Þegar ég fór á tónleika með Metallica

Egilshöll

Í dag eru 10 ár liðin frá tónleikum Metallica í Egilshöll. Þá var árið 2004 og ég þá 14 ára unglingur með æði fyrir Metallica og nokkrar bólur á bakinu. Miðasalan fór fram þann 15. maí í verslun OgVodafone í Síðumúla og fórum við nokkrir bekkjarbræður í röðina kvöldið áður vopnaðir tjaldi og nesti. Foreldrar okkar voru duglegir að fylgjast með okkur fram eftir kvöldi með símhringingum og sms skilaboðum en sofnuðu sem betur fer á kristilegum tíma. Þá upplifðum við íslenska sumarnótt í fyrsta skipti sem ekki verður reifuð hér neitt frekar.

Það er löngu vitað að Íslendingar kunna ekki að bíða í röð en það sannaðist enn og aftur er hurðin á versluninni var við það að opna. Allt í einu breyttist röðin í stóra hrúgu og stóð gaurinn sem kom síðastur inn í röðina allt í einu hliðina á þeim sem kom fyrstur á svæðið. Ég náði inn í tæka tíð og keypti fjóra miða á B-svæði sem er auðvitað alveg óskiljanlegt en foreldrar mínir treystu mér sennilega ekki fyrir að geyma meiri pening.

Timinn leið og þann 4. júlí opnaði Egilshöll sig fyrir 18.000 gestum sem enn hefur ekki verið toppað. Ég kom mér fyrir framarlega á B-svæðinu ásamt föður mínum, bróður hans og syni hans sem er einu ári yngri en ég. Næstu mínútur einkenndust af mikilli bið og ótrúlegum hita en ég var staðráðinn í að halda þetta út. Brain Police og Mínus sáu um upphitun en Krummi virtist ekki alveg vita hvað hann ætti að gera við míkrafóninn sinn og tróð honum ýmist ofan í buxurnar eða langt upp í kok.

Þegar Mínus hafði lokið sér af sagðist pabbi ætla að fá sér hressingu með bróður sínum og spurði hvort ég vildi eitthvað. Ég afþakkaði boðið og kallaði svo á eftir honum „þið þurfið svo ekkert að koma aftur“. Ég gat ekki haft meira rangt fyrir mér því að ég þurfti svo sannarlega á þeim að halda nokkru síðar. Biðin var orðin þreytandi en hitinn var orðinn mér um megn og mig var farið að svima duglega. Ég var því lifandis feginn þegar ég sá glitta í pabba að nýju. „Pabbi!“ stundi ég út úr mér og brosið á pabba breyttist í mikinn áhyggjusvip er hann leit mig augum. Andlit mitt var náfölt og datt ég bókstaflega í fangið hans pabba. Allt í einu heyrðust fagnaðarlæti í gestunum, Metallica voru komnir á svið og ég var á hraðferð í átt að súrefni. Svei þér Metallica!

Eftir að hafa komist í súrefni og innbyrt smá pítsu og kók var komið að því að njóta loksins uppáhalds hljómsveitarinnar minnar í órafjarlægð. Upplifunin mín var ekki alveg eins og ég hafði ímyndað mér en ég hafði reiknað með að hoppa mikið og sveifla höfðinu fram og aftur. Það var ekki heilsa til staðar fyrir neitt svoleiðis rugl og stóð ég teinréttur upp í stúku og bar þannig goðin augum restina af tónleikunum.

Já Metallicu tókst að gera frónið að heitasta helvíti þetta sunnudagskvöld og það var alltof heitt fyrir mig. Það að þetta hafi verið fyrstu tónleikarnir í Egilshöll segir kannski alla söguna enda ekki komin reynsla á tónleika í húsnæðinu og hvað þá af þessari stærðargráðu. Þegar ég kom svo heim og kveikti á sjónvarpinu sá ég að Grikkir voru orðnir Evrópumeistarar. Þetta kvöld var greinilega ekkert að fara að skána svo það var ekkert annað í stöðunni en að leggjast bara á koddann og fara að sofa.

– Torfi Guðbrandsson

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s