Airwaves ’18: Föstudagur

Það er fátt betra en föstudagskvöld á Airwaves. Helgin komin og ekkert annað í boði en að hafa gaman.

Kvöldið hófst á leikhúsferð í Þjóðleikhúsið til að sjá Sólstafi þar sem nánast hvert einasta sæti var skipað. Tónleikunum seinkaði um 10 mínútur en það var auðveldlega fyrirgefið því Sólstafir hófu leika á „Ótta“. Því miður tók ég aðeins eitt lag í viðbót þar sem meðreiðarsveinar mínir voru ekki að finna sig í rokkinu en ekkert við Sólstafi að sakast, frábær sveit sem skilar alltaf sínu.

Ferðinni var heitið í Listasafnið þar sem Joey Christ var annar á svið. Kvöldið var ungt og mætingin eftir því en ég spyr mig að því hvort að Listasafnið sé ekki alltof stór staður fyrir íslensku rapparana en áhuginn virðist einskorðast við íslenska gesti. Joey lét hins vegar engan bilbug á sér finna og var í góðu stuði. Hann tók gömul lög í bland við ný og hápunkturinn klárlega í lokin þegar að Birnir og Herra Hnetusmjör liðsinntu honum í „Túristi“ og „Joey Cypher“.

Þá var haldið á „heimavöllinn“ í Iðnó þar sem ég hef séð flesta tónleika í ár. Þar voru Charles Watson og Girl Ray að sýna fína takta en rólega indí rokkið gerði ekki mikið fyrir mig á þessum tímapunkti og það var ákveðið að fara á Hard Rock og sjá Auður sem átti víst glimrandi tónleika á miðvikudaginn.

Hard Rock var þéttskipað og vel skipað en á meðal gesta voru Björk Guðmunds og Andrea Gylfa sem ætti að vera hvetjandi fyrir Auð. Nýja platan, Afsakanir, hefur fengið gríðargóð viðbrögð en sjaldan hefur listamaður opnað sig jafn mikið upp á gátt líkt og Auður gerir á henni. Skiljanlega fékk nýja platan allt plássið en þar að auki tók hann „I’d Love“ sem er gjörsamlega sturlað lag og ef þið hafið ekki séð myndbandið gerið ykkur greiða og horfið á það í hvelli. Auður er hæfileikabúnt og það skilaði sér allt upp á sviðinu í gær og alls ekki ólíklegt að Björk heyri í kauða upp á mögulegt samstarf.

Gamla bíó var næsti viðkomustaður en stutt var í tónleika The Voidz. Hljómsveitin er helst þekkt fyrir að skarta Julian Casablancas, söngvara The Strokes og alveg ljóst að hann myndi trekkja margan manninn að í Gamla bíó. Tónlist The Voidz er ekki eins aðgengileg og The Strokes en það mætti líkja tónlistinni við hágæða bílskúrsrokk. Rokkið naut sín vel í bíóinu og það fór vel um Casablancas sem var laus við alla stjörnustæla.

Næstir á svið voru Hatari sem voru án efa sigurvegarar síðustu Airwaves hátíðar en tónleikar þeirra voru rómaðir sem þeir bestu á hátíðinni. Ég missti af þeim en náði þeim á pökkuðum off venue tónleikum á Bryggjunni og átti inni að sjá þá á stærra sviði. Hæpið á alveg rétt á sér en umgjörð og tónlist Hatara á sér enga hliðstæðu hér á landi og það er alveg einstök upplifun að vera á tónleikum með þeim. Söngvararnir tveir eru ekkert annað en stórkostlegir og gríðarlega ögrandi og það er magnað að fylgjast með samvinnu þeirra upp á sviði. Hatari eru búnir að eigna sér Gamla bíó á Airwaves næstu árin og nú fer maður fram á að þeir gefi út meira efni.

Eftir smá matarpásu var haldið á Gaukinn þar sem Grísalappalísa átti síðasta orðið. Þeir hafa verið nokkuð rólegir undanfarið en eru að leggja lokahönd á þriðju plötuna sína sem væntanleg er á næsta ári. Tónleikar með Grísalappalísu er ávísun á góða skemmtun og það vissu þeir sem mættir voru á Gaukinn. Grísalappalísa hefur spilað á stærra sviði og á betri tíma á Airwaves en einhvern veginn var þessi staðsetning og tímasetning fullkomin. Smæð staðarins gerði það að verkum að nálægðin var mikil við sveitina og þannig vilja þeir líklegast hafa það, allavega Gunnar. Sveitin var gríðarlega þétt og hoppaði úr gömlum lögum yfir í ný og ekki að sjá að þeir væru að gera þetta í fyrsta sinn. Nýja efnið er nokkuð frábrugðið því eldra en alveg stórskemmtilegt eins og við mátti búast. Gestir voru allavega í skýjunum með tónleikana og klöppuðu drengina upp sem launuðu þeim til baka með fyrsta laginu sem kom frá þeim, „Lóan er komin“ og þá héldu mér engin bönd og ég tróð mér í pyttinn. Mögnuðu kvöldi því með lokið og ég hef sjaldan farið eins sáttur heim af Airwaves.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s