Category Archives: Iceland Airwaves

Airwaves’ 14: Föstudagur

Planið á föstudeginum var að sjá Roosevelt á Húrra en mér tókst að klúðra því með að mæta ekki nógu tímanlega. Röðin var löng og hreyfðist ekki neitt og ég gafst upp eftir að hafa heyrt Roosevelt spila tvö lög inni. Því var brugðið á það ráð að halda eitthvert annað þar sem enga röð væri að finna og endaði ég þá á Listasafninu. Þar var danska hljómsveitin Ballet School að spila. Eitthvað vesen var í gangi með hljóðið í byrjun sem lagaðist þó en það kom ekki að sök þar sem að ég gafst upp eftir tvö lög. Danmörk að skíta.

Harpan var næsti viðkomustaður og sá ég nokkur lög með Farao. Það var svolítill Zero 7 stemmari yfir henni og lögin hennar alveg þokkaleg. „Tell a Lie“ stóð samt upp úr og eftir það gat ég leyft mér að gera mig kláran fyrir tónleika Anna Calvi í Silfurbergi. Hún kom mér skemmtilega á óvart sú breska og hafði ég enga hugmynd um færni hennar á gítarinn en hún gerði mann alveg agndofa á köflum! Ekki nóg með það þá er hún alveg hörku söngvari líka og minnti mig stundum á PJ Harvey og Cat Power. Anna Calvi á fullt af flottum lögum eins og „Desire“ og „Eliza“ en hún tók einnig ábreiðu af Bruce Springsteen laginu „Fire“ sem kom vel út. Ég hafði ekki gert neinar sérstakar væntingar til Önnu en heillaði mig upp úr skónum með vel heppnuðum tónleikum sínum.

Þá var komið að Listasafninu aftur og nú beið mín röð en Ibibio Sound Machine var að spila. Ég náði ekki einu lagi með henni en komst þó inn í tæka tíð áður en Klangkarussell byrjuðu. Þeim tókst að koma gestum Listasafnsins á hreyfingu með fyrsta lagi sínu og héldu því þannig þangað til að þeir yfirgáfu sviðið. Listasafnið breyttist í stóran skemmtistað og það var ómögulegt að dilla sér ekki með í takt við tónlistina. Tónleikarnir náðu algjöru hámarki með smellunum „Sonnentanz (The Sun Don’t Shine)“ og „Netzwerk (Falls Like Rain)“ og tókst þeim að loka partýinu með stæl. Með betri tónleikum hátíðarinnar.

IMG_2933

Gamla bíó var næsti og síðasti áfangastaður kvöldsins en nú fór kærleikurinn við náungann að skipta meira máli heldur en tónlistin og því náði ég aðeins glefsum með Tomas Barfod sem bjargaði orðspori danskra tónlistarmanna þetta kvöldið og Sísí Ey. Strembin vika var farin að segja til sín hjá kærustunni sem hafði ekki meira úthald og því var brugðið á það ráð að fara heim. Það var þó ekki hægt að gráta yfir því enda ekki miklar líkur á því að einhver færi að toppa Klangkarussell.

– Torfi 

Auglýsingar

Airwaves ’14: Fimmtudagur

Fimmtudagskvöldið hófst á Frederiksen þar sem að CeaseTone var að spila. Þrátt fyrir að klukkan væri ekki margt var nokkuð af fólki á staðnum. Hafsteinn Þráinsson er aðalmaðurinn á bakvið CeaseTone en á tónleikum fær hann hljómsveit til stuðnings. Hafsteinn var valinn besti gítarleikarinn á Músíktilraununum í fyrra og stendur hann vel undir því. Lagasmíðar Hafsteins eru bara þó nokkuð góðar og skilaði hann ásamt hljómsveit sinni góðu dagsverki.

IMG_2896

Stefnan var tekin á Hörpuna þar sem að sigurvegarar Músíktilrauna í ár, Vio, opnuðu Silfurbergið. Ég var spenntur að sjá drengina en ég hafði séð þá á undanúrslitum Músíktilrauna í mars. „You Lost It“ er ennþá þeirra sterkasta lag en annars komust þeir nokkrum sinnum á gott flug með rokkaðari lögum sínum sem voru ágæt á tónleikunum en ekkert sérstaklega eftirminnileg. Framtíðin er þó björt og þeir hafa allt að bera til að vera flott hljómsveit í framtíðinni.

Ég færði mig yfir í Kaldaljós salinn til að sjá Alice Boman en hugurinn var þó á Húrra þar sem að Kött Grá Pjé var að spila á sama tíma en ég nennti hreinlega ekki að gera mér ferð þangað. Alice Boman hóf leikinn einsömul á „Waiting“ og flutti það lag með sóma. Salurinn var orðinn stappaður þegar að hljómsveitin hennar trítlaði á sviðið og spiluðu nokkur lög sem náðu þó ekki að rista neitt sérstaklega djúpt. Eftir flutninginn á „Over“ var ég orðinn þyrstur og ákvað því að yfirgefa Kaldaljós. Kvöldið hafði enn ekki náð neinu flugi.

