Færslusafn

Airwaves ’16: Föstudagur


Það kom ekkert annað til greina en að byrja föstudagskvöldið í Fríkirkjunni. Planið var að ná Árstíðum frá byrjun en hið daglega amstur kom í veg fyrir það. Ég var þó kominn inn í kirkjuna þegar þeir tóku síðasta lagið sitt, „Shades“ af plötunni Svefns og vöku skil. Af því einu að dæma hafði ég misst af góðum tónleikum.

En fyrir mér var aðalatriðið að sjá Mugison. Daginn áður hafði hann formlega gefið út fimmtu plötuna sína, Enjoy!. Fyrir tónleikana hafði ég ekki gefið mér tíma í að hlusta á hana en hafði heyrt fyrsta smellinn af plötunni, „I’m a Wolf“. Mugison tók það fram í byrjun að hann ætlaði að taka gamla smelli og nýtt efni í bland. Í byrjun tók hann mjög stutta útgáfu af „Stingum af“ sem ég held að enginn hafi verið svekktur yfir. Eftir eitt nýtt lag tók hann „Murr Murr“ í svipaðri útgáfu og er að finna á plötunni Ítrekun/Reminder. Grjóthart og hann hafði orð á því að hljómsveitin væri yfirleitt alveg búin á því eftir flutning á þessu lagi svo þau tóku því rólega í næsta lagi. Nýja efnið kom vel út og er algjörlega brennimerkt af Mugison. Hrifnastur var ég af laginu „Lazing On“ sem er samið um rómantíska kvöldstund fjölskyldu Mugisons í Nauthólsvíkinni (hvar annars staðar?) þar sem hann sá sólina og tunglið í sitthvoru glerinu í sólgleraugum konu sinnar. Honum fannst hann verða að semja lag um þessa stund og útkoman er hið fallega „Lazing On“. Það kom upp skondið atvik í flutningi lagsins en það vill stundum gerast þegar plötur eru nýkomnar út úr ofninum að textar hverfa úr minninu á ögurstundu. Það gerðist í síðasta erindinu en þá söng Mugison „Ég man ekki síðasta erindið, andskotinn!“ og uppskar mikinn hlátur í kirkjunni. Magnaðasti flutningurinn var þó í laginu „Þjóðarsálin“ af Haglél þar sem Mugison breyttist í heimsklassa graulara og gerði mann hálfsmeykann í kjölfarið. Yfir það heila frábærir tónleikar og Fríkirkjan sýndi og sannaði enn og aftur gildi sitt á Iceland Airwaves sem töfrandi tónleikastaður.

Gamla bíó var næsti áfangastaður en þar ætlaði ég að sjá Lake Street Dive. Það var hins vegar smá í þá tónleika svo af illri nauðsyn horfði ég á restina af Axel Flóvent tónleikunum. Ég er ekki hrifinn af tónlist Axels, hún er máttlaus, einhæf og laus við allan frumleika. Það var líka lítið um manninn í salnum og Axel Flóvent bersýnilega ekki eins heitur biti og menn vilja meina.

Það fjölgaði aðeins í salnum fyrir tónleika Lake Street Dive en ég bjóst samt við fleirum. Hvað með það. Þau mættu upp á svið, fjögur talsins og hljóðfæraskipan afar hefðbundin: söngur, kontrabassi, gítar og trommur. Þrátt fyrir einfalda hljóðfæraskipan var tónlistin samsuða af allskonar stefnum. Hljómsveitin var stórskemmtileg og var ég sérstaklega hrifinn af Rachel Price söngkonu sveitarinnar, sem hafði mikla útgeislun og frábæra rödd!

Dagskráin framundan í Gamla bíó leit vel út en ég ákvað þá að rölta upp í Hörpu til að sjá Kiasmos í Silfurbergi. Ólafur Arnalds og Janus eru að gera frábæra hluti saman og ég hafði það á tilfinningunni að Silfurberg væri afar hentugur staður fyrir tónlistina þeirra. Það var hárrétt ályktun, tónlist þeirra naut sín ótrúlega vel og þegar að lazergeislar fóru að skjótast út í salinn var mér öllum lokið. Stórkostleg sýning fyrir augu og eyra.

Á eftir Kiasmos var komið að Santigold. Ég viðurkenni að ég var lang spenntastur fyrir að heyra hana taka lagið „Disparate Youth“, eitt besta lag ársins 2012. Sú bið stóð yfir í ca. 30 mínútur en mikið var ég glaður þegar ég heyrði fyrstu tóna lagsins. Að laginu loknu rauk ég út og tók stefnuna á Iðnó.

Þar var íslenska/bandaríska hljómsveitin MOJI & THE MIDNIGHT SONS að spila. Ég hafði ekki kynnt mér sveitina en félagi minn tjáði mér að bæði trommarinn og gítarleikarinn væru í hljómsveitinni Tungl sem við erum miklir aðdáendur af. Þetta eru þeir Frosti Jón og Bjarni (Mínus). Það eitt veitti á gott en það var ekki allt. Hljómsveitin er skírð í höfuðið á Moji Abiola, magnaðri söngkonu frá Bandaríkjunum sem kynntist Frosta á bar eitt sumarkvöld á Íslandi. Moji og félagar spila blús- og sálarskotið rokk og gera það líka svona helvíti vel. KEXP sá ástæðu til þess að bjóða þeim að spila á Kex fyrr á föstudeginum og ég mæli með að fólk tékki á upptökunni af þeim tónleikum. Óvænt ánægja seint á föstudegi og uppgvötvun hátíðarinnar komin.

