Category Archives: Ræmur

Joaquin Phoenix snýr aftur á hvíta tjaldið

Jú þið heyrðuð rétt, Joaquin Phoenix er væntanlegur á hvíta tjaldið í október en hann hefur verið fjarverandi í fjögur ár eða síðan að kvikmyndin Two Lovers kom út. Að vísu kom heimildarháðmyndin I’m Still Here út árið 2010 en þar þóttist hann hafa gefist upp á kvikmyndum og hugðist snúa sér alfarið að rappi. Virkilega súr mynd ef út í það er farið.

En nú er J.P. mættur aftur til leiks í Hollywood en hann leikur á móti kanónunni Philip Seymour Hoffman í The Master eftir leikstjórann og handritshöfundinn Paul Thomas Anderson. Sá maður á nú ekkert slæman feril að baki en hann hefur t.d. leikstýrt og skrifað myndir á borð við Boogie NightsMagnolia og There Will Be Blood. Það má því alveg búast við sprengju enda eru J.P. og P.S.H. með betri leikurum samtímans á góðum degi. 

Always two there are, no more, no less. A master and an apprentice.

Phoenix leikur fyrrverandi hermann sem er nokkuð ráðvilltur eftir herþjónustu sína og kemur þá trúarleiðtoginn Lancaster Dodd (Hoffman) til sögunnar og tekur hann uppá arminn. Lancaster fer fyrir trúfélaginu ‘The Cause’ sem sprettur upp í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Meira veit ég nú ekki um innihald myndarinnar en Phoenix virðist ætla að nota sömu greiðslu og í Walk the Line sem er fagnaðarerindi enda smekkleg með eindæmum.

Til gamans má geta að Johnny Greenwood úr Radiohead samdi tónlistina fyrir myndina og er hægt að hlusta á tóndæmi hér.

– Torfi

Auglýsingar

Kvikmyndir í einræðisríkinu Norður-Kóreu

Það er eitt land umfram önnur sem vekur ávalt áhuga hjá mér en þá er ég að tala um einræðisríkið Norður-Kóreu. Einræðisherrar hafa ráðið ríkjum og sett sérkennilegan blæ á allt þar í landi. Þegnum er bannað að fara úr landi, magn ferðamanna inní landið er mjög takmarkað, það er ekkert internet, ekkert rafmagn í sveitunum og bókstaflega allt er ritskoðað. Ríkisfjölmiðlum kóresku þjóðarinnar (að sjálfsögðu eru engir sjálfstætt reknir miðlar) er stjórnað af Kommúnistaflokknum sem fer vægast sagt frjálslega með sannleikann og segir t.d. frá ótrúlegum sigrum á vettvangi íþrótta, nú síðast á Ólympíuleikunum svo ekki sé minnst á frásagnir af leiðtogum þjóðarinnar, skemmst er að segja frá sannleiksgildi þess sem þar er ritað…

Ráðamönnum í Norður-Kóreu er mikið í mun að sýna útlendingum fram á ágæti þess sem þeir eru að gera og taka því þá örfáu ferðamenn sem til landsins koma í nokkurs konar „show“ um höfuðborgina Pyongyang. Í Pyongyang eru gífurlega dýrar byggingar ásamt styttum af leiðtoganum fráfallna Kim-Il Sung sem bjó til cult úr sjálfum sér en því kefli hafa arftakar hans, feðgarnir Kim Jong-Il og Kim Il-Sun haldið hraustlega á lofti.

Kim Jong-Il ætti að vera flestum kunnur en þó ekki fyrir afrek sín á kvikmyndasviðinu. Hann hafði þó mikinn áhuga á kvikmyndum. Ásamt því að byggja sjö kvikmyndahús fyrir sjálfan sig hafði leiðtoginn ástkæri dálæti á hryllingsmyndum, Godzilla myndum og leikkonunni Elizabeth Taylor. Að lokum hafði þessi ást hans á kvikmyndum það í för með sér að hann vildi búa þær til sjálfur, hann lét reisa risastór kvikmyndaver í miðri höfuðborginni en þrátt fyrir það var skortur á fagfólki í landinu og þá voru góð ráð dýr. Að lokum gerði hann það eina rétta í stöðunni og lét ræna þeim mannskap sem vantaði frá nágrannaríkinu Suður-Kóreu. Útúr þessari vitleysu kom myndin Pulgasari, en hún er ekki einungis mesta steypa kvikmyndasögunnar heldur bara mannkynssögunnar yfir höfuð.

Eina eiginlega reynsla greinarhöfundar af landinu var frekar neiðkvæð, að taka U-beygju framhjá lofthelgi landsins á leið til Japan var ekki góð skemmtun og bætti svona ca. klukkutíma ofaná flug sem var þá þegar orðið alltof langt.