Eftir að hafa vætt kverkarnar var komið að því að sjá Horse Thief en ég var nokkuð hrifinn af plötunni þeirra Fear In Bliss. Söngvarinn er með ansi sérstaka rödd sem minnir svolítið á Ezra Koenig í Vampire Weekend og hún naut sín nokkuð vel í Silfurberginu. Annars nutu lögin sín betur heima í stofu heldur en á tónleikum en það vantaði oft ris eða einhvern hápunkt til að gera mann agndofa. Tónleikarnir runnu annars bara nokkuð örugglega í gegn hjá Horse Thief en lögin voru þó flest í svipuðum dúr.

Harpan var yfirgefin og stefnan tekin á Gamla bíó þar sem að Megas hafði sameinast Grísalappalísu, ekki í fyrsta sinn og vonandi ekki í það síðasta. Það mátti búast við röð og því miður missti ég af einhverjum 10 mínútum en sem betur fer kom það ekki að sök. Stemningin var í allt öðrum klassa en á þeim tónleikum sem ég hafði farið á fyrr um kvöldið og á miðvikudaginn til samans. Þarna var Megas mættur, í fyrsta sinn á Airwaves ásamt bestu tónleikasveit landsins leyfi ég mér að fullyrða. Lög eins og „Paradísarfuglinn“, „Björg“ og „Ef þú smælar framan í heiminn“ fengu að hljóma og þau hljómuðu vel! Fólk dansaði og hélt Gunna á lofti þess á milli. Einhver leiðindi voru með hljóðið í míkrafónunum en þó ekki yfir alla tónleikana sem betur fer. Megas lét minna fyrir sér fara heldur en t.d. Gunnar enda talsvert eldri og lifaðri en var oft senuþjófur og þá sérstaklega í laginu „Ef þú smælar framan í heiminn“. Annars er ég bara í hálfgerðu sjokki yfir þessum hljóðfæraleikurum í Grísalappalísu sem eru allir fagmenn fram í fingurgóma. Saxófónninn er síðan auðvitað sér kapituli útaf fyrir sig en hann gerir alveg magnaða hluti fyrir þessa hljómsveit. Tvímælalaust bestu tónleikarnir hingað til.

IMG_2914

King Gizzard & the Lizard Wizard lokuðu fimmtudagskvöldinu með sýrusprengju en þeir voru vopnaðir tveimur trommuleikurum. Lögin voru flest í lengri kantinum og var aldrei slakað á. Ég var búinn að hlusta á plötuna þeirra Oddments fyrir tónleikana en það hefði ekki þurft, King Gizzard í stúdíó og King Gizzard á sviði er greinilega ekki sama dæmið og fengu melódíurnar að víkja fyrir hamagangi á sviðinu. Þrátt fyrir það var þetta ansi hressandi viðvera í Gamla bíói og ég hélt sáttur heim eftir fimmtudagskvöld sem hafði farið rólega af stað en endað í algjörri rússíbanareið.

– Torfi

Airwaves ’14: Miðvikudagur

Ég sem hélt að langar raðir á Airwaves heyrðu sögunni til. Ó nei. Sökum vinnu gat ég ekki mætt á tónleika fyrr en 22:30 og var planið að kíkja á Amabadama í Gamla bíói en er ég nálgaðist staðinn blasti við mér lengsta röð sem ég hef séð á miðvikudegi! Það þýðir bara það að maður þarf að skipuleggja dagskrána sína á komandi dögum enn betur og gæta þess að ætla sér ekki um of.

Ég nennti ómögulega að hanga í þessari röð svo að stefnan var tekin á annað hvort Frederiksen, Húrra eða Gaukinn. Ég endaði á Gauknum þar sem að Svartidauði var að spila. Ég er nú ekki beinlínis áhugamaður um svartan metal eða heimsendarokk eins og þeir gefa sig út fyrir að spila en þetta var akkúrat það sem ég þurfti á þessum tímapunkti. Þessi þrjú lög sem ég náði með þeim spörkuðu fast í rassgatið á mér alla leið yfir á Frederiksen þar sem að Ourlives var að klára settið sitt.

Una Stef var næst á svið en ég vissi ekki mikið um þá stúlku annað en hún væri hörku söngvari og hefði numið við FÍH. Hún mætti ásamt átta manna hljómsveit sem tróð sér á litla sviðið á Frederiksen. Stemningin var góð, bæði á sviði og útí sal og var það bæði nærveru Unu sjálfrar og tónlistarinnar sem gerði það að verkum. Una og hljómsveit byrjuðu af krafti á laginu „Mama Funk“ en hægðu svo á sér og renndu meðal annars í frábæra útgáfu af „Survivor“ með Destiny’s Child. Una sýndi fram á ósvikna sönghæfileika og þokkalegustu lagasmíðar. Hún fór allavega langt yfir þær væntingar sem ég gerði til hennar þetta kvöld.

IMG_2884

Ferðinni var heitið í Hörpuna þar sem stóð til að horfa á töffarana í Kaleo. Þeir léku ný lög í bland við gömul þar sem að pípurnar í Jökli fengu að njóta sín í Kaldaljósi. Rjóminn af frumburðinum var tekinn en nýju lögin sem voru þrjú eða fjögur gefa góða fyrirheit fyrir næstu plötu. Tónleikar þeirra voru þéttir og allir í góðu formi og ekki skemmdu fyrir auka strengir og gítarleikari.

Sum sé alveg afbragðs miðvikudagskvöld að baki þar sem að fjölbreytileikinn var í hávegum hafður.

