Færslusafn

Airwaves: Fimmtudagur

Annar í Airwaves og ég mættur upp í Hörpu nokkuð ráðvilltur. Það var tvennt sem ég varð að sjá þetta kvöld, Jamie N Commons og Haim. Ég tók því enga sénsa og kom mér tímanlega fyrir í Silfurbergi. Þar átti Lára Rúnars að stíga á svið og maður lét sig nú hafa það.

Ég veit ekki með Láru, hún fær góðan stuðning frá færum listamönnum en klúðrar svo málunum í sviðsframkomu og tali. Þetta er allt eitthvað svo klisjukennt. Hún getur samt alveg sungið og hún hefur ágætis hugmyndir í farteskinu en hún ætti samt að einbeita sér að því að vera hún sjálf.

Jamie N Commons var næstur á svið en það mun vera djúpraddaður andskoti frá Bretlandi. Honum hefur verið líkt við ekki ómerkari menn en Tom Waits og Nick Cave, slík eru gæðin. Að auki hefur hann góðan bakgrunn í blúsi eftir veru sína í Chicago. Jamie og hljómsveit hans kom, sá og sigraði, allavega mig. Ég var með gæsahúð lag eftir lag. Tónlistin var líka fjölbreytt og prógrammið var jafnt og þétt. Með betri tónleikum sem ég hef séð á Airwaves og bið ég ykkur um að muna þetta nafn í náinni framtíð.

Planið var að fara á Gaukinn en fyrst það var engin röð fyrir utan Þýska barinn varð maður eiginlega að kíkja á Gísla Pálma. Hann hóf leikinn á „Swagalegt“ og það var swagaleg upplifun. Eftir að Gísli var hálfnaður með annað lagið ákvað ég að rölta yfir á Gaukinn þar sem að Sudden Weather Change var að stilla upp.

Ég hef aldrei hlustað á SWC af neinu ráði. Þeir eru samt vel metnir hjá pressunni og ég var temmilega spenntur fyrir útkomunni. Þetta eru flottir drengir og ábyggilega mjög góðir í því sem þeir eru að gera en þetta heillar mig ekki.

Næst á svið var Nova Heart en hún kemur alla leiðina frá Kína. Fyrir minn smekk aðeins of mikil sýra en flottir tilburðir inn á milli hjá meðlimum og söngkonan örugg og kraftmikil. Áhorfendur voru að fýla þetta og mega þeir kínversku vera sáttir með sitt.

Þá var komið að því sem allir höfðu beðið eftir, hljómsveitin Haim frá Bandaríkjunum. Þrjár myndarlegar systur og einn drengur sem lamdi húðir. Þau rifu stemninguna upp á annað plan og vöfðu áhorfendum um fingur sér. Stúlkan á bassanum verður mér alltaf minnisstæð en ekki endilega fyrir flotta takta á bassanum heldur fyrir gapandi gin sitt. Um leið og hún byrjaði að plokka bassann opnaðist kjafturinn á henni upp á gátt. Maður var pínu smeykur. Annars virkilega gott sett hjá þeim og góð sviðsframkoma sem gefur alltaf vel. Flottasta stúlknaband sem ég hef séð, punktur.

Þessar stöllur sáu til þess að ég fór sáttur heim.

Torfi

Auglýsingar

Yfirheyrslan: Ívar Björnsson (Nolo)

Yfirheyrslan er nýr liður hér á Pottinum þar sem við tökum tónlistarmenn af handahófi og yfirheyrum þá rækilega. Sá fyrsti hefur gert það gott undanfarin ár með hljómsveit sinni Nolo en taka verður þó fram að þetta er ekki knattspyrnumaðurinn Ívar Björnsson.

Fullt nafn: Ívar Björnsson.

Aldur: 21.

Staða í hljómsveit: Hljómborð, bassi og söngur.

Fyrri hljómsveitir/verkefni: Spooky Jetson a.k.a. Black Sabbath Íslands.

Áhrifavaldur/ar þínir: Alltaf erfitt að svara þessari spurningu en ég hlusta mikið á t.d. Marc Bolan/T. Rex, Gary Numan, Black Sabbath og Beach House.

Drauma staður til að spila á: Um borð í Norrænu, eða gamalli kirkju eins og t.d. Dómkirkju Flórens, væri örugglega magnað sound þar.

Hefurðu gefið eiginhandaráritun: Já það hef ég.

Frægasti tónlistarmaður sem þú hefur hitt: Bó Hall.

Efnilegasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Er ekki Ásgeir Trausti að gera allt vitlaust? Hann er efnilegur en svo er grjóthart band sem kallast Saytan, þeir eru með mjög flott stöff sem lofar góðu.

Ofmetnasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Það eru nokkrar ofmetnar hljómsveitir hér á landi en ég get ómögulega sagt hverjir það eru, ég vil ekki að fólk hræki á mig út á götu.

Vanmetnasti: Kannski skrítið að nefna FM Belfast þar sem þau eru gríðarfræg hér á landi en mér finnst þau svo vanmetin erlendis. How to Make Friends er plata í heimsklassa og ætti að fá meira umtal erlendis. Gæti verið að ég sé að rugla og að þau séu mjög fræg þarna úti en þetta er það sem mér finnst.

Bestu tónleikar sem þú hefur spilað á: Spiluðum eitt sinn á menntaskólaballi MH á Nasa, það var örugglega enginn að hlusta heldur í leit að sleik en við misstum okkur í gleðinni á sviðinu. Svo hafa allir Airwaves tónleikarnir okkar heppnast gríðarvel.

Bestu tónleikar sem þú hefur séð: Ég fór á Rolling Stones í Köben og það var magnað, erfitt að toppa þá tónleika.

Ef þú mættir velja hvern sem er á Íslandi til að semja lag með: Við erum fljótlega að fara að semja lög með drengjunum í Sudden Weather Change. Við höfum áður unnið lag saman sem ber heitið „Saan Rail“ sem má finna á plötunni Hitaveitan, mjög svo sveitt og skemmtilegt lag.

En utan landsteina: Maður hefði verið til í að vinna með Gary Numan, maðurinn á milljón forn syntha. En hann er orðinn svo dark eitthvað, komið þetta Emo element í hann sem ég er ekki að fíla. En það væri t.d. spennandi að vinna með Beach House eða jafnvel Empire of the Sun.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem hefur hent þig á tónleikum: Það var eitt fyndið atvik sem við lentum í með Spooky Jetson. Það var þannig að við vorum að spila á Samfés á litlu sviði í Laugardalshöllinni. Við vorum svona 14-15 ára gamlir og óreyndari en skelfiskur á þurru landi. Það safnaðist saman stór hópur af krökkum þegar við byrjuðum að spila og fremst í hópnum voru kolóðar stelpur. Þær voru að grípa í buxnaskálmarnar hjá manni eða skónna og gargandi líkt og við værum Hvanndalsbræður á miðju sveitaballi. Svo tók einhver gítarinn hans Nonna úr sambandi á miðjum leikum. En allt gekk vel og við þurftum lögreglufylgd út.

Hvað er framundan: Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur, eitt hljómborðið okkar sem við höfum notað síðan í byrjun bilaði á miðri æfingu. Hljómborðið var skran úr Góða hirðinum en það innihélt trommusound sem finna má á flestum lögum okkar ásamt flottum en barnalegum synthaeffectum. Þannig að núna erum við á fullu í því að finna staðgengil og þróa soundið okkar ennþá meir.

Ívar í vinnunni.

Torfi