Tónleikadómur: Írafár 20 ára

Síðastliðið laugardagskvöld hélt Írafár tvenna tónleika í Eldborgarsal í Hörpu til að fagna 20 ára starfsafmæli sínu. Undirritaður var staddur á þeim seinni. Síðustu jól ákvað ég að lauma tveimur miðum á tónleikana í jólapakkann hjá kærustunni en hún var eldheitur aðdáandi Írafárs á sínum yngri árum. Blessunarlega ákvað hún svo að bjóða mér hinn miðann.

Þegar í Hörpu var komið tóku á móti okkur gestir fyrri tónleikanna og þar á meðal voru kunnugleg andlit vinafólks. Það var ákveðinn spillir (e. spoiler) í því enda fékk maður að heyra hvernig tónleikarnir hefðu verið, hvaða lag hefði verið tekið eftir uppklapp, að tónleikarnir hafi verið betri eftir hlé og þar fram eftir götunum. Við ákváðum þó að reyna að leiða þessa dóma hjá okkur og fara inn í sal með opinn hug.

Stærðarinnar tjald hékk úr loftinu fyrir framan sviðið þegar inn var komið og var gömlum myndum af meðlimum sveitarinnar varpað á tjaldið á meðan gestir biðu. Tónleikarnir hófust svo á smá sögustund um hljómsveitina og myndirnar breyttust í myndefni frá ferli sveitarinnar. Salurinn orðinn vel heitur og á bakvið tjaldið gengu meðlimir á svið og töldu í opnunarlag tónleikanna „Ég missi alla stjórn“ sem er einmitt upphafslag þriðju breiðskífu sveitarinnar. Það þurfti svo ekki að bíða lengi eftir hittara en hið ódauðlega lag „Fingur“ kom strax í kjölfarið.

Hljómsveitin var greinilega vel æfð og það var enginn sveitaballsbragur á Írafári þetta kvöldið, hvorki í spilamennsku né umgjörð á sviði. Heiða Ólafs og Margrét Eir sáu um bakraddir, fjórir strengjaleikarar kíktu við og við á sviðið ásamt tveimur brassleikurum. Búningablæti Páls Óskars á stórtónleikum sínum í fyrra hafði svo líklega áhrif á Birgittu sem skartaði að mig minnir fjórum ólíkum en glæsilegum dressum.

Vendipunktur tónleikanna var án efa innkoma leynigests kvöldsins. Vignir og Birgitta töluðu sín á milli að þau hefðu sennilega átt einhvern þátt í því að koma ónefndum leynigesti á kortið er þau fengu hann til að leika í myndbandinu við lagið „Lífið“. Die-hard aðdáendur Írafárs vissu auðvitað um hvern var að ræða en við hin þurftum smá upprifjun. Þau töldu svo í lagið og myndbandið birtist á sviðinu og skartaði engum öðrum en Jóni Jónssyni, 17 ára nýkomnum frá tannréttingalækni sínum með strípur í hárinu. Það var ekki mikið liðið á lagið þegar að hljómsveitin stoppaði skyndilega og Birgitta sagði að það væri eiginlega ekki hægt að gera þetta nema með manninum sem „mæmaði“ lagið í myndbandinu. Sá ágæti maður var staddur í salnum og var kallaður upp á svið við mikil fagnaðarlæti tónleikagesta. Í þetta skiptið fékk hann að syngja lagið ásamt Birgittu og gerði það vel. Jón Jónsson smitaði salinn af orkunni og sinnti svo hlutverki pepparans það sem eftir lifði tónleikanna og var uppspretta stuðningslaga í garð sveitarinnar trekk í trekk.

Fljótlega var gert hlé á tónleikunum og mál manna að hingað til væri þetta feykilega vel heppnað hjá Birgittu og félögum og hljómsveitin í fantaformi.

Í seinni hálfleik var áfram haldið þétt á spöðunum og hver smellurinn á fætum öðrum fékk að hljóma. Stíflan brast svo að lokum og gestir risu úr sætum og sungu hástöfum með þegar Írafár henti í líklega sitt besta lag, „Eldur í mér“. Gestir voru svo ekki á þeim buxunum að setjast aftur í bráð þar sem að Írafár hentu í hvern smellinn á fætur öðrum, má þar nefna „Stórir hringir“, „Ég sjálf“ og „Allt sem ég sé“. Hljómsveitin var svo að sjálfsögðu klöppuð upp og lauk stórgóðum tónleikum sínum á „Fáum aldrei nóg“.

Frábæru dagsverki lokið og meðlimir geta svo sannarlega gengið sáttir frá borði. Vignir kom mér óvart og fær sennilega ekki það lof sem hann á skilið sem frábær gítarleikari og lagahöfundur. Hann stal ófáum sinnum sviðsljósinu af Birgittu þegar hann tók gítarsóló þar sem þau áttu heima og skilaði þeim af sér með miklum glæsibrag. Sömuleiðis er dýrmætt fyrir sveitina að hafa í sínum röðum eins öflugan trommara og Arnar Þór Gíslason er sem keyrði upp stemninguna hvað eftir annað ásamt Vigni. Sigurður Rúnar Samúelsson bassaleikari og Andri Guðmundsson hljómborðsleikari stóðu svo sína plikt en voru töluvert rólegri í tíðinni þegar kom að sviðsframkomu. Strengir og brass stækkuðu svo hljóðheiminn enn meira og bættu miklu við í þeim lögum sem þeir liðsinntu í.

Birgitta Haukdal er svo sér kapituli útaf fyrir sig og líklega stærsta ástæðan fyrir því að þarna var kominn herskari af stúlkum að bera gömlu hetjuna sína augum. Ekkert skal tekið af herramönnunum sem standa á bakvið hana en hún færir hljómsveitinni i-ið undir punktinn. Ég get ímyndað mér að fólk hafi saknað Írafárs-Birgittu enda er hún glerharður töffari sem er einlæg í list sinni. Á sínum tíma var hún í guðatölu hjá ungum stúlkum og þakti marga veggina í herbergjum þeirra og geisladiskarnir seldust í bílförmum. Birgitta var (og er) frábær fyrirmynd sem sýndi að stelpur gátu líka spilað með strákunum og staðið jafnfætis þeim og gott betur. Hún var óumdeilanlega stjarna kvöldsins og ég hef sjaldan orðið vitni að annarri eins aðdáun líkt og hún fékk hjá kynsystrum sínum í Eldborg þetta kvöldið. Allar jólagjafir héðan í frá munu blikna í samanburði við þessa.

Lagalisti kvöldsins:

Ég missi alla stjórn
Fingur
Hvar er ég?
Alla tíð
Þú vilt mig aftur
Draumur
Lífið
Aldrei mun ég
Annan dag
Að eilífu

Hlé

Stel frá þér
Leyndarmál
Eldur í mér
Stjörnuryk
Ég sjálf
Stórir hringir
Allt sem ég sé 

Uppklapp

Fáum aldrei nóg

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s