– Torfi

Airwaves ’14: Böndin sem skipta máli

IMG_1127

Ég hef nú lokið við heimavinnuna mína fyrir Airwaves hátíðina sem hefst „formlega“ á morgun en off-venue dagskráin fór af stað í gær. Úrvalið af hljómsveitum og listamönnum er ansi gott í ár en sumar hljómsveitir eru öðrum fremri og það verður að hafa það í huga ef maður ætlar að eiga gott Airwaves. Afrakstur vinnunar eru tveir listar af hljómsveitum sem ég persónulega ætla að gera mitt besta til að sjá en það er auðvitað aðeins óskhyggja enda er laugardagurinn t.d. pakkaður af góðum hljómsveitum sem spila á sama tíma. Einhverju ætti maður samt að ná á off-venue en þó eru nokkrar sem taka ekki í þeirri dagskrá. Athugið að hér er aðeins um erlenda flytjendur að ræða en ég treysti mínum samlöndum auðvitað fyrir því að velja úr íslensku flórunni.

Skylduáhorf:

Caribou
Flaming Lips
Future Islands
Hozier
The Knife
The War on Drugs

Hafðu auga með þessum:

Anna Calvi
BLAENAVON
Ezra Furman
Horse Thief
How to Dress Well
Jaakko Eino Kalevi
King Gizzard and the Lizard Wizard
Klangkarussell
Kwabs
La Femme
Phox
Radical Face
Roosevelt
Son Lux
The Walking Who
Thus Owls
Tomas Barfod
Unknown Mortal Orchestra

– Torfi

Airwaves upphitun: Future Islands – The Vintage Caravan – The War on Drugs

Besta tónlistarhátíð Íslands, Iceland Airwaves, fer fram dagana 5-9 nóvember næstkomandi. Ekki er enn búið að staðfesta öll atriðin en þó eru komin nokkur þungavigtaratriði og nægir þar að nefna The Flaming Lips, Caribou og The Knife í því samhengi. Ég ætla hins vegar að líta aðeins betur á þrjár aðrar hljómsveitir sem ég er afskaplega spenntur að sjá á hátíðinni í ár.

Future Islands

Future Islands er áhugaverð hljómsveit frá Bandaríkjunum. Söngvarinn Samuel T. Herring býr yfir gríðarlega öflugri sviðsframkomu eins og sést á meðfylgjandi myndbandi. Sveitin hefur starfað í u.þ.b. 8 ár og gaf út fjórðu breiðskífuna sína Singles núna í mars og hefur hún fengið glimrandi dóma á Pitchfork og Allmusic.com. Airwaves gestir mega búast við þrusu fínum tónleikum og þá sérstaklega ef Sammi gamli verður í sama stuði og hann var í hjá David Letterman.

The Vintage Caravan

Hér eru á ferðinni sóðalega þétt íslensk hljómsveit með virkilega flott lög. Söngvarinn Óskar býr yfir alveg hörku rödd og heldur sömuleiðis uppi gítarleiknum í hljómsveitinni. Þetta myndband við lagið „Expand Your Mind“ er með því skemmtilegra sem ég hef séð hjá íslenskri sveit en það er bæði vel sveppað og steikt og passar afar vel við tónlistina. Drengirnir eru annars búsettir í Danmörku þessa dagana og eiga þar lítið rúgbrauð sem þeir ferðast um á villt og galið útum alla Evrópu. Þeir ætla hins vegar að gera sér ferð hingað til Íslands í nóvember og útbúa einhvern djúsí kokteil handa rokkþyrstum aðdáendum.

The War on Drugs

The War on Drugs er eitt af stærri atriðum hátíðarinnar í ár. Þeir hafa gefið út þrjár plötur og sú síðasta sem kom út á þessu ári er í miklum metum hjá tónlistarspekúlöntum og rómuð sem ein besta plata ársins hingað til. Tónlistarmaðurinn Kurt Vile sem hefur átt góðu gengi að fagna síðustu ár er einn af stofnmeðlimum hljómsveitarinnar en hætti eftir útgáfu fyrstu plötunnar til að einbeita sér að sólóferlinum. The War on Drugs er þó heldur betur að minna á sig í ár með plötunni sinni Lost in the Dream.

– Torfi

Airwaves ’13: Laugardagur & Kraftwerk (+lagalisti)

Það var stórleikur í ensku úrvalsdeildinni sem setti smá strik í reikninginn til að byrja með á laugardaginn en hann hófst kl. 17:30. Ég var svo sem ekki búinn að ákveða að sjá neitt yfir þann leiktíma en þó hefði verið gaman að kíkja á Vigra í Iðnó eða Nolo í Listasafninu.

En aðalmálið þetta kvöld var að sjálfsögðu Mac DeMarco frá Kanada. Það var svona sá listamaður sem ég var búinn að kynna mér mest fyrir hátíðina og gerðist meira að segja svo kræfur að fjárfesta í plötunni hans 2. Mac DeMarco kom fram í Silfurbergi kl. 21:00 og hóf leikinn á einu uppáhalds laginu mínu með honum, „Cooking Up Something Good“. Leikin voru aðallega lög af þeirri plötu en einnig fengu að hljóma nokkur af Rock and Roll Night Club. Ég held að ég sé ekkert að ýkja þegar að ég segi að Mac DeMarco og félagar hafi farið á kostum á tónleikum sínum og þá aðallega Mac sjálfur. Maðurinn hlýtur að vera með einhverja greiningu og hættur að taka inn lyfin sín eða þá á kafi í einhverju sterku því að orkan sem stafaði frá honum var fáránleg. Fyrir utan að leika sitt eigið efni tóku þeir syrpu af þekktum lögum eins og „Enter Sandman“, „Takin’ Care of Business“ og „Blackbird“ og sló það algjörlega í gegn hjá áhorfendum enda stundum gott að fá þekkta hittara í kroppinn svona við og við á Airwaves. Mac DeMarco sleit streng og crowd surfaði þannig að hann stóðst rokkaraprófið og vel það. Frábærir tónleikar og með þeim betri sem ég hef séð á Airwaves svei mér þá.

