Yfirheyrslan: Birgir

Birgir er ungur og upprennandi tónlistarmaður og var til að mynda tilnefndur sem „Bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár. Auk þess hefur lagið hans „Can You Feel It“ verið spilað yfir 8 milljón sinnum á Spotify! Að baki eru tónleikar á Þjóðhátíð og Secret Solstice og staðfest hefur verið að Birgir komi fram á Iceland Airwaves hátíðinni í byrjun nóvember. Pottinn langaði að kynnast þessum poppara betur og fékk hann í yfirheyrslu.

Fullt nafn: Birgir Steinn Stefánsson.

Aldur: 26 ára.

Sturluð staðreynd um sjálfan þig: Ég læsi bílnum mínum alltaf þrisvar, og verð að horfa á ljósin blikka í öll skiptin. Svo hef ég líka aldrei þolað mysing.

Fyrri hljómsveitir/verkefni: Fyrir utan bílskúrsböndin gömlu þá var ég einu sinni hluti af pródúsent teyminu September.

Áhrifavaldur/ar þínir: Svo gríðarlega margir. Hugsa ég verði að nefna Muse þar sem þeir komu mér af stað í að reyna að semja sjálfur og spila á hljóðfæri fyrir þó nokkrum árum. Coldplay og þá kannski aðallega Chris Martin, ég lít mikið upp til hans. Svo hef ég alltaf reynt að læra af Jóni Jónssyni söngvara hvað varðar lagasmíð og framkomu. Hann hefur alltaf verið mér mikil fyrirmynd.

Hvað ertu að hlusta á þessa dagana: Ég er svona næstum því alæta. Ef ég tékka á Spotify hjá mér þá hef ég verið að hlusta á John Mayer, Post Malone, Avicii, Clean Bandit og nýju plötuna hans Eminem, Kamikaze. Hún er frekar grilluð en nokkur lög á henni eru skemmtilega (og skringilega) útsett. Ég reyni að vera duglegur að skoða hvað er nýtt hverju sinni, svo kemur bara í ljós hvað ég fíla og hvað ekki.

Uppáhalds lag og plata: Ómögulegt að svara, búinn að reyna það oft og er yfirleitt ósáttur með svarið mitt eftir á. Pass!

Uppáhalds hljómsveit/tónlistarmaður: Coldplay og John Mayer eru og verða alltaf þarna uppi, held mig við það.

Efnilegasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Margir mjög efnilegir þessa dagana en ég ætla að segja Raven. Hún er að gera virkilega góða hluti sem söngkona, laga- og textahöfundur. Hefur eina bestu söngrödd landsins þar að auki. Myndi tékka á henni.

Vanmetnasti: Dettur strax í hug tónlistarmaðurinn Steinar. Hefur alla hæfileika til þess að verða stórstjarna. Fólk hérna heima veit vel hver hann er. Tryllt rödd, flott lög. Mjög skrítið að gæinn sé ekki búinn að „meika“ það og spila um allan heim, og þess vegna er hann vanmetinn að mínu mati. Hlakka til að heyra nýtt efni frá honum.

Að þínu mati besta/uppáhalds lag sem þú hefur samið til þessa: Lagið „Home“ af væntanlegri breiðskífu minni er líklega uppáhaldið mitt eins og staðan er akkúrat núna.

Hvað veitir þér helst innblástur þegar þú ert að semja tónlist: Voða misjafnt. Stundum þarf ég bara að vera í ákveðnu skapi til þess að semja. Stundum fæ ég innblástur úr öðrum áttum. Yfirleitt fæ ég einhverja hugmynd á mjög óheppilegum tímum, eins og t.d. þegar ég er nýbúinn að leggjast upp í rúm til þess að fara að sofa, þá stend ég upp, fer inn á bað og raula hugmyndina í voice memo á símanum. Ég er kominn í „New Recording 763“ eins og stendur.

Á hvaða hljóðfæri semur þú tónlist þína: Í 99% tilvikum nota ég gamalt píanó sem amma mín og afi gáfu mér.

Eftirminnilegustu tónleikar sem þú hefur spilað á: Það var sjúkt að spila á Þjóðhátíð núna í ár. Það er eitthvað svo geggjað við að spila fyrir þúsundir manns sem sitja saman í einhverri brekku í pollafötum á lítilli eyju. Skemmtilegt.

Bestu tónleikar sem þú hefur farið á:  Erfitt að velja á milli John Mayer í New York rétt fyrir aðfangadag 2013 og Coldplay í New York sumarið 2017. Ég vel báða.

Drauma staður til að spila á: Ég hugsa að það væri geggjað að spila á Red Rocks Amphitheatre í Colorado. Væri líka gaman að koma fram á einhverri flottri útihátíð, kannski Coachella eða Glastonbury.

Ef þú mættir velja hvern sem er á Íslandi til að semja lag með: Væri kúl að semja með Frikka Dór, og kannski strákunum í Stop Wait Go. Menn sem gubba út úr sér slögurum eins og það sé ekkert auðveldara. Gæti örugglega lært eitt og annað af þeim.

En utan landsteina: Chris Martin.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem hefur hent þig á tónleikum: Fyrir utan öll þau skiptin sem ég er búinn að gleyma texta á sviði þá var ég einu sinni að syngja sem surprise í afmælisveislu. Ég notaði playback og söng með því. Hins vegar gleymdi hljóðmaðurinn að hækka í playbackinu, svo fór það af stað og ég stóð á sviðinu eins og ég veit ekki hvað. Loksins þegar playbackið heyrðist þá var lagið nánast hálfnað og hljóðmaðurinn vissi ekki hvernig hann ætti að spóla til baka svo ég endaði á að syngja bara hálft lag. Það var áhugavert kvöld.

Hvað er framundan: Ég er að vinna í fyrstu breiðskífunni sem inniheldur 9 lög og svo kem ég líka fram á Airwaves með fulla tösku af nýju efni.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s