Mögnuð heimildamynd um kvikmyndir í NK:

Pulgasari í fullri lengd:

-efh

Litið yfir feril Tony Scott

Þær sorglegu fréttir bárust fyrir nokkrum dögum að breski leikstjórinn Tony Scott hefði framið sjálfsmorð og er því ekki úr vegi að rifja upp feril þessa merka leikstjóra og fara yfir nokkrar af hans bestu myndum.

Á góðri stunduÁ góðri stundu !

Tony Scott fæddist í Bretlandi á því merka ári 1944, fáeinum dögum eftir að sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar lauk. Hann var yngstur þriggja bræðra og ekki hár í loftinu þegar kvikmyndabakterían nær fyrst tökum á honum. Haft er eftir Tony að hann hafi skuldað pening „hægri, vinstri“ og því þáð boð eldri bróðir síns Ridley (AlienGladiatorPrometheus) um að leikstýra auglýsingum, þá fimmtán ára gamall. Bræðurnir enda svo á því að leikstýra í kringum þúsúnd auglýsingum næstu áratugi. Auglýsingabransinn reyndist góður skóli fyrir bræðurna sem voru þó í meira mæli farnir að hallast að gerð kvikmynda í fullri lengd. Á níunda áratugi síðustu aldar hófu nokkrir leikstjórar breska innrás á Bandaríkjamarkað og í broddi fylkingar voru bræðurnir tveir. Þessi innrás var harkalega gagnrýnd af þarlendum miðlum sem spurðu sig hvað nokkrir Bretar með bakgrunn í auglýsingum hefðu fram að færa í Hollywood. Framleiðandinn Jerry Bruckheimer var þó á öðru máli og gaf Tony tækifæri á að spreyta sig, það samstarf átti eftir að vera gjöfult og skilaði 6 myndum áður en yfir lauk.

Árið 1986…
Leikstýrir Tony Scott kvikmyndinni Top Gun sem er framleidd af áðurnefndum Jerry Bruckheimer. Myndin sló í gegn og malaði gull fyrir fjárfesta og naut mikillar hylli meðal áhorfenda, gagnrýnendur eru hins vegar ekki jafn hrifnir en þetta átti síðar eftir að verða endurtekið efni í sambandi við flestar hans myndir. Myndin kemur ekki aðeins Tony á kortið heldur einnig Vísindakirkju geðsjúklingnum Tom Cruise sem bar harm sinn að mestu leyti í hljóði við fráfall Scott, tísti þessum skilboðum þó til fylgismanna sinna á twitter og er maður meiri fyrir vikið!

Árið 1987…
Sér Tony til þess að Axel Foley í túlkun Eddie Murphy snúi til baka í kvikmyndinni Beverly Hills Cop II. hann leikstýrði ekki fyrstu myndinni í seríunni en steig hvergi feilspor í útsetningu sinni á þeirri seinni. Myndin er frábær afþreying, í senn hröð og fyndin og sannar færni Tony í að skapa úrvals afþreyingu.

Árið 1991…
Lýtur The Last Boy Scout dagsins ljós. Þar leiða lögreglumaðurinn Joe Hallenbeck (Bruce Willis) og ruðningskappinn Jimmy Dix (Damon Wayans) saman hesta sína við rannsókn á morðmáli, en ung stúlka finnst látin. Myndin er ótrúlega skemmtileg en þó ekki án galla og kemst kvikmyndagagnrýnandinn Roger Ebert að þessari niðurstöðu um myndina:

Bruce Willis fýrar

„The movie is a superb example of what it is: a glossy, skillful, cynical, smart, utterly corrupt and vilely misogynistic action thriller. How is the critic to respond? To give it a negative review would be dishonest, because it is such a skillful and well-crafted movie. To be positive is to seem to approve its sickness about women. I’ll give it three stars. As for my thumb, I’ll use it and my forefinger to hold my nose.“ – Roger Ebert

Árið 1993…
Kemur myndin True Romance út en handritið að myndinni skrifaði enginn annar en Quentin Tarantino, kannski sú mynd sem hefur fengið hvað besta dóma meðal gagnrýnenda og finnst mér einsog hún hafi loks verið metin að verðleikum í seinni tíð. Myndin er stjörnum prýdd einsog flestar af myndum Scott. Frammistaða Gary Oldman er sérstaklega áhugaverð en hann bregður sér í hlutverk eiturlyfjasalans Drexl.