IMG_1127

Breska hljómsveitin Money átti leik strax á eftir Mac í Norðurljósi en þar er á ferðinni helvíti efnileg hljómsveit sem gaf út frábæra plötu á þessu ári, Shadow of Heaven. Söngvarinn býr yfir fallegri rödd sem er bæði björt og sterk og minnti mann stundum á Jónsa í Sigur Rós. Tónlistin er grafalvarleg og naut sín vel í Norðurljósasalnum en það var samt létt yfir söngvaranum sem að spilaði í smá stund með bjórdós á hausnum. Fyrir áhugasama bendi ég fólki á að kíkja á lögin „Hold Me Forever“ og „Cold Water“ en við munum líklega heyra meira af þeim í framtíðinni.

IMG_1146

Þá var komið að Midlake sem ég hafði fyrirfram alveg góða tilfinningu fyrir. Jesús minn almáttugur hvað þeir voru slappir. Ég geispaði og geispaði á meðan tónleikunum stóð og var liggur við sofnaður í lokin og það standandi. John Grant hugsa ég þegjandi þörfina fyrir að hafa dregið þessa hljómsveit til Íslands.

Það má vera að Midlake hafi dregið úr mér kraftinn og stemninguna því að næst á svið var Jon Hopkins sem svona flestir sem ég kannast við kunna vel að meta. Ég var hins vegar í engum gír fyrir svona hávaða leyfi ég mér að segja en þrátt fyrir að standa aftast í salnum var ég að ærast. Að lokum gafst ég upp og yfirgaf salinn og ljóst að það hefði kannski verið sterkari leikur hjá mér að sjá Gold Panda og Savages í Listasafninu.

Síðasta atriðið sem ég sá þetta kvöld var Zola Jesus í Gamla bíó en því miður náði hún ekki að keyra kvöldið í gang að nýju. Hún er með svakalega rödd en það þýðir ekki að hún þurfi að syngja hástöfum í öllum lögum. Aðeins of mikið af því góða í mín eyru og gekk ég út áður en hún kláraði. Næsti viðkomustaður var rúmið mitt enda gjörsamlega búinn á því í eyrum og fótum. Laugardagurinn því viss vonbrigði og auðvitað ekki við neinn að sakast nema sjálfan mig en ég hefði átt að vita betur hvað átti að sjá og hvað ekki.

Í gær var það svo auðvitað Kraftwerk í Hörpunni. Þeir tónleikar voru í einu orði sagt epískir með 3D sýningu, suddalegu hljóðkerfi í Eldborgarsalnum og fjórum meðlimum Kraftwerks í spandex galla. Klukkan átta breyttist Harpan í geimskip og gestir fóru í rúmlega tveggja klst. ferðalag um geiminn með Kraftwerk sem gaf tóninn með laginu „The Robots“. Lagavalið var vandað og gat hreinlega ekki verið betra en segja má að þeir hafi tekið rjómann af ferlinum. 3D sýningin var að virka mjög vel þó að grafíkin hafi stundum litið út fyrir að vera á frumstigi en mér fannst það samt tóna vel við Kraftwerk sem er auðvitað aldursforseti raftónlistarinnar. Ég hafði sérstaklega gaman af því þegar að mynd af Íslandi birtist í laginu „Spacelab“ en það uppskar mikið lófaklapp gesta eins og við mátti búast. Kraftwerk spilaði í rúma tvo tíma áður en þrír af fjórum meðlimum sýndu snilli sína og hurfu hver af fætur öðrum af sviðinu þangað til að Ralf Hutter stóð einn eftir og þakkaði fyrir sig að lokum með orðunum „Thank you. Auf wiedersehen“. Gestir klöppuðu, stóðu upp og klöppuðu meira alveg þangað til að meðlimir birtust að nýju og tóku þrjú lög til viðbótar. Geimskipið var lent og gengu geimfarar sáttir út í myrkrið eftir vægast ótrúlega upplifun!

Lagalisti kvöldsins:

The Robots
Metropolis
Numbers / Computer World
Home Computer
Computer Love
The Man Machine 
Spacelab
Das Modell
Neon Lights
Autobahn
Tour De France 1983
Chrono
Tour De France 2003
Airwaves / News 
Geiger Counter / Radioactivity 
Trans-Europe Express / Abzug / Metal on Metal
Boing Boom Tschak / Musique Non Stop / Techno Pop 

Aéro Dynamik
Expo 2000
Planet of Visions

IMG_1159

IMG_1160

IMG_1161

Takk fyrir mig þú yndislega Airwaves hátíð!

– Torfi

Airwaves ’13: Föstudagur

Ég byrjaði föstudaginn snemma með því að mæta í röðina fyrir miða á Kraftwerk. Blessunarlega var ég mættur í fyrra fallinu eða 09:15 og náði röðinni þegar hún var ennþá inni í Hörpu. Tíminn leið sem betur fer hratt og var það að mörgu leyti skemmtilegum félagsskap í röðinni að þakka. Miðarnir voru svo afhentir á réttum tíma og náði ég miðum á 13 bekk.

