Færslusafn

Topp 5: Íslensku plöturnar 2017

Íslenska plötuárið 2017 var gjöfult og kom út ógrynni af efni. En þrátt fyrir margar útgáfur átti ég erfitt með að manna topp 5 lista yfir bestu plötur ársins. Það er þó ekki við listamennina að sakast heldur fyrst og fremst sjálfan mig þar sem erfitt er að komast yfir svona mikið af efni á stuttum tíma. En þær plötur sem skipa efstu 5 sætin hjá mér voru sennilega þær sem ég hlustaði mest á yfir árið og kannski ekki furða þar sem mér þótti þær bera af. Það getur vel verið að listinn myndi líta öðruvísi út eftir hálft ár en ég er nokkuð viss um að plöturnar í topp 4 myndu alltaf halda sér. En eins og staðan er á mér í dag eru þetta 5 bestu íslensku plötur ársins 2017.

# 5 Sturla Atlas – 101 Nights

101 Nights er fjórða plata Sturla Atlas en þeir hafa verið afar duglegir að semja og senda frá sér efni frá því að frumburðurinn Love Hurts kom út 2015. 101 Nights er þeirra besta verk til þessa og sýnir fram á að strákarnir eru búnir að þroskast heilmikið sem lagahöfundar. Gallinn við fyrri verk er sá að plöturnar voru ekki nægilega sterkar í heildina en áttu þó ágætis spretti og frábær lög inn á milli. Hér gætir aðeins meira jafnvægis, kannski engir dúndur slagarar en lögin eru öll yfir meðallagi góð og platan heldur dampi út í gegn. Nýtingin á „Svaraðu“ með king Herbert Guðmundsson í „Leap of Faith“ er svo dásamleg.

Lykillög: Mean 2 You, One Life, Time, Waiting.

# 4 Auður – Alone 

Auður er listamaður sem ég fæ hreinlega ekki nóg af, bæði í þeim skilningi að ég get hlustað endalaust á tónlistina hans og hann gefur ekki út nógu mikið efni. Frumraun hans Alone er vandað verk og rennur ljúflega í gegn. Öll lög eru tengd og platan er í raun eins og eitt langt lag. Titill plötunnar ber nafn með rentu en yrkisefnið er fjarveran frá kærustunni sem hélt utan til náms. Auður skefur ekki af hlutunum og lætur allt flakka og mæli ég hiklaust með plötunni fyrir rómantíska kvöldstund með makanum. Já og án makans líka.

Lykillög: 3D, Both Eyes on You, South America, When It’s Been a While.

# 3 Ásgeir – Afterglow 

Það var alltaf að fara að vera vandasamt verk að fylgja á eftir velgengni Dýrð í dauðaþögn sem kom Ásgeiri Trausta á kortið árið 2012 og gerði hann að einu heitasta nafni íslensku senunnar. En það tókst furðu vel og er Afterglow verðugur eftirfari frumburðarins. Hljóðheimurinn er orðinn stærri og meiri pælingar eru í gangi. Þó ég sé mikill aðdáandi gamla Ásgeirs Trausta og íslensku textana sem prýddu fyrstu plötuna þá sýnir hann hér að hann er enginn sveitapiltur lengur og hefur þroskast heilan helling sem tónlistarmaður.

Lykillög: Afterglow, Dreaming, Stardust, Unbound.

# 2 Aron Can – Ínótt

Aron Can. Hvað getur maður sagt um þetta undrabarn? Ínótt er í rauninni hans fyrsta stóra plata og fylgir á eftir hinni glæsilegu frumraun, Þekkir stráginn. Platan telur heil 13 lög og ekkert hálfkák í gangi. Platan kom út á vegum plötuútgáfunnar Sticky og er cd útgáfan hin glæsilegasta. Innihaldið er gott líka og það vefst ekkert fyrir Aroni og félögum að búa til slagara og góð lög. Meira svona!

Lykillög: Fremst þegar ég spila, Fullir vasar, Geri þetta allt, Ínótt, Sleikir á þér varirnar.

