Færslusafn

Bestu kvikmyndir 2017

Kvikmyndaárið var að mínu mati ansi sterkt og nokkuð margar myndir sem ég var spenntur að sjá. Framhaldsmyndir voru áberandi í ár og í mörgum tilfellum áttu þær að fylgja á eftir vel heppnuðu upphafi. Svo voru aðrar myndir sem áttu að bjarga málunum eins og t.d. Wonder Woman og Justice League sem fengu það hlutverk að gera DC Comics-bálkinn að alvöru keppinaut fyrir Marvel-myndirnar en þó að þær hafi ekki náð inn á topp 10 hjá mér þá eru þær skref í rétta átt. Það var líka nóg um að vera hér á landi þar sem að Hjartasteinn, Undir trénu og Ég man þig standa upp úr en hrifnastur var ég af Undir trénu. Á þessum lista ætla ég samt að halda mig við erlendu myndirnar. Þetta eru 10 bestu myndirnar sem ég sá á árinu.

# 10 – It

Ég hef aldrei verið eins spenntur fyrir hryllingsmynd líkt og ég var fyrir It en eftir að hafa séð stikluna fyrir myndina í byrjun árs taldi ég nánast niður dagana í frumsýningu. Myndin minnir um margt á þættina Stranger Things þar sem að krakkagengi berst við yfirnáttúruleg öfl. Trúðurinn er vel heppnaður og frammistaða sænska leikarans Bill Skarsgård er ekkert annað en mögnuð. Ungu leikararnir eru hver öðrum flottari og stór ástæða þess að myndin drífur í 10. sætið á þessum lista.

# 9 – T2 Trainspotting

Það er ákveðin áhætta fólgin í því að ráðast í framhaldsmynd 20 árum eftir að fyrri myndin kom út. Þetta mistókst t.d. í tilfelli Dumb and Dumber To. En í tilfelli T2 Trainspotting eru engin mistök gerð. Persónurnar hafa vissulega elst um 20 ár en hér er haldið rétt á spöðunum. Karakterarnir eru ennþá jafn skemmtilegir og síðast og standa þar Spud og Begbie upp úr. Frábært framhald af einni bestu mynd síðasta áratugs 20. aldar.

# 8 – Thor: Ragnarok 

Það var kominn tími á almennilega mynd um þrumuguðinn Þór. Thor: Ragnarok slær fyrri tveimur ref fyrir rass og vel það. Hér eru allir upp á sitt besta og nýju karakterarnir bæta miklu við. Ásgarður nýtur sín vel og bardagasenurnar eru glæsilegar. Myndin er bráðskemmtileg enda húmorinn allsráðandi og þar fer Chris Hemsworth á kostum. „Immigrant Song“ með Led Zeppelin er svo notað á hárréttann hátt í lokin á myndinni.

# 7 – Guardians of the Galaxy Vol. 2 

Það er hreinn ógerningur að kunna ekki vel við verndara vetrarbrautarinnar. Fyrri myndin var kærkomin tilbreyting frá hefnendunum og fólk vildi sjá meira af þessum stuðboltum, þar á meðal ég. Framhaldið tekst vel til og útfærslan á illmenninu heppnast vel og kemur á óvart. Það sem einkenndi fyrri myndina var frábær tónlist og það á einnig við hér. Geimópera í hæsta gæðaflokki!

# 6 – Baby Driver 

Ég vildi óska þess að Baby Driver hefði komið út þegar ég var nýbúinn að fá bílpróf síðla árs 2006. Þá hafði ég brjálaðan áhuga á akstri og það skipti mig hjartans máli hvað ég var að hlusta á í bílnum á meðan ég rúntaði um bæinn. En allt í góðu. Myndin er frábær skemmtun þar sem að samspil tónlistar og kvikmyndar hefur sjaldan verið betra. Hvert smáatriði er úthugsað og virðist vera að leikstjórinn Edgar Wright láti myndina stjórnast af lögunum. Verst er að Kevin Spacey leikur nokkuð mikilvægt hlutverk í myndinni.

5 – Get Out 

Það er langt síðan að kvikmynd kom mér eins mikið á óvart og Get Out. Áferðafalleg kvikmynd sem byrjar nokkuð sakleysislega en verður svo æ óþæginlegri og skrítnari og að lokum allsvaðaleg. Ég var hálfgeru áfalli eftir áhorfið og þurfti smá tíma til að jafna mig. Óvæntasti smellur ársins klárlega!