Smá brot af röðinni sem var fyrir utan.

Smá brot af röðinni sem var fyrir utan.

Föstudagurinn hófst á hótelinu Kvosin þar sem vegleg off-venue dagskrá var í gangi. Er ég kom voru danirnir í Shiny Darkly að spila og var ansi stappað af fólki inni í portinu. Dagskránni hafði augljóslega seinkað og náði ég því fleiri lögum með dönunum en ég átti von á. Þeir voru ekki mikið fyrir að spjalla, spiluðu bara tónlistina sína og fóru svo en það hlýtur bara að vera partur af programmet hjá þeim. Annars minntu þeir mig svolítið á Joy Division sem er að sjálfsögðu bara jákvætt en ég vona samt að söngvarinn hengi sig ekki.

Þá var komið að vonbrigðum Airwaves 2013 hingað til, Carmen Villain frá Noregi. Guð minn almáttugur hvað það var pínlegt að fylgjast með henni og tveimur öðrum meðlimum stilla upp. Að vísu var einn meðlimurinn tilbúinn löngu á undan hinum en það var samt algjör óþarfi hjá honum að spila stefið í „Lifeissin“ trekk í trekk á meðan. Að endingu fór þetta svo loksins í gang en mér fannst þetta vera full slappt. Þrír gítarar og lágstemd tónlistin gerðu ekki neitt fyrir mig og eina lagið sem ég fýlaði var búið að eyðileggja fyrir mér áður en tónleikarnir hófust.

Belgarnir í Girls in Hawaii voru sem betur fer næstir en ég batt miklar vonir við þá enda diskurinn þeirra From Here to There frá árinu 2005 afskaplega fínn. Þeir tóku nú ekki mörg lög af honum en það var allt í lagi, þeir eiga greinilega fleiri góð lög því að þeir stóðu sig virkilega vel, reyndar var kannski ekki erfitt að heilla eftir vonbrigðin hjá Carmen Villain. Þeir rifu allavega upp stemninguna í Kvosinni og skiluðu mér ánægðum út á on-venue dagskránna og ég get bara ekki beðið um meira en það.

Girls in Hawaii voru í miklu stuði.

Girls in Hawaii voru í miklu stuði.

Gamla bíó var fyrsti áfangastaður en þar var íslenska sveitin Tilbury að fara að stíga á stokk. Það var frekar erfitt fyrir mig að hlusta á Þormóð söngvarann tala eftir að hafa horft á þættina um Hulla en ég var ekki kominn til að hlusta á hann tala heldur syngja. Tilbury voru frábærir, vel spilandi og öruggir í öllum sínum aðgerðum. Nýja efnið fékk að hljóma en mér til mikillar gleði fengu „Tenderloin“ og „Drama“ einnig að fylgja með og gekk ég afar sáttur út úr dyrum.

Þorri í hlutverki sínu í Hulla.

Þorri í hlutverki sínu í Hulla.

Nú lá leiðin á Listasafnið en þar var bandaríska hljómsveitin Papa að fara að stíga á svið. Þeir komu heldur betur á óvart og sigruðu þá áhorfendur sem mættir voru. Söngvarinn tók Phil Collins á þetta en hann sá um trommuleik einnig. Papa eiga nokkur alveg ótrúlega skemmtileg lög en til að krydda upp á þetta hjóluðu þeir í „Because of the Night“ eftir Patti Smith og Bruce Springsteen til að gjörsamlega toppa þessa glæsilegu tónleika.

Drengirnir í Papa komu skemmtilega á óvart.

Drengirnir í Papa komu skemmtilega á óvart.

Eftir stopp á Bæjarins beztu var stefnan tekin á Hörpuna. Þar sá ég John Grant í þriðja skiptið en í fyrsta sinn í Hörpunni. Hann var góður en ögn rólegur miðað við stuðið sem ég var í. „Black Belt“ og „GMF“ voru því algjörir hápunktar enda lang hressustu lögin sem fengu að hljóma hjá mínum manni. John Grant er samt alltaf flottur en það þurfti eitthvað meira og það fékk ég heldur betur frá næsta atriði.

Það var enginn annar en Omar Souleyman frá Sýrlandi. Hann kom sá og sigraði þetta kvöld en ég hef aldrei heyrt aðra eins tónlist á minni ævi og var hún að virka ótrúlega vel. Silfurbergið var stappað og það var varla kjaftur sem ekki hreyfði sig í takt við tóna Omars. Sviðsframkoma Omars gekk eiginlega bara út handahreyfingar, klapp og labb um sviðið en þetta var allt mjög áhrifaríkt enda maðurinn klæddur eins og hann var með sólgleraugu og rándýra mottu. Omar Souleyman er ótrúlegur listamaður sem býður upp á nýja upplifun af tónlist sem nær að hreyfa við fólki og jafnvel fara með þau í hugarflug til fjarlægra og framandi landa. Ég spái því að hann eigi eftir að hafa mikil áhrif á vestrænan heim músíkanta og tónlistar unnendur víða um heim en það er allavega morgunljóst að tónleikar hans í Silfurbergi 1. nóvember 2013 gleymast seint.

Omar Souleyman átti Silfurbergið í u.þ.b. 40 mínútur.

