Airwaves ’18: Miðviku- og fimmtudagur

Loksins kom hún, Iceland Airwaves, besta tónlistarhátíð í heimi án nokkurs vafa. Að vísu með örlítið breyttu sniði frá síðustu árum enda nýtt fólk komið í brúnna. Ég er fyrstur til að viðurkenna að ég var ekki neitt sérstaklega spenntur fyrir hátíðinni í ár og þá aðallega vegna erlendu listamannanna en lítið er um kunnugleg nöfn. Einnig var ég mikill aðdáandi Hörpunnar en það má segja að hátíðin sé komin nær rótinni með því að styðjast nánast bara við litlu tónleikastaðina.

Miðvikudagur: 

Ég byrjaði miðvikudaginn seinna en ég hefði viljað vegna vinnu en tókst að koma mér niður í bæ rétt fyrir ellefu leytið. Fyrsta stoppið í ár var á Gauknum þar sem Toy Machine var að klára settið sitt. Í sveitinni sér m.a. leikstjórinn Baldvin Z um trommuleik og Jens úr Brain Police um sönginn. Það hefði verið gaman að sjá meira frá þeim drengjum en af þessu eina lagi að dæma voru þeir í góðu formi.

Næsta mál á dagskrá var að færa sig yfir á Iðnó þar sem Kælan Mikla var að fara að spila. Hljómsveitin samanstendur af þremur eitursvölum stelpum sem spila póst-pönk af mikilli list og hefur á síðustu árum náð sér í verðskuldaða athygli. Það var vel mætt í Iðnó sem var síst of lítill staður fyrir tríóið. Stúlkurnar sýndu mátt sinn og megin og vöfðu áhorfendum um fingur sér með magnaðri tónlist sinni og sviðsframkomu. Svalari hljómsveit á Íslandi er erfitt að finna og leiðin liggur bara upp á við hjá stúlkunum. Til að toppa þetta allt kom plata nr. 2,  Nótt eftir nótt, út í dag.

Þá var kominn tími á að taka síðustu ákvörðun kvöldsins og eftir nokkra umhugsun var ákveðið að halda kyrru fyrir á Iðnó en síðasta sveit á svið var Une Misère. Fyrir tónleikana hafði ég aldrei hlustað á sveitina en ég vissi af henni og tekið eftir jákvæðu umtali um sveitina á netmiðlum. Þá voru furðu margir gestir klæddir fatnaði merktum sveitinni. Það var ógnarkraftur í sveitinni og fóru söngvarinn og einn af gítarleikurunum fyrir sveitinni með allskonar djöfulgangi og príli upp á hátalara. Einnig tók söngvarinn Jón Már til máls og opnaði umræðuna um óhóflega neyslu á áfengi og vímuefnum sem og alltof tíðum sjálfsvígum. Liðsmenn Une Misère gáfu allt í þessa tónleika og mega vera stoltir af dagsverkinu.

Fimmtudagur:

Ég hef aldrei verið jafn illa undirbúinn undir Airwaves eins og í ár þar sem ég hef ekki náð að kynna mér sveitirnar nógu vel og því tekur maður sénsa hér og þar. Fyrsta bandið sem ég á sá á fimmtudaginn var sennilega það lélegasta sem ég hef séð á Airwaves þau 10 ár sem ég hef sótt hátíðina. Þetta var hljómsveitin Jockstrap frá Bretlandi sem leit ágætlega út á pappír en framreiðslan var hrikaleg. Tónlistin hljómaði svolítið líkt og það sem Ross var að gera í Friends þáttunum. Ég gaf þessu þó séns en tónleikarnir versnuðu bara eftir því sem á leið og því flúði ég yfir í Listasafnið þar sem Alma frá Finnlandi var að hefja leik.

Fyrirmynd Jockstrap

Alma var töluvert áheyrilegri en Jockstrap og það var ágætis stemning í Listasafninu. En eftir 5-6 lög ákvað ég að láta gott heita og leita annað. Gaukurinn var næsti viðkomustaður en þar áttu sigurvegarar Músíktilrauna 2016, Hórmónar, að koma fram. Það var löngu orðið tímabært að sjá þessa sveit á sviði og ég var ekki svikinn. Hljómsveitin samanstendur af 3 stelpum sem sjá um söng, gítar- og bassaleik. Fyrir aftan þær eru svo tveir drengir, einn á trommum og hinn á saxófón. Þau spila pönk með feminískum textum yfir og eru bara ógeðslega nett! Ekta pönkband hér á ferð sem sannaðist svo kristaltært þegar bassaleikarinn spurði söngvarann á einum tímapunkti hvernig lagið væri aftur sem þær voru að fara að spila. Eðalstöff og kvöldið komið á gott flug.

Mér var þó kippt fljótlega aftur niður á jörðina þar sem ágætis röð hafði myndast fyrir utan næsta áfangastað, Iðnó, en þar var hin unga Snail Mail byrjuð að spila. Röðin gekk hægt og enn hægar þegar að VIP miðahafar voru trekk í trekk teknir fram yfir kalda óbreytta Airwaves gesti. Ég náði þó inn fyrir rest og sá seinni helminginn af setti Lindsey Jordan og félaga. Hún hefur mótað sinn eigin stíl sem sést best á raddbeitingu hennar sem verður þó eftir nokkur lög svolítið þreytandi. En ágætis tónleikar engu að síður og stelpan á eftir að ná langt.

Þá var komið að síðasta atriði kvöldsins, Tamino frá Belgíu og Egyptalandi, en fyrir hátíðina var ég spenntastur að sjá þennan dreng spila. Platan hans Amir er stórfín og mæli ég hiklaust með henni. Tamino mætti með trommara og hljómborðsleikara með sér og saman hentu þeir í sérlega fína tónleika í Iðnó þar sem tónlistin og rödd Tamino nutu sín ofboðslega vel. Einnig voru ljósin óvenju góð og ekki ólíklegt að þeir hafi verið með sinn eigin ljósamann. Bestu tónleikar Airwaves hingað til.

Fyrri helming lokið og útlitið fyrir áframhaldandi stuð og stemningu bjart!

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s