# 4 – Logan 

Loksins fékk Hugh Jackman kvikmyndina sem hann átti skilið. Hér er hann þjakaðri en nokkru sinni fyrr en á sama tíma hokinn af reynslu. Ofan á það er flækjustigið í lífi hans orðið töluvert meira með komu Lauru. Nú þarf hann að láta klærnar standa fram úr ermum í síðasta sinn og það er unun að fylgjast með. Hugh Jackman getur gengið sáttur frá borði verði þetta hans síðasta skipti í Wolverine gervinu.

# 3 – Star Wars: The Last Jedi 

Forsýning Nexus á Star Wars: The Last Jedi var klárlega hápunkturinn í ár þó að myndin drífi ekki ofar en í þriðja sæti. Það á náttúrulega að vera bannað að láta mann bíða í 2 ár eftir framhaldi en biðin var algjörlega þess virði. Ég er í hópi þeirra Stjörnustríðsaðdáenda sem var ánægður með myndina og hef ekki fundið neinar ástæður til þess að rakka hana niður. Þróunin á Kylo og Rey er mér að skapi og það var notalegt að fá að eyða kvöldstund með Luke Skywalker í síðasta sinn. Nú er bara spurning hvernig þeim tekst að loka þessum þríleik.

# 2 – Dunkirk 

Ég var farinn að sakna þess að sjá eitthvað eftir meistara Nolan og eftir að Dunkirk rataði í kvikmyndahús hér á landi setti ég kröfu á að sjá hana í sal 1 í Egilshöll þar sem ég vildi láta taka mig í augun og eyrun. Og það var nákvæmlega það sem hún gerði. Í gegnum tíðina hef ég séð margar frábærar stríðsmyndir byggðar á sönnum atburðum en engin hefur tekið sömu nálgun og Dunkirk gerir þar sem áhorfandinn fær allt aðra upplifun en áður. Stórkostleg mynd sem rígheldur manni í sætinu allan tímann!

# 1 – Blade Runner 2049 

Ég var orðinn vel spenntur fyrir Blade Runner 2049 og eins og með SWTLJ dugði ekkert minna til en salur 1 í Egilshöll. Og þvílík kvikmynd. Nútíma listaverk sem heiðrar forvera sinn og þróar heiminn í rétta átt á sama tíma. Ryan Gosling smellpassar inn í þennan heim sem vélmennið K og heldur myndinni uppi lengst af. Þrátt fyrir að slaga upp í næstum þrjá tíma sóar kvikmyndin ekki einni sekúndu að mínu mati og það eru sannkölluð forréttindi að fá að upplifa mynd af þessu kalíberi í bestu mögulegu gæðum. 10 af 10!

Aðrar sem voru nálægt (í stafrófsröð):

Atomic Blonde 
Coco
John Wick 2 
La La Land
Manchester by the Sea 
War of the Planet of the Apes
Wonder Woman

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Þáttarýni: Mindhunter

Stóra málið í þáttaheiminum í vetur var vitaskuld önnur þáttaröðin af Stranger Things sem datt inn á Netflix veituna þann 27. október síðastliðinn. Það varð hálfgert tómarúm í lífi margra eftir að hafa lokið við seríuna vitandi það að heilt ár væri í þá næstu. Hvað skyldi þá glápa á næst? Flestir virðast hafa snúið sér að Mindhunter og hafa þættirnir verið á milli tannanna á fólki síðustu misseri. Ég var þar engin undantekning enda vantaði mig að fylla upp í tómarúmið eftir ST.

Í stuttu máli fjallar Mindhunter um störf FBI-fulltrúana Holden Ford og Bill Tench og sálfræðiprófessorsins Wendy Carr. Saman vinna þau að því að taka viðtöl við dæmda raðmorðingja og greina þau í því skyni að skilja betur hvernig þeir hugsa og hvaða ástæður kunna að liggja að baki að menn fari þá leið að myrða fólk. Markmiðið er að nýta vitneskjuna sem hlýst af vinnunni í að leysa mál af svipuðum toga. Bókin Mindhunter: Inside the FBI’s Elite Serial Crime Unit er undirstaða þáttanna en Holden Ford er einmitt byggður á John E. Douglas, öðrum höfundi bókarinnar. Það gerir þættina mun skemmtilegri að vita að þeir séu byggðir á sönnum atburðum og skilur það þáttinn strax frá öðrum glæpaþáttum sem rista ekki eins djúpt vegna yfirvinnu skáldagyðjunnar.