Omar Souleyman átti Silfurbergið í u.þ.b. 40 mínútur.

Hljómsveitin AlunaGeorge frá Bretlandi lokaði svo föstudagskvöldinu hjá mér. Eftir rólegan fyrri hálfleik var öllu til tjaldað í þeim seinni en þá fékk smellurinn „Attracting Files“ að hljóma sem og þeirra útgáfa af „White Noise“ með Disclosure en hún söng inn á það lag. Fínustu tónleikar svona þegar leið á þá en Aluna Francis gerði mikið fyrir tónleikana enda afskaplega myndarleg stúlka. Botninn þar með sleginn í föstudagskvöldið sem var afar fjölbreytt og skemmtilegt að þessu sinni.

– Torfi

Airwaves ’13: Fimmtudagur

Á fimmtudaginn ákvað ég að byrja snemma og nýta mér off-venue dagskrána til þess að sjá bönd sem ég bjóst ekki við að ná on-venue. Stúdentakjallarinn varð fyrir valinu en þar fóru fram tónleikar undir yfirskriftinni Blast from Canada. Dagskránni hafði seinkað eitthvað en þegar ég mætti voru Royal Canoe að klára en það litla sem ég sá frá þeim leit bara nokkuð vel út.

Hljómsveitin Cousins var næst á svið en hún innihélt aðeins tvo meðlimi, kvenkyns trommara og ungan mann sem söng og spilaði á gítar. Ég get ekki sagt að ég hafi búist við miklu þegar ég sá þau tvö stilla upp en þau komu mér heldur betur á óvart með keyrslu sinni og þokkalegustu lögum.

Þegar Cousins hafði lokið sér af var komið að The Balconies. Þau komu mér á óvart rétt eins og hin og þá aðallega frúin í bandinu sem fór á kostum uppi á sviðinu og hefur greinilega æft hreyfingarnar sínar eitthvað heima fyrir. Spilagleðin skein af sveitinni og það kom lítið á óvart að þau ætli sér að koma alls átta sinnum fram á hátíðinni.

Síðasta sveitin á dagskrá í kjallaranum var We Are Wolves, þrír mjög svo ólíkir menn með mikla hæfileika. Þeir voru flottir og viðhéldu keyrslunni og orkunni sem hafði einkennt kanadísku hljómsveitirnar til þessa. Í lokin tóku þeir ábreiðu af „Paranoid“ með Black Sabbath sem hentaði stíl þeirra og rödd söngvarans fáránlega vel. Ég fór því vel gíraður og sáttur inn í miðbæinn þar sem leið mín lá á Listasafnið en yfirskriftin á Stúdentakjallaranum stóð svo sannarlega undir nafni, þetta var algjör sprengja frá Kanada!

Fyrsta sveit á svið var hin frábæra Sometime sem hefur gefið út tvær afbragðs fínar plötur á síðustu árum. Diva de la Rosa var söm við sig hvað dressið varðar og henni til halds og trausts var Danni sem sá um músíkina. Tónleikarnir voru flottir og nutu tónarnir sín vel í Listasafninu en þeir hefðu þó verið ennþá betri hefðu þau tekið „Désormais“.

Hin bandaríska Caveman áttu næsta leik en ég var frekar spenntur fyrir þeirri hljómsveit svona fyrirfram. Þrátt fyrir að hafa tekið bæði lögin sem ég vildi heyra fannst mér þeir ekkert fara á kostum. Lögin svona heilt yfir voru öll frekar svipuð, vel flutt en samt voða lítill munur á milli laga. Viss vonbrigði frá heillisbúunum.

Ojba Rasta flokkurinn var næstur á svið en hann hefur pungað út tveimur plötum á tveimur árum sem er aðdáunarvert fyrir íslenska sveit. Það á greinilega að reyna að selja Friðinn yfir hátíðina en þau vörpuðu upp stórri mynd af plötu umslaginu ásamt því að henda út þremur diskum í áhorfendur í lok tónleika. Tónleikarnir sjálfir voru þokkalegir en ég er ennþá að venjast nýja efninu fyrir utan auðvitað „Einhvern veginn svona“ sem er í hópi bestu laga ársins á Íslandi. Að fá smá reggí í kroppinn var líka ágætis tilbreyting frá öllu hinu.

IMG_1034

Fyrir hátíðina var einn mesti valkvíðinn að velja á milli Jagwar Ma og Yo La Tengo. Ég kaus hressleikann fram yfir gæðin kannski og ég sé ekki eftir því. Jagwar Ma er nokkuð ný hljómsveit sem blandar saman raftónlist og (indí)rokki. Þeir lögðu allt í tónleikana og kannski full mikið á köflum en stundum ærðist maður vegna hávaða frá þeim. Jagwar Ma eiga nokkur alveg helvíti fín lög en ég spái þeim mikilli velgengni á komandi árum og alls ekki ólíklegt að maður noti einhvern tímann frasann „Já ég sá þá á Airwaves“.

