Færslusafn

Sundsprettur í nýju myndbandi The xx

Romy Madley Croft á bólakafi!

Hljómsveitin The xx sendi frá sér myndband í dag við lagið „Chained“ af plötunni Coexist sem kom út í síðasta mánuði. Mun þetta vera fyrsta lagið á plötunni sem gert er myndband við af einhverju viti. Leikstjórn var í höndum framleiðslufyrirtækisins Young Replicant en þeir gerðu meðal annars myndbandið við lagið „We Own the Sky“ með M83.

Í þessu myndbandi stinga allir þrír meðlimir The xx sér til sunds. Buslugangur og loftkúlur eru þannig í aðalhlutverki en einnig er mikið um fallega liti í myndbandinu eins og sjá má á skýjunum sem svipar mikið til umbúðanna á plötunni.

– Torfi

Auglýsingar

Rock Werchter: Laugardagur

Laugardagurinn hófst í hlöðunni en þar var að koma fram ein bjartasta von Breta, Michael Kiwanuka. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert að tapa mér yfir kauða en flest öll lögin hjá honum runnu í eitt nema „Home Again“ sem var hápunkturinn á annars flötum tónleikum.

Strax á eftir Michael voru Alabama Shakes að hefja leik í Pýramídanum en þau gáfu út frábæran frumburð fyrr á þessu ári. Því miður var orðið frekar margt um manninn og settist ég því í grasið svolítið frá skjánum sem hékk fyrir utan. Eftir að hafa einbeitt mér að fyrstu lögunum og bestu („Hold On“ og „I Found You“) ákvað ég að leggjast og loka augunum. Ég man því frekar lítið eftir restinni af tónleikunum en stundum þarf maður bara að slaka á og hvíla andlitið frá sólinni.

Aðalsviðið var næsti áfangastaður en þar voru að stíga á stokk Wolfmother og Kasabian. Rétt eins og á AS lá ég í grasinu og í þessu tilfelli safnaði ryki því að skammt frá var göngustígurinn sem mikil traffík var á. Wolfmother á ekki beint lager af góðum og eftirminnilegum lögum en þó eiga þeir til lög eins og „Woman“ og „White Unicorn“ sem eru alveg að fá fjórar stjörnur í iTunes möppunni minni. Fyrir utan þessi tvö lög og „Dimension“ var ég ekkert að missa mig og því farinn að hlakka pínu til að sjá Kasabian.

Það er ekkert svo langt síðan að Kasabian „meikaði“ það en þeir gáfu út flotta plötu árið 2004. Svo er lítið að frétta af þeim þangað til 2009 en þá kemur lagið „Fire“ þeim á kortið en allir unnendur enska boltans ættu að kannast við stefið úr því lagi. Annað en Wolfmother eiga Kasabian nóg af efni til að búa til flotta tónleika og þannig týndu þeir til lög af plötunum KasabianWest Ryder Pauper Lunatic Asylum og Velociraptor!. Það sem mér þótti standa upp úr voru lögin „Club Foot“ og „L.S.F.“ af fyrstu plötunni og „Re-Wired“ af þeirri síðustu. Í það heila hafði ég annars gaman af Kasabian en það var frekar skondið þegar Tom Meighan söngvari bað félaga sinn Sergio Pizzorno um að syngja „I’m On Fire“ partinn í „Fire“ því að greyið var að verða raddlaust. „You’re a lifesaver“ sagði hann svo og þar með kvöddu þeir.

Þar sem að ég er lítill Mumford and Sons maður og mikill M83 maður var stefnan tekin á Hlöðuna þar sem My Morning Jacket var að fara að spila. Það var ansi fámennt þar enda megnið af fólkinu á Mumford. MMJ voru þó ekkert að pæla í því og buðu uppá vel þétta tónleika. Söngvarinn Jim James er með þeim betri sem ég hef heyrt í og var ég pínu hræddur um að líkami hans gæti ekki höndlað kraftinn í honum. Hápunkturinn var þriggja laga syrpa sem innihélt „Holdin’ On to Black Metal“, „Outta My System“ og „Lay Low“. Ég kláraði að vísu ekki tónleikana því að M83 voru að fara að spila á Pýramídanum og í þetta skiptið ætlaði ég að koma mér vel fyrir þar!

Það var ekki eins troðið og áður er ég mætti á Pýramídann og náði ég að planta mér á fínum stað nálægt sviðinu. Eftirvæntingin var mikil enda M83 búin að sækja í sig veðrið síðustu ár og gefið út frábærar plötur. Geðveikin byrjaði á fyrstu sekúndu er furðuvera birtist á sviðinu og gnæfði yfir áhorfendur og var geðshræringin mikil á því augnabliki. Stuttu síðar birtust meðlimir M83 og hófu sýninguna með látum. Ég skemmti mér konunglega á þessum tónleikum og söng hástöfum með ásamt því að stíga nokkur misgóð dansspor. Ef ég ætti að nefna einhverja hápunkta væru þeir líklega „Reunion“ og „Couleurs“. Það var heldur ekkert leiðinlegt að heyra „Midnight City“ og stemninguna sem fylgdi því. Svo verð ég einnig að minnast á bassaleikarann Jordan Lawlor sem var í miklu stuði og sérstaklega þegar hann fór á kúabjölluna, aðra eins fótavinnu hef ég aldrei séð!

Það var ekki mikill tími á að melta M83 því að The xx voru þegar byrjuð að spila á aðalsviðinu. The xx er ein svalasta hljómsveit á þessari plánetu en þau nýttu sér skemmtilegan fítus á skjánum með því að birtast í svarthvítu. Öll lögin af fyrstu plötunni voru tekin ásamt fimm af væntanlegri plötu. Þau voru góð en mér fannst samt tónlistin þeirra fjara út á svona stóru sviði fyrir framan svona mikið af fólki. Ég vonast til þess að sjá þau aftur einn daginn undir betri skilyrðum.

Enn var maður á hlaupum því að næst á dagskrá var Regina Spektor en hún tróð upp á Pýramídanum  fræga. Ég settist á viðarpallinn fyrir framan skjáinn og lét ljúfu tóna Reginu leika um eyrun mín. Regina býr yfir miklum sjarma og er þar að auki frábær listamaður svo það er auðvelt að gleyma sér í eina klukkustund eins og tilfellið var á hennar tónleikum. Hápunktarnir voru margir en ég ætla að láta nægja að nefna lagið „Hero“ sem hljómaði í byrjun myndarinnar (500) Days of Summer. Mér leið vel og eiginlega betur í hjartanu eftir að hafa séð Reginu og hvet ég alla til þess að sjá hana ef tækifæri gefst til.

Ég ákvað að enda kvöldið á Incubus frekar en að fara á Editors einfaldlega vegna þess að ég fýla þá betur og tengi mig og mína persónu miklu meira við þá. Maður ferðaðist nokkur ár aftur í tímann með Incubus en þeir tóku rjómann af ferlinum. „Drive“, „Pardon Me“ og „Talk Shows On Mute“ voru þarna og einnig „Anna Molly“, „Love Hurts“ og „Nice to Know You“. Brandon Boyd fór svo úr að ofan og þá var dagurinn fullkomnaður.

Chase and Status voru byrjaðir að telja í er ég labbaði fram hjá aðalsviðinu en ég hafði bara ekkert úthald í þá geðveiki. Ég var sáttur.

Það fór hrollur um mann þegar þessi birtist í Pýramídanum!

Einnig hefði verið gaman að sjá: Ben Howard, James Vincent McMorrow, Simple Minds.

Torfi