Airwaves ’15: Föstudagur

Á föstudeginum ákvað ég að byrja kvöldið í Iðnó og var mættur stundvíslega fyrir kl. 20 en þá átti Helgi Valur að koma fram. Helgi Valur gaf að mínu mati út eina bestu plötu ársins í sumar, Notes from the Underground og var ég spenntur að sjá hvað hvernig hann myndi útfæra lögin af þeirra plötu á tónleikum. Helgi var studdur af fjögurra manna hljómsveit sem spilaði á allt þetta helsta (trommur, gítar, bassa og hljómborð) og var vitaskuld sjálfur vopnaður gítar. Fyrsta lag kvöldsins var upphafslag nýju plötunnar, „Angels Lefou“ og allt var eins og það átti að vera. Næsta lag á eftir var hið fallega „Þó að aldrei stytti upp“, eitt af lögum ársins og aðeins annað lagið á ferli Helga sem hann syngur á íslensku. Helgi bætti við þremur lögum af Notes from the Underground og renndi svo í ábreiðu af „Pale Blue Eyes“ eftir Lou Reed sem passaði einstaklega vel í prógammið. Síðasta lag Helga í Iðnó var hið magnaða „Love Love Love Love“ en á plötunni telur það um 13 mínútur. Þar sýndi Helgi allar sínar bestu hliðar, hvort sem það var í söng, rappi eða gítarsólói. Glæsilegur endir á vel heppnuðum tónleikum.

IMG_4099
Ferðinni var heitið í Hörpu til að sjá Hjaltalín kl. 21 en þegar út var komið hellirigndi þannig hætt var samstundis við þau plön í staðinn kíkt inní Tjarnarbíó þar sem hin svissneska Verveine var að spila. Verveine er raftónlistamaður sem spilar einhverja blöndu af vélbúnaðarraftónlist og skringipoppi. Hún spilaði taktfasta tóna og samplaði söng á staðnum og hafði í nógu að snúast uppá sviði. Gestir Tjarnarbíós voru ánægðir og hreyfðu sig í takt við tónlist Verveine en mæting var nokkuð góð í bíóinu.

Því næst hélt ég á Nasa þar sem Serengetíið með President Bongo og félögum var að klárast. Þeir tóku gesti með sér í ferðalag til villtustu Afríku þar sem lögmál náttúrunnar gilda. Í lokin á tónleikunum kom Samúel Jón ásamt fleirum blástursleikurum og blésu síðustu tónanna í Serengetíinu. Þetta var frábrugðið öllu sem ég hafði séð hingað til og ánægjulegt að ná í skottið á þessari frumbyggjaveislu.

Kanadíska hljómsveitin BRAIDS var næst á svið en nýjasta platan frá þeim, Deep in the Iris þykir vera ein af bestu plötum ársins. Það var einhvern veginn svipuð upplifun hjá mér af BRAIDS eins og Father John Misty daginn áður. Þú getur hlustað á þessa listamenn í tölvunni heima hjá þér en það er svo allt annað að upplifa lögin þeirra á tónleikum. Þau matreiða tónlist sína á þann veg að lög sem þér fannst vera ágæt áður eru allt í einu stórkostleg á sviði í lifandi flutningi. BRAIDS er dæmi um frábært tónleikaband og var Nasa algjörlega sniðinn að hljómsveitinni. Það er einhver magnaður kraftur í þessu húsi sem lætur hljómsveitir líta betur út. Allir meðlimir BRAIDS stóðu sig vel og þá sérstaklega trommarinn og Raphaelle sem býr yfir magnaðri rödd. Einir bestu tónleikar hátíðarinnar.

IMG_4101
Kynnin við Iðnó voru endurnýjuð og var planið að ná í skottið á tónleikum French for Rabbits frá Nýja-Sjálandi. Hljómsveitin spilar rólegt draumskotið popp-rokk sem var eiginlega full rólegt fyrir mann sem var að koma af BRAIDS. Þó var gaman að heyra þau taka lagið „The Other Side“.

Lélegar ákvarðanir héldu áfram og í stað þess að fara í Hörpuna að sjá Grísalappalísu í Silfurbergi var ákveðið að staldra við í Iðnó og sjá Júníus Meyvant. Ekki misskilja mig, ég fýla Júníusinn drullu vel en hann var kannski ekki rétti maðurinn til að keyra upp stuðið hjá manni á þessu föstudagskvöldi. Auk þess hef ég séð hann margoft áður. Hann skilaði þó sínu fyrir framan pakkaðan Iðnósal.

Þá var loks haldið í Hörpuna til að sjá allavega Ariel Pink. Því miður var ég nýkominn úr deifingu frá Iðnó og var þess vegna ekki móttækilegur fyrir sýrunni og látunum sem hann bauð uppá ásamt hljómsveit sinni. Ég reyndi eins og ég gat og var á tónleikunum í svona 30-40 mínútur en gafst loks upp og gekk út. Ekki beint endirinn sem ég hafði séð fyrir mér á þessu annars efnilega föstudagskvöldi sem byrjaði mjög vel en endaði illa þökk sé slæmri ákvarðanatöku.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s