Færslusafn

Rock Werchter 2015: Sunnudagur + uppgjör

IMG_3668

Það er alltaf svolítið súrt að vakna á sunnudegi og hugsa til þess að síðasti dagurinn sé runninn upp. Tíminn hefur liðið alltof hratt og maður er alls ekki tilbúinn í að gera eitthvað annað en að fara á tónleika og skemmta sér. Það var kannski helst þess vegna sem ég vildi gera sem mest úr deginum og mætti því snemma á tónleikasvæðið til að ná sem flestum tónleikum.

Dagurinn hófst á KluB C en þar var mættur guðspjalla- og sálarsöngvarinn Leon Bridges ásamt hljómsveit sinni. Leon er brakandi ferskur tónlistarmaður á besta aldri og gaf nýverið út frábæra plötu sem nefnist Coming Home. Honum þykir svipa mikið til Sam Cooke sem er ekki leiðinleg samlíking enda oft titlaður sem konungur sálartónlistarinnar. Tónleikarnir voru drullugóðir, Leon einbeitti sér að söngnum og léttum danshreyfingum á meðan hljómsveit hans sem vel á minnst er Texas-legasta hljómsveit sem ég hef séð sá um hljóðfæraleikinn. Í lokin náði Leon sér í gítar og rak alla af sviðinu nema bakraddarsöngkonuna sína og flutti með henni lagið „River“ sem var fallegur flutningur. Þar með var tónleikunum lokið og alveg ljóst að hér var á ferðinni ungur og upprennandi listamaður af gamla skólanum.

Eftir smá næringu ákvað ég að tylla mér á grasið fyrir framan aðalsviðið og fljótlega steig á sviðið hljómsveitin Enter Shikari frá Bretlandi. Ég hafði ekkert heyrt um þá og aldrei hlustað á þá en ég var tilbúinn að gefa þeim tækifæri og sjá hvað þeir hefðu uppá að bjóða. Það var hræðileg ákvörðun enda tónlistin afspyrnu vond. Hljómsveitin bauð uppá einhvern furðulegan bræðing af hörðu og tilraunakenndu rokki og raftónlist með hræðilegum árangri. Eftir 2-3 lög gafst ég upp og flúði inní hlöðuna en það var augljóst að ég hafði orðið vitni af lélagasta atriði Rock Werchter þetta árið.

Í hlöðunni var önnur bresk sveit að fara spila, Catfish and the Bottlemen frá Wales. Fyrir hátíðina hafði ég rennt plötunni þeirra einu sinni í gegn og vissi þar af leiðandi nokkurn veginn að hverju ég gengi í hlöðunni. Þrátt fyrir það náði hljómsveitin að koma mér á óvart og þá helst frontmaðurinn Van McCann sem geislaði af sjálfstrausti og vafði æstum kvenkynsaðdáendum um fingur sér. Þó að það hafi farið mest fyrir McCann þá má ekki gera lítið úr hinum meðlimunum enda væri frontmaðurinn lítið án þeirra. Það stafaði mikil orka af piltunum á sviðinu og alveg ljóst að sveitin er ung og gröð og í leit að frekari viðurkenningu. Þá átti hljómsveitin betri lög en mig minnti og má þar helst nefna „Kathleen“ og „Homesick“ sem hefur verið að fá mikla spilun á X-inu. Klárlega spútnik atriði hátíðarinnar ásamt Angus & Julia Stone.

Þar sem að Jessie J þurfti að aflýsa tónleikum sínum á Rock Werchter voru The Vaccines færðir yfir á aðalsviðið en upphaflega áttu þeir að spila í hlöðunni. Það voru gleðitíðindi enda hef ég alltaf haft gaman af sveitinni. Ég kíkti einmitt á þá fyrir þremur árum á RW og það má segja að þeir hafi þroskast og dafnað vel síðan þá og er nýja platan þeirra, English Graffiti góður vitnisburður um það. Hljómsveitin tók góða blöndu af gömlum og nýjum lögum og sýndu hversu góðir lagasmiðir þeir eru. Nýju lögin koma virkilega vel út og má þar helst nefna „Dream Lover“, „Give Me a Sign“ og „Minimal Affection“ sem minnir mikið á The Strokes. Gömlu lögin stóðu fyrir sínu og það er aldrei leiðinlegt að fá að heyra lög eins og „Wetsuit“, „All in White“ og „Nörgaard“ flutt lifandi á sviði. Ekkert uppá The Vaccines að kvarta þó mér finnist söngvarinn alltaf geta gert örlítið betur.

