Færslusafn

Airwaves ’15: Laugardagur

Pink Street Boys var fyrsta atriðið sem ég kíkti á laugardaginn en þeir komu fram off venue á neðri hæð Bar 11. Staðurinn var pakkaður og naut ærslafullt rokk drengjanna sín vel. Eftir að hafa heyrt strákana flytja „Evel Knievel“ kvaddi ég Bar 11 og tók stefnuna á Lucky Records.

Í Lucky Records voru aðrir off venue tónleikar, í þetta sinn með hljómsveitinni Markús & the Diversion Sessions sem gaf nýlega út plötuna The Truth the Love the Life sem inniheldur m.a. hið frábæra „É bisst assökunar“. Það var létt yfir sveitinni í Lucky og renndi hún í nokkur lög af plötunni sem var hvert öðru skemmtilegra. Greinilega hörku fínt band hér á ferðinni og hvet ég fólk til að skoða hana vel.

Fyrsta on venue atriði kvöldsins hjá mér var bandaríska hljómsveitin Porches. sem var opnunaratriði Silfurbergs þetta kvöldið. Ég hef alveg séð hressari frontmenn en þessi ágæti maður var steinhissa á góðri mætingu og talaði um að ef tónleikarnir væru í New York væri enginn á svæðinu. Að mínu mati var styrkurinn í hljóðkerfi salsins full mikill sem kom niður á upplifuninni. Þó voru öll lögin frekar keimlík svona heyrandi þau flest öll í fyrsta skipti. „Headsgiving“ var hápunktur kvöldsins og þeirra sterkasta lag að mínu mati. Áður en ég sleppi Porches. alveg þá má kannski minnast á hræðilegan brandara sem einn meðlimur sveitarinnar sagði. Q: What do you call Adele when she’s on the bottom of the ocean? A: Adele rolling in the deep.

Ég færði mig yfir í Norðurljósasal til þess að sjá tónleika SOAK sem er hugarfóstur írska tónlistarmannsins Bridie Monds-Watson. SOAK spilar draumkennda indí popptónlist og spilar sjálf á gítar og syngur en er gjarnan studd af trommuleikara og öðrum gítarleikara. Bridie er fínasti lagahöfundur þó að lögin risti kannski misdjúpt. „B a noBody“ er án efa hennar sterkasta lag enda lagið fengið næstum 10 milljón spilanir á Spotify. Fínasta dagsverk hjá SOAK þó að engin undur og stórmerki hafi átt sér stað.

Þá var að færa sig aftur yfir í Silfurbergið þar sem að Beach House, eitt af stóru atriðum hátíðarinnar í ár var að stíga á svið. Beach House hefur getið sér góðan orðstír undanfarin ár með sínu draumkennda poppi og indí rokki og eru tónlistarmiðlar almennt afar ánægðir með það sem sveitin hefur verið að bjóða uppá á sínum ferli sem spannar sex breiðskífur. Það má því segja að væntingar fólks til tónleika sveitarinnar hafi verið miklar þó að ég sjálfur hafi stillt mínum í hóf. Fyrir utan smá basl við hljóðkerfið stóð sveitin sig þokkalega og nokkuð ljóst að þarna var reynslumikil sveit á ferð. En eins og einn félagi minn benti á er einn klukkutími af Beach House alveg feykinóg. Það er ekki beint brjáluð fjölbreytni í tónlist Beach House þó það sé vissulega afar notalegt að staldra við hjá henni stöku við. Eftir rúmlega 50 mínútur lét ég mig hverfa úr Silfurberginu.

Sem fyrr var röltið ekki langt og var ég enn og aftur mættur í Norðurljósasal til að sjá BC Camplight. Ákvörðunin um að yfirgefa Beach House reyndist vera rétt því að fyrsta lag hljómsveitarinnar var hið magnaða „You Should’ve Gone to School“ sem er eitt af bestu lögum ársins. Eini gallinn við þessa frábæru byrjun var að ég óttaðist að Brian Christinzio hefði tekið slagarann of snemma. Þær áhyggjur voru óþarfar enda Brian alltof skemmtilegur karakter og góður lagahöfundur til að láta einhverjum leiðast á tónleikum sínum. Brian var vopnaður rauðvínsflösku sem hann var duglegur að þamba á milli laga en þess á milli sýndi hann magnaða tilburði í söng og píanóleik og af þeim sökum hef ég ákveðið að gefa honum viðurnefnið „hinn hvíti Stevie Wonder“. Einir eftirminnilegustu tónleikar hátíðarinnar hingað til.

IMG_4120

Næst tók við stutt stopp á stærðfræðirokkurunum Battles sem voru eins og allir stærðfræðingar, stórfurðulegir. Hressandi innspýting samt í kvöldið og hefði verið gaman að staldra lengur við.

Flakkið á milli Silfurbergs og Norðurljósasals hélt áfram og nú voru sálardívurnar í Saun & Starr mættar í síðarnefnda salinn. Það var einkar hentugt að hafa rifjað upp kvikmyndina The Commitments nýlega sem virkaði eins og upphitun fyrir Saun & Starr. Stöllurnar voru í hörku stuði sem og hljómsveitin og matreiddu þau í sameiningu sálarbræðing af bestu sort. Enn og aftur skemmtileg tilbreyting frá öðrum atriðum hátíðarinnar.

