Færslusafn

Bíó: Inside Llewyn Davis

Inside-Llewyn-Davis-Oscar-Isaac

Inside Llewyn Davis er nýjasta kvikmynd Coen bræðra og fjallar í stuttu máli um strögglandi tónlistarmann í New York árið 1961.

Oscar Isaac leikur tónlistarmanninn Llewyn Davis og leysir það hlutverk með miklum sóma. Hann fetar sömu fótspor og Joaquin Phoenix gerði í Walk the Line og syngur öll lögin sín í myndinni sjálfur og gerir það ótrúlega vel. Oscar er svo umkringdur flottum leikurum á borð við Carey Mulligan, Justin Timberlake, John Goodman og F. Murray Abraham.

Án þess að ætla að reifa söguþráð myndarinnar í löngu máli er allt í lagi að fara yfir það helsta.

  • Llewyn Davis (Oscar Isaac) er farinn að reyna fyrir sér sem sóló listamaður eftir að hafa verið áður í dúett.
  • Umbinn hans er kominn á aldur, gerir lítið gagn og sólóplatan selst illa.
  • Davis á hvergi heima og fær að gista hjá vinum og ættingjum.
  • Fyrrverandi kærastan Jean (Carey Mulligan) er með barni og er ekki viss hvort að Davis sé pabbinn eða nýi kærastinn, Jim (Justin Timberlake).
  • Ofan á þetta allt saman er veturinn harður og Davis á engan frakka.

Sem sagt, allt í rugli hjá Davis greyinu. Tónlistin er það eina sem hann á en honum virðist einhvern veginn vera fyrirmunað að gera sér lifibrauð úr henni.

Ég verð að segja að ég skemmti mér ótrúlega vel á myndinni fyrir hlé. Það var svo gaman að fylgjast með hrakförum Davis og það virtist ekkert falla með honum alveg sama hvað það var. Lögin voru einnig afskaplega góð og þá ber helst að nefna „Hang Me, Oh Hang Me“, „Fare Thee Well (Dink’s Song)“, „The Last Thing On My Mind“ og „Five Hundred Miles“. Atriðið þar sem að Davis tekur lagið með Jim og Al Cody var stórskemmtilegt og var það aðallega tilburðum þess síðastnefnda að þakka. Þá var ég ótrúlega ánægður með það hve lögin nutu sín vel í myndinni og fengu að lifa alveg til enda en það vill oft verða í svona tónlistarmyndum að maður fær bara að heyra brot úr lögunum.

Myndin var ekki alveg eins sterk eftir hlé og þá er aðallega um að kenna drepleiðinlegu ferðalagi Davis til Chicago með súrustu ferðafélögum kvikmyndasögunnar, þeim Roland Turner (John Goodman) og Johnny Five (Garrett Hedlund). Eftir þennan dapra kafla í myndinni fannst mér hún aldrei ná sér almennilega aftur á flug og var maður farinn að finna til með Davis greyinu. Þó að innri tími myndarinnar sé ein vika má alveg gera ráð fyrir því að framtíð Davis hafi ekki verið í tónlistinni, allavega ekki sem sólólistamaður. Mér fannst eitt af síðustu atriðum myndarinnar gefa það til kynna að róðurinn yrði erfiður enda var sjálfur Bob Dylan næstur upp á svið á eftir Davis. Eitthvað segir mér það að útsendarar útgáfufyrirtækjanna hafi frekar heillast af tónlist Dylan frekar en Davis. 

Hinir mjög svo súru ferðafélagar.

Hinir mjög svo súru ferðafélagar.

