Þáttarýni: Mindhunter

Stóra málið í þáttaheiminum í vetur var vitaskuld önnur þáttaröðin af Stranger Things sem datt inn á Netflix veituna þann 27. október síðastliðinn. Það varð hálfgert tómarúm í lífi margra eftir að hafa lokið við seríuna vitandi það að heilt ár væri í þá næstu. Hvað skyldi þá glápa á næst? Flestir virðast hafa snúið sér að Mindhunter og hafa þættirnir verið á milli tannanna á fólki síðustu misseri. Ég var þar engin undantekning enda vantaði mig að fylla upp í tómarúmið eftir ST.

Í stuttu máli fjallar Mindhunter um störf FBI-fulltrúana Holden Ford og Bill Tench og sálfræðiprófessorsins Wendy Carr. Saman vinna þau að því að taka viðtöl við dæmda raðmorðingja og greina þau í því skyni að skilja betur hvernig þeir hugsa og hvaða ástæður kunna að liggja að baki að menn fari þá leið að myrða fólk. Markmiðið er að nýta vitneskjuna sem hlýst af vinnunni í að leysa mál af svipuðum toga. Bókin Mindhunter: Inside the FBI’s Elite Serial Crime Unit er undirstaða þáttanna en Holden Ford er einmitt byggður á John E. Douglas, öðrum höfundi bókarinnar. Það gerir þættina mun skemmtilegri að vita að þeir séu byggðir á sönnum atburðum og skilur það þáttinn strax frá öðrum glæpaþáttum sem rista ekki eins djúpt vegna yfirvinnu skáldagyðjunnar.

Fyrsti þátturinn er engin flugeldasýning og það er mikilvægt að missa ekki trúna á framhaldinu. Við fáum að kynnast Holden Ford sem leikinn er af Jonathan Groff sem var fyrir þættina ekki stærsta nafnið í bransanum. „Average Joe“ myndi sennilega lýsa karakternum (og jafnvel leikaranum líka) best og í byrjun virkar hann frekar flatur en hann vinnur vel á og verður á endanum afar áhugaverður. Reynsluboltinn Bill Tench er ögn týpískari karakter, við höfum margoft séð svipaðar týpur á hvíta tjaldinu. Í starfi sínu er hann með allt á hreinu en einkalífið er í smá uppnámi. Í sjötta þætti fáum við fyrst að skyggnast inn í fjölskyldulíf Tench og þá sér maður hversu vanmáttugur hann er þar, bæði gagnvart ættleidda syni sínum og eiginkonunni.

Ástralska leikkonan Anna Torv sér um að leika sálfræðiprófessorinn Wendy Carr sem er ansi áhugaverður karakter og það er gaman að fylgjast með hversu heillaður Holden Ford virðist vera af henni í þáttunum. Á tímapunkti hélt maður jafnvel að hann væri orðinn heitur fyrir henni en Wendy Carr gefur aldrei færi á sér. Ég var ekki eins hrifinn af Debbie Mitford (Hannah Gross) kærustu Ford. Mér fannst hún beinlínis leiðinlegur karakter og senurnar á milli þeirra þær sístu í þáttunum þar sem Ford var yfirleitt af ræða við hana um vinnuna sína og fá hennar álit.

Það væri ekki eins mikið varið í þættina ef ekki væri fyrir magnaða frammistöðu þeirra sem túlka raðmorðingjana. Þeir sem fá mestan skjátíma af þeim eru Cameron Britton sem leikur Edmund Kemper og Happy Anderson sem fer með hlutverk Jerry Brudos. Maður er gjörsamlega límdur við skjáinn þegar þeir koma við sögu og það er sláandi hversu líkir þeir eru alvöru morðingjunum. Aðrir fá minni skjátíma en eru samt eftirminnilegir, þá sérstaklega Jack Erdie sem Richard Speck í næstsíðasta þættinum. Viðtölin við raðmorðingjana eru enginn skáldskapur og það eitt og sér er magnað, það kemur alltaf á daginn að sannleikurinn er sagna bestur þó ljótur sé í þessu tilfelli. 

Fyrir mér er aðal fúttið í þáttunum að sjá hvernig þríeykið eflist með hverjum þætti vitandi það að allt hafi þetta að miklu leyti átt sér stað í raunveruleikanum. Að fylgjast með þeim leysa litlu hliðarverkefnin hér og þar um Bandaríkin þar sem þeir átta sig smám saman betur og betur á hegðun morðingja eru svo ekkert síðri áhorfs heldur en viðtölin við dæmdu raðmorðingjana. 

Að lokum langar mig að koma inn á tónlistina í þáttunum sem mér finnst algjörlega frábær og bætir miklu við. Góð og smekklega valin tónlist gerir öll atriði og alla kreditlista betri. Sögusvið þáttanna á að gerast árið 1977 og tónlistin er valin eftir því, þetta færir áhorfandann nær tíðarandanum og gerir þættina ögn svalari.

Samkvæmt því sem maður les á netinu er þegar byrjað að undirbúa seríu tvö sem væntanleg er á næsta ári, frábærar fréttir það. Þá fáum við líklegast að sjá meira af hinum dularfulla ADT tæknimanni sem sést alltaf í byrjun þáttanna en kemur ekkert meira við sögu en það. Einnig er möguleiki á að Ted Bundy, Charles Manson eða John Wayne Gacy verði teknir fyrir. Verði af því og „castað“ verður rétt í þau hlutverk þá er ég vongóður um að önnur sería slái fyrstu seríunni við.

Einkunn: 8/10

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s