Tónleikadómur: Arcade Fire

Loksins kom að því að Arcade Fire, ein stærsta (ef ekki sú stærsta) indírokksveit síðustu ára heimsótti klakann. Á árunum 2005-2010 var Arcade Fire mín uppáhalds hljómsveit og náði sennilega algjörum hápunkti þegar að önnur platan, Neon Bible, kom út árið 2007. Vitanlega var mín heitasta ósk að sjá þá á tónleikum enda hafði maður heyrt að þau væru frábær á sviði. Þar sem ekki tókst að fá þau til landsins fyrir hrun var vonin veik þar sem að tónleikahald datt algjörlega niður upp úr 2008. Því skoðaði ég það að sjá þau erlendis og lét verða af því sumarið 2011 þegar þau lokuðu Benicàssim tónlistarhátíðinni á Spáni. Það voru æðislegir tónleikar og sendu mig heim til Íslands með bros á vör, mettan í bili.

7 árum síðar tilkynnir Hr. Örlygur að sveitin sé væntanleg til Íslands og þrátt fyrir að sveitin hafi ekki verið í eins miklu uppáhaldi hjá mér og áður var ekki fræðilegur möguleiki að ég myndi missa af tækifærinu að sjá þau á Íslandi.

Þrátt fyrir stærð og stöðu Arcade Fire fékk maður það á tilfinninguna að illa gengi að selja miða á tónleikana og á tíma var ég smeykur um að ekki yrði af þeim líkt og með tónleika Royal Blood fyrr í sumar. Einnig voru ofboðslega margir að selja miðana sína á viðburðasíðu tónleikanna og bland.is. Blessunarlega seldust þó nógu margir miðar til þess að halda tónleikanna en ég hef heyrt að um 6000 miðar hafi verið seldir.

Eftir góða upphitun á Le Kock og Benzín var komið að því að koma sér niður í nýju Laugardalshöllina. Kiriyama Family hefur aldrei verið minn tebolli svo ég var mættur kortéri áður en Arcade Fire steig á svið. Spenningurinn var farinn að magnast vel upp og ég verslaði mér bol til að vera rétt merktur en ég mætti á svæðið í Strokes bol.

Tónleikarnir hófust þó á smá vonbrigðum þar sem salnum var ekki skipt niður í A og B-svæði eins og auglýst var en mér tókst þó að koma mér fyrir á góðum stað. Týpískt loksins þegar maður splæsir á sig miða á A-svæði. Sviðið var svipað uppsett líkt og á tónleikunum á Spáni, tveir stórir ledskjáir til hliðar við sviðið og svo einn þríhyrningslaga fyrir ofan sveitina.

Arcade Fire er stundvís sveit og var mætt á slaginu 22:10 eins og auglýst var. Ljósin voru slökkt og „Pastime Paradise“ með meistara Stevie Wonder fékk að hljóma. Þau birtust þó ekki á sviðinu heldur í miðjum salnum, mynduðu hring líkt og íþróttalið gera á leiðinni í leiki og tóku sennilega einhvers konar upphitunarræðu þar áður en þau gengu í gegnum þvöguna í átt að sviðinu. Maður fékk þá tilfinninguna að þessir tónleikar yrðu eitthvað annað.

Tónleikarnir hófust á hinu frábæra „Everything Now“ og hinn leggjalandi Win Butler tyllti sér upp á magnara með bassann sinn og keyrði stuðið í gang. Áfram hélt stuðið og næst voru það tvö lög frá frumburði sveitarinnar, „Neighborhood #3 (Power Out)“ og „Rebellion (Lies)“ og salurinn tók vel undir, bæði í klappi og söng. Þvílík byrjun á tónleikum.

Win Butler sló á klassíska strengi þegar hann ávarpaði salinn og sagði að sveitinni hefði lengi langað til að heimsækja landið og þau væru hæstánægð að vera hér. Honum fannst þó eins og hann hefði komið hingað áður þar sem þau hefðu eitt sinn túrað með Björk og þá hafi hann kynnst 15 íslenskum stúlkum á hennar vegum og þær hefðu verið ruglaðasta lið sem hann hafði hitt.

