Færslusafn

Árslisti: Bestu erlendu lögin 2012

Þá er farið að styttast í annan endan á tónlistarárinu 2012 sem hefur verið býsna gott. Potturinn ætlar í tilefni af því að henda í nokkra árslista og hefjum við leikinn á bestu erlendu lögunum sem komu út í ár.

Dry the River – „New Ceremony“

Þetta lag fékk örlitla spilun á X-inu í sumar og skrítið að það hafi hreinlega ekki slegið í gegn. Grafalvarlegt lag í anda Fleet Foxes og söngurinn norskur og fínn.

Frank Ocean – „Bad Religion“

Ég er ekki viss um að margir hafi kannast við nafnið Frank Ocean í ársbyrjun 2012. En í dag er maðurinn á allra vörum og hefur fólk keppst um að lofa manninn. Lagið „Bad Religion“ er fimm stjörnu lag þar sem allt gengur upp, lagið, söngurinn og textinn. Frank talar svolítið undir rós í laginu en það má lesa út úr textanum að hann sé að tala um hinn almáttuga og hvaða áhrif kynhneigð hans hefur á trúnna. Fullorðins stöff.

Hot Chip – „These Chains“

Eitt af mörgum frábærum lögum af plötunni In Our Heads sem kom út í ár. Ég kemst í mikinn fýling við það eitt að heyra byrjunarstefið í laginu og melódían situr fast í höfðinu á mér eftir á.

Jessie Ware – „Wildest Moments“

Söngkonan Jessie Ware gerði það gott með SBTRKT í fyrra en í ár sendi hún frá sér sína fyrstu plötu undir sínu eigin nafni. Þó að platan í heild hafi ekki verið neitt sérstök þá leynast inn á milli fínustu lög eins og „Wildest Moments“. Sagan segir að lagið fjalli um samband Jessie og vinkonu hennar Söru en lagið er einmitt afrakstur rifrildis þeirra á milli.

Ko Ko – „Float“

Þetta lag heyrði ég í útvarpinu í Noregi og bjargaði það rigningardeginum í Sandnesi að fá eitt svona sumarlegt og seiðandi í eyrun. Ég hef samt ekki hundsvit á þessari hljómsveit en þeir geta greinilega búið til góða tónlist.

Lana Del Rey – „National Anthem“

Lana Del Rey tók við keflinu af Adele sem hafði einokað árið 2011 með plötunni sinni 21. Lana gaf út plötuna Born to Die og meira til. Lana er skemmtileg að því leyti að hún er fjölhæfur listamaður sem lætur sér ekki nægja að gefa út lög heldur hleður hún í metnaðarfull myndbönd sem eru lostafull og dramatísk. Kynþokkinn skín af henni og verður fróðlegt að fylgjast með framgangi hennar.

Perfume Genius – „Hood“

Perfume Genius eða Mike Hadreas fer ekki leynt með kynhneigð sína eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. Hér er hann með eitt lítið lag sem er samt svo stórt. Eitt af þessum lögum sem maður vildi óska að væru lengri.

Santigold – „Disparate Youth“

Enn eitt lagið sem ég heyrði fyrst í útvarpinu í Noregi. Santigold getur greinilega ekki ákveðið sig en hún blandar saman elektróník, hipp-hoppi, döbbi og ég veit ekki hvað og hvað. Lag sem kemur mér alltaf í gírinn.

Tame Impala – „Keep on Lying“

Draumkennd sækadelía í boði Tame Impala. Söngvari sveitarinnar var undir miklum áhrifum frá popptónlist og til að mynda var Britney Spears ofarlega í huga hans á meðan hann samdi lögin. Hér mætast grípandi popp melódía og sækadelía eins og hún gerist best.

The Walkmen – „Heartbreaker“

Þó að liðsmenn The Walkmen séu að eldast virðist það ekki há tónlistarsköpun þeirra. „Heartbreaker“ er grípandi lag frá byrjun til enda.

Torfi

Auglýsingar

Rock Werchter: Föstudagur

Þá var komið að föstudeginum og aðeins meira í gangi hvað varðar úrval og gæði listamanna.

Fyrstur á dagskrá hjá mér var Miles Kane í Hlöðunni en það má segja að hann sé nokkurs konar klóni af Alex Turner úr Arctic Monkeys. Það var reyndar smá töf á karlinum en maður var fljótur að gleyma því er hann birtist á sviðinu vopnaður gítar og söng „You Rearrange My Mind!“. Miles er afskaplega líflegur og skemmtilegur á sviði og skein leikgleðin af honum. Eini gallinn er kannski sá að hann á aðeins fjögur góð lög en hin eru fljót að gleymast.

Á eftir Miles var haldið á Pýramídann pínlega en þar var Perfume Genius að hefja leik. Tónlist Perfume Genius myndi njóta sín mun betur inní lokuðum sal en lögin hans eru afar róleg og hafði hann það meira að segja að orði sjálfur og afsakaði sig. En ég nýtti tækifærið bara og tyllti mér og hlóð batteríin fyrir komandi átök.