IMG_1042

Ég kláraði að vísu ekki tónleikana hjá Jagwar Ma en tvö önnur nöfn áttu huga minn en það voru Anna von Hausswolff og The Young Fathers. Daman varð fyrir valinu og lenti ég smá röð fyrir utan Gamla bíó en þá voru liðnar 20 mínútur af tónleikum Önnu. Salurinn var stappaður og því þurfti ég að gera mér það að góðu að sitja á gólfinu um stund en það var allt í lagi því að Anna kynnti næsta lag sitt sem „hit song“ og það var að sjálfsögðu hið frábæra „Mountains Grave“ og ákvörðunin um að hafa valið Önnu hafði strax borgað sig. Tónlist hennar naut sín vel í Gamla bíói (eins og öll tónlist gerir) og fór hún á kostum rétt eins og hljómsveitin hennar. Anna hefur yfir ótrúlegri rödd að ráða og hefur ekkert fyrir því að fara með hana upp í hæstu hæðir. Ótrúlegur listamaður sem ég var svo heppinn að fá að sjá í bestu mögulegu aðstæðum.

Ég var saddur eftir þetta og hélt heim á leið eftir frábæran Airwaves fimmtudag!

Airwaves ’13: Miðvikudagur

Þá er biðinni lokið, stærsta og skemmtilegasta tónlistarhátíð Íslands er gengin í garð og er hátíðin númer 15 í röðinni. Á miðvikudeginum eiga íslensku listamennirnir sviðið sem er þeim ansi mikilvægt myndi ég telja enda eignast þeir nýja aðdáendur og hljóta vonandi náð fyrir augum pressunnar. En nóg um það, ég skellti mér í Hörpuna rétt fyrir klukkan 20 og var stefnan tekin á Silfurbergið.

Fyrstir á svið voru strákarnir í Lockerbie. Ég hafði aldrei hlustað á þá af neinu ráði þó aðeins heyrt lög með þeim í útvarpinu. Áður en þeir gengu á svið var búið að bregða upp mynd af nafni sveitarinnar með silkimjúkum tónum undir en þeir voru duglegir að nýta sér myndvarpann í gegnum settið sitt. Lockerbie er svona poppaðari myndin af Sigur Rós og má segja að stór umgjörð eins og er að finna í Silfurbergi henti þeim vel. Fínustu tónleikar hjá drengjunum sem byrjuðu kvöldið mitt af miklum krafti.

Næstir á svið voru reynsluboltarnir í Leaves sem nýverið gáfu út sína fjórðu plötu. Þeir byrjuðu einmitt tónleika sína á lagi af henni, „The Sensualist“, kraftmikið og grípandi lag. Því miður fannst mér tónleikarnir detta niður eftir það og ég vildi fá að heyra meira rokk sem varð svo raunin þegar þeir töldu í hið stórgóða „Ocean“. Þessi tvö lög voru ljósu punktarnir að þessu sinni en lagaval hefði mátt vera þekktara að mínu mati.

Salurinn fór langt með að fyllast þegar að hún Sóley mætti á sviðið en þessir rúmlega 160.000 fylgjendur á facebook hjá henni eru greinilega engin tilviljun. Sóley er alltaf söm við sig, með sína yndislegu nærveru og fallegu tónlist. Lög af plötunni We Sink í bland við ný fengu að hljóma („Halloween“) og verður spennandi að heyra meira. Ætla má að Sóley hafi verið á tónleikum James Blake á Sónar í ár enda sýndi hún svipaða takta með því taka sjálfa sig upp og spila aftur sem kom rosalega vel út. Nú bíð ég bara eftir Sóley og Sinfó í Eldborg.

Samaris áttu næsta leik en hún hefur verið að gera það gott alla daga síðan að hún vann Músíktilraunir. Ég missti af þeim í fyrra en ég ætlaði ekki að gera sömu mistök aftur. Þau byrjuðu af miklum krafti og settu strax tóninn fyrir það sem koma skildi. Samaris búa yfir vel heppnaðri blöndu af raftónlist, klarinetti og seiðandi rödd Jófríðar. Stemningin var dularfull og drungaleg en bauð líka upp á danspor en kannski ekki á miðvikudagskvöldi. Fallegir textarnir á íslenskri tungu gerðu svo útslagið. Ég er allavega farinn beint út í næstu plötubúð að tryggja mér eintak af plötunni þeirra.

Þá var það Bloodgroup en ég verð bara að viðurkenna að ég hef aldrei fýlað þau neitt sérstaklega. Þau voru samt vel gíruð og þá sérstaklega Janus sem getur varla stillt sig í eitt augnablik. Það var mikill kraftur í Bloodgroup en kannski full mikil keyrsla fyrir minn smekk svona á kristilegum tíma á miðvikudegi og var ég farinn að lengja eftir Emilíönu Torrini.

Skiptingin á milli Bloodgroup og Emilíönu Torrini tók sinn tíma enda mikið magn af græjum sem fylgir báðum sveitum. Þannig að Torrini hóf ekki leik fyrr en 10 mínútum eftir áætlaðan tíma en það var ekki erfitt að fyrirgefa snót eins og henni enda einstök í allri sinni framkomu. Hún var mætt með sex manna hljómsveit sem kunni sitt fag og meir en það. Þau töldu í lög af nýju plötunni TookahMe and Armini og líka Fisherman’s Woman. Á milli þess ræddi hún við gesti á íslensku og er maður hálf ástfanginn af henni svona eftir á. Það er engin tilviljun að hún hafi náð eins langt og raun ber vitni enda afar hreinn og beinn listamaður sem er óhrædd við að tjá tilfinningar sínar í lögum sínum og á tónleikum. Hún syngur sig inn í hjörtu fólks sem er ekki á færi margra og tekur mann með sér í ferðalag tilfinninga. Það eru afar miklur líkur á því að bestu tónleikar Airwaves 2013 séu þegar afstaðnir!