Counting Crows var næst í röðinni á aðalsviðinu en persónulega fannst mér þeir ekki eiga heima á hátíðinni. Þeir tóku slagarann sinn „Mr. Jones“ og einhver fleiri lög sem hljómuðu öll eins. Ekki merkilegir tónleikar. Í kjölfarið gerði ég heiðarlega tilraun ásamt Daða félaga mínum að sjá Alabama Shakes í hlöðunni en þar var fullt út úr öllum dyrum og gjörsamlega ómögulegt að komast inn. Pínu svekkelsi enda fátt annað merkilegt í boði á sama tíma.

Eftir góða pásu var komið að Kasabian en þeir fengu það hlutverk að „hita“ upp fyrir Muse. Sveitin er rómuð fyrir að vera ein besta tónleikasveit dagsins í dag en sitt sýnist hverjum. Þeir eru góðir en komast þó ekki í hóp þeirra allra bestu að mínu mati. Það fer þeim hins vegar vel að vera á undan stærstu nöfnunum eins og raunin var á Rock Werchter í ár. Platan þeirra 48:13 sem kom út í fyrra náði mér ekki og mér fannst hún hreinlega ekki ganga upp því miður. Þeir eiga þó fullt af góðum lögum af eldri plötunum sínum og m.a. þessa leikvangasmelli sem er svo mikilvægt að geta hent í eins og „Fire“, „Underdog“, „L.S.F.“ og „Club Foot“. Hápunkturinn á tónleikunum var þó ekki flutningur á lagi eftir þá heldur á laginu „People Are Strange“ eftir Jim Morrison og Robby Krieger meðlimum úr bestu hljómsveit í heims, The Doors. Mér fannst Kasabian sýna laginu mikla virðingu með því að taka það í heild sinni og spila það áreynslulaust út í gegn og bæta ekki við neinum krúsídúllum, lagið fékk að lifa eitt og sér og það þótti mér vænt um. Einnig var gaman að sjá þá taka hluta af Fatboy Slim slagaranum „Praise You“ og tengja það við „L.S.F.“. Ágætis tónleikar hjá Kasabian þó það séu kannski ekki bestu meðmæli í heimi að hápunktarnir á tónleikunum þínum séu ábreiður.

Þá var aðeins klukkutími í Muse og ekki seinna vænna en að fikra sig nær sviðinu. Það er svolítið síðan að ég steig niður af Muse vagninum en eftir plötuna Black Holes and Revelations missti ég áhugann. Mér fannst þó alltaf leiðinlegt að hafa ekki náð að sjá hljómsveitina uppá sitt besta á tónleikum en nú var komið tækifæri á að bæta úr því. Það var samt fullseint enda næstum því liðin 10 ár frá því að ég hlustaði síðast á Muse og hafði gaman af. Ég var einhvern veginn búinn að afskrifa þá fyrir tónleikana og allt þetta tal um að þeir væru búnir að finna ræturnar sínar aftur á nýju plötunni gáfu mér kjánahroll. En ég var tilbúinn að gefa þeim smá séns.

Tónleikarnir hófust á laginu „Psycho“ og þegar leið á lagið hugsaði ég með mér: „já okei, þetta er ágætt“ en þó þyrftu þeir að gera betur til að ná mér yfir á sitt band. Þeir voru ekki lengi að því vegna þess að næsta lag á dagskrá var „Supermassive Black Hole“ og losnaði heldur betur um stíflurnar hjá mér við að heyra það. Eftir það var ekki aftur snúið. Þó það væri skemmtilegra að heyra gömlu slagarana fannst mér nýju lögin falla vel að eldri lögunum og það var merkilega góður heildarbragur á tónleikunum. Muse sendi mig aftur til fortíðarinnar þegar ég var ca. 14 ára að reyna að finna sjálfan mig, ekki bara í tónlistinni heldur líka í tilverunni og það var mögnuð tilfinning. Smíðastofan í Kársnesskóla lifnaði við í huga mér en þar var hækkað vel í útvarpinu þegar að lög með Muse voru spiluð. Hápunkturinn á tónleikunum og jafnvel bara hátíðinni allri var þegar að þeir hentu í „Citizen Erased“ og fluttu það alveg eins og á Origin of Symmetry. Það var mjög langt síðan að ég hafði hlustað á lagið og það langt síðan að ég var búinn að gleyma því að það væri uppáhalds lagið mitt með þeim. Fleira góðgæti var á boðstólnum eins og „Stockholm Syndrome“, „Time Is Running Out“, „Hysteria“ og „Micro Cuts“. Uppklappslögin þrjú voru svo sér á báti og þá sérstaklega síðustu tvö, „Starlight“ og „Knights of Cydonia“. Þar með hafði Muse lokið sínu verki sem var að loka Rock Werchter hátíðinni 2015. Reyndar var eitthvað eftir af tímanum en ég er hræddur um að enginn geti kvartað enda tónleikarnir ákaflega vel heppnaðir og hiklaust þeir bestu á hátíðinni. Það var svo við hæfi hjá skipuleggjendum hátíðarinnar að kveðja tónleikagesti með Air laginu „How Does It Make You Feel?“ og flugeldasýningu. Hátíðinni þar með formlega slitið.

