Færslusafn

Tónleikadómur: Útgáfutónleikar Noise

FullSizeRender
Hljómsveitin Noise gaf út plötuna Echoes 15. apríl síðastliðinn og hélt af því tilefni útgáfutónleika í Tjarnarbíó á laugardaginn. Einnig eru fyrirhugaðir útgáfutónleikar á Græna hattinum á Akureyri þann 20. maí. Platan er sú fjórða frá sveitinni en fyrri plötur sveitarinnar eru Pretty Ugly (2003), Wicked (2006) og Divided (2010).

Echoes er frábrugðin fyrri verkum sveitarinnar en á plötunni má finna órafmagnaðar útgáfur af eldri lögum þeirra. Lagið „Quiet“ er fyrsti smellurinn af plötunni og er lagið búið að vera á repeat hjá mér síðustu vikurnar. Er ég heyrði svo af útgáfutónleikunum var það aldrei spurning um að skella sér enda kunni ég að meta þennan nýja hljóm.

Ekki skemmdi valið á tónleikastaðnum fyrir enda hefur Tjarnarbíó mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig persónulega og leynast miklir töfrar í húsinu. Salurinn var nokkuð þétt setinn og ljóst að framundan var gott kvöld.

Er flestir gestirnir höfðu komið sér fyrir birtust meðlimir Noise á sviðinu og töldu strax í fyrsta lagið af plötunni, „Dark Days“. Ljóst var að sveitin var vel æfð og greinilegt að menn ætluðu að vanda til verka. Eftir lagið heilsaði Einar Vilberg uppá salinn en ljóst var að tímanum yrði ekki eytt í óþarfa blaður og var því næst rennt í smellinn „Quiet“. Ég naut þess vel að fá loksins að heyra lagið í lifandi flutningi en var örlítið smeykur um að hápunkturinn hefði komið of snemma. Það var þó engin ástæða til að örvænta.

Þriðja lag kvöldsins var „Paranoid Parasite“ sem er einmitt fyrsta lagið sem ég heyrði með hljómsveitinni og eitt þekktasta lag sveitarinnar. Lagið var vel útfært þar sem að hljómborðsleikur Valdimars Kristjónssonar var í aðalhlutverki.

Áfram hélt fjörið og „Out of Line“ var næst á dagskrá. Lagið byrjar af krafti og er þrusu gott og minnir svolítið á Jet Black Joe í viðlaginu. Einar Vilberg sýndi flotta takta á gítarnum sem og reyndar mest allt kvöldið en það var sérstaklega gaman að fylgjast með honum spila þetta lag. Valdimar hélt áfram að skila góðu dagsverki sem og Þorvaldur trymbill og Stefán bassaleikari. Þarna voru tónleikarnir komnir á gott flug.

Drengirnir hægðu þó aðeins á ferðinni í laginu „Sleepless“ þar sem söngur Einars fékk að njóta sín vel. Flott lag og ljóst að heilmikið er spunnið í Echoes. Noise voru þó ekki á þeim buxunum að fara að lenda strax og héldu áfram fluginu og léku næst lagið „Sea of Hurt“ af plötunni Divided.

Fyrir lagið „Fathead“ skipti Einar um gítar og fór úr kassagítarnum yfir í Gretsch gítar frá árinu 1959. Tjarnarbíó lætur ekki bjóða sér slíkan dýrgrip tvisvar og skilaði hljómunum frá Gretsch gamla afskaplega vel frá sér út í sal. Í plötukynningu sinni í Popplandi tala meðlimir um að lagið sé ótrúlega skemmtilegt tónleikalag og get ég alveg tekið undir það þó þetta sé ekki endilega besta lagið á plötunni.

Síðasta lagið af plötunni er lagið „So Long“ sem tekið er af Wicked. Verð ég að segja að lagið virkar mun betur á plötunni þar sem Noise nýtur stuðnings strengjasveitar Mark Lanegan. Beri maður lagið saman við sterkustu lög Echoes fellur það svolítið í skuggann. Ég var því ekki tilbúinn til að fara heim þrátt fyrir að Einar og félagar væru búnir að leggja frá sér hljóðfærin og farnir baksviðs.

Einar Vilberg, gítarleikari og söngvari Noise snéri aftur einn síns liðs og sagðist geta tekið eitt lag til viðbótar og náði í Gretsch gamla. Einar tók lagið „Stab in the Dark“, eitt af bestu lögum sveitarinnar sem er þó ekki að finna á Echoes og er það synd enda flutningur Einars á laginu frábær. Að laginu loknu mættu Valdimar, Stefán og Þorvaldur aftur á sviðið og aðstoðuðu Einar við að flytja „Dark Days“ í annað sinn og ljúka þar með vel lukkuðum tónleikum. Sjálfur hefði ég viljað heyra þá taka „Quiet“ í staðinn enda uppáhalds lagið þessa stundina en ég var þó sáttur við frammistöðu drengjanna sem eru með flotta plötu í höndunum í Echoes og mega vera stoltir af.

