja á nánar.

Lögin sem Grant tók:

You Don’t Have to
Vietnam
Sigourney Weaver
Where Dreams Go to Die
Drug
TC and Honeybear
It’s Easier
Outer Space
Queen of Denmark
Caramel
Little Pink Houses

_____________________________________________________________________________


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s