Plötudómur: Birnir – Matador

Matador er fyrsta platan frá rapparanum Birni sem hefur gert það býsna gott síðan hann sendi frá sér sitt fyrsta lag „Sama tíma“ í byrjun mars á síðasta ári. Hingað til hefur hann verið duglegri við að liðsinna öðrum en að gefa út eigið efni og nægir þar að nefna lög eins og „Túristi“, „Já ég veit“, „Dúfan mín“, „Lágmúlinn“ og nú síðast „OMG“. Allt lög sem væru klárlega lakari ef hans nyti ekki við. Aðeins þrjú lög hafa komið frá honum sjálfum og er aðeins eitt þeirra að finna á plötunni, hið magnaða „Út í geim“. Mikið hefur verið látið með frumburð Birnis og talað um að hér sé á ferðinni ein sterkasta rappplata Íslandssögunnar hvorki meira né minna.

Margir höfðu beðið með mikilli eftirvæntingu eftir fyrstu plötu Birnis og þann 11. ágúst deildi hann plötuumslaginu með almenningi á instagram ásamt titli plötunnar. Birnir hitti strax á það með fallegu umslagi og vel heppnuðum titli. Umslagið er eftir Skúla Skelfi og sýnir nautabana sem á ekki von á góðu, heil hjörð af nautum stefnir hraðbyri í átt að honum og óþarfi að spyrja að leikslokum. Fyrir ofan blasir Auðbrekkan og Hamraborgin við og skírskotunin í heimahaga Birnis augljós. Kópavogshjartað tekur auka kipp.

Platan kom út á Spotify þann 20. ágúst og hefur að geyma 9 lög og er um 27 mínútur að lengd. Lítill tími fer til spillis og Birnir og félagar greinilega búnir að liggja lengi yfir lagasmíðunum og fínpússa þær eftir bestu getu.

Matador hefst á laginu „Afhverju“. Byrjun lagsins er í takti við umslagið, spænskir lúðrar blása okkur inn í nautaatið (plötuna) og fljótlega taka kunnuglegri hljómar við í boði Young Nazareth. Lagið þekkja dyggir aðdáendur en hér er það í fyrsta sinn í hljóðversútgáfu og kemur það afar vel út. Annað lagið á plötunni og eitt af tveimur uppáhalds lögum mínum þessa stundina er „Fáviti“ en þar fær Young Nazareth aðstoð frá Bngrboy sem hefur m.a. unnið mikið með GKR. Lagið stingur í stúf við önnur lög Birnis enda leiðist það út í hálfgerðan teknókokteil í lokin í anda The Prodigy. Bngrboy stendur undir nafni og eitt sterkasta lag plötunnar mætt í hús.

Önnur lög sem standa upp úr eru „Gleymdu því“ og lokalagið „Dauður“. Takturinn í „Gleymdu því“ er dáleiðandi og liðast áreynslulaust áfram. Líkt og „Fáviti“ er lagið pródúserað af Bngrboy sem er að gera galdra á þessari plötu. „Dauður“ er lokalagið á plötunni og er í miklum metum hjá mér. Mannamál í boði Birnis sem opnar sig sem aldrei fyrr og umbúðirnar nokkuð drungalegar. Kaflinn hans Arnars birtir þó aðeins til og JFDR lokar laginu og plötunni á jákvæðu nótunum þar sem vonin um bjartari tíma lifir.

Að öðrum lögum ólöstuðum eru þessi lög í öðrum klassa ásamt „Út í geim“ þar sem samplið úr „Bullboxer 43“ eftir Magnús Jóhann er fáránlega vel gert og magnað hvað píanóbræðingurinn fellur vel að Birni. Vonbrigðin við allra fyrstu hlustun var þó lag nr. 5, eða skittið hans Joey Christ en í fyrstu hélt ég að um lag væri að ræða sem væri ávísun á veislu. En í staðinn kom mínútu langt símtal þar sem að Birnir er ekki einu sinni við! Húmor sem ég næ ekki utan um.

En platan virkar og þó að hún sé í styttra lagi þá er ekki hægt að kvarta yfir því sem hún er. Ég hef nefnilega áður gagnrýnt sumar rappplötur fyrir að vera of langar (t.d. Vagg og velta og Tvær plánetur) þar sem nokkur lög hefðu mátt missa sín og því væri fáránlegt að fara að gagnrýna plötu sem er laus við alla aukafarþega. Málið er bara að í tilfelli Birnis fær maður ekki nóg af manninum og mér myndi ábyggilega ekki leiðast að hlusta á öll þessi 200 lög sem hann á.

Birnir stígur ekki feilspor á frumraun sinni, hvort sem um er að ræða plötuumslag, lagasmíðar, textasmíðar eða gesti á plötunni en þeir eru vandlega nýttir og bæta miklu við rétt eins og Birnir gerir þegar hann er aukanúmer hjá öðrum röppurum. Það má segja að Birnir sé að „delivera“ og hann stenst þær væntingar sem til hans voru gerðar á Matador. Hann er eitt heitasta nafnið um þessar mundir af ástæðu og hefur eitthvað sem aðra íslenska rappara skortir, sem er að tala frá hjartanu og segja hlutina eins og þeir eru og gefa almúganum raunhæfa mynd af því hvernig það er að vera frægur og árangursríkur í þessum geira sem kostar þó vissulega sitt.

Það mætti líkja Birni við sært naut í hringleikahúsi á þessari plötu þar sem áhorfendur fylgjast spenntir með örlögum nautsins og nautabanans. Skyldi nautið ná að buga nautabanann eða er skaðinn orðinn of mikill? Í þessu tilfelli skulum við vona að nautið standi uppi sem sigurvegari.

Einkunn: 8,5/10

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s