Tveggja tíma pása myndaðist eftir Perfume Genius og var hún nýtt til að nærast og sjá hluta af Gossip á en Beth Ditto fór á kostum á sviðinu og kom fólki til að hlægja með beinskeyttum húmor sínum. Ég ákvað þrátt fyrir hnyttna brandara og ágætis spretti Gossip að koma mér vel fyrir í Hlöðunni því að næstir á svið voru The Temper Trap.

Ég eyddi fyrsta kortérinu af settinu hjá The Temper Trap að pæla í söngvaranum Dougy Mandagi sem hefur að geyma ansi háa rödd. Þegar hann brýnir rausn sína eru fáir sem standast honum snúning en hann á í örlitlum erfiðleikum með lágu kaflana í lögunum og vill það stundum gerast að hljómsveitin yfirgnæfir hann. Sem betur fer lagaðist þetta eftir því sem leið á tónleikana. Annars voru þeir þrusu fínir og var ekki eitt lag sem ég saknaði. Hinsvegar setti æstur kvenkyns aðdáandi svip sinn á mína upplifun en hún lét öllum illum látum, baðaði út höndum, grét meira en eðlilegt er og var eitthvern veginn alltaf í sjóndeildarhringnum mínum. Ef ekki hefði verið fyrir hana hefði ég skemmt mér mun betur!

Jack White var ekki búinn að klára sitt sett og hlustaði ég á kauða meðan ég úðaði í mig einhverjum óþverra á svæðinu. Ég sá ekki eftir þeirri ákvörðun minni að taka The Temper Trap fram yfir tónleika hans en það var þó ánægjulegt að heyra „Seven Nation Army“ enda ákveðin nostalgía sem fylgir því lagi.

Aftur var ég mættur í Hlöðuna og nú átti að sjá Lönu Del Rey. Maður hafði ekkert heyrt neitt nema slæma hluti um greyið á sviði en ég vildi sjá það með berum augum og fella dóm á það sjálfur. Lana mætti á sviðið við mikinn fögnuð viðstaddra og renndi beint í slagarann „Blue Jeans“. Með henni á sviði voru þrjár konur sem spiluðu á strengjahljóðfæri og píanisti. Persónulega var á dolfallinn yfir sjarma og kynþokka Lönu og ekki skemmdi fyrir flutningur hennar á lögunum en þau voru í aðeins öðruvísi búningi en á plötunni. Rétt eins og Perfume Genius myndi hún samt njóta sín best í lokuðum sal eins og t.d. Eldborg. Hápunkturinn var svo í lokin er hún tók „National Anthem“ og sendi mig sáttan á aðalsviðið.

Þá var komið að Pearl Jam, einni albestu hljómsveit heims. Væntingar mínar voru miklar enda ekki gefið að sjá hljómsveit í þessum gæðaflokki. Ég get ekki sagt annað en að Eddie Vedder og félagar hafi valdið mér vonbrigðum. Fyrir mér var dagskráin þeirra alltof þung og fannst mér Eddie Vedder þurfa á hvíld að halda en þeir hafa verið að spila mikið að undanförnu. Ljósu punktarnir voru kannski helst lögin af Ten og „Daughter“. Tónleikar Beirut áttu að hefjast tíu mínútum áður en Pearl Jam myndi klára og var ég þegar farinn að undirbúa flóttaleiðina er ég heyrði Eddie Vedder kynna síðasta lagið (að ég hélt) „Rockin’ in the Free World“ sem ég hef aldrei fýlað neitt sérstaklega. Ég nýtti því tækifærið og hljóp yfir í Hlöðuna til að sjá Beirut.

Ég var eiginlega mættur á nákvæmlega sama tíma og Zach Condon og félagar í Beirut og gladdist ég mjög þegar ég heyrði fyrstu tónana í „Santa Fe“ og sá því ekki eftir þeirri ákvörðun að yfirgefa Pearl Jam. Tónlist Beirut er afar hentug til að dansa við og langaði mér helst að fækka fólkinu í Hlöðunni um helming og fleygja kærustunni til og frá áhyggjulaus. Það var hinsvegar ekki möguleiki og þurfi ég að sætta mig við að rugga mér bara í lendunum. Annars gerðu Beirut það sem Pearl Jam gerðu ekki, þeir skemmtu mér með spilamennsku og sviðsframkomu sinni og ekki skemmdi lagalistinn fyrir sem hefði getað verið valinn af sjálfum mér! Fullkominn endir á mjög góðum degi!

Guðjón „Fulli“ Ólafsson ásamt Dougy Mandagi!

Einnig hefði verið gaman að sjá: Bat for Lashes, Wiz Khalifa, „Yellow Ledbitter“ lokalag Pearl Jam

-Torfi