IMG_0997

Emilíana Torrini í allri sinni dýrð í Silfurbergi.

– Torfi

Airwaves upphitun: Anna von Hausswolff – Jagwar Ma – Mac DeMarco

Það fer að styttast í bestu tónlistarhátíðina á Íslandi og það er ekki úr vegi að fara að hita aðeins upp. Erlendu atriðin í ár eru í kringum 60 og eru þau stödd á misjöfnum stað á ferlinum. Í fyrstu voru ekki mörg nöfn sem maður kannaðist við, Kraftwerk er auðvitað lang stærsta hljómsveitin í ár, John Grant snýr aftur en hann spilaði einnig á hátíðinni árið 2011, bandið sem spilaði undir fyrstu plötunni hans er líka á dagskrá en hún heitir Midlake og svo keypti ég disk með belgísku hljómsveitinni Girls in Hawaii fyrir einhverjum árum síðan og þá eru hljómsveitirnar sem ég þekkti fyrir nánast upptaldar. En þá hófst rannsóknarvinna sem stendur enn yfir og hef ég ákveðið að kynna til leiks þrjá listamenn sem munu troða upp á hátíðinni í ár.

Anna von Hausswolff
Anna Aðdáendur á Facebook: 
9.064
Breiðskífur: 2
Hvar: Gamla bíó á fimmtudegi kl. 23:40
Rekst á: No Joy, Yo La Tengo, Bárujárn, Sólstafi

Anna von Hausswolff er hörku söngkona og píanisti sem kemur frá nágrannaþjóð okkar, Svíþjóð. Tónlist hennar er ansi dramatísk og drungaleg og gefa kannski titlar diskanna hennar það til kynna, Singing from the Grave og Ceremony. Seinni platan er virkilega góð en hún var meðal annars tilnefnd til Nordic Music Prize sem besta norræna platan 2012. Þegar ég hlustaði á plötuna minnti söngur Önnu mig svolítið á hina stórkostlegu Kate Bush og er það ekki leiðum að líkjast. Gamla bíó ætti að henta henni vel en það er spurning hvort hún geri hljóðmönnum Airwaves erfitt fyrir og flytji inn orgel til landsins þó ég stórefi það.

Jagwar Ma
Jagwar
 Aðdáendur á Facebook: 23.753
Breiðskífur: 1
Hvar: Listasafnið á fimmtudegi kl. 23:00
Rekst á: No Joy, Yo La Tengo og smá á Önnu von Hausswolff

Áströlsku stuðboltarnir í Jagwar Ma voru í seinasta hollinu inn á Airwaves hátíðina í ár og eiginlega var það þeirra vegna sem ég ákvað endanlega að verða mér útum miða. Meðlimir eru þrír og spila þeir allir á hefðbundin hljóðfæri eins og gítar, bassa og trommur en þeir nýta sér líka syntha, loopa og trommuvél sem gerir tónlistina þeirra bæði áheyrilegri og dansvænni. Ég er allavega á því að þetta séu tónleikar sem maður er að fara að dilla sér á enda eru ástralskir listamenn þekktir fyrir það að koma fólki til að dansa (Cut Copy, Empire of the Sun). Platan þeirra Howlin’ kom út í sumar og hefur fengið góða dóma hjá t.d. Pitchfork og Allmusic. Upphafslag plötunnar, „What Love“ var til að mynda að finna í tölvuleiknum Fifa 13 en það er ágætis árangur að ná lagi þar inn enda einn vinsælasti tölvuleikur heims og fá mörg eyru að kenna á tónlistinni sem í honum hljómar. Það verður fróðlegt að sjá hversu margir mæta í Listasafnið þar sem að Yo La Tengo, eitt af stærri nöfnum hátíðarinnar er að spila á sama tíma en það verður að minnsta kosti einn á Listasafninu klukkan ellefu á fimmtudagskvöld.

Mac DeMarco
Mac_DeMarco
 Aðdáendur á Facebook: 33.478
Breiðskífur: 2
Hvar: Silfurbergi í Hörpu kl. 21:00
Rekst á: Fears, Ghostigital, Sarah MacDougall, We Are Wolves

Mac DeMarco er ungur flippköttur frá Kanada sem er veikur fyrir varalitum og almennu flippi enda ekki skrítið, maðurinn er 23 ára. DeMarco hefur unnið hörðum höndum að því að meika það sem tónlistarmaður frá árinu 2008 en það var loks í fyrra sem hann fékk plötusamning við útgáfufyrirtækið Captured Tracks. Þá gaf hann út tvær plötur, eina í mars sem hlaut náð fyrir augum útgáfunnar sem í kjölfarið bauð honum samning og í október skilaði hann plötunni frá sér. Plöturnar tvær eru góðar þó að sú seinni sé talsvert betri enda munur á því að komast í alvöru stúdíó með tilheyrandi græjum og fíneríi. Á köflum minnir DeMarco mig á Kurt Vile þó aðallega í laginu „Ode to Viceroy“ en gítarinn spilar stóra rullu í tónlist DeMarco sem er í suðrænari kantinum. Ég geri ráð fyrir stórskemmtilegum tónleikum hjá honum í Hörpu og ég ráðlegg fólki að leggja leið sína þangað tímanlega á laugardagskvöldið.

– Torfi