Áfram hélt smjörið og fengu lög að hljóma af Reflektor, Neon Bible og Everything Now. Pissupásan var tekin í „Electric Blue“, lag sem ég vissi að ég myndi ekki sakna þess að heyra. Í bakaleiðinni heyrði ég byrjunarstefið í „Put Your Money on Me“ sem er eitt af fáu góðu lögunum á nýjustu plötunni. Á eftir því kom að mínu mati hápunkturinn á tónleikunum sem var flutningurinn á „My Body Is a Cage“. Lagið var guðdómlega sungið af Win Butler sem er svo mikilvægt í þessu lagi þar sem hann ber það uppi fyrstu tvær mínúturnar áður en hljómsveitin bakkar hann upp með látum.

Stuttu eftir það tóku þeir eitt af mínum uppáhalds lögum, „Neighborhood #1 (Tunnels)“, fyrsta lagið af Funeral sem er einmitt fyrsta lagið sem ég heyrði með sveitinni á sínum tíma og varð samstundis ástfanginn. Næsta lag („The Suburbs“) tileinkaði Win Butler Björk og sagði hann að þó að tónlist hennar og Arcade Fire væri ekkert lík hefði hún sýnt þeim hversu litríkt og brjálað lífið gat verið.

Þrátt fyrir að liðið væri svolítið á tónleikana slógu Arcade Fire hvergi slöku við og héldu áfram að framreiða snilld á borð tónleikagesta. Það var ágætis þríkantur í lögunum „Ready to Start“, „Sprawl II“ og „Reflektor“ sem féllu vel saman. Régine Chassagne, spúsa Win Butler, átti að venju stórkostlega innkomu í laginu „Sprawl II“. Síðustu tvö lög fyrir uppklapp voru „Afterlife“ og „Creature Comfort“, eitt frábært lag og eitt pissulag en því miður var mér ekki mál á þeim tímapunkti. Meðlimir Arcade Fire þökkuðu fyrir sig og gengu af sviðinu en það vissu það allir að þetta var ekki búið.

Eitthvað virðast Íslendingar vera orðnir lélegir í því að klappa upp. Þetta hefur sýnt sig á undanförnum tónleikum, t.d. Guns ‘N’ Roses en í stað þess að klappa hljómsveitina ákveðið upp er bara hver og einn með sína aðferð svo að úr verður samhengislaus hávaði. Blessunarlega þurfti ekki mikið uppklapp í báðum tilfellum og Arcade Fire liðar snéru aftur á svið eftir stutta pásu. Já allir nema Win Butler sem tók sér stöðu út í sal líkt og í byrjun tónleikana.

Fyrsta uppklappslagið var lokalagið af Everything Now, „We Don’t Deserve Love“, lag sem hefur flogið undir radarinn hjá mér enda er ég ekki mikill aðdáandi þessarar plötu. En á tónleikunum öðlaðist það líf hjá mér og ég er pínu skotinn í þessu lagi sem að sker sig svolítið úr og ætti kannski frekar heima á eldri plötunum. Eftir smá kafla úr „Everything Now“ var komið að lokalagi tónleikana sem kom glöggum aðdáendum ekkert á óvart en það var hið magnaða „Wake Up“ af fyrstu plötunni sem er frábært „singalong“ lag og tóku gestir hraustlega undir þegar svo bar við. Þar með var botninn sleginn í þessa mögnuðu frumraun Arcade Fire á Íslandi og tónleikagestir gengu út meðan „Immigrant Song“ ómaði í hljóðkerfinu sem átti vel við.

Ekki yfir miklu að kvarta, allavega ekki þætti Arcade Fire þó vissulega hefði verið gaman að heyra lög eins og „Intervention“ og „We Used to Wait“ til að nefna dæmi. Skitan liggur hins vegar hjá tónleikahaldara sem að selur miða í A og B-svæði og stendur svo ekki við skiptinguna og hefði maður alveg verið til í að spara sér nokkra þúsundkalla þó að tónleikarnir hafi verið hverra krónu virði. Einir bestu tónleikar sem ég hef farið á hér á landi. Punktur, pasta, komma, strik!

Lagalisti kvöldsins:

Everything Now
Neighborhood #3 (Power Out)
Rebellion (Lies)
Here Comes the Night Time
No Cars Go
Deep Blue
Electric Blue
Put Your Money on Me
My Body Is a Cage
Neon Bible
Neighborhood #1 (Tunnels)
The Suburbs
Ready to Start
Sprawl II (Mountains Beyond Mountains)
Reflektor
Afterlife
Creature Comfort 

Uppklapp

We Don’t Deserve Love
Everything Now (Continued)
Wake Up

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s