Færslusafn

Tame Impala: Sjóðandi heitir Ástralar

Meðlimir Tame Impala stilla sér upp.

Ástralía hefur í gegnum tíðina alið af sér frábæra listamenn eins og AC/DC, Men at Work, Nick Cave og Russell Crowe (djók) og nú nýlega hefur hljómsveitin Tame Impala rutt sér til rúms bæði á heimavelli og útivelli. Það hefur sveitin gert með annarri breiðskífu sinni, Lonerism, sem slegið hefur í gegn hjá gagnrýnendum á þessu ári. Eitt lag af plötunni hefur verið í mikilli spilun á X-inu en það er „Elephant“ og situr lagið í 7. sæti Pepsi Max listans þegar að þetta er skrifað.

Helsti munurinn á Lonerism og frumburðinum Innerspeaker sem kom út fyrir tveimur árum er að hún er talsvert poppaðri og virðist poppið falla vel að sýrurokkinu sem að Tame Impala býður upp á. Kevin Parker söngvari og aðal lagahöfundur TI var undir miklum áhrifum frá Todd Rundgren við gerð plötunnar en tónlistin minnir einnig á sveitir eins og MGMT, Flaming Lips og jafnvel Bítlanna hvað söng og raddanir varða. Ekki amalegur hrærigrautur eins og þið heyrið en það má einnig bæta því við að Britney Spears var Parker ofarlega í huga á meðan hann vann að plötunni enda var hann í miklum popp hugleiðingum.

Tame Impala þýðir á íslensku tamin Impala sem er Antilóputegund.

Lonerism hefur fengið afbragðs dóma og fær hún meðal annars fjórar stjörnur hjá Rolling Stone, Mojo, Uncut og Q. Þeim hefur einnig vegnað vel í heimalandinu en þeir fengu Joð verðlaunin í ár fyrir bestu plötu ársins en það er útvarpsstöðin Triple J sem stendur fyrir verðlaununum. Ekki nóg með að vinna í ár heldur unnu þeir verðlaunin einnig árið 2010 fyrir Innerspeaker og er það met þar á bæ því engin hljómsveit hefur unnið tvisvar. Nú fer senn að líða að því að helstu tímarit og fjölmiðlar heims fari að senda frá sér árslista og má gera ráð fyrir því að Lonerism sé á þeim mörgum.

Bestu lögin á plötunni: Elephant, Enders Toi, Feels Like We Only Go Backwards, Keep on Lying.

– Torfi

Auglýsingar

Topp 5: Myndir með Russell Crowe

Eins og kunnugt er var Russell Crowe staddur hérlendis um daginn. Hann varð mikið fjölmiðlafóður í kjölfarið og ætlar potturinn ekki að vera neinn eftirbátur í þeim málum. Í tilefni af viðveru hans ætla ég að henda í topp 5 lista yfir hans bestu kvikmyndir. Listinn hefst á fimmunni.

#5 American Gangster (2007)

Frábær ræma úr smiðju Ridley Scott. Hér eru sameinaðir tveir þungavigtarmenn í Russell Crowe og Denzel Washington en þeir hafa einmitt báðir leikið boxara á ferlinum. Crowe leikur leynilögguna Richie Roberts sem ætlar sér að taka eiturlyfjakónginn Frank Lucas (Denzel) úr umferð. Ég man það svo vel hvað mér brá að sjá Russell Crowe svona feitan en það hefur víst fylgt hlutverkinu.

#4 The Next Three Days (2010)

Þessi kom skemmtilega á óvart. Það var eiginlega ekki í mínum plönum að sjá myndina en félagi minn hvatti mig til þess að horfa á hana og þvílík mynd! Ég gat ekki einu sinni farið niður í eldhús til að setja poppið í örbylgjuofninn. John Brennan (Crowe) þarf að taka til örþrifaráða þegar eiginkona hans, Lara Brennan (Elizabeth Banks) er sökuð um morð. Skylduáhorf fyrir alla spennufíkla!

#3 A Beautiful Mind (2001)

Crowe sýnir á sér glænýja hlið en hann er ekki beint vanur því að leika einhverfan stærðfræðing. Hér er á ferðinni hörku ræma en hún sópaði til sín fernum verðlaunum á Óskarnum árið 2002 og meðal annars fyrir bestu mynd. Það var mikill skandall að Russell Crowe skyldi ekki vinna styttuna fyrir besta leik í aðalhlutverki en hana fékk Denzel nokkur Washington fyrir leik sinn í Training Day.

#2 L.A. Confidential (1997)


Öflug mynd með úrvals leikurum en ásamt Crowe eru þarna kórbræður eins og Kevin Spacey, Guy Pearce og Danny DeVito. Russell Crowe fer hreinlega á kostum sem hinn ljónharði Edmund ‘Bud’ White en hann er duglegur að láta finna fyrir sér í myndinni. Það er spilling í borg englanna en Nætur uglu morðin eiga hug Edmunds allan og einnig tveggja starfsbræðra hans. Krákan hefur sjaldan verið betri en einmitt í þessari mynd!

#1 Gladiator (2000)


Fyrirsjáanlegt val? Má vera en hún á fyrsta sætið svo sannarlega skilið! Það er mér enn í fersku minni er mér var neitaður aðgangur á myndina í Háskólabíói á sínum tíma þó ég væri í fylgd með föður mínum. Ég fór bókstaflega hágrátandi út í bíl og skellti hurðinni á eftir mér og má segja að ég hafi verið í svipuðu ástandi og þegar Maximus kom að fjölskyldu sinni í gálganum. Ekki leið á löngu þó þar til ég fengi að sjá rulluna og var mér þá ljóst að betri kvikmynd myndi ég aldrei sjá.

Áferðafalleg kvikmynd um hrakfarir Rómaveldis og Maximus hershöfðingja er hinn snarspillti Commodus (Joaquin Phoenix) lætur að sér kveða. Það þekkja margir þá tilfinningu að berjast gegn ranglætinu með réttlætinu og því held ég að margir hafi fundið sig í Maximus og þar af leiðandi lifað sig meir en venjulegt er inní myndina. Gæsahúðin gerir vart við sig á mörgum stöðum í myndinni og er sama hversu oft ég horfi á hana, gæsahúðin birtist alltaf aftur og aftur. Ég er orðinn það heitur eftir þessi skrif um Gladiator að ég held ég skelli henni bara í tækið núna.

– Torfi