Færslusafn

Airwaves: Föstudagur

Ég hóf leikinn í Fríkirkjunni en þar áttu Lay Low og Patrick Wolf frá Bretlandi að spila. Fólk var að tínast inn og fékk ég mjög gott sæti, borgar sig að vera mættur tímanlega!

Lay Low var virkilega góð og vel studd af hljómsveit sinni. Hún tók lög af flestum plötum sínum og má segja að hún hafi valið vel. Lay Low var einnig dugleg að tjá sig á milli laga og kvartaði undan nöglinni á þumalfingrinum sem var við það að detta af! Í seinni hlutanum var ástandið það slæmt að hún gat málað sig í framan með blóðinu. En fyrir utan þetta vesen þá voru tónleikarnir sérstaklega flottir og eigum við Íslendingar virkilega góðan listamann í Lay Low.

Næstur á svið var Patrick Wolf. Kauði gaf nýverið út plötu í tilefni af 10 ára starfsafmæli sínu þar sem hann setti mörg sín bestu lög í akústískan búning. Hann var mættur ásamt þremur listamönnum sem skiptust á að styðja hann. Patrick spilaði á fjöldan allan af hljóðfærum, flygil, hörpu og smávaxinn gítar. Röddin hans er sterk og naut hún sín vel í Fríkirkjunni. Hann var einnig óhræddur við að segja sögur á bakvið lögin sín svo maður lifði sig þvílíkt inn í hans hugarheim. Einnig var skemmtilegt þegar t.d. míkrafónninn við flygilinn var eitthvað laus í sér og truflaði Patrick í flutningi sínum, það kom þó ekki að sök og hoppaði hann beint aftur inn í lagið án vandræða. Tónleikarnir stóðu yfir í eina klukkustund og voru gestir Fríkirkjunnar líklega saddir og sælir að þeim loknum.

Eftir smá matarpásu kíkti ég á lokin á tónleikum hinnar kanadísku Half Moon Run og var ég nokkuð spældur að vera ekki mættur fyrr. Þeir litu út fyrir að vera hörku band og var mitt fyrsta verk að kíkja hvort þeir ættu ekki eftir að koma fram á off-venue dagskránni. Blessunarlega áttu þeir eitt skipti eftir.

Það var ekkert annað í stöðunni að gera en að bíða eftir Hjálmari og Jimi Tenor. Ég vissi í rauninni ekkert út í hvað ég var að fara þar en ég vonaðist eftir því að sjá Hjálmar leika öll sín bestu lög. Það rættist hins vegar ekki. Ég þekkti ekki eitt lag en allt snérist greinilega um þennan Jimi Tenor því miður. Það má samt ekki taka af þeim að spilamennskan var góð og á köflum var þetta bara allt í lagi en ég bjóst við einhverju allt öðru.

Hjálmar hefðu verið betur settir án þessa manns.

Í restina var það svo FM Belfast en mér sýndist á öllu að prógrammið þeirra hefði lítið breyst frá því á árinu 2008 og svo var mér svo illt í maganum að ég gat ekki meir. Kvöldið byrjaði því mjög vel en endaði ekki eins sterkt á kvöldin áður.

– Torfi

Auglýsingar

Airwaves upphitun: Patrick Wolf

Þá er kominn tími á að hita skrílinn upp fyrir Iceland Airwaves hátíðina sem mun skella á þar næstu mánaðamót. Mér skilst reyndar að það verði fleiri útlendingar á hátíðinni í ár enda Íslendingar oft kærulausir þegar kemur að því að kaupa miða í tæka tíð.

Sá fyrsti sem verður kynntur til leiks hjá Pottinum er Patrick Wolf eða Patrick Denis Apps eins og hann heitir réttu nafni. Patrekur fæddist í Bretlandi og byrjaði ungur að fikta við tónlist, kunni á hin ýmsu hljóðfæri og gat sungið í þokkabót. Fyrsta plata hans leit dagsins ljós 2003 og ber heitið Lycanthropy sem var afrakstur átta ára vinnu takk fyrir. Síðan þá hafa komið út fjórar plötur og er von á þeirri sjöttu í október.

Tónleikar hans í Fríkirkjunni verða væntanlega mikið litaðir af henni enda um akústíska plötu að ræða en á heimasíðu Airwaves er atriði Patricks auglýst sem „acoustic“. Platan nefnist Sundark and Riverlight og inniheldur mörg af bestu lögum Patricks í akústískum búningi og má því kannski segja að um „best of“ plötu sé að ræða.

Patrick Wolf með úlf.

Tónlist Patricks er dramatísk en hann blandar saman klassískum hljóðfærum við elektróník sem tekst bara furðuvel. Ef ég væri í ykkar sporum og hefði lítið hlustað á Patrick myndi ég mæla með Lupercalia sem kom út í fyrra og væntanlegri Sundark and Riverlight til að hita upp fyrir tónleikana. Patrick Wolf kemur fram í Fríkirkjunni á föstudeginum klukkan hálf tíu og í guðanna bænum missið ekki af honum!

– Torfi