Nú veit ég að Llewyn Davis var ekki til í raun og veru þó að hugmyndin af myndinni hafi komið í gegnum bók eftir tónlistarmanninn Dave Van Rock. En örlög Llewyn Davis minna mig svolítið á Sixto Rodriguez og hljómsveitina Anvil sem hlutu endurnýjun lífdaga með heimildarmyndunum Searching for Sugar Man og Anvil: The Story of Anvil. Llewyn Davis er ekki ósvipaður Sixto en báðir eru þeir ekki hreinræktaðir Bandaríkjamenn og semja alveg ótrúlega fína tónlist sem nær af einhverjum völdum ekki að hitta í mark neins staðar. Að vísu hitti Sixto í mark í S-Afríku en þið vitið hvert ég er að fara. Eins með Anvil sem hafði allt að bera en tókst ekki að heilla útgefendur. Þá minnir Llewis mig á grínþættina Flight of the Conchords þar sem að tveimur Nýsjálendingum gengur illa að slá í gegn í New York þrátt fyrir afbragðs fína tónlist og hefur þar umboðsmaðurinn mikið að segja.

Það er örugglega til slatti af tónlistarmönnum eins og Llewyn Davis sem reyndu að harka í þessum grimma bransa en höfðu ekki erindi sem erfiði og þurftu á endanum að snúa sér að öðru til að hafa í sig og á. Ímyndaðu þér að vera að koma fram á undan eða eftir mönnum eins og Bob Dylan. Þú bara keppir ekkert við það.

Niðurstaða: Góð en hefði getað verið enn betri. Tónlistin frábær og flutningur leikara á lögunum til fyrirmyndar. Skylduáhorf fyrir þá sem hafa gaman af þjóðlagatónlist.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

† Richie Havens allur

Söngvarinn og gítarleikarinn Richie Havens hefur hvatt vora jörð en hann lést í gær 72 ára að aldri. Richard Pierce Havens fæddist í Brooklyn í janúar 1941 og var hann einn af níu systkinum takk fyrir. Segja má að frægðarsól Havens hafi loks risið þegar hann kom fram á Woodstock hátíðinni árið 1969 en vegna seinkunar og forfalla annarra hljómsveita þurftu áhorfendur að sitja uppi með hann í næstum þrjá klukkutíma! Havens stóð sína plikt og vel það og hristi úr erminni hin og þessi lög sem féllu vel í gesti.

RichieHavens_banner

Richie Havens slær strengi á Woodstock.

Ef aðrir listamenn hefðu ekki verið seinir á hátíðina hefði mannkynið líklega aldrei heyrt lagið „Freedom“ en þar sem Havens var nánast búinn að spila öll lög sem hann kunni þurfti hann að spinna eitthvað á staðnum. Hann studdist við texta úr negrasálminum „Motherless Child“ og lék svo af fingrum fram eins og honum einum var lagið og úr varð lagið „Freedom„.

Havens hafði sinn einstaka stíl og mætti kannski lýsa honum sem frumbyggjalegum. Hann þótti vera ansi ákafur á gítarinn auk þess sem hann notaði opna stillingu en þá heyrist hljómur þegar slegið er yfir alla strengina í einu án þess að nota grip.

Árið 2007 birtist Havens í litlu hlutverki í kvikmyndinni I’m Not There sem túlkar Bob Dylan á marga vegu. Þar sat hann á verönd ásamt leikaranum Marcus Carl Franklin sem túlkaði ungan Bob Dylan og Tyrone Benskin og spiluðu þeir lagið „Tombstone Blues“. Lengri útgáfu af laginu er að finna á sándtrakki myndarinnar en Havens var einn af fjölmörgum listamönnum sem gerðu ábreiður af lögum Dylans. Það þarf ekki að koma á óvart að Havens hafi verið í því úrtaki enda hafði hann áður leikið lög eftir Bob Dylan með góðum árangri. Þá lék hann einnig ábreiður af ferli Bítlanna og má þar benda á „Strawberry Fields Forever“ sem var í Woodstock prógrammi hans og „Here Comes the Sun“.

Richie Havens hafði áhrif á margan manninn og má nefna tónlistarmenn eins og Bill Withers, Cat Stevens og Jeff Buckley í því samhengi. Það er ljóst að áhrif Havens liggja víðar og að frumlega listamenn eins og hann er ekki að finna á hverju strái. Havens hefur skilið eftir sig arfleifð sem mun lifa áfram um ókomna tíð.