Uppgjör

Nú ef maður gerir hátíðina upp þá vegur að sjálfsögðu hæst óþarflega há tíðni af listamönnum sem þurftu að aflýsa komu sinni. Við erum að tala um Foo Fighters, Sam Smith, Ben Howard, Jessie J, JD McPherson og BADBADNOTGOOD. Ég sé nú aðallega á eftir Foo Fighters og Sam Smith og hefði hátíðin án efa verið betri hefðu þeir listamenn spilað. Það verður þó að hrósa tónleikahöldurum fyrir að fylla í götin með öðrum listamönnum.

Það er orðið ansi þreytt að þurfa að bíða eftir því að fá armböndin inná tónleikasvæðið. Það hlýtur að vera til önnur leið og reyndar held ég að það hafi verið í boði á Hive tjaldsvæðinu. Þetta skilaði sér í því að maður missti af nokkrum listamönnum og einn félagi minn féll í yfirlið, skelfilegt.

Minni sviðin tvö hafa breyst frá því að ég fór á hátíðina síðast og þær breytingar hafa verið til góðs þó að vissulega sé alltaf leiðinlegt þegar upp kemur sú staða að maður annaðhvort komist ekki inná tónleika eða líði jafnvel illa á tónleikum sökum hita eins og raunin var á alt-j.

Í heildina sá ég 26 hljómsveitir og hefði ég alveg verið til í að sjá fleiri en það getur reynst erfitt þegar maður er í samfloti við stóran hóp og getur þar af leiðandi ekki hreyft sig svo glatt. Það þarf að pissa, drekka, borða og standa í allskonar þvælingi. Það var örlítið hentugra að þvælast einn með kærustunni fyrir þremur árum og draga hana á eftir sér útum allar trissur. En ég náði þó að sjá allt það svona helsta sem ég ætlaði mér að sjá og tel ég það vel af sér vikið. Í lokin er rétt að impra svona á því helsta sem stóð upp úr og það sem gekk ekki eins vel.

Bestu tónleikarnir:

  1. Muse
  2. James Bay
  3. alt-J
  4. Angus & Julia Stone
  5. Pharrell Williams

Verstu tónleikarnir:

  1. Enter Shikari
  2. The Script
  3. Counting Crows
  4. Mumford & Sons

Besti dagurinn: Laugardagurinn

Versti dagurinn: Föstudagurinn

Spútnik atriðið: Catfish and the Bottlemen

Vonbrigðin: Hot Chip

Súrt að missa af: Alabama Shakes, Death Cab for Cutie, Die Antwoord, Eagles of Death Metal, First Aid Kit, Fufanu, Ibeyi, Patti Smith og Years & Years.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Rock Werchter: Laugardagur

Laugardagurinn hófst í hlöðunni en þar var að koma fram ein bjartasta von Breta, Michael Kiwanuka. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert að tapa mér yfir kauða en flest öll lögin hjá honum runnu í eitt nema „Home Again“ sem var hápunkturinn á annars flötum tónleikum.

Strax á eftir Michael voru Alabama Shakes að hefja leik í Pýramídanum en þau gáfu út frábæran frumburð fyrr á þessu ári. Því miður var orðið frekar margt um manninn og settist ég því í grasið svolítið frá skjánum sem hékk fyrir utan. Eftir að hafa einbeitt mér að fyrstu lögunum og bestu („Hold On“ og „I Found You“) ákvað ég að leggjast og loka augunum. Ég man því frekar lítið eftir restinni af tónleikunum en stundum þarf maður bara að slaka á og hvíla andlitið frá sólinni.

Aðalsviðið var næsti áfangastaður en þar voru að stíga á stokk Wolfmother og Kasabian. Rétt eins og á AS lá ég í grasinu og í þessu tilfelli safnaði ryki því að skammt frá var göngustígurinn sem mikil traffík var á. Wolfmother á ekki beint lager af góðum og eftirminnilegum lögum en þó eiga þeir til lög eins og „Woman“ og „White Unicorn“ sem eru alveg að fá fjórar stjörnur í iTunes möppunni minni. Fyrir utan þessi tvö lög og „Dimension“ var ég ekkert að missa mig og því farinn að hlakka pínu til að sjá Kasabian.