Þó það sé löngu orðið þreytt að bera hljómsveitir saman við aðrar hljómsveitir verður ekki hjá því komist að tala um Nirvana í sömu andrá og Noise. Þegar ég var að hlusta á Echoes leitaði hugurinn ósjálfrátt í MTV Unplugged in New York plötuna með Nirvana sem eins og heitið gefur til kynna inniheldur órafmagnaðan og lifandi flutning á lögum Nirvana ásamt ábreiðum. Plöturnar eiga það sameiginlegt að höfundar breyta útaf vananum og gefa lögum sínum nýtt líf með órafmögnuðum útsetningum. Þar að auki er grunge’ið í aðalhlutverki hjá báðum hljómsveitum.

Að mínu mati mættu fleiri leika sama leik og Noise, líta um öxl og taka upp órafmagnaðar útgáfur af lögunum sínum. Ég hef áður minnst á að ég væri til í að sjá Agent Fresco gera slíkt og þá almennilega enda hafa þeir sýnt fram á að það er góður grundvöllur fyrir því.

Annars hvet ég fólk til að næla sér í eintak af Echoes og skella sér á útgáfutónleikana á Akureyri þann 20. maí.

Lagalisti kvöldsins:

Dark Days
Quiet

Paranoid Parasite
Out of Line
Sleepless
Sea of Hurt
Fathead
So Long 

Uppklapp

Stab in the Dark
Dark Days

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Tónleikadómur: Jet Black Joe 20 ára

Undirritaður var þess heiðurs aðnjótandi að vera viðstaddur afmælistónleika Jet Black Joe í gærkvöldi en þeir voru að halda uppá 20 ára starfsafmæli sitt. Vegna mikillar aðsóknar voru haldnir tvennir tónleikar, yðar einlægur átti miða á þá seinni.

Að vísu voru aðeins tveir upprunalegir meðlimir mættir til að halda uppá afmælið en það voru að sjálfsögðu Páll Rósinkranz og Gunnar Bjarni Ragnarsson. Þeim til aðstoðar voru mættir tvíburarnir Guðlaugur og Kristinn Júlíussynir og Snorri Snorrason fyrrum Idol stjarna. Saman mynduðu þessir menn einstaklega þétta og góða hljómsveit sem fóru ansi hreint vel með lög Jet Black Joe.

Leikin voru allra bestu lögin af ferli sveitarinnar og var ég lítið var við þessi nýju lög sem talað var um að þeir myndu spila. Hljómsveitin byrjaði reyndar tónleikana á einhvers konar útfærslu af „Also sprach Zarathustra“ sem var vel við hæfi enda ekkert annað í boði en að bjóða Palla velkominn á svið með slíkri epík.

Níu lög voru spiluð fyrir hlé en hápunktar þar voru lög eins og „My Time For You“ og að sjálfsögðu „Higher and Higher“ en þá tók salurinn heldur betur við sér og stóð upp að beiðni Palla og dansaði og klappaði eins og það ætti lífið að leysa. Kannski ekki beint rétti tímapunkturinn til að taka hlé en einhver verður salan á barnum að vera.

Gunnar og Palli í sínu allra fínasta.

Keyrslan var ekkert minni eftir hlé og byrjaði Gunnar strax að búa til læti með gítarnum en ég verð að segja að Gunnar lítur ekki út fyrir að vera frá þessu fróni enda afskaplega svalur maður með eindæmum, bæði í spilamennsku og útliti. Palli bauð frænku sinni Sigríði Guðnadóttur upp á svið til að taka lagið „Freedom“ og var sá flutningur epískur svo ekki sé meira sagt. Kraftar Sigríðar voru einnig nýttir í „Knockin’ on Heaven’s Door“ sem var tekið í stíl Guns N’ Roses.

„Higher and Higher“ var svo spilað aftur og átti að vera síðasta lag kvöldsins. Eins og við mátti búast voru drengirnir klappaðir upp að hætti Íslendinga og tóku þeir þá „Rain“ sem þeir höfðu einnig spilað áður á tónleikunum. Ég veit ekki með þetta uppátæki, mér fannst alveg nóg að upplifa nostalgíuna sem fylgdi „Higher and Higher“ einu sinni og þótti mér eiginlega nóg um þegar „Rain“ var svo endurtekið. Það er ekki eins og lagerinn af lögum sé lítill hjá þeim félögum.

Fyrir utan endurtekningarnar var þetta skemmtileg afmælisveisla þar sem hljómburður var í hæsta gæðaflokki.

Lagalisti

Take Me Away
Big Fat Stone
I, You, We
Rain
Jamming
Starlight
My Time For You
Stepping Stone
Higher and Higher

Hlé

Falling
Summer Is Gone

I Know
Freedom
Knockin’ on Heaven’s Door
Won’t Go Back
Are You Gonna Go My Way 
Higher and Higher 

Rain

– Torfi