Bestu íslensku lögin 2017 #20-11

# 20 Fufanu – „White Pebbles“
Fufanu er sennilega ein svalasta hljómsveit landsins. Tónlist Fufanu er alþjóðleg og einskorðast ekki við íslenskan markað. Lagið „White Pebbles“ er hápunktur af annarri breiðskífu þeirra Sports og það er óhætt að mæla með myndbandi þeirra við lagið, sem er eins og hljómsveitin, eitursvalt.

# 19 Reykjavíkurdætur ásamt Röggu Hólm – „Reppa heiminn“
Það kom engin stór plata frá Reykjavíkurdætrum síðasta ár en það verður að teljast líklegt að þær sendi frá sér aðra breiðskífu sína í ár enda búnar að senda frá sér nokkur ný lög. „Reppa heiminn“ stóð upp úr og sýnir úr hverju stelpurnar eru gerðar og það er eins gott að passa sig!

# 18 Högni – „Moon Pitcher“ 
Högni sendi loksins frá sér sína fyrstu sólóbreiðskífu í ár. Platan er góð en þarfnast aðlögunar enda nokkuð óhefðbundin og fer í ýmsar áttir. Lagið „Moon Pitcher“ þarfnaðist þó engrar aðlögunar og sýnir allt það besta sem Högni hefur upp á að bjóða.

# 17 Hatari – „X“ 
Hatari var sennilega sú íslenska hljómsveit sem kom hvað best frá Iceland Airwaves hátíðinni í ár. EP platan þeirra Neysluvara kom út í tæka tíð fyrir hátíðina og í einni svipan var hún ein umtalaðasta sveit landsins. „X“ er tryllt lag með kýrskýrum skilaboðum. Ég myndi allavega ekki vilja mæta þessum piltum í dimmu húsastræti, sérstaklega ekki trommaranum.

# 16 Úlfur Úlfur – „Bróðir“
Ég verð að viðurkenna að ég var fyrir eilitlum vonbrigðum með nýju plötuna hjá Úlfi Úlfi. Hún náði ekki sömu hæðum og Tvær plánetur en inn á milli er að finna frábær lög eins og „Bróðir“.  

# 15 Júníus Meyvant – „Mr. Minister Great“
„Mr. Minister Great“ er í raun gamalt lag en kom ekki út fyrr en 2017 og var m.a. á sérstakri Record Store Day útgáfu af Floating Harmonies sem var til að mynda ein af plötum ársins 2016 á Pottinum. Lagið er á pari við það besta sem Júníus hefur verið að gera og það er ánægjulegt að geta loksins notið þess í stofunni heima.

# 14 Bubbi Morthens – „Sól bros þín“
Bubbi leitaði aftur í einfaldleikann með plötunni sinni Túngumál og „Sól bros þín“ gaf smjörþefinn af því sem koma skyldi af þeirri plötu. Það fer ekki á milli mála um hvern er að ræða þegar lagið fer af stað, það er ákveðinn Bubbabragur yfir laginu sem er í rólegri kantinum og ákaflega ljúft áhlustunar.

# 13 Alexander Jarl – „Láttu í friði“
Alexander Jarl gaf út sína fyrstu breiðskífu í október í fyrra. Ef minnið er ekki að svíkja mig var „Láttu í friði“ fyrsta lagið af plötunni sem kom út. Lagið er stórgott og byrjunin setur tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Maður heyrir á laginu að Alexander nýtir uppruna sinn í föðurlegg sem gerir lagið og reyndar mest alla plötuna frábrugðna annarri rapptónlist sem kemur út á Íslandi. Og það er x-faktorinn sem að Alexander Jarl hefur.

# 12 Floni – „Leika“
Annað lagið af þremur sem kom út með autotjúnaða neðanjarðasenumanninum Flona áður en hann náði að ropa frá sér 9 laga plötu í byrjun desember. Hann fær að eiga það að hann fer vel með autotjúnið og nýtir það sem nokkurs konar auka hljóðfæri sem smellpassar við tónlistina hans. Floni er flott viðbót í annars fjölbreytta rappsenu hér á landi.

# 11 Birnir ásamt Herra Hnetusmjör – „Já ég veit“
Ég viðurkenni að ég var ekki sannfærður um gæði þessa lags þegar ég heyrði það fyrst. Fram að því hafði ég fýlað allt sem hafði komið út með Birni en þetta lag var af allt öðrum toga. Fljótlega fór ég þó að fýla lagið betur og betur og ef ég vil reyna að vera svalur þá er þetta „go to“ lagið til þess að setja á fóninn. Kópavogur lengi lifi!

Torfi Guðbrandsson

Færðu inn athugasemd