Fyrsti þátturinn er engin flugeldasýning og það er mikilvægt að missa ekki trúna á framhaldinu. Við fáum að kynnast Holden Ford sem leikinn er af Jonathan Groff sem var fyrir þættina ekki stærsta nafnið í bransanum. „Average Joe“ myndi sennilega lýsa karakternum (og jafnvel leikaranum líka) best og í byrjun virkar hann frekar flatur en hann vinnur vel á og verður á endanum afar áhugaverður. Reynsluboltinn Bill Tench er ögn týpískari karakter, við höfum margoft séð svipaðar týpur á hvíta tjaldinu. Í starfi sínu er hann með allt á hreinu en einkalífið er í smá uppnámi. Í sjötta þætti fáum við fyrst að skyggnast inn í fjölskyldulíf Tench og þá sér maður hversu vanmáttugur hann er þar, bæði gagnvart ættleidda syni sínum og eiginkonunni.

Ástralska leikkonan Anna Torv sér um að leika sálfræðiprófessorinn Wendy Carr sem er ansi áhugaverður karakter og það er gaman að fylgjast með hversu heillaður Holden Ford virðist vera af henni í þáttunum. Á tímapunkti hélt maður jafnvel að hann væri orðinn heitur fyrir henni en Wendy Carr gefur aldrei færi á sér. Ég var ekki eins hrifinn af Debbie Mitford (Hannah Gross) kærustu Ford. Mér fannst hún beinlínis leiðinlegur karakter og senurnar á milli þeirra þær sístu í þáttunum þar sem Ford var yfirleitt af ræða við hana um vinnuna sína og fá hennar álit.

Það væri ekki eins mikið varið í þættina ef ekki væri fyrir magnaða frammistöðu þeirra sem túlka raðmorðingjana. Þeir sem fá mestan skjátíma af þeim eru Cameron Britton sem leikur Edmund Kemper og Happy Anderson sem fer með hlutverk Jerry Brudos. Maður er gjörsamlega límdur við skjáinn þegar þeir koma við sögu og það er sláandi hversu líkir þeir eru alvöru morðingjunum. Aðrir fá minni skjátíma en eru samt eftirminnilegir, þá sérstaklega Jack Erdie sem Richard Speck í næstsíðasta þættinum. Viðtölin við raðmorðingjana eru enginn skáldskapur og það eitt og sér er magnað, það kemur alltaf á daginn að sannleikurinn er sagna bestur þó ljótur sé í þessu tilfelli. 

Fyrir mér er aðal fúttið í þáttunum að sjá hvernig þríeykið eflist með hverjum þætti vitandi það að allt hafi þetta að miklu leyti átt sér stað í raunveruleikanum. Að fylgjast með þeim leysa litlu hliðarverkefnin hér og þar um Bandaríkin þar sem þeir átta sig smám saman betur og betur á hegðun morðingja eru svo ekkert síðri áhorfs heldur en viðtölin við dæmdu raðmorðingjana. 

Að lokum langar mig að koma inn á tónlistina í þáttunum sem mér finnst algjörlega frábær og bætir miklu við. Góð og smekklega valin tónlist gerir öll atriði og alla kreditlista betri. Sögusvið þáttanna á að gerast árið 1977 og tónlistin er valin eftir því, þetta færir áhorfandann nær tíðarandanum og gerir þættina ögn svalari.

Samkvæmt því sem maður les á netinu er þegar byrjað að undirbúa seríu tvö sem væntanleg er á næsta ári, frábærar fréttir það. Þá fáum við líklegast að sjá meira af hinum dularfulla ADT tæknimanni sem sést alltaf í byrjun þáttanna en kemur ekkert meira við sögu en það. Einnig er möguleiki á að Ted Bundy, Charles Manson eða John Wayne Gacy verði teknir fyrir. Verði af því og „castað“ verður rétt í þau hlutverk þá er ég vongóður um að önnur sería slái fyrstu seríunni við.

Einkunn: 8/10

Torfi Guðbrandsson