Síðasta atriðið sem ég tók í Hörpu var GusGus flokkurinn í Silfurbergi en þeir eru fáliðaðir eins og er en eftir standa Biggi Veira, Högni og Daníel Ágúst, hin heilaga þrenning vil ég meina. Eftir að hafa hitað mig vel upp allt kvöldið var ég tilbúinn að gefa mig allan á vald GusGus. Til þess að gera það er það algjört grundvallaratriði að loka augunum og leyfa öðrum skilningarvitum að sjá um að vinna úr áreitinu. Það skilaði sér í stórum og miklum danshreyfingum og engu líkara en að maður væri mættur í þrek í ræktinni frekar en tónleika á Airwaves. Ég man ekki nákvæmlega hvaða lög voru leikin á tónleikunum en þarna voru þó nokkur lög af Mexico eins og „Obnoxiously Sexual“, „Crossfade“ og „Airwaves“. „Over“ af Arabian Horse var þarna líka sem og eitt glænýtt lag sem kom jafnvel út og „Crossfade“ þegar GusGus frumflutti það á Sónar árið 2013. Æðislegir tónleikar og skynvitund mín sjaldan haft það betra.

Áður en koddinn tók við kíkti ég inn í Gamla bíó en þar var AmabAdamA að spila. Reggísveitin hefur unnið sig í áliti hjá mér jafnt og þétt á árinu og fannst mér áhugavert að sjá hvernig hún myndi tækla hálf þrjú giggið sitt. Það má segja að sveitin hafi rúllað því upp enda var salurinn gjörsamlega á valdi reggítóna AmabAdamA. Ég lét mér nægja að njóta af svölunum enda útkeyrður eftir þrektímann hjá GusGus. Eftir tónleikana fór ég heim miklu meira en sáttur eftir vel lukkaðan dag!

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Yfirheyrslan: Ívar Björnsson (Nolo)

Yfirheyrslan er nýr liður hér á Pottinum þar sem við tökum tónlistarmenn af handahófi og yfirheyrum þá rækilega. Sá fyrsti hefur gert það gott undanfarin ár með hljómsveit sinni Nolo en taka verður þó fram að þetta er ekki knattspyrnumaðurinn Ívar Björnsson.

Fullt nafn: Ívar Björnsson.

Aldur: 21.

Staða í hljómsveit: Hljómborð, bassi og söngur.

Fyrri hljómsveitir/verkefni: Spooky Jetson a.k.a. Black Sabbath Íslands.

Áhrifavaldur/ar þínir: Alltaf erfitt að svara þessari spurningu en ég hlusta mikið á t.d. Marc Bolan/T. Rex, Gary Numan, Black Sabbath og Beach House.

Drauma staður til að spila á: Um borð í Norrænu, eða gamalli kirkju eins og t.d. Dómkirkju Flórens, væri örugglega magnað sound þar.

Hefurðu gefið eiginhandaráritun: Já það hef ég.

Frægasti tónlistarmaður sem þú hefur hitt: Bó Hall.

Efnilegasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Er ekki Ásgeir Trausti að gera allt vitlaust? Hann er efnilegur en svo er grjóthart band sem kallast Saytan, þeir eru með mjög flott stöff sem lofar góðu.

Ofmetnasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Það eru nokkrar ofmetnar hljómsveitir hér á landi en ég get ómögulega sagt hverjir það eru, ég vil ekki að fólk hræki á mig út á götu.

Vanmetnasti: Kannski skrítið að nefna FM Belfast þar sem þau eru gríðarfræg hér á landi en mér finnst þau svo vanmetin erlendis. How to Make Friends er plata í heimsklassa og ætti að fá meira umtal erlendis. Gæti verið að ég sé að rugla og að þau séu mjög fræg þarna úti en þetta er það sem mér finnst.

Bestu tónleikar sem þú hefur spilað á: Spiluðum eitt sinn á menntaskólaballi MH á Nasa, það var örugglega enginn að hlusta heldur í leit að sleik en við misstum okkur í gleðinni á sviðinu. Svo hafa allir Airwaves tónleikarnir okkar heppnast gríðarvel.

Bestu tónleikar sem þú hefur séð: Ég fór á Rolling Stones í Köben og það var magnað, erfitt að toppa þá tónleika.

Ef þú mættir velja hvern sem er á Íslandi til að semja lag með: Við erum fljótlega að fara að semja lög með drengjunum í Sudden Weather Change. Við höfum áður unnið lag saman sem ber heitið „Saan Rail“ sem má finna á plötunni Hitaveitan, mjög svo sveitt og skemmtilegt lag.

En utan landsteina: Maður hefði verið til í að vinna með Gary Numan, maðurinn á milljón forn syntha. En hann er orðinn svo dark eitthvað, komið þetta Emo element í hann sem ég er ekki að fíla. En það væri t.d. spennandi að vinna með Beach House eða jafnvel Empire of the Sun.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem hefur hent þig á tónleikum: Það var eitt fyndið atvik sem við lentum í með Spooky Jetson. Það var þannig að við vorum að spila á Samfés á litlu sviði í Laugardalshöllinni. Við vorum svona 14-15 ára gamlir og óreyndari en skelfiskur á þurru landi. Það safnaðist saman stór hópur af krökkum þegar við byrjuðum að spila og fremst í hópnum voru kolóðar stelpur. Þær voru að grípa í buxnaskálmarnar hjá manni eða skónna og gargandi líkt og við værum Hvanndalsbræður á miðju sveitaballi. Svo tók einhver gítarinn hans Nonna úr sambandi á miðjum leikum. En allt gekk vel og við þurftum lögreglufylgd út.

Hvað er framundan: Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur, eitt hljómborðið okkar sem við höfum notað síðan í byrjun bilaði á miðri æfingu. Hljómborðið var skran úr Góða hirðinum en það innihélt trommusound sem finna má á flestum lögum okkar ásamt flottum en barnalegum synthaeffectum. Þannig að núna erum við á fullu í því að finna staðgengil og þróa soundið okkar ennþá meir.

Ívar í vinnunni.

Torfi