Áður en heim var farið ákvað ég að enda kvöldið í Gamla bíó þar sem Hermigervill lokaði dagskránni. Það er synd og skömm að segja frá því að ég hef ekki séð hann á tónleikum áður en nú var loksins komið að því. Hermigervill fór á kostum og hamaðist á græjunum sínum eins og enginn væri morgundagurinn. Hann sýndi svo magnaða takta þegar hann spilaði „Svaninn“ á theremin og ég vissi ekki hvert ég ætlaði. Eins og það hafi ekki verið nóg þá kallaði hann Berndsen til sín sem hafði spilað á undan honum og þeir hlóðu í eitt uppáhalds Berndsen lagið mitt „Two Lovers Team“. Ekki hægt að enda föstudagskvöldið betur og næst á dagskrá Nonnabiti og leigubíll heim!

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Þegar ég fór á tónleika með Metallica

Egilshöll

Í dag eru 10 ár liðin frá tónleikum Metallica í Egilshöll. Þá var árið 2004 og ég þá 14 ára unglingur með æði fyrir Metallica og nokkrar bólur á bakinu. Miðasalan fór fram þann 15. maí í verslun OgVodafone í Síðumúla og fórum við nokkrir bekkjarbræður í röðina kvöldið áður vopnaðir tjaldi og nesti. Foreldrar okkar voru duglegir að fylgjast með okkur fram eftir kvöldi með símhringingum og sms skilaboðum en sofnuðu sem betur fer á kristilegum tíma. Þá upplifðum við íslenska sumarnótt í fyrsta skipti sem ekki verður reifuð hér neitt frekar.

Það er löngu vitað að Íslendingar kunna ekki að bíða í röð en það sannaðist enn og aftur er hurðin á versluninni var við það að opna. Allt í einu breyttist röðin í stóra hrúgu og stóð gaurinn sem kom síðastur inn í röðina allt í einu hliðina á þeim sem kom fyrstur á svæðið. Ég náði inn í tæka tíð og keypti fjóra miða á B-svæði sem er auðvitað alveg óskiljanlegt en foreldrar mínir treystu mér sennilega ekki fyrir að geyma meiri pening.

Timinn leið og þann 4. júlí opnaði Egilshöll sig fyrir 18.000 gestum sem enn hefur ekki verið toppað. Ég kom mér fyrir framarlega á B-svæðinu ásamt föður mínum, bróður hans og syni hans sem er einu ári yngri en ég. Næstu mínútur einkenndust af mikilli bið og ótrúlegum hita en ég var staðráðinn í að halda þetta út. Brain Police og Mínus sáu um upphitun en Krummi virtist ekki alveg vita hvað hann ætti að gera við míkrafóninn sinn og tróð honum ýmist ofan í buxurnar eða langt upp í kok.

Þegar Mínus hafði lokið sér af sagðist pabbi ætla að fá sér hressingu með bróður sínum og spurði hvort ég vildi eitthvað. Ég afþakkaði boðið og kallaði svo á eftir honum „þið þurfið svo ekkert að koma aftur“. Ég gat ekki haft meira rangt fyrir mér því að ég þurfti svo sannarlega á þeim að halda nokkru síðar. Biðin var orðin þreytandi en hitinn var orðinn mér um megn og mig var farið að svima duglega. Ég var því lifandis feginn þegar ég sá glitta í pabba að nýju. „Pabbi!“ stundi ég út úr mér og brosið á pabba breyttist í mikinn áhyggjusvip er hann leit mig augum. Andlit mitt var náfölt og datt ég bókstaflega í fangið hans pabba. Allt í einu heyrðust fagnaðarlæti í gestunum, Metallica voru komnir á svið og ég var á hraðferð í átt að súrefni. Svei þér Metallica!

Eftir að hafa komist í súrefni og innbyrt smá pítsu og kók var komið að því að njóta loksins uppáhalds hljómsveitarinnar minnar í órafjarlægð. Upplifunin mín var ekki alveg eins og ég hafði ímyndað mér en ég hafði reiknað með að hoppa mikið og sveifla höfðinu fram og aftur. Það var ekki heilsa til staðar fyrir neitt svoleiðis rugl og stóð ég teinréttur upp í stúku og bar þannig goðin augum restina af tónleikunum.

Já Metallicu tókst að gera frónið að heitasta helvíti þetta sunnudagskvöld og það var alltof heitt fyrir mig. Það að þetta hafi verið fyrstu tónleikarnir í Egilshöll segir kannski alla söguna enda ekki komin reynsla á tónleika í húsnæðinu og hvað þá af þessari stærðargráðu. Þegar ég kom svo heim og kveikti á sjónvarpinu sá ég að Grikkir voru orðnir Evrópumeistarar. Þetta kvöld var greinilega ekkert að fara að skána svo það var ekkert annað í stöðunni en að leggjast bara á koddann og fara að sofa.

– Torfi Guðbrandsson