Airwaves ’18: Laugardagur + uppgjör

Laugardagurinn var síðasti dagur Airwaves hátíðarinnar í ár en undanfarin ár hafa sunnudagarnir boðið upp á stórtónleika í Valshöllinni. Sennilega vildu skipuleggjendur fara öruggu leiðina í ár upp á að láta hátíðina standa undir sér.

Ég verð að viðurkenna að laugardagurinn á pappír var sennilega sá slakasti í ár og ég átti erfitt með að sjá fyrir mér jafn gott kvöld og t.d. föstudagskvöldið. Það sýnir sig kannski best í því að ég fór ekki niður í bæ fyrr en upp úr tíu.

Fyrsta stopp var í Hörpu en þar var JFDR að spila í Flóa. Það er frekar merkilegt að ég fýla eiginlega allt sem Jófríður hefur gert nema sólóefnið hennar fyrir utan „White Sun“ sem er frábært lag. Þetta hefði mögulega virkað betur á mig fyrr á hátíðinni en ég þurfti eitthvað meira fjör á þessum tímapunkti.

Hópurinn sem ég tilheyrði var sammála og var ákveðið að halda niður á Listasafn þar sem Herra Hnetusmjör og Huginn voru komnir langt með prógrammið sitt. Báðir rappararnir tilheyra KBE hópnum og því þótti alveg eðlilegt að þeir deildu sama slotti á Listasafninu. Það var töluvert meira um manninn en á tónleikum Joey Christ daginn áður enda tímasetningin betri og kannski ekki margt annað spennandi í boði sem togaði í fólk. Það sem vakti kannski helst athygli á tónleikunum var að Herra Hnetusmjör endaði settið á að taka „Upp til hópa“ tvisvar sinnum. Það bárust þó engar kvartanir enda lagið algjör negla.

Næstur á sama svið var rapparinn Rejjie Snow sem einhverjir fróðari en ég voru spenntir fyrir. Ég hafði ekki kynnt mér hann neitt og eftir fyrsta lag ákvað ég að breyta til og fá smá popp í kroppinn.

Það gat ég gert á Hard Rock þar sem Birgir var að fara að spila. Fyrr sama dag hafði Birgir deilt á facebook síðu sinni að tónlist hans á Spotify hafi verið streymt 10 milljón sinnum! Magnaður árangur það og líklega frábært pepp fyrir kvöldið. Birgir var fullmannaður á sviðinu þar sem m.a. uppteknasti maður Airwaves 2018, Magnús Jóhann, leysti Birgi af á hljómborði. Þar með gat Birgir einbeitt sér að söngnum og gerði það vel. Birgir spilar grípandi popp en fyrirfram bjóst maður kannski ekki við mörgum á Hard Rock á þessum tíma enda laugardagskvöld og nokkur stór erlend nöfn að spila á sama tíma. En það var glettilega margt um manninn og það var nokkuð auðséð að aðdáendur Birgis er ástfangið fólk (sekur)! Hápunktur tónleikanna fyrir mér var flutningur á laginu „Swear“.

Eftir tónleika Birgis var stefnan tekin á Hörpuna til þess að sjá eitt stærsta nafn hátíðarinnar Blood Orange. Það er skammarlegt hvað ég hef lítið hlustað á Blood Orange en strax frá byrjun var ljóst að hér var á ferðinni alvöru sveit. Dev Hynes er eitursvalur náungi og sýndi það kannski best með því að klæðast klossum til fóta. Tónlistin er áferðafallegt r&b í víðum skilningi þeirrar tegundar enda músíkin einn hrærigrautur alls kyns stefna. Ekki hægt að kvarta yfir neinu og Dev Hynes og félagar vel samstillt á sviðinu. Af því sem í boði var eftir tónleika Blood Orange var líklega ekki hægt að enda betur og því ákveðið að setja punkt á Airwaves 2018.

Uppgjör:

Ég var skeptískur á hátíðina eftir eigendaskiptin en fljótlega kom á daginn að Airwaves andinn er ódrepandi. Hátíðin er orðin líkari sjálfri sér þó vissulega hafi verið notalegt að vera í stofuhitanum í Hörpu. Röltið á milli tónleikastaða er vanmetið en veðurguðir voru reyndar afskaplega góðir við Airwaves gesti í ár.

Íslenska rappið er greinilega ekki jafn vinsælt hjá erlendum tónleikagestum eins og þeim íslensku en Listasafnið var oft illa nýtt og má skoða það alvarlega að setja rapparana á minni staði. Það verður svo fróðlegt að fylgjast með þróuninni næstu ár og spurning hvort skipuleggjendur bæti sunnudeginum við. Þá er ég ekki að tala um að fá stórt nafn í Valshöll heldur frekar að bjóða upp á kvöld eins og á Nasa fyrir mörgum árum þar sem það var hálfgert lottó hvaða bönd voru að fara að spila.

Ég sá marga góða tónleika í ár, fleiri góða en vonda sem betur fer en Jockstrap var klárlega það allra versta sem ég sá í ár og kannski versta band sem ég hef séð á Airwaves. En bestu tónleikarnir voru þessir:

  1. Hatari 
  2. Grísalappalísa  
  3. The Voidz
  4. Tamino 
  5. Kælan Mikla 

Þá þakka ég lesturinn í bili og „shout-out“ á meðreiðarsveina mína á hátíðinni í ár sem gerðu góða hátíð enn betri!

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s