# 1 Joey Christ – Joey 

Jóhann Kristófer eða Joey Christ var afkastamikill á síðasta ári en ásamt því að standa í útgáfu með Sturlu Atlas-flokknum sendi hann frá sér tvær plötur með viku millibili í byrjun júlí. Sú fyrri, Anxiety City var á ensku en sú síðari, Joey var á íslensku og hitti beint í mark hjá mér. Fyrir utan fyrsta lagið á plötunni eru gestir í öllum lögunum og það eru þeir ásamt Joey sem gera plötuna að því sem hún er. Þessir gestir setja svip sinn á lögin og eru ekki valdir í verkefnið af ástæðulausu. Stíllinn hans Joey er skemmtilegur og stundum hálf kjánalegur eins og t.d. í laginu „Ísvélin“ þar sem hann fer í nokkrar augljósar staðreyndir í byrjun lagsins. Innkoma Sturlu Atlas er líka kómísk í meira lagi þar sem hann talar fallega til síns besta vinar. Jóhann fylgist greinilega vel með í músíkinni og ber nýting hans á hljómsveitinni Súkkat í laginu „Ísland“ vott um það. Sömuleiðis sækir hann í efnivið 12:00 og notar aðalstefið úr því í lagið „Gella Megamix“ sem stendur undir nafni. Þegar allt kemur til alls er platan stórskemmtileg og tekur sig mátulega alvarlega og sýnir svart á hvítu að Joey Christ getur vel staðið á eigin fótum.

Lykillög: G Blettur, Hanga með mér, Ísvélin, Joey Cypher, Túristi.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Plötudómur: Prins Póló – Sorrí

Sorrí

Í fyrra skrifaði ég á Pottinn að ein mestu vonbrigðin árið 2013 hafi verið þau að Prins Póló hafi ekki gefið út plötu en miðað við lagið „Bragðarefir“ væri von á góðu í ár. Prinsinn fékk skilaboðin og var ekki nema 4 og hálfan mánuð að bregðast við með plötunni Sorrí en ég er afar hrifinn af nafngiftinni og tek hana til mín enda tel ég að Prinsinn sé að afsaka plötuleysið í fyrra.

Sorrí er þriðja plata Prins Póló og án efa sú besta þó að hinar tvær hafi verið afar skemmtilegar. Áður hafa komið út stuttskífan Einn heima (2009) og breiðskífan Jukk (2010). Lögin á Sorrí eru misgömul en það kemur ekki að sök og heildarbragur plötunnar er góður. Hér mæta til leiks frábær lög eins og „Bragðarefir“, „Tipp Topp“ og „Föstudagsmessa“ og hefði maður nú haldið að erfitt væri að halda í við þau. En Prinsinn er frjór í sköpun sinni og hleypir nokkrum skotum af í viðbót með lögum eins og „Hamstra sjarma“, „Ég kem með kremið“ og „Finn á mér“ sem er í uppáhaldi þessa dagana hjá þeim sem ritar.

Á þessari plötu er komið aðeins meira kjöt á beinið en á Jukk en hér er hljóðheimurinn orðinn stærri og takturinn fastari. Það gæti verið að Sexy Schidt útfærslan á „Niðrá strönd“ hafi opnað augu Prinsins og sýnt honum fram á það að hann gæti búið til lög sem ættu heima á sveittustu dansgólfum bæjarins. Plötusnúðar landsins hafa allavega úr nokkrum lögum að velja á Sorrí. 

Eins og áður eru textarnir fyrirferðamiklir og það er bara eitthvað að ef Svavar verður ekki tilnefndur sem textahöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrir árið 2014. Textarnir eru að sjálfsögðu á íslensku (fyrir utan smá útlensku í „Lúxuslíf“) og afskaplega vel samdir og skemmtilegir. Hlustendur fá því nokkuð mikið fyrir sinn snúð en ekki nóg með það að lögin séu hressandi og vel samin að þá hitta textarnir einnig í mark.

Þróun Prins Póló er ekki ósvipuð og hjá dúettnum Súkkat sem gaf á sínum tíma út þrjár plötur. Þeir félagar höfðu nokkuð hægt um sig á fyrstu tveimur plötunum sínum, Dúettinn Súkkat og Fjap en keyrðu svo allt í gang á þriðju plötunni sinni, Ull. Textarnir þeirra voru einmitt þeirra aðalsmerki og er því margt líkt með þessum tveimur hljómsveitum og hvet ég unnendur Prins Póló til að hlusta á Súkkat.

Niðurstaða: Prins Póló hefur tekist að toppa forvera sína og það með stæl. Eldri lögin hafa loksins fengið heimili og njóta góðs félagsskaps af nýjum lögum sem eru alls ekki síðri. Sorrí verður í bílnum þínum í allt sumar og ofarlega á árslistunum í vetur.

Ps. Hvort á maður að skrifa Prins Póló eða Prinspóló?

– Torfi Guðbrandsson