Það er ekkert svo langt síðan að Kasabian „meikaði“ það en þeir gáfu út flotta plötu árið 2004. Svo er lítið að frétta af þeim þangað til 2009 en þá kemur lagið „Fire“ þeim á kortið en allir unnendur enska boltans ættu að kannast við stefið úr því lagi. Annað en Wolfmother eiga Kasabian nóg af efni til að búa til flotta tónleika og þannig týndu þeir til lög af plötunum KasabianWest Ryder Pauper Lunatic Asylum og Velociraptor!. Það sem mér þótti standa upp úr voru lögin „Club Foot“ og „L.S.F.“ af fyrstu plötunni og „Re-Wired“ af þeirri síðustu. Í það heila hafði ég annars gaman af Kasabian en það var frekar skondið þegar Tom Meighan söngvari bað félaga sinn Sergio Pizzorno um að syngja „I’m On Fire“ partinn í „Fire“ því að greyið var að verða raddlaust. „You’re a lifesaver“ sagði hann svo og þar með kvöddu þeir.

Þar sem að ég er lítill Mumford and Sons maður og mikill M83 maður var stefnan tekin á Hlöðuna þar sem My Morning Jacket var að fara að spila. Það var ansi fámennt þar enda megnið af fólkinu á Mumford. MMJ voru þó ekkert að pæla í því og buðu uppá vel þétta tónleika. Söngvarinn Jim James er með þeim betri sem ég hef heyrt í og var ég pínu hræddur um að líkami hans gæti ekki höndlað kraftinn í honum. Hápunkturinn var þriggja laga syrpa sem innihélt „Holdin’ On to Black Metal“, „Outta My System“ og „Lay Low“. Ég kláraði að vísu ekki tónleikana því að M83 voru að fara að spila á Pýramídanum og í þetta skiptið ætlaði ég að koma mér vel fyrir þar!

Það var ekki eins troðið og áður er ég mætti á Pýramídann og náði ég að planta mér á fínum stað nálægt sviðinu. Eftirvæntingin var mikil enda M83 búin að sækja í sig veðrið síðustu ár og gefið út frábærar plötur. Geðveikin byrjaði á fyrstu sekúndu er furðuvera birtist á sviðinu og gnæfði yfir áhorfendur og var geðshræringin mikil á því augnabliki. Stuttu síðar birtust meðlimir M83 og hófu sýninguna með látum. Ég skemmti mér konunglega á þessum tónleikum og söng hástöfum með ásamt því að stíga nokkur misgóð dansspor. Ef ég ætti að nefna einhverja hápunkta væru þeir líklega „Reunion“ og „Couleurs“. Það var heldur ekkert leiðinlegt að heyra „Midnight City“ og stemninguna sem fylgdi því. Svo verð ég einnig að minnast á bassaleikarann Jordan Lawlor sem var í miklu stuði og sérstaklega þegar hann fór á kúabjölluna, aðra eins fótavinnu hef ég aldrei séð!

Það var ekki mikill tími á að melta M83 því að The xx voru þegar byrjuð að spila á aðalsviðinu. The xx er ein svalasta hljómsveit á þessari plánetu en þau nýttu sér skemmtilegan fítus á skjánum með því að birtast í svarthvítu. Öll lögin af fyrstu plötunni voru tekin ásamt fimm af væntanlegri plötu. Þau voru góð en mér fannst samt tónlistin þeirra fjara út á svona stóru sviði fyrir framan svona mikið af fólki. Ég vonast til þess að sjá þau aftur einn daginn undir betri skilyrðum.

Enn var maður á hlaupum því að næst á dagskrá var Regina Spektor en hún tróð upp á Pýramídanum  fræga. Ég settist á viðarpallinn fyrir framan skjáinn og lét ljúfu tóna Reginu leika um eyrun mín. Regina býr yfir miklum sjarma og er þar að auki frábær listamaður svo það er auðvelt að gleyma sér í eina klukkustund eins og tilfellið var á hennar tónleikum. Hápunktarnir voru margir en ég ætla að láta nægja að nefna lagið „Hero“ sem hljómaði í byrjun myndarinnar (500) Days of Summer. Mér leið vel og eiginlega betur í hjartanu eftir að hafa séð Reginu og hvet ég alla til þess að sjá hana ef tækifæri gefst til.

Ég ákvað að enda kvöldið á Incubus frekar en að fara á Editors einfaldlega vegna þess að ég fýla þá betur og tengi mig og mína persónu miklu meira við þá. Maður ferðaðist nokkur ár aftur í tímann með Incubus en þeir tóku rjómann af ferlinum. „Drive“, „Pardon Me“ og „Talk Shows On Mute“ voru þarna og einnig „Anna Molly“, „Love Hurts“ og „Nice to Know You“. Brandon Boyd fór svo úr að ofan og þá var dagurinn fullkomnaður.

Chase and Status voru byrjaðir að telja í er ég labbaði fram hjá aðalsviðinu en ég hafði bara ekkert úthald í þá geðveiki. Ég var sáttur.

Það fór hrollur um mann þegar þessi birtist í Pýramídanum!

Einnig hefði verið gaman að sjá: Ben Howard, James Vincent McMorrow, Simple Minds.

Torfi