Drexl

Árið 2001…
Er komið að Nathan D. Muir (Robert Redford) að bjarga fyrrum lærlingi sínum Tom Bishop (Brad Pitt) úr klóm öfgamanna í myndinni Spy Game. Þetta er kláralega mín uppáhalds mynd eftir títt nefndan leikstjóra enda vel heppnuð í alla staði, ekki skemmir fyrir að lagið „Brothers in Arms“ eftir Dire Straits sé notað í senunni hér fyrir neðan:

Árið 2004…
Kemur út myndin Man on Fire, en hún er eina myndin á listanum sem ég hef ekki séð, ég hef því takmarkaðan áhuga á að hripa eitthvað niður um hana. Ef marka má uppistandarann Chris Rock er myndin hins vegar hin besta skemmtun! Látum hann eiga lokaorðin í þessari grein…

– Elfar

Topp 5: Myndir með Russell Crowe

Eins og kunnugt er var Russell Crowe staddur hérlendis um daginn. Hann varð mikið fjölmiðlafóður í kjölfarið og ætlar potturinn ekki að vera neinn eftirbátur í þeim málum. Í tilefni af viðveru hans ætla ég að henda í topp 5 lista yfir hans bestu kvikmyndir. Listinn hefst á fimmunni.

#5 American Gangster (2007)

Frábær ræma úr smiðju Ridley Scott. Hér eru sameinaðir tveir þungavigtarmenn í Russell Crowe og Denzel Washington en þeir hafa einmitt báðir leikið boxara á ferlinum. Crowe leikur leynilögguna Richie Roberts sem ætlar sér að taka eiturlyfjakónginn Frank Lucas (Denzel) úr umferð. Ég man það svo vel hvað mér brá að sjá Russell Crowe svona feitan en það hefur víst fylgt hlutverkinu.

#4 The Next Three Days (2010)

Þessi kom skemmtilega á óvart. Það var eiginlega ekki í mínum plönum að sjá myndina en félagi minn hvatti mig til þess að horfa á hana og þvílík mynd! Ég gat ekki einu sinni farið niður í eldhús til að setja poppið í örbylgjuofninn. John Brennan (Crowe) þarf að taka til örþrifaráða þegar eiginkona hans, Lara Brennan (Elizabeth Banks) er sökuð um morð. Skylduáhorf fyrir alla spennufíkla!

#3 A Beautiful Mind (2001)

Crowe sýnir á sér glænýja hlið en hann er ekki beint vanur því að leika einhverfan stærðfræðing. Hér er á ferðinni hörku ræma en hún sópaði til sín fernum verðlaunum á Óskarnum árið 2002 og meðal annars fyrir bestu mynd. Það var mikill skandall að Russell Crowe skyldi ekki vinna styttuna fyrir besta leik í aðalhlutverki en hana fékk Denzel nokkur Washington fyrir leik sinn í Training Day.

#2 L.A. Confidential (1997)


Öflug mynd með úrvals leikurum en ásamt Crowe eru þarna kórbræður eins og Kevin Spacey, Guy Pearce og Danny DeVito. Russell Crowe fer hreinlega á kostum sem hinn ljónharði Edmund ‘Bud’ White en hann er duglegur að láta finna fyrir sér í myndinni. Það er spilling í borg englanna en Nætur uglu morðin eiga hug Edmunds allan og einnig tveggja starfsbræðra hans. Krákan hefur sjaldan verið betri en einmitt í þessari mynd!

#1 Gladiator (2000)


Fyrirsjáanlegt val? Má vera en hún á fyrsta sætið svo sannarlega skilið! Það er mér enn í fersku minni er mér var neitaður aðgangur á myndina í Háskólabíói á sínum tíma þó ég væri í fylgd með föður mínum. Ég fór bókstaflega hágrátandi út í bíl og skellti hurðinni á eftir mér og má segja að ég hafi verið í svipuðu ástandi og þegar Maximus kom að fjölskyldu sinni í gálganum. Ekki leið á löngu þó þar til ég fengi að sjá rulluna og var mér þá ljóst að betri kvikmynd myndi ég aldrei sjá.

Áferðafalleg kvikmynd um hrakfarir Rómaveldis og Maximus hershöfðingja er hinn snarspillti Commodus (Joaquin Phoenix) lætur að sér kveða. Það þekkja margir þá tilfinningu að berjast gegn ranglætinu með réttlætinu og því held ég að margir hafi fundið sig í Maximus og þar af leiðandi lifað sig meir en venjulegt er inní myndina. Gæsahúðin gerir vart við sig á mörgum stöðum í myndinni og er sama hversu oft ég horfi á hana, gæsahúðin birtist alltaf aftur og aftur. Ég er orðinn það heitur eftir þessi skrif um Gladiator að ég held ég skelli henni bara í tækið núna.

– Torfi